12.3.2011 | 22:31
Öll vötn til Dýrafjarðar
Á foreldrafundum í borginni hafa verið uppi raddir um, að stjórnun hennar nú einkennist af gerræði og sýndarmennsku. Sömu sögu er að segja af ráðherrum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Allt er þetta félagshyggjufólk og/eða stjórnleysingjar þar að auki ótrúlega illa að sér um flesta hluti.
Hið síðast talda virðist reyndar eiga við um stóran hluta þingheims. Það má heita með eindæmum, að á sama tíma og Landhelgisgæzlan hefur ekki úr nægu fé að spila til að halda úti lágmarkseftirliti í íslenzku efnahagslögsögunni, heldur verður að leggjast í verktöku á fjarlægum hafsvæðum, þá samþykkir drjúgur meirihluti þingheims að leggja andstyggilega klafa á íslenzka skattgreiðendur, sem nú eru taldir geta numið á bilinu 47-470 milljörðum kr.
Hvernig stendur á þessari firringu ? Hér hrundi heilt bankakerfi haustið 2008, og í rétt stofnaðan Tryggingasjóð innistæðueigenda hafði tæpast safnazt fé til að tryggja inneignir í þokkalegum sparisjóði á Íslandi. Tryggingasjóðir Breta og Hollendinga áttu fullt í fangi með riðandi bankakerfi, innlend, og bar ekki skylda til að tryggja innistæðueigendur í hinum fallna Landsbanka. Mikill ótti við hrun evrópska bankakerfisins hafði grafið um sig í London, den Haag, Brüssel og víðar í Evrópu, og þess vegna afréðu fjármálaráðherrar í Hollandi og í Bretlandi að beita sér fyrir útlátum úr ríkissjóðum sínum til að gera upp við innistæðueigendur Icesave. Síðan hafa þessir aðilar ekki linnt látunum að fá ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að fallast á að bæta þeim þessar greiðslur með vöxtum.
Allir réttsýnir menn sjá, að þessar málalyktir eru fáheyrðar, ólögmætar og afspyrnu ósanngjarnar vegna hruns heils bankakerfis á Íslandi og þar af leiðandi mjög slæmrar stöðu íslenzka ríkissjóðsins, sem aðeins um 200 þúsund hræður standa undir. Ofan á þetta bætist ríkisstjórnarnefna, sem í á þriðja ár hefur reynzt algerlega um megn að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. Hana skortir meira að segja viljann til þess. Hún hefur ekkert gert af viti, en axarsköptin eru legíó. Síðustu fréttir af vinnumarkaðinum eru voveiflegar; fjöldi atvinnulausra vex nú síðvetrar og enginn hagvöxtur er í hagkerfinu. Ríkisstjórnin lafir á óttanum einum. Stjórnarráðið er nú Musteri óttans. Hún þorir ekki að berjast fyrir barninu sínu, Icesave-lögunum, sem forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar, heldur sigar rökkum sínum á kjósendur.
En nú falla öll vötn til Dýrafjarðar. Þýzkur almenningur hefur fengið nóg af að vera beitt fyrir vagn Brüssel. Kjósendur veittu ríkisstjórnarflokkunum þýzku ráðningu í síðustu fylkiskosningum í Hamborg, og einar 6 fylkiskosningar eru framundan á þessu ári í Þýzkalandi. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands mun telja skuldbindingar þýzku ríkisstjórnarinnar um að senda þýzkt skattfé í sukk og svínarí til suðurhluta álfunnar, án undanfarandi samþykktar Bundestags, stríða gegn stjórnarskrá. Þeim vex nú ásmegin í Þýzkalandi, sem hvorki telja rétt að nota þýzkt skattfé til að bjarga erlendum ríkissjóðum frá greiðsluþroti né að bjarga bönkum, innanlands sem utan, frá gjaldþroti. Þess má geta, að þýzkir bankar hafa fest fé þýzkra sparifjáreigenda með töluverðri áhættu á erlendri grundu.
Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs H. Haarde voru sett til að bjarga Íslandi frá gjaldþroti og allsherjar öngþveiti. Þar var gripið til neyðarréttar til bjargar litlu þjóðfélagi. Það er ekki með sanngirni né lagalegri skírskotun hægt að halda því fram, að full ríkistrygging innistæðna innanlands hefði átt að þýða ríkistryggingu íslenzka innistæðutryggingasjóðsins á inneignum á Icesave-reikningunum. Það er ekki verið að mismuna eftir þjóðernum, því að útlendingar á Íslandi nutu trygginga á við innfædda og Landsbankinn í Bretlandi og Hollandi var ekki endurreistur. Bankahrunið íslenzka olli öllum landsmönnum peningalegu tapi, annaðhvort á peningalegum eignum eða með rýrnun lífeyrissjóða þeirra, nema hvort tveggja væri, svo að ekki sé nú minnzt á lækkun fasteignaverðs og aðra óáran. Hér er þó lagalagur vafi, sem andstæðingum okkar gefst kostur á að fá úrskurðað um, en litlar líkur, e.t.v. 10 %, eru á, að þeir kæri sig um þessa dómstólaleið, sem enda mundi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og síðan e.t.v. Hæstarétti Íslands. "Ískalt mat" er, að dómstólaleiðin verði oss hagfelldari en sá samningur, sem nú hefur verið samþykkt ríkisábyrgð á, en þjóðin fær tækifæri til að tjá sig um þann 9. apríl 2011. "Ískalt mat" er líka, að annarleg sjónarmið ráði stuðningi við hin afleitu lög, þ.e. hreinn undirlægjuháttur og þrá eftir að þóknast Brüssel-valdinu í von um greiðari inngöngu í herlegheitin þrátt fyrir, að rýnivinna hagsmunaaðila og samninganefndar hafi nú leitt í ljós, að kröfur ESB um aðlögun og hagsmunir íslenzkra undirstöðuatvinnuvega eru ósamrýmanlegir.
Hagkerfi Íslands hefur dregizt saman um 10 % frá Hruni. Svipað hefur gerzt á Írlandi, en Írar eiga sér ekki viðreisnar von og eru komnir í snöruna ásamt Grikkjum og Portúgölum eftir að hafa sett um 40 % af landsframleiðslu sinni til bjargar bönkum landsins. Þetta er mesti samdráttur, sem þekkist á þessum tíma. Staða gjaldeyris Íra, evrunnar, tekur ekkert mið af bágstöddu hagkerfi Íra, og þess vegna mun koma til ríkisgjaldþrots Írlands. Það lýsir sér þannig, að afskrifuð verða 25 % - 50 % af skuldum ríkissjóðs, en skuldatryggingarálag á Íra og aðra, sem í svipuðum hremmingum lenda, mun verða hræðilega hátt, e.t.v. hærra en 10 %, fyrstu árin á eftir, jafnvel í heilan áratug.
Af þessu sést, að höfnun Íslendinga á að greiða skuldir íslenzku bankanna erlendis, þ.m.t. innlán, jafngildir ekki lengur því að synda á móti strauminum. Segja má, að straumhvörf séu að verða að þessu leyti í Evrópu og að nú falli öll vötn til Dýrafjarðar. Að eiga einn bandamann í Berlín er betra en að eiga tíu í Brüssel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)