16.6.2013 | 13:47
Fruntaháttur fréttamanns
Framferði Sigríðar Hagalín Björnsdóttur á Bessastöðum í gær var fyrir neðan allar hellur. Hún gekk þar í skrokk á forsetahjónunum, eins og þau væru lögbrjótar. Ókurteisi og dónaskapur fréttamanna ríður ekki við einteyming, ef reyna á að koma stjórnmálalegu höggi á andstæðinga RÚV, en svo virðist sem forseti lýðveldisins eigi ekki upp á pallborðið hjá sumum fréttamönnum um þessar mundir. Hann hefur t.d. bent á nýja fleti í samskiptum ESB og Íslands, og slíkt virðist ekki vera til vinsælda fallið í vissum kreðsum.
Það er alrangt, sem haldið hefur verið fram, að forsetahjónin hafi notið sérmeðferðar yfirvalda, þegar Dorrit flutti lögheimili sitt til Stóra-Bretlands. Öllum íslenzkum hjónum stendur þetta vandræðalaust til boða, og það er ekki eins og forsetafrúin hafi verið að flýja í skattaskjól, því að tvísköttunarsamningur Íslands og Bretlands er í gildi.
Það er hrein háðung á 21. öldinni að þvinga hjón til að hafa sama lögheimili. Moldviðrið í kringum þetta mál forsetahjónanna, sem á að vera þeirra einkamál, sýnir, hversu grunnt er á miðaldahugarfari og jafnvel svartnætti í opinberri umræðu á Íslandi. Galdrafár miðalda og átthagafjötrar koma í hugann. Það ber þegar í stað að afnema lögin um þetta efni, vegna þess að það er ekkert farið eftir þeim og þau eru úrelt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)