23.12.2013 | 18:38
Heljarstökk
Um þessar mundir undirbýr Evrópusambandið, ESB, mesta heljarstökk sitt frá því, að evrunni var hleypt af stokkunum. Um er að ræða bankabandalag evru-landanna, þar sem löndum innan ESB án evru verður hleypt inn. Spurning er, hvort EES ríkjunum verður hleypt í þetta samstarf, eða hvort Svisslendingar, sem sópar að í bankaheiminum, kæra sig um aðild að bankabandalaginu, sem hleypa af stokkunum að ári.
Með þessu er ætlunin að flytja eftirlit, upplausnarvald og styrkingarheimildir fyrir fjármálafyrirtæki frá einstökum ríkjum og til seðlabankans í Frankfurt. Með á að fylgja þangað Evrópusjóðurinn til að ausa úr til þrautavara til að koma í veg fyrir fjármálalegan óstöðugleika og fall banka.
Hér er auðveldara um að ræða en í að komast. Þjóðverjar drógu lengi lappirnar og vildu ekki, að þýzkir sparisjóðir þyrftu að lúta þessu sameiginlega eftirliti, líklega af því að þar er maðkur í mysunni. Fyrir kosningarnar í september 2013 var hamrað á því í Þýzkalandi, að Þjóðverjar yrðu látnir standa sem fjárhagslegir bakhjarlar fyrir evrópskt bankakerfi á brauðfótum, en nú virðast þeir sjá sér hag í að raungera þennan væna áfanga á leiðinni að sambandsríki Evrópu, þó að það geti óneitanlega kostað þýzka skattgreiðendur útlát. Ekki verða því þó gerðir skórnir hér, að þessi stefnumörkun endurspegli stórveldisdrauma. Miklu líklegra er, að Berlín meti það svo, að bankabandalag Evrópu muni styrkja evruna í sessi, og er ekki talið af veita, eins og í pottinn er búið í mörgum evru-löndum nú um stundir, þar sem hagkerfi þeirra er hreinlega of veikburða til að búa við sterkan gjaldmiðil á borð við evru. Það hefur reynzt ríkjum bjarnargreiði að hleypa þeim inn vanbúnum. Það er annaðhvort fals eða vanþekking að baki fullyrðingum hérlandsmanna um, að það yrði landsmönnum hin mesta kjarabót að stökkva á evruna. Það er þó hverju orði sannara og mikið keppikefli, að sterkur gjaldmiðill lækkar innflutningsvörur í verði og eykur kaupmátt Íslendinga erlendis, en ef undirstaða gjaldmiðilsins er ekki réttlig fundin, þá verður mikið atvinnuleysi í landinu og erfitt að selja vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum. Við þurfum að feta svipaða braut og Þjóðverjar að ná verðstöðugleika og samkeppnihæfni með mikilli framleiðni og háum gæðum. Þá getum við tekið upp hvaða gjaldmiðil sem er að því tilskildu, að yfirvöld viðkomandi gjaldmiðils samþykki slíkt og að viðkomandi seðlabanki virki til þrautavara fyrir íslenzkt peningakerfi.
Bankabandalagsverkefni ESB var hleypt af stokkunum í júní 2012, þegar spænskir bankar stóðu hvað tæpast. Hlutverk bankabandalagsins er að rjúfa tengslin á milli ríkisstjórna og fjármálafyrirtækjanna, þannig að atburðir á borð við írska slysið þurfi ekki að endurtaka sig. Írski ríkissjóðurinn var að kröfu ESB látinn axla skuldir írskra banka í fjármálakreppunni haustið 2008 til að bjarga írskum bönkum úr lausafjárvanda, þegar fall írska bankakerfisins var talið geta haft keðjuverkandi áhrif í Evrópu og víðar. Til þess fengu Írar mjög há og dýr lán hjá EB og AGS, sem þeir verða lengi að bíta úr nálinni með. Írska leiðin er nú mönnum víti til varnaðar.
Eins og kunnugt er, lagði ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde fyrir Alþingi að láta skipta föllnu bönkunum upp, flytja íslenzkar skuldir bankanna, innistæður og útlán með afföllum inn í nýja íslenzka banka og láta erlendar skuldir róa með lánadrottnunum. Þetta var íslenzka leiðin. Ríkisstjórn Geirs og Alþingi sigldu gegn mjög miklu alþjóðlegu andstreymi við þessar aðgerðir, ekki sízt frá ESB, af því að allar erlendar ríkisstjórnir og fjármálastofnanir töldu, að þetta gæti haft slæmar afleiðingar á fjármálakerfi Evrópu og veitt slæmt fordæmi.
Nú er komið í ljós, að þjóðhagslega var þetta bezta lausnin og andstætt svartagallsrausi vinstri flokkanna á Íslandi, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem lögðu sig í framkróka við að smeygja ríkisábyrgð á skuldir föllnu bankanna og buktuðu sig þannig og beygðu fyrir erlendum ríkisstjórnum og kommissörum ESB af fádæma undirgefni, sem sennilega má kenna við landráð. Hvernig væri að leyfa Steingrími Jóhanni og Jóhönnu Sigurðardóttur að bera glóandi járn fyrir Landsdómi og bergja þannig á eigin miði ?
Aðgerðir Alþingis haustið 2008 voru dæmdar löglegar að alþjóðarétti af EFTA-dómstólinum í janúar 2013. Öll var þessi furðulega hegðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til þess fallin að ganga í augun á búrókrötunum í Brüssel til að auðvelda aðildarviðræðurnar, sem hvorki gekk né rak með, og þessar óheillakrákur, Jóhanna, Steingrímur, Katrín Jakobsdóttir og Össur reyndust algerlega ófær um að leiða til lykta fremur en annað, sem þau tóku sér fyrir hendur. Óþarft er að minnast á garminn Ketil skræk í þessu sambandi, fyrrverandi ráðgjafa hins hroðalega illa rekna Íbúðalánasjóðs, en stjórnarandstaða hans er ekki burðugri en ráðherradómurinn, og var þá ekki úr háum söðli að detta.
Núna eru mun hærri vextir á Norður-Ítalíu, sem og á Ítalíu allri, en norðan landamæranna í Ölpunum, Austurríkismegin, svo að dæmi sé tekið. Þetta og margt fleira veldur núningi á milli norður- og suðurhluta evrusvæðisins, sem er svo svæsinn, að á öllu evrusvæðinu er umræða um upplausn þess. Með bankabandalaginu er ætlunin að draga úr þessum vaxtamuni og helzt að eyða honum.
Bankabandalag ESB krefst þess af Þjóðverjum og öðrum lánadrottnararíkjum innan ESB, að þau gangi í ábyrgð fyrir skuldararíkin og að þau hætti að hygla eigin bönkum. Þetta hefur lengi staðið í Þjóðverjum, en þeir hafa nú kokgleypt þessar skuldbindingar gegn því, að evrubankinn í Frankfurt hafi eftirlitsskyldum að gegna og fái upplausnarvald yfir 130 stærstu bönkunum og geti hlutazt til um rekstur allra annarra banka á evrusvæðinu, sem eru nokkur þúsund talsins.
Það er önnur saga, að Þjóðverjar eru alls ekki einráðir um stjórnun evrubankans, heldur sitja í æðsta ráði bankans seðlabankastjórar allra evrulandanna og 6 manna framkvæmdastjórn hans. Þjóðverjar hafa að vísu nú fengið því framgengt, að atkvæðavægið verður ekki jafnt, heldur nokkru nær stærðarhlutföllum hagkerfanna. Sem dæmi að taka er hagkerfi Þýzkalands um 100 sinnum stærra en Lettlands, sem taka mun upp evru nú um áramótin, en Þjóðverjar munu hafa minna en tvöfalt atkvæðavægi á við Letta. Margir Þjóðverjar hafa áhyggjur af því að verða ofurliði bornir í mikilvægum atkvæðagreiðslum í æðsta ráði bankans.
Á vegum bankabandalagsins verður gagnkvæm innistæðutrygging allra evrulandanna. Bankar evrulandanna munu að þessu leyti búa við svipað kerfi og bankar í Bandaríkjunum.
Þjóðverjar hafa hingað til barizt fyrir því, að völdin yfir þýzkum peningum væru í þýzkum höndum. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, hefur sagt, að bankabandalagið ætti að vera úr timbri, en að hafa það úr stáli mundi útheimta breytingar á sáttmálum ESB. Nú hefur hann samþykkt, að gagnkvæm ábyrgð myndist smám saman á 10 árum með EUR 55 milljarða sjóði að bakhjarli. Hann hefur þó ekki samþykkt, að þetta fé komi frá skattgreiðendum, heldur bönkunum sjálfum. Ef banki fer á hausinn, mun þó ofangreindur bakhjarl aðeins tryggja innistæðurnar, en hvorki hluthafa bankans né lánadrottna hans. Ekki verður annað séð en þetta sé keimlíkt íslenzku leiðinni frá 2008, sem allt ætlaði vitlaust að verða út af á sinni tíð.
Í fersku minni er meðferð Breta á Íslendingum haustið 2008, en þá hljóp brezki ríkissjóðurinn undir bagga með öllum illa stöddum bönkum á Bretlandi, en lét útibú íslenzku bankanna sigla sinn sjó. Mörgum hefur verið þessi hegðun hrein ráðgáta, því að gott samband hefur alla tíð verið á milli Englandsbanka og íslenzkra bankayfirvalda, þ.e. Seðlabanka Íslands eftir stofnun hans. Er skemmst að minnast, að Ísland var í myntbandalagi við Bretland á 3. áratugi 20. aldarinnar. Að tengjast sterlingspundinu kann að verða bæði fýsilegt og raunhæft eftir afnám gjaldeyrishaftanna, ef stöðugleiki næst í íslenzka hagkerfinu, eins og grunnur hefur nú verið lagður að, hvað sem verður.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Bretar reka öfluga leyniþjónustu innanlands og utan, MI5 og MI6. Nú hefur sú getgáta verið viðruð opinberlega, að brezku ríkisstjórninni hafi borizt um það upplýsingar, að stundað væri stórfellt peningaþvætti í íslenzkum bönkum, þar sem fé frá Rússlandi ætti í hlut. Háð umfangi þessarar starfsemi gæti þessi vitneskja skýrt beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenzku bönkunum og gegn Íslandi, þar sem Bretar torvelduðu greiðslumiðlun til og frá Íslandi eftir megni. Hvers vegna hefur sannleikurinn í þessu máli ekki verið opinberaður ? Til náinnar gjaldeyrissamvinnu við Breta getur ekki komið fyrr en fullnægjandi skýring hefur á framferði Breta fengizt, og sýnt hefur verið fram á, að ríkisstjórn Verkamannaflokksins, Samfylkingar Bretanna, hafi haft málefnalegar ástæður fyrir gjörðum sínum; ella verður opinber afsökunarbeiðni að koma seint og um síðir, því að fruntaháttur og meiðandi aðgerðir brezka fjármálaráðherrans urðu Íslendingum þungar í skauti.
Bankabandalagið mun styrkja evruna, en ekki leysa evrukreppuna, sem enn er á alvarlegu stigi. Upptaka evru á Íslandi verður ögn fýsilegri, en engan veginn nógu fýsileg, þegar á allt er litið, til að mæla með upptöku hennar. Á evrusvæðinu gæti orðið mikið öldurót á komandi ári, og samkvæmt reglum ESB-sjálfs er full aðild að Evrópusambandinu skilyrði þess að evrubankinn verði fjárhagslegur bakhjarl að bankakerfi lands, sem gerir evru að lögeyri sínum. Fyrrverandi ríkisstjórn, Jóhönnustjórninni, varð ekkert ágengt í aðildarviðræðunum við ESB, og núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, hefur allt aðra forgangsröðun með réttu. Það er auðvitað með öllu ótækt að ætla að fara inn í ESB á hækjum. Enn fullnægjum við engu Maastricht-skilyrðanna, en það ætti að setja það á dagskrá að fullnægja þeim öllum fyrir árið 2020. Skipulega er nú hvert skrefið á fætur öðru tekið í þá átt. Þá verður líka mikið vatn runnið til sjávar í Evrópu, og valdahlutföll á milli Þjóðverja, Breta, Frakka og Rússa tekin að skýrast ásamt framtíðarfyrirkomulagi ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)