Hagsmunasamtök skattgreiðenda

Það var vonum seinna, að stofnuð voru hagsmunasamtök skattgreiðenda á Íslandi http://www.skattgreidendur.is .

Bæði hefur skattheimtuna á Íslandi tekið út yfir allan þjófabálk og meðferð skattfjárins verið fyrir neðan allar skriður. Segja má, að fjármálastjórnun ríkissjóðs undir vinstri stjórn hafi verið arfaslök og raunar einkennzt af sukki og svínaríi. 

Afleiðing óstjórnarinnar eru vaxtagreiðslur ríkissjóðs til útlanda upp á 220 mia kr á þremur árum samkvæmt forsíðu Morgunblaðsins, 20.07.2012.  Þetta eru blóðpeningar, því að ekki er um að ræða lán til arðsamra fjárfestinga, heldur í rekstrarhít ríkissjóðs. Stöðugt er aukið við skuldastabba ríkissjóðs.  Sú óstjórn er gjörsamlega siðlaus.  Núverandi ráðamenn heykjast á vandanum, sem þeir buðu sig fram til þjónustu við að leysa, en í staðinn vísa þeir vandamálunum á framtíðina.  Gjörðir þeirra og aðgerðaleysi eru allar hinar aumkvunarverðustu, enda mun sagan fara ómjúkum höndum um fólk, sem taldi sig allt geta, var fullt af lofti, en brást algerlega bogalistin.  

 

Útgjöld heimilanna 2012Sneiðmyndin hér til hliðar sýnir skiptingu útgjalda meðalheimilis á Íslandi þessi misserin.  Langstærsti útgjaldaliður heimilisins, 52 %, fer í beina og óbeina skatta til ríkis og sveitarfélaga auk annarra opinberra gjalda.  Þetta gríðarlega háa hlutfall er mikið hættumerki í íslenzku efnahagslífi og ávísun á stöðnun og kjararýrnun.  Það er í engu samræmi við það, sem almenningur fær til baka frá þessu dæmalausa bákni.  Það gefur auga leið, að spyrna verður við fótum, þegar hið opinbera er farið að sjúga til sín yfir helming tekna almennings í landinu. 

Ríkið er rekið með bullandi tapi á meðan sóun á borð við stjórnarskráarendurskoðun, aðildarviðræður við ESB, allt of stórvaxna utanríkisþjónustu og margt fleira, á sér stað. Útflutningstekjur landsins eru svo takmarkaðar, að þær standa ekki undir þeirri háu erlendu vaxtabyrði, sem ríkið hefur bakað sér og er 5 % af VLF.  Þessi mikla umsetning ríkissjóðs er ósjálfbær og verður að lækka.  Allir verða að sníða sér stakk eftir vexti. Ella verður ríkissjóður dragbítur á lífskjörin í landinu um ókomna tíð. 

Verðugt markmið er að lækka hlutfallið úr 52 % og niður fyrir 40 % á 6 árum með sparnaði í ríkisrekstri og aukningu landsframleiðslu.  Ríkið á að reka myndarlega, það sem það tekur að sér, t.d. fjárfesta í nýjum lækningatækjum, sem bjargað geta mannslífum og sparað rekstrarkostnað, en ekki að kreista líftóruna úr allri starfsemi, sem það kemur nálægt, með flötum niðurskurði eða öðrum viðlíka stjórnunaraðferðum.  Stjórnarhættir vinstri stjórnarinnar eru frumstæðir, af því að hún má ekki heyra minnzt á annars konar rekstrarform en ríkisrekstur.  Þingmenn hennar eru forstokkaðir og vonlaust um, að þeir muni nokkru sinni fitja upp á nýjungum.  

Erfðaprins Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðbjartur Hannesson, sem frægur varð fyrir, "hve lítið nýtt gerðist hjá honum", þegar hann vann fyrir Jóhönnu að því að smokra Icesave um hálsinn á skattgreiðendum á Íslandi, þó að stórfréttir hefðu birzt, heldur því fram, að velferðarkerfið sé ekkert stærra á Íslandi en á Norðurlöndunum.  Þetta er heimskuleg röksemd manns með asklok fyrir himin fyrir því að ráðast ekki í niðurskurð ríkisútgjalda á Íslandi.  Jafnaðarmaðurinn virðist ekki hafa heyrt af hruni peningakerfisins, sem hér varð, og 100 % skuldabyrði ríkissjóðs af VLF né af miklum kostnaði, sem leggst á íslenzka skattgreiðendur vegna fámennis í stóru landi.  Við á Íslandi erum einfaldlega sem stendur fátækari en hinar Norðurlandaþjóðirnar og verðum þess vegna að sýna ráðdeild í rekstri heimila, fyrirtækja og opinberra sjóða.

Það þarf að endurskilgreina hlutverk ríkisins, og hvernig þessu hlutverki verði gegnt með hagkvæmustum hætti.  Ekki er ósennilegt, að með þeim hætti megi spara a.m.k. 50 mia kr eða 10 %.  Afganginn af gatinu og myndun greiðsluafgangs verður að brúa með aukinni landsframleiðslu.  Til þess þarf að örva hagkerfið, m.a. með lækkun skattheimtu og einföldun skattkerfis. Virkja markaðsöflin og laða fremur hingað auðugt fólk en að flæma það burt, eins og jafnaðarmennirnir gera. Með lágri skattheimtu af háum höfuðstóli fást hærri skatttekjur en með hárri skattheimtu af lágum höfuðstóli.  Þetta hafa vinstri menn aldrei skilið og munu aldrei skilja. Þar í liggur mein þeirra.    

Vinstri stjórnin, svo kallaða, sem hér lafir við völd, hefur eyðilagt skilvirkni skattkerfisins.  Það hefur hún gert með því að flækja tekjuskattskerfið með fjölgun skattþrepa, sem leitt hefur til mikillar hækkunar jaðarskattsins.  Þetta hefur dregið löngun úr fólki til tímabundinnar aukningar á vinnuframlagi sínu og þar með dregið úr hagvexti og gert ungu fólki alveg sérstaklega erfitt fyrir.  Þessi háskattastefna sameignarsinnanna hefur m.a. leitt til læknaskorts á Íslandi, af því að læknar telja sig fá svo lágar ráðstöfunartekjur hérlendis, að þeir hafi ekki efni á að snúa heim úr sérnámi, í sumum tilvikum með skuldabagga á bakinu. 

Hið sama á við um annað hámenntað fólk og þarf ekki hámenntun til. Frumkvöðlar margvíslegir forðast forræðishyggjuna. Við þurfum að laða hingað sem flest menntafólk og framtaksfólk ásamt eignafólki, ef unnt er. Hið nýja hagsmunafélag skattborgara hlýtur að berjast hart fyrir einföldun tekjuskattsins niður í eitt þrep.  Þar með minnkar þrýstingur á laun til hækkunar, sem dregur þá úr verðbólgu. Til greina kemur, að ríkið hafi lága tekjuskattsheimtu, t.d. 15 %-20 %, og engan persónuafslátt, nema til þeirra, sem hafa einstaklingstekjur undir MISK 2,0 á ári. Þá ber að afnema aftur eignaskattinn sem og alla aðra vinstri stjórnar skattheimtu, sem var misráðin, enda viðbrunninn grautur úr austur-þýzku eldhúsi leppanna Walter Ulbrichts og Eric Honeckers.   

Téð vinstri stjórn hefur séð ofsjónum yfir sparnaði landsmanna, svo að hún hefur aukið skattheimtu af vaxtatekjum.  Þetta er hagkerfinu skaðlegt, því að frá sparifénu kemur lánsfé bankanna til fjárfestinga og annars.  Hinu opinbera ber að efla ráðdeild og sparnað, og þess vegna ber að lækka skattheimtu af eignatekjum hvers konar niður í 10 %, nema stjórnin vilji þurrð í bönkum og auknar fjárfestingar í listaverkum.

Tekjuskattur fyrirtækja var hækkaður af vinstri stjórninni, eins og allir aðrir skattar, enda hefur ferill þessarar dæmalausu ríkisstjórnar einkennzt af furðulegum fjandskap við atvinnulífið.  Ríkisstjórnarflokkarnir, sem báðir eru vinstra megin við velsæmi, þó að þeir sleiki óæðri endann á evrópsku auðvaldi hvor sem betur getur, líta nefnilega ekki á skattkerfi sem tekjuöflunartæki fyrir hið opinbera, heldur eins konar útjöfnunartæki á fátækt og beinlínis sem refsivönd á dugnað og velgengni. Öfundin er þeirra Akkilesarhæll. Skattkerfið er stjórntæki vinstri manna til að hafa hemil á þegnunum.  Þetta er viðbjóðsleg forræðishyggja og kjarninn í jafnaðarstefnunni, hverrar ær og kýr eru ekki að hækka meðaltal tekna, heldur að jafna tekjur. Kerfið ber dauðann í sér, en alltaf eru einhverjir kjánar tilbúnir að lyfta þessum tjásulega rauða fána.  

Gallinn við þessa stefnu er sá, að hún leiðir alls staðar til lækkunar meðaltalsins og stöðnunar hagkerfisins.  Sviþjóð "socialdemokratanna" er nærtækasta dæmið um þetta.  Undir stjórn borgaralegu flokkanna hefur Svíþjóð síðan risið úr öskustó á síðustu 6 árum.  Noregur undir stjórn jafnaðarmanna er á sterum olíu-og gaslindanna.  Innviðir norska samfélagsins eru þess vegna tæknilega og félagslega ótraustir og að sumu leyti lélegir, t.d. vegakerfið með aksturstollhlið út um allt og hrikalegur fjöldi innflytjenda, sem margir hafa sagt sig til sveitar, en neita að laga sig að norska þjóðfélaginu.  

Norsk fyrirtæki eru mörg fremur veik vegna hágengis og háskatta.  Venjulegur atvinnurekstur á bágt með að keppa við olíugeirann. Norskur sjávarútvegur er niðurgreiddur.  Spenna ríkir í norska þjóðfélaginu vegna innflytjendafjöldans og lífsafstöðu innflytjenda.  Menn botna ekki í, hvaða erindi þeir eiga til Noregs. Í heilu hverfunum og skólunum í borgum og bæjum er ekki lengur töluð norska. Jafnaðarstefnan er þarna að verki, og sú er stórhættuleg þjóðfélagslegum og efnahagslegum stöðugleika til lengdar.  Einkunnarorð hennar eru: "flýtur á meðan ekki sekkur". 

Margsannað er, að tekjumunur, sem leiðir af hvötum til að leggja meira á sig, virkar hagvaxtarhvetjandi og er þar með öllum í hag, þegar upp er staðið. Tekjuskatt fyrirtækja verður að lækka niður í 10 %-15 % til að draga hingað fjárfestingarfé.  Það þarf að virkja sem allra flesta til sem mestrar þátttöku í athafnalífinu og í þjóðlífinu almennt.  Til þess þarf hvata.

Virðisaukaskattur er líklega hvergi á byggðu bóli hærri en á Íslandi.  Hann er svo hár, að töluverð freisting er að ganga á svig við hann í viðskiptum manna á milli.  Skatttekjur af honum mundu þess vegna líklega til lengdar ekkert lækka, þó að þessi skattheimta yrði lækkuð um ein 5 % til að gera verzlun á Íslandi örlítið meira aðlaðandi fyrir Íslendinga og jafnvel ferðamenn, þó að þeir geti fengið sumt endurgreitt.

Verðlagið á Íslandi er auðvitað allt of hátt og þess vegna ber fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar (enginn ætlast til neins af nokkru viti af núverandi, enda er hún sem lifandi lík) að grisja verulega frumskóg opinberra gjalda, s.s. vörugjöld, og að taka tollskrána til gagngerrar endurskoðunar með lækkun að markmiði.  Það yrði liður í að gera Ísland samkeppnihæfara um fólk.  Ekki má gleyma álögunum á eldsneytið, sem tekið hafa út yfir allan þjófabálk.  Þessar álögur eru mjög íþyngjandi fyrir atvinnulífið og heimilin, ekki sízt í dreifbýli. Vinstri menn hata einkabílinn, en gleyma, að hérlendis eru engar járnbrautarlestir.  Þess vegna má ekki hækka eldsneytiskostnað almennings í forræðishyggjulegri tilraun til að breyta neyzlumynztri hans. Hið nýjasta í þessum efnum kom frá vitsmunabrekkum Jóns Gnarrs.  Þær vilja keppa að lakari nýtingu bílastæðanna í miðborg Reykjavíkur með 50 % hækkun stöðumælagjalds. Úr einfeldningslegu andliti boðbera þessara tíðinda skein, að hann trúir þeirri vitleysu sjálfur, að eftir 50 % hækkun muni fleiri nota stæðin.  Boðskapurinn var ein hringavitleysa.     

Skattalækkanir borgaralegrar ríkisstjórnar mundu aðeins um skamma hríð lækka tekjur ríkissjóðs, því að öll umsvif í þjóðfélaginu mundu taka við sér, sem ylli hagvexti, og skattskil mundu batna, sem er nauðsyn.  Aðgerðirnar mundu stækka skattgrunninn.  Þetta er sú leið, sem sjálfstæðismenn vilja fara til að koma rekstri hins opinbera, ríkis og margra sveitarfélaga, á réttan kjöl, og til að auka ráðstöfunartekjur almennings, sem fyrir löngu er orðið tímabært að losa úr kreppuböndum téðrar óhefluðu vinstri stjórnar.

Hin hliðin á peninginum er ráðstöfun skattfjárins, og líklegt er, að nýstofnað félag skattgreiðenda muni tjá sig verulega um þann þáttinn einnig.  Í höndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefur meðferðin á ríkissjóði verið fyrir neðan allar hellur, eins og 90 mia hallarekstur 2011 ber ljósan vott um.  Kostnaðurinn við stjórnarskráarbreytingar er allt of hár m.v. afrakstur.  Ódýrara og árangursríkara er að fá stjórnlagafræðinga til að vinna að breytingum í umboði Alþingis, sem síðan mundi fjalla um breytingarnar.  Það er skynsamlegra að gína ekki yfir öllu, heldur afmarka verkefnið, t.d. við forsetaembættið, stjórnlagadómstól, seðlabanka, fjármálastöðugleika, rekstur ríkissjóðs, þjóðaratkvæðagreiðslur, kjördæmaskipan, fjölda þingmanna og þrígreiningu ríkisvaldsins.

Alla kostnaðarþætti ríkisins þarf að greina og meta nauðsyn þeirra fyrir samfélagið, og hvort lækka megi tilkostnað með markaðslegum ráðum án þess að lífsgæði almennings minnki.

Einu geta þó Íslendingar hrósað happi yfir, en það er að standa utan ESB og evrusamstarfs.  Sú aðild hefði orðið okkur dýrkeypt (og aðildaviðræðurnar eru auðvitað hrein sóun á skattfé og tíma stjórnsýslu-alger skemmdarverkastarfsemi jafnaðarmanna).  Nú er að koma í ljós, að Norður-Evrópa kastar perlum fyrir svín.  Hundruðum milljarða evra er kastað í botnlausa hít.  Lunginn úr fénu til Suður-Evrópu mun aldrei fást endurgreiddur.  Tjón Norður-Evrópu í þjóðargjaldþrotum Suður-Evrópu gæti numið 1000 miö evra. Þess vegna er Moody´s að boða lækkun á lánshæfismati Þýzkalands, Hollands og Lúxemorgar.  Finnar hafa heimtað traustari tryggingar, og þess vegna halda þeir AAA-stöðugum horfum. 

Nú mun andstaðan við þessa fjármunasóun skattborgara Þýzkalands magnast.  Peningaausturinn verður stöðvaður.  Þjóðagjaldþrot sunnan Alpa og Pýreneafjalla og jafnvel vestan Rínar blasir við.  Evran splundrast í tætlur.  Þar með verður ESB ekki svipur hjá sjón.  Bretar draga enn einu sinni lengsta stráið. Á myndinni hér að neðan er íslenzkt afreksfólk statt í höfuðborg Bretaveldis.    Ragna Ingólfsdóttir og Ólafur Ragnar, forseti     

 

 

         

   


Bloggfærslur 26. júlí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband