15.9.2011 | 21:01
Að bera kápuna á báðum öxlum
Steingrímur Jóhann Sigfússon er maður nefndur og er heldur ófélegur, þótt fjármálaráðherra Íslands eigi að heita. Samkvæmt úttekt Morgunblaðsins 8. og 9. september 2011 á afskiptum ráðherrans af málefnum Magma Energy, Geysir Green Energy, HS Orku og Norðuráls, er ljóst, að þar er moldvarpa á ferð. Það er ekki orð að marka það, sem hann segir, og hann fer á bak við eigin flokksmenn, hagsmunaaðila, sem hann á í samningum við, og almenning. Í þessu tilviki eru hrikalegust samvizkulaus svik Steingríms Jóhanns Sigfússonar við Suðurnesjamenn, sem hafa átt sérstaklega um sárt að binda í atvinnulegu tilliti undanfarin ár, í samanburði við aðra landsmenn.
Fyrir nokkru setti téður Steingrímur á svið leikrit fyrir Suðurnesjamenn, sem snerist um sérstakt átak ríkisstjórnarinnar til atvinnusköpunar á Suðurnesjum. Á sama tíma reri hann að því öllum árum að hindra framgang Norðurálsverkefnisins í Helguvík. Andúð Steingríms á álverum virðist hafa orðið þess valdandi, að ríkið hefur svikizt aftan að Alcoa og lofað orkunni í annað á bak við tjöldin, eins og háttur er læðupokans, Steingríms Jóhanns.
Tvöfeldni stjórnmálamanns af því tagi, sem Morgunblaðið hefur nú flett ofan af í tilviki Steingríms, þessa, Jóhanns, er gjörsamlega siðlaus, óalandi og óferjandi, enda endurspeglast framferði hans í fylgishruni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, því að fólk lætur ekki bjóða sér stjórnmálamann, sem situr stöðugt á svikráðum við það. Flárátt eðli hans er nú orðið lýðum ljóst, svo að þessi dæmalausi stjórnmálamaður er nú kominn á leiðarenda, en hann hefur þegar gert margt illt af sér og valdið almenningi á Íslandi stórfelldu fjárhagstjóni. Ástæðan er barnatrú hans á forræðishyggjuna, sem er þess eðlis, að stjórnmálamenn eigi að hafa mikil afskipti af athafnalífinu, þótt þeir augljóslega hafi engar forsendur til þess og geri jafnan illt verra. Uppskriftin að þessari vonlausu stjórnmálastefnu var á sínum tíma gefin af Kommúnistaflokki Íslands, en þangað lágu rætur Alþýðubandalagsins eða Alþýjasleifarlagsins á máli Útvarps Matthildar, bezta útvarps, sem á Íslandi hefur starfað. Af þeim slóðum koma allir ráðherrarnir, nema Jóhanna, sem ætíð hefur illa rekizt í hópi. Er nema von, að keraldið leki ?
Árin undir leiðsögn þessa kommatitts í fjármálaráðuneytinu eru ár hinna glötuðu tækifæra, eins og vænta mátti. Þetta sést í hnotskurn, þegar litið er á verga landsframleiðslu. Ef hún er sett á 100 % í 1. ársfjórðungi 2009, þá fór hún samfellt minnkandi til 2. ársfjórðungs 2010, hækkaði þá nokkuð til 1. ársfjórðungs 2011, en lækkaði á 2. ársfjórðungi og er nú um 94 %. Þetta algera árangursleysi ríkisstjórnarinnar við að efla hér hagkerfið og stækka er bein afleiðing af verkum hennar, opinberum og leyndum, hefur valdið hér langvarandi 8 % atvinnuleysi og atgervisflótta um 5000 manns til útlanda frá Hruni. Alls nemur fækkun ársstarfa í athafnalífinu um 30 þúsund á ári, þegar tekið er tillit til styttingar vinnutíma og fólks, sem hefur dregið sig út af vinnumarkaðinum án þess að vera á atvinnuleysisskrá.
Ef allt hefði verið með felldu, hefði tekizt að snúa öfugþróun hagkerfisins við á 4. ársfjórðungi 2009, eins og víðast hvar annars staðar, með framleiðniaukningu og fjárfestingum erlendra aðila í orkugeiranum, í iðnaðinum og með fjárfestingum sjávarútvegsins, og nú á 3. ársfjórðungi 2011 væri þá verg landsframleiðsla komin í a.m.k. 115 % m.v. 100 % í ársbyrjun 2009, ef skattar hefðu ekki verið hækkaðir hér upp úr öllu valdi, í anda ráðstjórnar, og ef hvatt hefði verið til fjárfestinga í stað þess að letja fjárfesta, bæði leynt og ljóst. Fjárfestingar þurfa að nema 400 milljörðum kr á ári hið minnsta til að hér geti orðið hagvöxtur, sem dugar til að eyða atvinnuleysinu. Fjárfestingar hafa verið helmingi minni eða um 200 milljarðar kr á ári síðan árið 2009 eða allan starfstíma hinnar verklausu ríkisstjórnar félagshyggjuaflanna. Með þessu móti verðum við stöðnun og afturför afturhaldsins að bráð, sem getur þá reist hér alræði öreiganna, sem var draumur Kommúnistaflokks Íslands.
Verg landsframleiðsla stendur nú í 94 % á framangreindan mælikvarða, en ætti að standa í 116 %, ef hér væri stjórnað af skynsamlegu viti. Munurinn er 22 % eða um 350 milljarðar kr, sem jafngildir rúmlega einni milljón kr á hvert mannsbarn í landinu. Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Hið opinbera hefði tekið til sín um helminginn og þar af ríkið um 100 milljarða, svo að fjárlagahalli ríkisins væri að öðru óbreyttu ekki lengur fyrir hendi. Skuldasöfnun ríkisins í útlöndum hefði verið stöðvuð og skuldalækkun opinberra aðila væri hafin, og hún gengi enn hraðar hjá einkaaðilum en reyndin er á nú. Þetta er baggi landsmanna af vinstri stjórn í hnotskurn.
Án stefnu Steingríms Jóhanns Sigfússonar um málefni ríkisins og án nokkurs atbeina frá þeim mistæka manni væri þjóðarskútan nú á góðri siglingu upp úr öldudalnum. Óráð SJS er ekki allt talið enn. Forseti lýðveldisins minnti landsmenn nýlega á stærstu afglöp Steingríms, Icesave-málið, þar sem hann ætlaði að hengja myllustein um háls íslenzkra skattborgara gjörsamlega að óþörfu. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, sagði:
Góðar heimtur í þrotabú Landsbankans "staðfesta, að íslenzk stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi og beygt sig undir ofbeldi Breta og Hollendinga í Icesave."
Hér er um að ræða þyngstu og beinskeyttustu gagnrýni forseta lýðveldisins á ríkisstjórn í gervallri lýðveldissögunni. Þetta er stórmerkilegur og sögulegur dómur yfir ríkisstjórninni fyrir lágkúrulegt og óþjóðhollt framferði hennar hennar í Icesave-málinu. Ráðherrann, sem bar þar höfuðábyrgð, heitir Steingrímur Jóhann Sigfússon. Hann hefur, hvar sem hann hefur komið nálægt, farið fram með undirmálum og flærð og fórnað hagsmunum almennings á altari bankaauðvaldsins og stundarhagsmuna sinna í stjórnmálum. Samkvæmt seinni forsmáninni væru nú um 50 milljarðar kr gjaldfallnir á íslenzka þjóðarbúið í erlendum gjaldeyri. Það hefði bætzt ofan á sívaxandi skuldahrúgu vinstri stjórnarinnar, sem nú nemur um 120 % af VLF. Auðvitað hlýtur þessi ráðsmennska að varða Landsdómi.
Þetta skín sömuleiðis í gegn í ESB-málinu, þar sem hann sneri gjörsamlega við blaðinu, þegar hann varð ráðherra, og sveik flokk sinn og kjósendur. Steingrímur Jóhann Sigfússon er alger ómerkingur og stórskaðlegur í embættinu, sem hann gegnir nú. Það verður að telja líklegt, að Alþingi höfði mál gegn honum fyrir Landsdómi, því að sakarefnin hrannast upp. Steingrímur var aðalhvatamaður að núverandi saksókn fyrir Landsdómi, en felldi svo krókódílstár, þegar Alþingi hafði ákveðið að sækja einn mann til saka. Sú málshöfðun er þó öll í skötulíki og nær ekki máli lögfræðilega, því að hvergi er bent á lagagrein, sem fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmar Haarde, hafi brotið. Framvinda málsins hefur verið ákæruvaldinu til háborinnar skammar, því að réttar sakbornings er hvergi gætt. Hér hefur hver réttarfarslegi fingurbrjóturinn verið framinn á fætur öðrum frá því að Alþingi ákvað að ákæra. Er það mjög í anda ráðstjórnar, sem alræmd er fyrir lögleysi, lögbrot og stjórnmálaleg réttarhöld valdhafanna á hendur andstæðingum sínum, ímynduðum og raunverulegum. Allur þessi málarekstur fyrir atbeina ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er raunalegur og verður gerður afturreka á öðrum vettvangi, í þessu tilviki fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, ef nauðsyn krefur. "Þar rauður loginn brann" var einkenni Íslands 2009-2011, en sá eyðandi eldur heyrir nú vonandi brátt sögunni til, og brennuvargarnir fara á ruslahauga sögunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)