Skáldið og "eitthvað annað"

Talsverð tíðindi bárust landsmönnum til eyrna í viku 35/2011, þegar spurðist út um kaup kínversks kaupsýslumanns á um 300 km2 landi Grímsstaða á Fjöllum fyrir einn milljarð króna eða jafnvel 13 milljarða kr samkvæmt Financial Times.  Með fréttinni fylgdu frásagnir af áformum um stórt glæsihótel þar á Fjöllum með starfsemi allt árið um kring ásamt byggingu höfuðstöðva þessa fyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu.  Þessar fjárfestingar áttu að nema 20-40 milljörðum kr og verða aðeins upphafið að öðru meira.  Gjalda má varhug við raunhæfni slíkra hugmynda, t.d. rekstrar lúxushótels allt árið um kring í 400 m h.y.s., en óþarft er að fordæma fyrirfram þá, sem vilja hætta fé sínu á Íslandi, þó að til ævintýralegra verkefna sé.

Eins og eðlilegt má telja, hafa viðtökur landsmanna á þessum fréttum verið blendnar og sýnist sitt hverjum.  Af alkunnum yfirborðshætti sínum taldi forsætisráðherra strax sjálfsagt, að ríkið veitti undanþágu til staðfestingar þessara kaupa, en innanríkisráðherra brást ekki sínu þvergirðingslega eðli og lagðist eiginlega strax þversum gegn þessum áformum, þótt hann, stöðu sinnar vegna sem úrskurðaraðili um leyfisveitingu, mætti ekki tjá sig á svo opinskáan hátt á frumstigi máls án þess að verða vanhæfur.  

Forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru á móti allri erlendri atvinnusköpun hérlendis, af því að þeir líta svo á, að slíkt styrki auðvaldsskipulagið á Íslandi á kostnað sameignarfyrirkomulagsins dauðadæmda.  Þessi fjandskapur við atvinnusköpun á Íslandi hefur stórskaðað samkeppnihæfni landsins á afturhaldsskeiðinu í tíð félagshyggjustjórnarinnar, svo að Ísland hefur nú hrapað í 30. sæti Alþjóða efnahagsráðsins (World Economic Forum) um samkeppnihæfni þjóða heims, en ætti að vera á meðal 5 fremstu á þann margháttaða mælikvarða, sem beitt er við þetta mat á heimsvísu.  Hvar verðum við í lok kjörtímabilsins með þeim ömurlegu og gjörsamlega úreltu stjórnarháttum, sem nú viðgangast ? Það er alveg sama á hvaða mælikvarða verk (og verkleysi) ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru vegin; hún fær falleinkunn alls staðar, nema hjá AGS, sem er varðhundur fjármálafyrirtækja á heimsvísu.  

Auðvitað hlýtur mat Íslendinga á þessum áformum kínverska ljóðskáldsins að litast af ástandinu, sem lýst er með fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins, 2. september 2011, þar sem stóð:

"Ísland í neðsta sæti yfir fjárfestingar á EES,-Fjárfestingar á Íslandi hafa verið um 10 % af vergri landsframleiðslu".

Hér er átt við fjárfestingar einkaaðila, en sé hið opinbera með talið, er hlutfallið um 13 %.  Undanfari ákvörðunar þarf þó að vera lagarýni og áhættugreining á þessu skrefi Kínverja til eignarhalds á landi og atvinnustarfsemi á Íslandi.  Þá er rétt að reikna með því, að valdsmenn kínverska sameignarflokksins í Beijing séu með ljóðskáldinu í ráðum.  Hvað getur farið úrskeiðis fyrir Íslendinga, ef áætlanir þessar verða samþykktar ?

  1.  Ríkið á um fjórðung jarðarinnar í óskiptri eign.  Þetta þýðir, að ekkert verður að svo komnu framkvæmt á jörðinni án samþykkis ríkisins.
  2. Skáldið borar og finnur heitt og kalt vatn.  Tapar einhver á því ?  Nei, fjöldi manns fær vinnu við starfsemi, sem af þessum fundi leiðir.  Hér verður um sjálfbæra nýtingu að ræða, ef hið opinbera bregzt ekki við leyfisveitingu og eftirlit. 
  3. Kínverjar væru líklegir til að vilja færa út kvíarnar fyrir norðan.  Þeir hafa sýnt hug á að reisa álver á Bakka og vilja hasla sér völl á Langanesi og byggja stórskipahöfn í Gunnólfsvík.  Kínverjar eygja mikil viðskiptatækifæri með skipaferðum um Íshafið, einkum norðausturleiðina með vörur sínar til Evrópu og jafnvel áfram norðvesturleiðina til Vesturheims.  Þessi þróun mála yrði vatn á myllu íslenzka hagkerfisins, sjálfstæðs efnahags og gæfi sterkari stöðu gagnvart Evrópu og Bandaríkjunum.  "Divide et impera" (deilið og drottnið) sögðu Rómverjar, og það er alltaf styrkur að fleiri stoðum en færri undir hagkerfi og stjórnmálasambandi við önnur ríki.  

Að sjálfsögðu þarf að stíga varlega til jarðar og semja um ofangreint með skilyrðum, er snúa að smæð hagkerfis landsmanna, stöðugleika þess, fámennis þjóðarinnar og sjálfbærni starfseminnar í umhverfislegu tilliti. Það verður að reisa strangar skorður við innflutningi vinnuafls frá löndum utan EES.  Meginstefið á að vera, að þessar fjárfestingar skapi Íslendingum störf og að þær smyrji íslenzka hagkerfið, sem ekki veitir af.  Að rjúfa efnahagslega stöðnun afturhaldsins er höfuðnauðsyn. 

Einnig þarf að búa svo um hnútana, að hvorki BNA né ESB snúist gegn okkur, heldur fái meiri áhuga á öflugum og vinsamlegum samskiptum en verið hefur raunin á undanfarin ár.  Við skulum líta í eigin barm og ekki kenna BNA og ESB alfarið um hornótt viðskipti á stjórnmálasviðinu.  Hitt er annað mál, að útúrboruháttur, þekkingarleysi og helber aulaháttur hefur einkennt samskipti íslenzkra stjórnvalda við erlenda ráðamenn frá 1. febrúar 2009, eins og berlega má skynja, að einnig er mat forseta lýðveldisins, sem á sama tíma hefur staðið sig stórkostlega vel í erlendum samskiptum.    

Auðvaldið í KínaKunnara er en tjáir að nefna, að stefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í atvinnumálum hefur verið, að fremur ætti að gera eitthvað annað en að nýta náttúruauðlindirnar til iðnaðarframleiðslu.  Hér berst viðskiptaþróunartækifæri af nýrri gerð upp í hendur landsmönnum sem umhverfisvæn lúxusferðamennska.  Ætla hefði mátt, að þeir gripu það fegins hendi.  Hið þveröfuga gerist, og það sannar enn og aftur, að ekkert er að marka þokuþruglið í þeim.  Vinstri grænir leggjast þversum.  Afstaða þeirra til atvinnusköpunar er fjandsamleg. Ástæðan er sú, að tilboð berst rétt einu sinni um beina erlenda fjárfestingu til eflingar atvinnustarfsemi í stað lántaka í erlendum fjármálastofnunum, sem helzt þarf með einhverjum hætti að skuldbinda skattborgara landsins að mati vinstri grænna.  Þetta eru þess vegna ekki framkvæmdir að skapi vinstri grænna, enda geðjast þeim ekki að neinum framkvæmdum, nema á vegum ríkisins, sbr nýja Landsspítalann.  Íslendingar hafa ekki efni á Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Stjórnarráðinu, og það er brýnt að gera þá valdalausa hið allra fyrsta og að afmá öll ummerki þeirra í stjórnkerfi og lagasetningu snarlega. Kjósendur munu ekki brenna sig á sama soðinu næsta mannsaldurinn, enda mundu þeir gjalda slíkt dýru verði að hleypa fílum inn í postulínsbúðina aftur.  

Í landinu er enginn hagvöxtur og fyrirsjáanlegt er, að hann verður enginn án beinnar erlendrar fjárfestingar, sem nemur a.m.k. 10 % af VLF á ári.  Undir núverandi ríkisstjórn eru landsmenn þess vegna dæmdir til síversnandi lífskjara, vaxandi erlendra skulda, hræðilegs atgervisflótta og að lokum hruns innviða samfélagsins og missis sjálfstæðisins.  Stefna félagshyggjuflokkanna leiðir okkur óhjákvæmilega fram af hengifluginu og til fátæktaránauðar.  

Það eru hins vegar feikilega góðir kostir í boði á mörgum vígstöðvum hérlendis með lítilli áhættu.  Heybrækur láta auðvitað öll tækifæri fram hjá sér fara, og ljóst er, að engar framfarir verða án nokkurrar áhættu.  Með því að beita skynsemi og árvekni er hægt að halda henni innan ásættanlegra marka og bregðast við með mótvægisaðgerðum, sem duga, ef þróunin ætlar að fara úr böndunum.  

Við eigum að hlýða á forseta lýðveldisins, sem á undanförnum misserum hefur sýnt, að hann er mikill baráttujaxl íslenzkra hagsmuna á erlendri grundu og hefur góðar tengingar og góða yfirsýn um hið stjórnmálalega og efnahagslega svið.  Hann tók í taumana, þegar neikvæður áróður í okkar garð erlendis frá var að kaffæra okkur og ríkisstjórnin var sem lamaðar flugur.  Nú hefur hann enn á ný blandað sér í umræðuna um skáldið á Hólsfjöllum erlendis og innanlands, af því að hann taldi ástæðu til að hefta móðursýkislegan vaðal um kínversku hættuna.  Hann hefur mikið til síns máls, þegar hann bendir á hrikalega mismunun aðila utan og innan EES varðandi fjárfestingar hér.  Þessi forgangur Evrópumanna er okkur ekki hagfelldur.  Hverjum er "Festung Europa" hagfelld hérlendis ?  Hér að neðan er nýleg framtíðarsýn úr "Der Spiegel".  Athygli vekur, að stjörnurnar (löndin) eru aðeins 12 talsins.  Hverjir telur Spegillinn, "Der Spiegel", að muni hrökkva úr skaptinu ?

Þessar hugrenningar á meginlandinu sýna betur en nokkuð annað óreiðuna, sem þar er í vændum.  Þá er ómetanlegt fyrir íslenzka hagkerfið að hafa fleiri stoðir undir útflutninginum og fjármálakerfinu en evrópskar.  Með því er ekki verið að kasta rýrð á Evrópumenn, heldur að tryggja afkomu Íslands í viðsjárverðum heimi.   

   eu_hakakross úr Der SpiegelVefborði skynsemi.is


Bloggfærslur 8. september 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband