Í helgreipum ríkjasambands

Grikkland riðar á barmi þjóðfélagslegrar upplausnar, enda er landið sokkið í skuldir.  Engin von er um, að úr rætist á þessum áratugi, nema Grikkir losi sig við mynt, sem þeir ráða engu um.  Þó er talið, að evran bíði þess ekki bætur, ef Grikkir losa sig úr helfjötrum þessarar myntar, sem engum hentar, nema Þjóðverjum. 

Hvers vegna hentar engum evran, nema Þjóðverjum ?  Það er vegna þess, að væri þýzka markið við lýði, mundi það vera sterkara (dýrara) en evran.  Þess vegna væru Þjóðverjar ekki jafnsamkeppnihæfir á erlendum mörkuðum og nú.  Jafnframt er reynslan sú, að vextir á evrusvæðinu markast aðallega af hagsveiflu Þýzkalands, enda er þýzka hagkerfið stærst innan evru-lands.  Þó að evran sé veikari en þýzka markið væri, er hún samt of sterk fyrir öll hagkerfin í evru-landi utan Þýzkalands.  Þetta yfirsást þeim, sem börðust fyrir stofnsetningu evrunnar.  Það voru ekki Þjóðverjar.  Henni var troðið upp á þá.  Þeir sáu mjög eftir DEM, sem var stolt niðurlægðrar þjóðar.  Þjóðverjar löguðu sig að evrunni, og hún hefur reynzt hafa rutt þeim brautina til endurnýjaðra úrslitaáhrifa í Evrópu.  Örlögin eru ekkert lamb að leika sér við.

 Hagkerfi Grikklands riðar nú til falls vegna fólskulegrar framkomu leiðtoga ESB við alþýðu Grikklands.  Nú er reyndar búið að sprauta nautsblóði í dauðvona sjúklinginn í von um, að örvæntingarmeðferð lífgi sjúklinginn við.  Staðreyndir máls, sem hér að neðan eru raktar, mæla gegn slíku.  Hagkerfið er orðið ósjálfbært og getur ekki lengur brauðfætt þjóðina.  Grikkir lifa enn um efni fram, þó að þeir hafi hert sultarólina meir en líklega nokkur vestræn þjóð frá stríðslokum.  Til að sýna, hversu grafalvarleg núverandi staða Grikkja er má nefna nokkrar tölur:

  • ríkisskuldir nema 355 miöEUR eða 163 % af VLF
  • verg landsframleiðsla hefur minnkað samfleytt 2008-2012
  • VLF dróst saman 2008-2011 úr 233 miöEUR í 218 miaEUR
  • samdráttur landsframleiðslu á 4 árum: 10 %
  • samdráttur landsframleiðslu árið 2011: 7 % (ný tala)
  • verðbólga árið 2011: 2,9 %
  • atvinnuleysi: 20 % og rúml. tvöfalt meira á bilinu 18-30 ára
  • greiðsluhalli við útlönd: 22 miaEUR eða 8,6 % af VLF
  • halli á ríkisbúskapi: 10 %
  • ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréfum: 36 % á ári 
  • fall hlutabréfamarkaðar 2011: 44 % 

Þessar tölur lýsa hagkerfi þjóðar í bráðri neyð, enda berast tíðindi frá Aþenu um blóðuga bardaga og sprengingar í allsherjarverkfalli í landinu.  Hvernig bregðast embættismenn ESB og Merkozy við þessari grafalvarlegu stöðu ?  Ráðamenn ESB krefjast af þjóðþinginu í Aþenu, að það samþykki 3,0 miaEUR niðurskurð ríkisútgjalda sem skilyrði greiðslu á 130 miaEUR láni úr björgunarsjóði ESB, sem á að bjarga Grikklandi frá greiðsluþroti 20. marz 2012.  Þegar þingið hafði fallizt á þetta, bættu ESB-forkólfarnir 10 % við niðurskurðarkröfuna.  Samkvæmt nýjustu fregnum ætlar gríska þingið að kyngja þessu.

Þetta var kornið, sem fyllti mælinn í Aþenu, og óeirðir brutust umsvifalaust út.  Það er sem forkólfum ESB sé ekki sjálfrátt, eða þeir séu meðvitað að framkalla atburðarás, sem leiðir til greiðsluþrots Grikkja og þar með flótta þeirra úr evruánauðinni.  Það hefur birzt mynd af ESB, sem hörðustu andstæðinga ríkjasambandsins á Íslandi hefði ekki órað fyrir að óreyndu.  Það fyrirfinnst engin samstaða með lítilmagnanum.  Fyrir Grikki er ekkert almennilegt haldreipi að hafa í Brüssel.  Þvert á móti níðist Brüssel á fátæku fólki Grikklands.  Miðstétt Grikklands er að missa fótanna og verða fátækt að bráð.  Tæp 30 % Grikkja er að lenda undir silgreindum fátæktarmörkum.  Skuggalegt er að horfa upp á vaxandi óvild á milli Aþenu og Berlínar.  Er þá skammt í, að gömul sár verð ýfð upp.

Ástæðurnar fyrir þessu eru þær, að forystan í Berlín er tekin að einblína á Sambandsþingskosningarnar haustið 2013.  Hún er að reyna að ganga í augun á kjósendum með hörkulegu framferði sínu gagnvart Grikkjum og öðrum Suður-Evrópuríkjum evrusvæðisins í vanda, og hún neitar að reiða fram meira fé, nema enn meiri fórnir verði færðar þar suður frá.  Önnur ríki evrusvæðisins eru ekki aflögufær, Frakklandsforseti mun falla í vor; það er einvörðungu spurning, hvort hann fellur í fyrri umferð fyrir Le Pen eða í seinni fyrir Hollande.

Frakkland er að sogast ofan í hyldýpið með 90 % ríkisskuldir af VLF og hratt vaxandi, mikinn greiðsluhalla við útlönd og 10 % atvinnuleysi og vaxandi.  Ítalía berst fyrir lífi sínu, og Spánn er á heljarþröm.  Bretar standa utan við allt saman, skuldugir upp fyrir haus, en njóta samt meira trausts fjármálamarkaða með sitt sterlingspund en flest evruríkin, sbr lánshæfismat á Bretum.   Aðrir eru efnahagslegir dvergar í þessu sambandi.  Niðurstaðan er sú, að ESB er lamað og flýtur sofandi að feigðarósi.  Er þá ekki von, að ringlaðir og utan gátta sambandssinnar á Íslandi vilji endilega fara þarna inn og beiti til þess öllum brögðum, jafnvel bolabrögðum ?  Samt er ljóst, að hráskinnaleikurinn, sem Össur nefnir samningaviðræður, hefur stöðvazt.  ESB er ekki tilbúið í alvöruviðræður fyrr en 2013, þegar ríkjasambandið ætlar að vera tilbúið með nýja sjávarútvegsstefnu.  Bara í makrílnum mundi aðlögun okkar að ESB kosta okkur 20 miaISK.  Það þarf að greiða um það þjóðaratkvæði hið fyrsta, hvort halda á áfram þessari endileysu eða að binda endi á hana og snúa sér að uppbyggilegri málefnum.     

Hvernig í ósköpunum stendur á, að rótgróin Evrópuþjóð getur lent í jafnhrikalegri stöðu og Grikkir ?  Þessari spurningu má svara með einu orði-"evran".  Það er evran, sem hefur bókstaflega rústað hagkerfi Grikklands.  Eftir upptöku evrunnar og fram undir hrun fjármálamarkaðanna 2008 streymdi ódýrt lánsfé til Grikklands. Eignaverð hækkaði og verðbólga fór úr böndunum með þeim afleiðingum, að Grikkir urðu lítt samkeppnihæfir á erlendum mörkuðum með miklu sterkari gjaldmiðil en samsvaraði styrk hagkerfisins.  

Afleiðing þessa varð gríðarleg skuldasöfnun hins opinbera í útlöndum og einnig skuldasöfnun fyrirtækja og einstaklinga í bönkum Grikklands.  Lánadrottnar voru mest þýzkir og franskir bankar.  Skuldir ríkisins vaxa enn og stefna í 400 miaEUR.

Áform ESB snerust um að fá lánadrottnana til að afskrifa 50 % af skuldunum.  Skuldirnar eru hins vegar að töluverðu leyti komnar í hendurnar á vogunarsjóðum, sem hafa tekið sér skortstöðu gagnvart Grikkjum, sem merkir, að þeir veðja á fall þeirra.  Þess vegna takast ekki þessir samningar, sem aftur á móti voru skilyrði Merkozy fyrir um 130 miaEUR láni vegna afborgana og vaxta í marz 2012.

Staða Grikkja er verst allra evruríkjanna, líklega af því að þeir voru skuldsettastir fyrir Hrunið að tiltölu.  Hins vegar stefnir allt í óefni hjá fleirum, eins og minnzt er á hér að framan.  Það er vegna þess, að hagkerfi flestra annarra ríkja ESB eru ekki nógu öflug til að geta búið við evru.  Ef jafnaðarmenn á Íslandi hefðu haft afl til, sætum við Íslendingar nú uppi með evru og værum að líkindum í sömu sporum og Grikkir vegna þess, hversu óburðug hagstjórnin á Íslandi hefur löngum verið. 

Það er mikið vandaverk að koma hagstjórninni á Íslandi á braut stöðugleika og sjálfbærni, þ.e. verðbólgu undir 2 % á ári, atvinnuleysi undir 3 %, hagvexti inn á bilið 3 % - 6 % og skuldunum við útlönd niður um a.m.k. helming.  Til þess þarf viturlega stefnumörkun, einarða verkstjórn til að ná settum markmiðum í áföngum og sameiginlegt átak landsmanna.  Það er hægt að fullyrða eftir þriggja ára reynslu, að ekki nokkurt einasta hald er í núverandi ríkisstjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni grænu framboði, til þessara verka, enda glíma þeir nú þegar báðir við tilvistarkreppu, og allt framferði forystumanna þeirra ber feigðina í sér.

Reynslan fram að næstu Alþingiskosningum mun skera úr um það, hvaða stjórnmálaflokkar hafa burði til að axla það flókna og erfiða hlutverk að leiða íslenzku þjóðina út úr núverandi eyðimerkurgöngu og til heilbrigðs vaxtar og traustrar velmegunar í sátt og samlyndi við umhverfi sitt.        

     

 


Bloggfærslur 21. febrúar 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband