Afkoman á næstu árum

Á Bretlandi líða að jafnaði 3-4 ár frá því, að samdráttur hagkerfis hefst þar til landsframleiðslan hefur náð sama gildi og fyrir samdrátt að raunvirði.  Að 4 árum liðnum frá Hruni á Íslandi má ætla, að samdráttur landsframleiðslu muni enn nema 5 % frá 2008.  Það er þess vegna augljóst, að hagstjórn skálkaskjólsins í Stjórnarráðinu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur skilar íslenzku þjóðinni mun lakari árangri en hagstjórn ríkisstjórna nágrannaþjóðanna skilar þeim, og telst þetta reyndar vart til tíðinda hjá nokkrum manni, enda um að ræða duglausustu ríkisstjórn landsins frá fullveldi 1918.   

Miðað við horfurnar gæti þessi tími, sem tekur að vinna upp tapaða landsframleiðslu, orðið tvöfalt lengri en gengur og gerist.  Ástæðan er aðallega sú, að ríkisstjórn Jóhönnu er óhæf til að stjórna landinu.  Stjórnarathafnir eru hálfkák eitt og enda margar sem hreint klúður. 

Ár ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru ár hinna glötuðu tækifæra, sem kosta landsmenn a.m.k. 200 milljarða kr á ári í minni landsframleiðslu og hærri vaxtaútgjöldum, en síðar nefndi liðurinn fer að mestu leyti beint út úr hagkerfinu til útlanda.

Í þessu sambandi má nefna, að tölfræðifyrirtækið Gamma hefur gefið út skýrslu um afleiðingar "stefnu" ríkisstjórnarinnar í orkunýtingarmálum.  Þar kemur fram, að tap Íslands á um 5 næstu árum verði 250 milljarðar kr og um 5 þúsund ársverk.  Aðspurðir á Alþingi um þetta hafa ráðherrar svarað með útúrsnúningum einum.  Þeir eru rökþrota.  

Það eru hærri vaxtagjöld undir afturhaldsstjórn en væru undir framfarasinnaðri ríkisstjórn vegna þess, að öflugra athafnalíf og meiri erlendar fjárfestingar mundu fljótlega framkalla lægra skuldatryggingarálag vegna hærra lánshæfismats.  Afturhaldið á Íslandi er eðlilega í mjög litlum metum hjá erlendum lánveitendum.  Það er reyndar furðuleg fjármálaráðstöfun Oddnýjar Harðardóttur, fjármálaráðherra, að fara í erlent skuldabréfaútboð nú, þegar ávöxtunarkrafan er 6,00 % til þess að borga lán, sem veitt voru af Norðurlöndunum til eflingar gjaldeyrisvarasjóðs á 3,25 % vöxtum.  Svona gera menn ekki.

Í Evrópu þurfa aðeins tvö ríki að greiða hærri vexti en 6 %, og eru bæði talin vera gjaldþrota, þ.e. Portúgal um 11 % og Grikkland um 21 %.  Spánn og Ítalía, sem hvorugt er talið munu geta staðið í skilum og muni raunar þurfa að leita ásjár björgunarsjóðs ESB og muni þá sliga evruna mjög, sem fyrir stendur veikt að vígi, þurfa að greiða lægri vexti eða um 5,7 %.  Markaðurinn metur augljóslega stöðu Íslands undir afturhaldsstjórn trúðsígilda, sem sótt hafa um inngöngu í ESB og eyða öllu púðrinu í einskis nýt en rándýr gæluverkefni, mjög áhættusama. 

Þessir valdhafar eru þess vegna alþýðu landsins hræðilegur fjárhagslegur baggi.  Hið sorglega er, að engin efnahagsleg né stjórnmálaleg þörf er á að burðast með bagga þennan.  Ef allt væri með felldu, hefðu Íslandingar unnið sig upp úr efnahagslægðinni árið 2011, þ.e. á 3 árum, og væru nú komnir með meiri þjóðartekjur í raun en fyrir Hrun og hefðu hafið endurgreiðslu erlendra lána ríkisins í stað þess að bæta stöðugt í þá hít undir vinstra afturhaldinu.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, birti laugardaginn 5. maí 2012 í Morgunblaðinu greinina, "Kostnaðurinn af skaðlegri ríkisstjórn".  Niðurstaða hans er sú, að Hrunið hafi leitt til kostnaðar þjóðarinnar upp á 670 milljarða (mia) kr, en villta afturhalds vinstrið hafa kostað hana 890 milljarða.  Niðurstaða Sigmundar Davíðs um, að tapið af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé meira en tapið vegna Hrunsins er rétt, en höfundur þessa vefseturs telur hins vegar, að báðar tölurnar séu of lágar:

  • Tap Seðlabankans vegna Hrunsins:                  ISK 200 mia
  • Tap lífeyrissjóðanna vegna Hrunsins:               ISK 500 mia
  • Ágizkun höfundar um tap einstaklinga og fyrirtækja:300 mia

Heildarkostnaður landsmanna vegna Hrunsins: 1000 mia kr

  • Vaxtarmunur samfélagsins: 60 mia kr/ár x 3 ár= 180 mia kr
  • 10 þúsund fleiri í vinnu: 90 mia kr / ár x 3 ár =  270 mia kr 
  • Mismunur hagvaxtar: 90 mia kr / ár x 3 ár =      270 mia kr
  • Verðbólgumunur 4 % / ár x 3 ár =                    200 mia kr
  • Ólögmæt myntkörfulán til nýju bankanna =       150 mia kr 
  • Tapaðar færslur úr ríkissj. í gjaldþrota fyrirtæki   50 mia kr
  • Áætlað tap vegna gjaldeyrishafta 100 mia kr/ár  100 mia kr
  • Slæleg frammistaða við stjórnun ríkisfjármála  100 mia kr    

Heildarkostnaður landsmanna af ráðstöfunum afturhaldsstjórnarinnar umfram það, sem búast mætti við af ríkisstjórn borgaralegu stjórnmálaflokkanna miðað við stefnumörkun þeirra í stjórnarandstöðu: 1320 mia kr.

Á þriggja ára tímabilinu 2009-2011 hefur afturhaldið í ríkisstjórn Íslands valdið landinu fjárhagslega tjóni, sem er meira en 130 % tjónið í Hruninu.  Þetta umframtjón nemur yfir 300 mia kr, og líklega tvöfaldast þessi umframkostnaður af hinni gæfusnauðu vinstri stjórn á árinu 2012 og mun nema um 1000 mia kr eða 60 % af VLF áður en yfir lýkur, lafi ómyndin út kjörtímabilið.  Ekki hefði myndin skánað af sukki ríkisstjórnar Jóhönnu, ef hún hefði haft sitt fram í Icesave-málinu, og hér er ótalinn tugmilljóna kostnaður af snepjulegri sneypuför Jóhönnu og Steingríms í Landsdómsmálinu og öðrum gæluverkefnum hennar.

Eftir því sem tímar líða verður tap þjóðarinnar af vinstri stjórninni meira og átakanlegra.  Um þessar mundir getur það hæglega numið 300 milljörðum kr á ári.  Það er þess vegna borðleggjandi, að verulegu máli skiptir, hvernig til tekst um val Alþingismanna.  Nú munu landsmenn vera í 18. sæti á lista ofanfrá um þjóðartekjur á mann, en þeir hrapa niður þann lista með villta vinstrið við stjórnvölinn, og við megum ekki við að hrapa frekar, því að þá mun skjótlega horfa við landauðn hér.

Það eru fjölmörg úrræði fyrir hendi til að snúa þessari óheillaþróun við og sækja upp á við á þessum lista, en Ísland mun hafa verið í 4. sæti, þegar hæst bar, en þá var reyndar vitlaust gefið.  Grundvallaratriði er, að á Alþingi verði sú viðhorfsbreyting, að hámarka skuli tekjuöflun landsmanna innan ramma sjálfbærni og efnahagslegs stöðugleika.  Þetta er alls ekki viðhorf núverandi meirihluta, heldur fer allt púðrið í tekjuskiptinguna með mjög óheillavænlegum inngripum í athafnalífið og skattkerfið.  Ekkert þessara inngripa villta vinstrisins er reist á hagfræðilegum rökum um að stækka kökuna, sem til skiptanna er, heldur hafa allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar verið brennimerktar fátæktarstefnu og misheppnaðar í þeim skilningi, að þær hafa í raun verið til þess fallnar að minnka verðmætasköpun í landinu og þar með tekjur einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkissjóðs.

Þannig þarf þetta engan veginn að vera, og landsmenn eiga skýra valkosti í næstu forsetakosningum og Alþingiskosningum.  Það væri t.d. glapræði að kjósa frambjóðanda Samfylkingarinnar og koma henni til embættis á Bessastöðum, sem síðar eftir næstu Alþingiskosningar og myndun framfararíkisstjórnar í stað afturhalds gæti stöðvað eða tafið mikilvæg framfaramál nýs Alþingis.   

 Dr Ólafur og frú Moussaieff

    

 

 

    

  

           


Bloggfærslur 17. maí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband