Stóra-Berta

Nú berast fréttir af því, að ESB (Evrópusambandið) hyggist leggja fullan þunga í áróður fyrir jákvæðu gildi sínu fyrir Íslendinga.  Verður ekkert til sparað, og digrir sjóðir reiddir fram.  Er af þessu ljóst, hvílíka áherzlu ESB leggur nú á að lokka Ísland inn fyrir þröskuldinn, og hverjir hafa mestan ávinning af slíkri innlimun.  Eftir það hafa þeir í fullu té við okkur, og munu breyta Íslandi með þeim hætti, sem fæstum Íslendingum hugnast, þ.e. í eins konar selstöð. 

Er nú verið að sækja Stóru-Bertu, en risastór fallbyssa Þjóðverja, sem þeir notuðu á vesturvígstöðvunum í heimsstyrjöldinni fyrri, gekk undir þessu nafni.  Stórveldi Evrópu vilja öðlast aðgang að norðurslóðum.  Noregur er ekki tagltækur, en nú telja hýenur, að Ísland liggi vel við höggi.  Þær munu komast að því, hvar Davíð keypti ölið.

Við þessar aðstæður ritar Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og prófessor, góða grein í Morgunblaðið þann 10. maí 2011 undir fyrirsögninni, "Réttlátt samfélag eða Evrópusamband". Hér skal fúslega játa, að eftir lestur greinarinnar missti höfundur þessarar vefgreinar neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því að vera sammála Ragnari, jarðskjálftafræðingi, um meginmál.

Við krufningu málsins kom skýringin í ljós.  Hún er fólgin í eftirfarandi málsgrein úr grein Ragnars:

"Með fiskimiðin, með landgæðin, með orkuna og með menntunina höfum við möguleika á að byggja gott og réttlátt samfélag, ef við varðveitum sjálfstæði okkar til þess og ef við náum samstöðu um, að þetta sé mikilvægast fyrir manneskjurnar, sem hér búa."

Hér er hægt að túlka "gott og réttlátt samfélag" að vild lesandans.  Það, sem Ragnari þykir gott og réttlátt, kann mér að þykja vera bæði vont og óréttlátt.  T.d. er þjóðnýting aflaheimilda grafalvarleg atlaga að lífskjörum almennings og mun leiða til gengisfellinga, lækkunar á lánshæfi og efnahagsöngþveitis að dómi fjölmargra.  

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytta skipan í sjávarútvegi er stórt skref aftur á bak, argasta sameignarstefna í anda Leníns og Stalíns og mun leiða til handstýringar stjórnmálamanna á hagkerfinu.  Verst mun landsbyggðin verða úti í þessu fári, því að launin í greininni hljóta óhjákvæmilega að lækka, þegar fótunum er kippt undan sjávarútveginum.  Lýðskrumarar ráða ferðinni og þykjast vera að færa verðmæti til almennings, en því er alveg þveröfugt varið.  Kvótakerfið stórbætti kjör almennings, af því að tilkostnaður við hvert þorskígildi lækkaði og markaðsstaðan var efld.  Þess vegna varð meira til skiptanna.  Ríkisstjórnin mun með glæpsamlegri stefnu sinni setja fyrirtæki á hausinn, sem nú eiga um helming aflaheimildanna, samkvæmt rannsókn fræðimanna við Háskólann á Akureyri.  Hin veikari á meðal hinna munu lepja dauðann úr skel, og bankarnir munu verða við dauðans dyr.  Sameignarstefnan mun á örskotsstundu ganga af íslenzka hagkerfinu dauðu.

Það er hins vegar hægt að vinda ofan af þessari dauðans vitleysu, sem væntanleg lagasetning félagshyggjuliðsins er, þegar þjóðinni auðnast að varpa þessu skaðræðis oki af sér, sem nú situr í Stjórnarráðinu og hagar sér eins og naut í flagi.  Það verður hins vegar ekki hægt að varpa af sér oki ESB, þegar kjörtímabili lýkur.  Þess vegna eru hægri menn fúsir til að berjast við hlið vinstri manna á borð við Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðing og prófessor, gegn ásælni erlends valds.  

Í þessu samhengi málsins, sem er andstaða við fullveldisframsal til Brüssel með innlimun í ESB, er aðalatriðið, að vinstri menn og hægri menn geta sameinazt gegn krötum og taglhnýtingum þeirra og gegn ásælni erlends valds í ítök hér.  Þetta bandalag mun bera sigurorð af landsölumönnum og kveða þá í kútinn um langa framtíð.

Aðlögunarferlið er þess vegna andvana fætt og ber að stöðva þann undirmáls málatilbúnað áður en meira skattfé, sem tekið er að láni erlendis, verður sólundað á altari hégómagirndar Össurar Skarphéðinssonar og annarra krata og taglhnýtinga þeirra, sem mikið telja gefandi fyrir að fá að hanga í bakhluta stórríkisins, sem hins vegar mun sízt taka því fagnandi að hafa verið dregið á asnaeyrunum með fótalausri og grasvitlausri umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 

Hér gildir sem áður, að betri er barður þræll en feitur þjónn.    

Máttur peningaMaria Damanaki og Stefán H. Jóhannesson 

  

 

 

 

   

 


Bloggfærslur 13. maí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband