Fjárlögin 2014

Laugarvatnsstjórnin kann til verka, en það er meira en hægt var að segja um Jóhönnustjórnina á undan henni.  Hún vann allt með öfugum klónum og stóð hér að fjögurra ára hörmungartímabili, eins konar Móðuharðindum af mannavöldum.  Það gerði hún með niðurrifsstarfsemi á öllum sviðum.  Hún hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi á fólk og fyrirtæki, og hún ofsótti atvinnulífið.  Það virðist þó e.t.v. mótsagnakennt, að skatttekjur ríkissjóðs 2014 verða líklega hærri en 2013 þrátt fyrir vissar skattalækkanir til að örva hagkerfið.

Fyrri ríkisstjórn sýndi bleyðuhátt gagnvart alþjóðlegu fjármálavaldi, sem kom fram í því að semja við það um að láta íslenzka skattborgara ábyrgjast hundruði milljarða króna til greiðslu á skuldum óreiðumanna, sem suma hverja er nú réttilega búið að dæma um árabil á bak við lás og slá, og hún dekraði við kröfuhafa föllnu bankanna með því að hlífa þeim einum við skattasugu sinni.  Þar sýndi hún alvarlegan dómgreindarbrest, því að kröfuhafarnir geta komið sér hjá skattinum með því að óska gjaldþrotaskipta, en það hafa þeir ekki gert, af því að þeir njóta undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að flytja tekjur sínar af starfsemi bankanna til útlanda.  Allt er þetta í boði vinstri stjórnarinnar, sálugu.  Þessir sömu stjórnmálamenn berja sér nú á brjóst á Alþingi og telja sig þess umkomna að vanda um við þá, sem skipulega og af eindrægni koma nú hjólum atvinnulífsins í gang. Ja, svei aftan ! 

Til marks um þau vatnaskil í efnahagsmálunum, sem eru nú að verða, er meiri hagvöxtur á Íslandi á 3. ársfjórðungi 2013 en nokkurs staðar annars staðar á Vesturlöndum, og jákvæðari viðskiptajöfnuður var þá en áður hefur sézt.  Þetta ásamt algerum viðsnúningi í stjórn ríkisfjármálanna mun leggja góðan grunn að skuldalækkun ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila í landinu, sem er forsenda fyrir sjálfbærum búskapi í þessu landi.  Að greiða erlendum lánadrottnum 70-100 milljarða króna á hverju ári úr ríkissjóði hamlar sókn landsmanna til betri lífskjara.  Stefna núverandi ríkisstjórnar, Laugarvatnsstjórnarinnar, er reist á þeim sannindum, að þjóðin getur aðeins framleitt sig út úr vandanum, ef svo má að orði komast, en það er ekki unnt að skattleggja hana út úr vanda sínum, og það er vissulega ekki hægt að gera hvort tveggja.  

Til marks um þann viðsnúning hagkerfisins, sem nú á sér stað, er frásögn Morgunblaðsins þann 14. desember 2013 af samningi Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði við Skagann á Akranesi um hönnun, smíði, uppsetningu, prófanir og gangsetningu á sjálfvirku kerfi fyrir vinnslu á uppsjávartegundum í verksmiðju fyrirtækisins.  

"Samningur fyrirtækjanna er stærsti einstaki samningur, sem Skaginn hefur gert við íslenzkt sjávarútvegsfyrirtæki um framleiðslu og sölu á hátæknibúnaði til fiskvinnslu.  Um 100 manns hjá Skaganum og systurfyrirtækinu Þorgeiri og Ellerti munu starfa við verkefnið, en einnig starfsmenn fleiri fyrirtækja á Akranesi."   

Þá sagði Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans:

"Þessi uppsjávarlína er í raun einstök og það, sem við gerum bezt.  Árið 2012 varð búnaðurinn útflutningsvara, er við gerðum okkar stærsta einstaka samning til þessa við Varðann á Þvereyri í Færeyjum.  Sú verksmiðja var stækkuð síðastliðið sumar og afkastar nú 1000 t á sólarhring.  Hún er þar með orðin stærsta uppsjávarvinnsla í heimi."   

Þá, sem skoðað hafa sjávarútvegssýningar hérlendis, þarf ekki að undra á þessari velgengni Skagans.  Skaginn er gott dæmi um fyrirtæki, sem kann að búa til samkeppnihæfa hátæknivöru á Íslandi og markaðssetja hana með góðum árangri innanlands sem utan.  Starfsemi af þessu tagi er hornsteinn í hagkerfinu, sem breytir íslenzku hugviti og verkviti í verðmæta afurð, sem eykur framleiðni og verðmætasköpun hér innanlands og/eða aflar beinharðs gjaldeyris.  Bókvitið verður í askana látið.

Það er ein af grunnauðlindum Íslands, lífríkið í fiskveiðilögsögunni, sem stendur undir þessari fjárfestingu.  Vinstri menn átta sig ekki á því, að til að fyrirtæki geti fjárfest, verða þau að skila ágóða af rekstri sínum.  Formaður Samfylkingarinnar, fyrrverandi ráðgjafi Íbúðalánasjóðs, býsnast á hagnaði fyrirtækja í veiðum og vinnslu.  Hagnaður þeirra fyrir skatta nam á árinu 2012 kr 47 milljörðum.  Heildarskuldir sjávarútvegs voru í árslok 2012 kr 429 milljarðar og eignir kr 535 milljarðar.  Téður hagnaður nam þess vegna 9 % af eignum, sem ekki getur talizt hátt hlutfall.

   Fyrirtækið Skinney-Þinganes á rétt á ákveðinni aflahlutdeild í lögsögu Íslands.  Þennan rétt vildu vinstri flokkarnir helzt afnema, og Jóhönnustjórnin hækkaði skattheimtu af þessum rétti  svo gríðarlega, að fjárfestingargeta stóru fyrirtækjanna í bolfiskveiðum var stórskert, og tilveru hinna minni var stórlega ógnað. 

Nú telja vinstri menn, að ríkið geti boðið upp réttinn til makrílveiða.  Þeim hinum sömu er hægt að benda á, að það voru ákveðnir útgerðarmenn, hérlendir, sem áttu frumkvæði að makrílveiðum hér við land og fjárfestu í þekkingu og tækjum til þessara veiða og vinnslu.  Ríkisvaldið kom ekkert að því máli og á ekki óveiddan fisk í sjó.  Þessi hugdetta vinstri manna er þess vegna ósanngjörn, og hún stenzt ekki lög landsins.

Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess, segir þetta um forsendur fjárfestingar, sem veitir yfir 100 manns á Akranesi vinnu í um hálft ár, eykur afkastagetu frystingar uppsjávarafla hjá Skinney-Þinganesi um 50 %, eykur framleiðni fyrirtækisins og bætir samkeppnihæfni þess á alþjóðlegum mörkuðum:

"Forsenda allra framkvæmda í sjávarútvegi er, að greinin fái að þróast eðlilega.  Stjórnarflokkarnir hafa lofað því, að festa komist á og að óvissu ljúki um veiðigjöld.  Við treystum því, að svo verði, og á þeim forsendum förum við út í þessar fjárfestingar."

Ljóst er, að með uppboði á makrílkvóta yrði grundvellinum kippt undan fjárfestingum á borð við þær, sem hér hefur verið lýst. Ofangreind orð Aðalsteins Ingólfssonar endurspegla þá staðreynd, að stefna og verk núverandi ríkisstjórnar er að þíða klakaböndin, sem hér gátu af sér staðnað hagkerfi og sífelldan ríkissjóðshalla þrátt fyrir sífellt argvítugri skattheimtu.  Nú er stefnan sett á vaxandi framleiðslu á öllum sviðum, einkum á sviðum gjaldeyrissköpunar og gjaldeyrissparnaðar.  Rauntekjur fjölskyldna, fyrirtækja og hins opinbera verða þá tryggðar með hagvexti, sem fitar skattstofnana.  Ef engin áföll dynja yfir, kemst skútan á næsta ári á þokkalega siglingu.

Góður afgangur á ríkisbúskapinum er forsenda þess, að landið rétti úr skuldakútinum.  Nú eru stjórnarflokkarnir á Alþingi að leggja grunninn að þessu með fjárhagslegu jafnvægi á fjárlögum 2014 í stað botnlausrar skuldasöfnunar óráðsíuflokkanna, sem nú þykjast geta gert betur en reyndin hefur verið á.  Það er á engan hallað, þó að fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, og formanns fjárveitingarnefndar, Vigdísar Hauksdóttur, sé getið sérstaklega í þessu sambandi.  Bæði hafa staðið í eldlínunni og staðið sig með sóma.  Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sýnt, að hann veldur viðamiklu embætti afar vel, og er sómi að framgöngu hans í hvívetna, hvort sem er innanlands eða utan.  

Meira hefur kveðið að formanni fjárlaganefndar núna en mörg undanfarin ár.  Sumpart stafar það af störfum hennar í hinni svo kölluðu hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, og sumpart af því, að hún talar tæpitungulaust um viðfangsefni líðandi stundar, um hraksmánarlega frammistöðu þingmeirihlutans 2009-2013, og hún hefur jafnframt skýra framtíðarsýn og kann að breyta orðum í efndir.

Vigdís Hauksdóttir á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, m.a. að gagnrýna fjárveitingar til svo kallaðrar þróunarhjálpar.  Erlendar athuganir hafa sýnt, að engan veginn er sama, hvernig að slíkum fjárveitingum til þróunarlanda er staðið og stór hluti þeirra fer í súginn, ef viðvaningslega er að verki verið. Aðalatriðið er þess vegna ekki upphæðin sjálf, heldur hvernig hún nýtist.  Þar sem annars staðar skipta gæðin meira máli en magnið. 

Það er í sjálfu sér ekki vert að sjá ofsjónum yfir aðstoð við bágstadda, ef vissa er um, að fjárveitingarnar nýtist vel, en lendi ekki í þeirri spillingarhít, sem landlæg er, því miður, á bágstöddum svæðum.  Það hafa birzt fréttir af hrikalegri sóun þróunarhjálpar, og betra er að lækka upphæðina og fylgja henni svo alla leið, en að hækka hana í átt að 0,7 % af VLF, eins og SÞ hafa ályktað um.  Bezt er, ef lungann úr upphæðinni er unnt að nota til að kaupa vörur og þjónustu hér innanlands til að styrkja bágstadda með í stað þess að stunda hæpnar peningasendingar.  Góð þekking á innviðum móttökusvæðisins er forsenda þess, að stuðningur nýtist til lengdar.

Vigdís hefur ekki dregið af sér, og beittur málflutningur hennar hefur framkallað hælbíta, sem sumir hafa verið svo rætnir að jafna verður til skítlegs eðlis.  Má segja, að perlum sé kastað fyrir svín, þegar Vigdís flytur meitlaðar ræður sínar.  Málfar hennar glitrar sem gull af eiri í samanburði við flatneskju,  hortitti og bjagað málfar sumra þeirra, sem hafa horn í síðu hennar.  Hér að neðan eru myndir af tveimur kvenskörungum á ólíkum sviðum, en legði pólfarinn fyrir sig pólitík, næði hún vafalaust þar á toppinn sem annars staðar.  

Vigdís í pontu AlþingisVilborg Arna Gissurardóttir, pólfari með meiru   

  

    

  

 

  

  

     


Bloggfærslur 15. desember 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband