"Primus inter Pares"

Þrútinn þjóðfélagsrýnir og stjórnmálafræðingur (Samfylkingar) við HÍ birtist í fréttatíma sjónvarps allra landsmanna, RÚV, að kvöldi sunnudagsins 11. nóvember 2012.  Honum var mikið niðri fyrir að kynna niðurstöðu rannsóknar sinnar á vel heppnuðu prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum daginn áður.

Þessi mannvitsbrekka hélt því blákalt fram, að niðurstaðan hefði orðið formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni (BB), áfall.  Hvað skyldi nú vera til í þeim sleggjudómi mannvitsbrekkunnar, sem er á launum hjá skattborgurum landsins ?:

  • Gild atkvæði í prófkjörinu voru 4911
  • BB fékk 2728 atkvæði í 1. sætið eða tæplega 56 % af gildum atkvæðum
  • BB fékk fleiri atkvæði í 1. sætið en nokkur hinna 6 frambjóðenda, sem næstir komu, fengu alls í sætið, sem þeim hlotnaðist, að viðbættum atkvæðum í sætin þar fyrir ofan
  • Frambjóðandinn, sem varð nr 2, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fékk t.d. 2153 atkvæði í 1.-2. sætið.  Munar þarna 27 %, sem er mun meira en nemur mismuni sætanna nr 2-6.
  • Næst flest atkvæðin, þannig talið, fékk Óli Björn Kárason í 1.-6. sæti, alls 2642
  • Að formanninum var sótt úr tveimur áttum, sem hlaut að hafa áhrif á atkvæðafjölda hans í 1. sætið
  • Frambjóðendafjöldinn var 16, og með svo miklum fjölda er eðlilegt að búast við talsverðri dreifingu atkvæða, eins og raunin varð 

Sanngjarnt er að veita þessum úrslitum þá umsögn, að Bjarni Benediktsson sé fremstur á meðal jafningja, eða "Primus inter Pares", eins og Rómverjar nefndu Octavíanus áður en hann var krýndur Ágústus, keisari.

Listi Sjálfstæðismanna í Kraganum er vænn yfirlitum og líklegur til að fá 6 menn kjörna í komandi Alþingiskosningum, því að þingmönnum kjördæmisins mun þá fjölga um einn.

Hvað er þá að frétta af garminum honum Katli ?  Samfylkingin hélt prófkjör sitt í Kraganum þennan sama laugardag, og þar urðu reyndar tíðindi á landsvísu.  Er þá ekki vísað til þess, að í ljós kom, rétt einu sinni, að Samfylkingarsauðirnir, sem við atkvæðatalningu fást, kunna ekki að telja.

Tíðindin urðu þau, að flokksfólk Samfylkingar í Kraganum hafnaði fjármálaráðherra landsins.  Katrín Júlíusdóttir fór fram á að verða sett í oddvitasæti lista Samfylkingar í Kraganum, en fólkið hafnaði þessari ósk, og setti hana nr 2.

Þetta er líklega fordæmalaus niðurlæging fyrir fjármálaráðherra Íslands, og ein mesta sneypuför, sem slíkur hefur farið, þegar hann hefur sótzt eftir stuðningi flokksfélaga sinna.  Þegar þess er gætt, að fjármálaráðherrann tapaði fyrir brottreknum ráðherra, sem er í ónáð hjá forsætisráðherra landsins, er ekki annað hægt en að setja upp skeifu.  Úrslitin hjá Samfylkingunni þessa helgina urðu ríkisstjórninni áfall, sbr einnig úrslitin í NA-kjördæmi.

Þessar sögulegu ófarir fjármálaráðherra landsins fóru algerlega framhjá þrútnum þjóðfélagsrýni og stjórnmálafræðingi við Háskóla Íslands, sem taldi sig eiga erindi sem erfiði í fréttatíma RÚV.  Væri nú til of mikils mælzt, að gervivísindum verði ekki dembt ómældum yfir landslýð, heldur gerðar lágmarkskröfur til "fræðimanna" um að rökstyðja mál sitt um leið og litið er yfir völlinn allan.   

 

 

 


Bloggfærslur 12. nóvember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband