Stjórnlaust land

Að forminu til er ríkisstjórn í landinu, en hún er svo vingulsleg, að kalla má hana stjórnlaust rekald.  Sem stjórnvald getur hún ekki með skýrum hætti gert grein fyrir, hvort landið styður hernað NATO gegn vitstola einræðisöflum í Norður-Afríku eða er friðardúfa í NATO að hætti VG. 

Annað andlit Janusar þykist ekki hafa vitað um, hvað í bígerð var.  Þar fer konungur tvískinnungsins og kosningasvikanna. Utanríkisráðherra ráðfærði sig ekki við utanríkismálanefnd Alþingis, en gjörningur hans er samur; hann hefur skuldbundið alla ríkisstjórnina, og þar með vinstri-græna, hvað sem Steingrímur J. tautar og raular, til að styðja þennan hernað við Miðjarðarhafið með góðu eða illu.  Ríkisstjórnin er með Janusarandlit (höfuð, sem horfir til tveggja átta).  Hver treystir slíkum ?

Forystumenn á vinnumarkaði, beggja vegna borðs, kvörtuðu sáran undan ráðleysi ríkisstjórnarinnar; þaðan komi bókstaflega ekkert bitastætt.  Nú eru komin aukin ríkisútgjöld á blað.  Fyrir þeim þarf að slá lán í útlöndum á kostnað framtíðarinnar.  Það er ekki borið við að boða nýjar erlendar fjárfestingar í atvinnufyrirtækjum, en auknar gjaldeyristekjur eru hið eina, sem getur orðið til bjargar frá ríkisgjaldþroti.  Með þessu áframhaldi þarf að skera ríkisútgjöld niður um 50 milljarða króna á næsta ári.  Ríkisstjórnin stefnir þjóðfélaginu út í algert öngþveiti. Hún er með öðrum orðum vita gagnslaus, þegar kemur að úrlausn mála.  Þar eru eintómir blöðruselir á ferð, og alger tímasóun, og reyndar stórskaðlegt og ofboðslega dýrkeypt, að hafa jafndáðlaust fólk við völd í Stjórnarráðinu á tímum sem þessum.   

Í stærsta sveitarfélaginu, höfuðborginni, er hið sama uppi á teninginum.  Með ráðleysi sínu og gaspri hafa núverandi stjórnendur Reykjavíkurborgar keyrt Orkuveitu Reykjavíkur (OR) algerlega í þrot.  Auðvitað má rekja fjárhagsvandann aftur í tímann til daga R-listans og REI-klúðursins, þegar almenningur gapti af undrun yfir mörgum fjármálagjörningum, sem OR var att út í af stjórnmálamönnum í borgarstjórn og stjórnendum OR, sem allir báru merki stórmennskubrjálæðis.  Nú er svo komið, að framlegð fyrirtækisins dugir ekki fyrir vöxtum, og er þá eðlilega örvænt um, að nokkur lánveitandi þori að hætta fé sínu í slíka hít. 

Ekki bætti úr skák, þegar fyrirbærið á stóli borgarstjóra lýsti því yfir opinberlega, að OR væri gjaldþrota.  Þar með ætti hann að hafa rekið síðasta naglann í líkkistu OR þannig, að OR rísi ekki upp í sinni núverandi mynd.  OR er risi á brauðfótum, sem þarf að kljúfa.  Miðað við núverandi fyrirkomulag orkumála á Íslandi og innan EES fer ekki saman, að sama fyrirtæki stundi einokunarstarfsemi, s.s. hitaveitu og raforkudreifingu, annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar, en hin síðast nefnda er samkeppnigrein.  Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og nú ættu eigendur, við þessi vatnaskil, að stokka spilin og aðlaga OR umhverfinu, sem þeim er búið.  Eigendur OR geta um leið bjargað sér úr gapastokki skuldafjötra með því að selja virkjanirnar.  Þær eiga alls ekki heima í höndum stjórnmálamanna, sem í krafti bakábyrgðar skattborgaranna, haga sér eins og fílar í postulínsbúð, þegar þeir ná að læsa klónum í slík fyrirtæki. 

25. marz 2011 kom í ljós, að engin raunhæf stefna er til hjá stjórnvöldum peningamála í landinu um að afnema gjaldeyrishöftin.  Það er þvert á móti verið að festa þau í sessi, eins og vinstri stjórn einni er lagið, en höft hafa ætíð verið ær og kýr félagshyggjunnar.  Yfirlýsing Árna, efnahagsráðherra, og Más, seðlabankastjóra, sýnir fullkomna uppgjöf stjórnvalda við að draga Íslandsvagninn upp úr því fúafeni hagrænnar hrörnunar, sem samfélagið hefur sokkið æ dýpra í síðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum.  Er heldur ekki von á djarflegu og stórhuga skrefi í frjálsræðisátt, þegar þeir Bakkabræður afturhaldsins eru annars vegar. 

Það er enginn vilji fyrir hendi í ríkisstjórn til að hleypa nýju lífi í atvinnulífið.  Auðvitað er fastmótuð áætlun um mikið aðstreymi gjaldeyris með erlendum fjárfestingum í atvinnustarfsemi forsenda þess að losa um gjaldeyrishöftin.  Ríkisstjórnin leggur kollhúfur við slíkum hugmyndum, en kappkostar þess í stað niðurrif þess, sem er.  Sjávarútvegi er haldið í gíslingu eignarnámshótana, svo að þar er sáralítið fjárfest. 

Ættu útgerðarmenn ekki að ljá máls á neins konar útvötnun eignarréttarins, sem þeir langflestir hafa keypt sér, en félagshyggjan vill feigan, eins og vant er.  Þar eru vinstri bjálfarnir trúir stefnu sinni, eignaupptöku, sem er risaskref til baka og mun kippa stoðunum undan lífskjörum í landinu endanlega.  Fjöldi manns í sjávarplássum mun komast á vonarvöl og verða háður ölmusu úr hendi stjórnmálamanna, sem er einmitt markmið félagshyggjunnar.  

Stóriðjunni var hótað með ofurskatti á rafmagn, og hótun um tekjuskattshækkun fyrirtækja vofir yfir.  Gegndarlausar eldsneytishækkanir gera rekstraraðilum flutningatækja allra handa mjög erfitt fyrir, svo að ekki sé nú minnzt á eitt aðalfórnarlamb ríkisstjórnarinnar, eiganda einkabílsins.  Yfir bændum hangir fallöxi kratanna, hin sameiginlega landbúnaðarstefna ESB. 

Nú nálgast ögurstund þjóðaratkvæðagreiðslu um að takast á herðar milljarðatuga króna vaxtagreiðslur til handa Bretum og Hollendingum vegna greiðslna innistæðutryggingasjóða þeirra til innistæðueigenda.  Þar að auki var samið svo snilldarlega, að öll áhætta um hækkun höfuðstóls var lögð á okkar herðar.  Þar getur orðið um hundruði milljarða að ræða.  Neyðarlög Geirs Haarde og félaga tryggðu innistæðueigendum, einnig íslenzkra banka á Bretlandi og í Hollandi, forgang að eignum þrotabúa á kostnað annarra kröfuhafa, t.d. erlendra banka.  Verði neyðarlögin dæmd ógild, snarbreytist skuldastaðan íslenzkum skattborgurum í óhag um hundruði milljarða króna.  Það yrði algert óráð að skrifa undir þessi ósköp. 

Þvætting Moody´s og málpípa þeirra um lánshæfismat tekur enginn viti borinn maður alvarlega.  Ástæðan fyrir því, að erlendir bankar eru tregir til að lána okkur, er sú, sem nefnd er hér að ofan.  Þeir eru brenndir af neyðarlögunum, en á þeim töpuðu þeir e.t.v. 10 000 milljörðum króna eða sem nemur sexfaldri landsframleiðslu Íslands á ári.  Engum heilvita manni dettur í hug, að sú tregða lagist með aðgerð, sem mögulega keyrir ríkissjóð fram af hengifluginu.  Sú tregða mun strax lagast og hér verður sú stefnubreyting á í Stjórnarráðinu að semja um viðamikla viðreisn hagkerfisins við erlenda fjárfesta í orkukræfum iðnaði og í annarri starfsemi.  Afstaðan til Icesave er þess vegna stórfelld kjarabarátta.  Já varðar leiðina til ánauðar, en Nei mun marka nýtt upphaf sóknar til bættra lífskjara öllum til handa.    

  icesave_svidsmyndir_gamma1

Súluritið hér að ofan sýnir áhrif óvissunnar á skuldabaggann af Icesave, og grafið hér að neðan sýnir áhrif ósjálfbærrar skuldastöðu ríkissjóða þriggja landa, Grikklands, Írlands og Portúgals, á vexti, sem þeim standa til boða á markaðinum.  

 Ríkisskuldabréfavextir 2010-2011

 

      

       


Bloggfærslur 1. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband