22.9.2011 | 18:32
Ríkisolíufélag-góð hugmynd eða slæm ?
Fyrir skömmu fleyttu nokkrar mannvitsbrekkur þeirri hugmynd opinberlega að stofna íslenzkt ríkisolíufélag. Voru rökin þau, að slíkt mundi auka áhuga olíuleitarfélaga á Drekasvæðinu íslenzka, af því að þátttaka ríkisins í olíuleit þætti bjóðendum traustvekjandi. Einnig voru tíunduð rök atvinnusköpunar við olíuleit og þekkingaröflunar á nýjum miðum kunnáttu fyrir Íslendinga.
Hér klingja þó ýmsar viðvörunarbjöllur og rétt að staldra við. Með hæfilegum skammti af tortryggni mætti túlka ofangreindan boðskap þannig, að nú eigi að fara "að plata sveitamanninn" rétt einu sinni til að punga út fé í starfsemi, sem hann hefur ekkert vit á og ræður tæknilega ekki við að svo komnu máli.
Við skulum gera okkur grein fyrir því, að olíuleit á Drekasvæði er ekki fundið fé, heldur tengd töluverðri áhættu, þótt jarðfræðingar hafi áætlað 10 milljarða tunna af olíu undir hafsbotni íslenzka hluta Drekasvæðisins. Verðmæti þessara birgða, m.v. núverandi olíuverð, nemur u.þ.b. 100xVLF/a eða hundraðfaldri árlegri núverandi landsframleiðslu Íslands.
Það væri algert óráð hjá varðmönnum skuldum hlaðins íslenzks ríkissjóðs að bæta ofan á skuldahrúguna með lántöku erlendis, e.t.v. upp á 10-20 milljarða kr, til að stofna olíufélag til að taka þátt í olíuleit, sem er mjög sérhæfð, kostnaðarsöm og áhættusöm.
Hinn valkosturinn er, að lífeyrissjóðirnir með sína 2000 milljarða kr eign, eða fjárfestingarfélag þeirra, Framtak, leggi fé í olíuleitarfélagið. Slík ákvörðun mundi þó stappa nærri geggjun. Nóg er komið af glórulítilli áhættusækni þeirra ólýðræðislegu afla, sem með fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóðanna hafa vélað, með sáru tapi á eignum eigendanna, almennings, og skerðingu lífeyrisréttinda félagsmanna sem afleiðingu.
Olíuleit á Drekasvæðinu og á öðrum líklegum olíulindarsvæðum í lögsögu Íslands er hins vegar mjög áhugaverð, og nauðsynlegt fyrir ríkið að safna þekkingu og stjórna leit og síðar vinnslu af skörungsskap. Hér er um ósjálfbæra auðlindanýtingu að ræða, þannig að vinnslufyrirtæki fá úthlutað ákveðnu svæði og nýtir það síðan með þeim hraða og í þeim mæli, sem því sýnist, nema eigandinn setji einhver vinnsluskilyrði. Þessi auðlindanýting er þess vegna ekki sambærileg við t.d. nýtingu fiskveiðistofna á Íslandsmiðum, sem er sjálfbær.
Olíuleit og -vinnslu þarf að gera hærra undir höfðu en að vera skúffa í iðnaðarráðuneytinu. Það á að flytja þessa starfsemi yfir í olíuvinnsludeild, sem stofna þarf hjá Orkustofnun, sem sjái um reglusmíði um leit og vinnslu ásamt útboðum á leitar-og vinnsluréttindum. Orkustofnun yrði þá ábyrg fyrir þekkingaröflun á þessu sviði og nýtingu olíulindanna í samræmi við stefnumörkun Alþingis um nýtingarhraða, gjaldtöku og skattheimtu af starfseminni. Þarna má gera ráð fyrir, að auðlindarentan finnist, þótt hún hafi ekki fundizt enn í íslenzka sjávarútveginum, enda stendur hann í harðvítugri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa.
Í þessu sambandi þarf að hámarka tekjur ríkissjóðs til langs tíma af starfseminni. Það verður sannanlega ekki gert með skattlagningu gróðans upp í rjáfur. Þá missir einkaframtakið áhugann. Eigendur áhættufjárins verða að eygja sanngjarna gróðavon, ef árangur starfseminnar verður góður. Fjárfestirinn verður að finna hvata til að auka starfsemina og hefja leit og vinnslu á nýjum reitum innan Drekasvæðisins. Hvatinn verður að vera nokkru meiri en annars staðar, því að áhættan þar norður frá vegna strauma, íss, veðra og dýpis er meiri en víðast hvar annars staðar.
Skynsamlegast er af ríkisvaldinu að byggja upp góða þekkingu á málefnum olíuleitar og vinnslu, taka leyfisgjöld og stunda skattheimtu af starfseminni án þess að festa nokkurt fé í henni. Þó má hugsa sér, ef stofnaður verður olíusjóður af skatttekjunum, að hann megi fjárfesta í starfseminni á Drekasvæðinu eða annars staðar, þegar áhættan minnkar með aukinni þekkingu og tækni.
Óvarlegt er að ráðgera að hleypa olíutekjum inn í eyðsluhít ríkissjóðs. Miklu nær er að stofna olíusjóð, eins og Norðmenn hafa gert, og nota hann til fjárfestinga í innviðum samfélagsins, þ.m.t. samgöngumannvirkjum. Af ótta við verðbólgu hafa Norðmenn reyndar lítið fjárfest innanlands, en því meir erlendis og reynzt nokkuð mistækir. Það gæti verið skynsamlegt að nota olíusjóðinn hérlendis til sveiflujöfnunar í hagkerfinu.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að núverandi ríkisstjórn, með óhæfan fjármálaráðherra í broddi fylkingar, er búin að gefast upp við stjórn ríkisfjármála. Hún einkavæddi tvo banka fyrir aftan bak án hefðbundinna viðskiptalegra og lýðræðislegra formála, heldur beitti gerræðistilburðum og virðist sjálf ekki vita, hverjir eiga bankana nú. Einkavæðingin upp úr aldamótunum sætti rannsókn Ríkisendurskoðunar, sem fann ekkert ólöglegt. Enn meiri ástæða er til að rannsaka einkavæðingu vinstri stjórnarinnar á þessum ríkiseignum. Það verður að fletta ofan af leynimakki og pukri ráðstjórnarinnar við fjármálafyrirtækin.
Nú áformar ríkisstjórnin að selja fleiri ríkiseignir til að brúa fjárlagahallann. Þetta er algert glapræði. Það verður að ná jafnvægi á milli venjulegra tekna og gjalda ríkissjóðs án þess að pissa í skóinn sinn með eignasölu. Venjulegt jafnvægi er hins vegar vart gerlegt án þess að auka veltuna í þjóðfélaginu, þ.e.a.s. illgerlegt án hagvaxtar. Þar stendur nú hnífurinn í kúnni.
Eins og margoft hefur komið fram, er hin heillum horfna vinstri stjórn á móti hagvexti, og þess vegna sígur allt hér á ógæfuhlið í þjóðarbúskapinum. Ríkisstjórnin nær ekki endum saman og mun aldrei ná með sjálfbærum hætti.
Hún hefur ráðizt á innviði samfélagsins með þeim afleiðingum, að t.d. heilbrigðisgeirinn er í uppnámi og biðraðir hafa lengzt eftir knýjandi þjónustu. Sjálfseignarstofnanir létta alls staðar á Vesturlöndum undir með opinbera heilbrigðisgeiranum, og þannig hefur það verið, þó í allt of litlum mæli, á Íslandi.
Vinstri menn hérlendis hafa hins vegar ætíð haft horn í síðu sjálfseignarstofnana, og nú ætla þeir að fremja níðingsleg skemmdarverk á þeim með því að skera niður kaup á þjónustu þaðan. Gaspra þeir um í fávísi sinni að varðveita grunnþjónustuna og skera niður þjónustukaup af sjálfseignarstofnunum. Þeir eru svo skyni skroppnir, að þeir skilja ekki, að með kaupum á þessari þjónustu hafa stórupphæðir verið sparaðar á dýrari stofnunum ríkisins. Þetta heitir að spara eyrinn og kasta krónunni. Það hafa alltaf verið ær og kýr vinstri manna. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.
Dæmi um þetta er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands. Hjá HNLFÍ í Hveragerði hefur á undanförnum árum verið reist myndarleg aðstaða til að endurheimta krafta sjúklinga og til andlegrar og líkamlegrar styrkingar með nuddi, leirböðum, sundi og þrekþjálfun o.fl. Miðstöð HNLFÍ er í grennd við stórkostleg útivistarsvæði og gæti áreiðanlega laðað til sín útlendinga, ef hún væri markaðssett á erlendri grundu. Höfundur þessa vefseturs dvaldi þarna fáeina daga í sumar, er leið, á Hótel Náttúru, á meðan eiginleg starfsemi Náttúrulækningahælisins lá niðri, og getur borið staðnum, hollustufæði, þjónustu, aðstöðu og umhverfi, gott vitni.
Félagshyggjuflónin sjá einhvers konar ofsjónum yfir þessari starfsemi og hyggjast rifta samningum við HNLFÍ. Þetta er strútshegðunin. Vandamálið hverfur ekki við þessar flónslegu aðfarir. Það magnast upp og mun ríða sem holskefla yfir sjúkrahúsin með margföldum kostnaði. Allt er það eins, liðið hans Sveins.
Fátt hefur verið skorið jafnillyrmislega niður að hálfu vinstri stjórnarinnar og fé til samgöngumála. Þetta er eindæma heimskuleg ráðstöfun, enda fáar framkvæmdir jafn þjóðhagslega arðsamar og samgöngubætur, sem eitthvað kveður að. Þessi samdráttur er þó alveg í anda forystu vinstri manna, sem er á móti einkabifreiðinni sem aðalsamgöngutæki almennings. Þess vegna ráðast vinstri menn alltaf á fjárveitingar til samgöngumála, einnig þegar hagkerfið þarf nauðsynlega á slíkum framkvæmdum að halda.
Nú stjórnar vinstri græningi samgöngumálum landsins, enda hefur sjaldan eða aldrei verið unnið jafnsvakalega með öfugum klónum á vettvangi samgönguráðuneytisins gamla og beinlínis gegn hagsmunum vefarenda. Dæmi um þetta er fordæmalaus fíflagangur ráðherrans varðandi ákvörðun um vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Ráðherrann þóttist leggjast undir alvöru feld til vandaðrar ákvarðanatöku varðandi vegagerð úr Reykhólasveitinni og vestur úr, en útkoman varð hörmuleg, enda bera vinstri grænir ekki hagsmuni almennings fyrir brjósti og alls ekki hagsmuni bíleigenda. Vinstri grænir hatast við þá. Ráðherrann er svo aftarlega á merinni, að hann ætlar Vestfirðingum og öðrum að halda áfram að fara upp og niður Hjallaháls, sem er manndrápsleið að vetrarlagi og Ódrjúgshálsinn er engu skárri. Upphækkun og klæðning og nokkur breikkun skiptir ekki sköpum í þeim efnum. Þá leggur ráðherrann til sukkkennda sóun á almannafé með borun gegnum Hjallaháls eftir varanlega vegagerð yfir í Djúpadalinn yfir hálsinn. Er ráðsmaður almennings með öllum mjalla ? Veit hann, að fjöldi hríslna af Teigsskógskvæminu munu verða eyðingu að bráð við vegagerð hans ?
Hagkvæmast væri fyrir byggðina á svæðinu og vegfarendur, að valin yrði leið Vegagerðarinnar nr A um Reykhóla, Reykjanesið og yfir í Skálanes. Eiga Vestfirðingar það inni, að ríkið einhendi sér í þær framkvæmdir, sem sérfræðingar Vegagerðarinnar mæla helzt með, en fíflagangur ráðherra vinstri grænna verði stöðvaður snarlega. Það er auðvitað tímabært, að þessir kjöftugu sérvitringar og kaffihúsasnatar, sem nú stjórna landinu án þess að geta það, leggi upp laupana. Stefnumörkun og málsmeðferð öll getur ekki versnað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)