Gleðiríkt samband

Það væri synd að segja, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem tók við völdum 10. maí 2009, séu spámannlega vaxnir.  Þeir spáðu hér efnahagslegu alkuli og Íslandi sem "Kúbu norðursins", nema landsmenn létu að vilja Breta og Hollendinga og fylgdu þáverandi stefnu búrókratanna í Berlaymont um ríkisábyrgð á tryggingasjóði innistæðueigenda, sem flestum Íslendingum þótti ærið ósanngjörn og framfylgt af ósvífni á tíðum.  

Annað kom á daginn, 28. janúar 2013, um hinn lagalega rétt málsins, enda stóðu rökfastar álitsgerðir virtra lögspekinga til þess, að engar löglegar kvaðir stæðu á ríkissjóðum EES-landanna um slíkt.  Ráðherrar og allt þinglið jafnaðarmanna og vinstri grænna opinberuðu þarna yfirþyrmandi dómgreindarskort sinn.  Lýðræðisástin var þá ekki meiri en svo hjá vinstri flokkunum, að þeir vildu alls ekki leyfa þjóðinni að tjá vilja sinn í þessum efnum.  Sjálfstæðisflokkurinn barðist hins vegar hart gegn Icesave-samningunum  í sínum verstu myndum, og hann barðist fyrir því á þingi á öllum stigum málsins, að Icesave-málinu yrði vísað í þjóðaratkvæði.  Forseti lýðveldisins reyndist sama sinnis, og þess vegna tókst afturhaldinu við stjórnvölinn ekki ætlunarverk sitt: að smeygja fátæktarfjötrum um háls komandi kynslóða landsins og gera Sjálfstæðisflokkinn að eilífum blóraböggli fyrir vikið. 

Landsmenn hafa búið við þá ógæfu nú frá 1. febrúar 2009, þegar Framsóknarflokkurinn leiddi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím Jóhann Sigfússon til valda, sem aldrei skyldi verið hafa, að eins máls flokkur hefur síðan farið fyrir stjórn landsins.  Það er óþarfi að tíunda hér, hvert málið eina er hjá eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum.  Árni Páll Árnason, sem misheppnaðasta pólitíska par seinni tíma á Íslandi, rak úr ríkisstjórn sinni, er beizkur, af því að hann skynjar, að kjörtímabilið, sem nú er við endimark, er tími hinna glötuðu tækifæra.  Árni, beizkur, hefur samt ekki pólitískt þrek til að viðurkenna, að málið eina, flokksins hans, er fallið á tíma.  Hann getur huggað sig við það, að aðlögun Íslands að stjórnkerfi ESB hefur haft sinn gang, og spurning, hversu mikið þrek verður til að vinda ofan af því, þar sem fjölmörg afar brýn stórverkefni bíða nýrrar ríkisstjórnar eftir dáðleysi undanfarinna ára.

Aðlögunarferlið að Evrópusambandinu, ESB, er farið út um þúfur.  Það, sem komið hefur út úr "samningaviðræðunum" hingað til, er, að Íslendingar fá varanlega heimild til að halda í Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, ÁTVR.  Sumir mundu nú segja, að úr því að ekki var einu sinni hægt að fá ESB til að færa verzlun með áfengi í evrópskt horf hérlendis (Noregur og Svíþjóð eru undantekning), þá séu þessar viðræður vita gagnslausar.

Málið er hins vegar, að erfiðu málefnakaflarnir, t.d. um landbúnað og sjávarútveg, voru ekki einu sinni opnaðir, af því að ESB féllst ekki á samningsmarkmið Íslendinga þar.  Alþingi nestaði utanríkisráðherra með samningsmarkmiðum um fiskveiðistjórnun, verndun dýrastofna og sjúkdómavarnir, sem Stefan Füle, stækkunarstjóri ESB, hefur ekki fellt sig við.  Þetta er skýringin á því, að EES-landið Ísland hefur nú staðið í aðlögun að ESB í 4 ár á sviðum, þar sem landið hafði að mestu lagað sig að ESB vegna aðildarinnar að EES, evrópska efnahagssvæðinu, sem er yzta lag ESB.  Þetta er fádæma hægagangur, sem sýnir í hnotskurn, hversu illa var vandað til málsins í upphafi.  Ætíð sannast heilræði Hallgríms Péturssonar: "það varðar mest til allra hluta, að undirstaðan sé réttlig fundin".

Það var í upphafi óðs manns æði að sækja um aðild að ESB af ríkisstjórn með Vinstri hreyfinguna grænt framboð innanborðs.  Á Alþingi, sem kosið var fyrir 4 árum, var ekki meirihluti fyrir því að aðlaga allt stjórnkerfi Íslands að kröfum ESB.  Spurningin, sem Íslendingar verða að gera upp við sig, er sú, hvort þeir vilji fara í aðlögunarferli að ESB.  Það er einfeldningsleg blekkingartilraun að láta, eins og um eitthvað sé að semja. 

Aðlögunin er komin ótrúlega stutt miðað við allan þann tíma og fjármuni, sem veittur hefur verið til viðfangsefnisins, af því að ESB taldi Íslendinga ekki vera tilbúna fyrir erfiðu kaflana.  Hér var allan tímann um að ræða "Mission Impossible", og nú er allt strandað.  Árna, beizk, og utanríkisráðherrann skortir hins vegar djörfung og raunsæi til að játa sig sigraða.  Þá yrðu þeir nefnilega að éta mjög mikið ofan í sig, og kjölfestan færi úr eitraða peðinu.

ESB-þráhyggja jafnaðarmanna, sem ekki er lengur reist á neinum rökum, gerir Samfylkinguna að eitraða peðinu í íslenzkum stjórnmálum um þessar mundir.  Enginn getur unnið með jafnaðarmönnum að hugðarefnum þeirra án þess að bíða afhroð sjálfur.  Þetta gerðist með Sjálfstæðisflokkinn 2007-2009, þegar eitraða peðið heimtaði sinnaskipti af samstarfsflokki sínum, en Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem fer með æðsta valdið um málefni flokksins, hafnaði því að söðla um, enda hefði flokkurinn þá hrokkið af undirstöðu sinni, sem lögð var árið 1929.

Íslenzkir jafnaðarmenn virðast vera fúsir til að fórna fullveldi Íslands varðandi auðlindir landsins, þ.e. að Ísland undirgangist CFP, Common Fisheries Policy, eða sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, sem er ein af grunnstoðum ESB og þess vegna "aquis", það sem þegar hefur verið samið um og er þess vegna óumsemjanlegt.  Á meðan svo er, verður flokkur Árna, beizks, eitraða peðið í íslenzkum stjórnmálum, sem enginn vill koma nálægt.  Þarna liggur átakalínan um auðlindir Íslands.  Verður síðasta orðið um nýtingu þeirra í Reykjavík eða í Brüssel ?  Spyrjið Breta um, hver reynsla þeirra er af auðlindastjórnun búrókratanna í Brüssel.   

Að þessu sögðu verður að taka fram, að fáránlegt væri hér að fullyrða, að afstaða Íslands til ESB gæti ekki breytzt, t.d. á þessum áratugi.  Ástæðan er sú, að ESB er í gerjun.  Berlaymont og Seðlabanki evrunnar í Frankfurt reka mikla aðhaldsstefnu í fjármálum, sem fellur ýmsum evruþjóðanna illa í geð, einkum rómönskum, keltneskum og grískumælandi þjóðum, en germönsku þjóðirnar ráða ferðinni enn sem komið er.  Engilsaxar, sem Íslendingar hafa náin viðskiptaleg, menningarleg og stjórnmálaleg samskipti við, sitja á gerðinu og hugsa sitt ráð.  Ríkisstjórn Engilsaxa er samsteypustjórn, aldrei þessu vant, þar sem annar flokkurinn, Íhaldsflokkurinn, er mjög gagnrýninn á samþjöppun valds í Berlaymont byggingunni í Brüssel, en hinn flokkurinn, Frjálslyndir, er ESB-sinnaður.  Samt stefnir David Cameron, forsætisráðherra Breta, á að freista þess að semja við ESB um endurheimtur valda til brezka þingsins, og síðan eftir næstu þingkosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Breta að ESB; auðvitað að því gefnu, að Íhaldsflokkurinn vinni þingkosningarnar. 

Það er alveg áreiðanlegt, að vandamál ESB og evrunnar eru svo yfirþyrmandi, að ESB stenzt ekki í sinni núverandi mynd.  Evru-löndin eru að verða argvítugri kreppu að bráð, sem bæði er af stjórnmálalegum og efnahagslegum toga, og ef stjórnmálamönnum tekst ekki að finna lausn, þá verður uppreisn í einhverju landanna, sem síðan mun breiðast út.  Vegna þessa ástands munu allir, búrókratar í Berlaymont meðtaldir, að undanskildum Árna, beizk & Co., verða guðsfegnir, þegar nýtt Alþingi afturkallar heimild til ríkisstjórnarinnar um frekari aðlögun Íslands að ESB.  Þetta sama Alþingi mun svo biðja um umboð þjóðarinnar eða höfnun á því að fara í fulla aðlögun að ESB, en ekki leggja spurningu fyrir þjóðina, sem stríðir gegn reglum ESB um aðildarferlið.

Þorsteinn Þorgeirsson, sérstakur ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands, ritar athygliverða grein í Morgunblaðið þann 17. apríl 2013, sem útskýrir harða stefnu Bundesbank, þýzka seðlabankans, og ECB, Seðlabanka evrunnar í Frankfurt:

"Það er vel þekkt í hagfræði, að miklar skuldir leiða til þess, að vextir hækka, en það dregur úr hagvexti og velferð.  Rannsókn Carmen Reinhart, Vincent Reinhart og Kenneth Rogoff frá árinu 2012, sýnir, að fari skuldir ríkissjóðs yfir 90 % af landsframleiðslu um fimm ára skeið, hefur það áhrif til að lækka hagvöxt um 1 % á ári.  Sama ár gerðu Pier Carlo Padoan, Urban Sila og Paul van den Noord ítarlega rannsókn á sambandi opinberra skulda og hagvaxtar á grundvelli gagna fyrir öll OECD-ríkin, þ.m.t. Ísland, yfir 50 ára tímabil, 1961-2011.  Þar kom í ljós, að opinberar skuldir geta verið annaðhvort í góðu eða slæmu jafnvægi.  Ef skuldir eru hóflegar og dregur úr þeim, lækka vextir, og hagvöxtur verður meiri, sem síðan leiðir til þess, að skuldirnar minnka meira.  Það er hið góða jafnvægi.  Rannsókn þeirra leiddi einnig í ljós, að verði skuldir of miklar, geta þær orðið óviðráðanlegar.  Þá hækka vextir og hagvöxtur minnkar.  Við það aukast skuldirnar, og ferlið getur orðið stjórnlaust.  Það er hið slæma jafnvægi.  Fórnirnar, sem þarf að færa til að ná tökum á fjármálum í slæmu jafnvægi verða margfalt meiri."

Hér sjáum við í hnotskurn, hvað býr að baki aðgerða þríeykisins, ESB, AGS og ECU, gagnvart jaðarríkjum evrusvæðisins í vanda.  Hvort er betra að fá á sig spennitreyju, sem klæðskerasaumuð er af þríeykinu, eða í krafti fullveldis eigin lands að klæðskerasauma sjálf eigin flík ?  Það eru öll teikn á lofti um, að Ísland sé, eftir fjögurra ára óstjórn efnahagsmála, í hinu "slæma jafnvægi", og okkur ríður á að snúa sem allra fyrst af þeirri ógæfubraut til að lenda ekki í klónum á lánadrottnum okkar og AGS aftur.  Afturhaldið hafði enga burði til að fást við þetta risaverkefni á árunum 2009-2013, þó að ekki vantaði, að það barmaði sér vegna álags í ráðherraembættum.  Þau kunnu ekki að vinna og eyddu orku, tíma og fjármunum hins opinbera í aukaatriði og í niðurrif samfélagsstoðanna. 

Nú standa margir frammi fyrir því að gera upp við sig, hvernig þeir stuðla bezt að farsælli úrlausn á risavöxnum viðfangsefnum íslenzka samfélagsins með atkvæði sínu laugardaginn 27. apríl 2013.  Það er hægt að gefa einfalda uppskrift.  Það er líklegast til árangurs að leysa sem allra mestan kraft úr læðingi í athafnalífinu til að sem mest verði til skiptanna á milli landsins og barna og hins opinbera.      

Listakjör

 

  

         

      

  

      

 


Bloggfærslur 23. apríl 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband