Dósent drepur niður penna

Landsmenn hafa mátt búa við það frá Hruni, að gelli í dósenti nokkrum, Jóni Steinssyni, frá Columbia háskóla í Nýju Jórvík á öldum ljósvakans í hvert sinn, sem RÚVurum hefur þótt þörf á að bæta í vinstri slagsíðu hins íslenzka Tass-útvarps nútímans.  Fræðimannahroki hins vesturheimska dósents leynir sér hvergi, en meir er hann grunaður um stjórnmálalega slagsíðu en fræðilega. 

Téður dósent drap niður penna í Fréttablaðinu 15. júní 2013.  Grein þessi er engum dósent fræðilega sæmandi að mati höfundar þessa pistils.  Þar eru frasar á borð við: "Veiðigjaldið á að tryggja, að þjóðin njóti sanngjarns hluta þess auðlindaarðs, sem sjávarauðlindin skilar".  Hvað í ósköpunum er "sanngjarnt" í þessu sambandi ?  Hvers vegna fæ ég, sem ekki hef hætt einni krónu til útgerðarstarfsemi, ekki heimsenda ávísun frá útgerðinni fyrir hver jól ?  Það, sem einum þykir sanngjarnt í þessu sambandi, þykir öðrum ósanngjarnt.  Mér þykir ósanngjarnt, að fé sé rifið af framlegð útgerðarinnar, ekki reiknað af hagnaði hennar, og því hent í ríkiskassann.  Miklu sanngjarnara hefði verið að losa útgerðina algerlega undan þessari rányrkju skattmanns, svo að hún geti endurnýjað hjá sér skipastól, sem er orðinn of gamall og stendur núorðið þeim norska og færeyska að baki.  Tekjur ríkissjóðs kæmu þá af virðisaukaskatti umsvifanna og tekjuskatti fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra.   

Þessi dósent vill bjóða afnotaréttinn að sjávarauðlindinni upp.  Hvar annars staðar er það gert ?  Þetta er óhemju heimskuleg hugmynd.  Með þessu yrði girt fyrir langtímahugsun í sjávarútvegi með rányrkju og brottkasti sem afleiðingu.  Sjávarútvegurinn mundi drabbast niður, því að hvaða heilvita maður mundi fjárfesta í grein, sem hann vissi ekki, hvort hann getur stundað lengur en í eitt ár ?  Málflutningur af þessu tagi gerir dósentinn að ómerkingi. 

Þessi maður, sem titlar sig dósent í hagfræði við vesturheimskan háskóla, gerir sig síðar í téðri grein sekan um að þekkja ekki muninn á framlegð og arði.  Hann skilgreinir "auðlindaarðinn" sem mismuninn á tekjum útgerðarinnar, launagreiðslum, viðhaldskostnaði, "öðru þess háttar" og "eðlilegum arði af því fé, sem útgerðin hefur lagt í reksturinn".  Þannig fær hann 56 mia kr árið 2011 "á verðlagi ársins 2012".  Þetta er tóm vitleysa hjá dósentinum eða "alger steypa", eins og sumir taka til orða nú á dögum.

Það, sem vesalings dósentinn er að burðast við að reikna, er framlegð útgerðarinnar, en með framlegðinni verður hún að standa straum af afborgunum og vöxtum af lánum sínum, afskrifa, fjárfesta og greiða venjulega skatta og síðan arð.  Þegar auðlindagjaldið er reiknað af framlegðinni, eins og dósentinn gerir og Steingrímur, jarðfræðingur, einnig, þá verður einmitt minna eftir til endurnýjunar og tækniþróunar, sem leiða mun óhjákvæmilega til hrörnunar flotans, lakari samkeppnistöðu íslenzku útgerðarinnar á erlendum mörkuðum og þar af leiðandi versnandi lífskjara íslenzku þjóðarinnar.  Þetta samhengi er vinstri mönnum fyrirmunað að skilja.  Þeir lemja hausnum við steininn, enda er hér um að ræða eignaupptöku, sem hefur þegar gengið frá litlum og veikum útgerðum  og mun tortíma öllum einkafyrirtækjum í útgerð á einum áratugi.  Með misnotkun skattheimtuvalds á hendur útgerðinni er söguð í sundur greinin, sem íslenzka samfélagið situr á.

Einhverjir starfsmenn Háskóla Íslands munu hafa hleypt af stað undirskriftasöfnun við áskorun til þingsins um að hætta við að breyta Steingrímslögunum um ofurgjaldtöku á útgerðina, sem eru þó óframkvæmanleg, af því að skattayfirvöld hafa ekki aðgang að nauðsynlegum gögnum til að leggja svíðingsgjaldið á.  Stjórnarandstaðan fékk móðursýkiskast yfir því, að forsprökkunum var boðið til Alþingis til að ræða málið og yfirmenn þeirra fengu afrit fundarboðsins.  Það er óskiljanlegt, hvers vegna yfirmenn þeirra máttu ekki frétta af þessu fundarboði.  Maður skyldi þó halda, að betra væri, að þeir vissu, hvers vegna starfsmenn hlypu úr vinnunni.  Hafði stjórnarandstaðan e.t.v. grun um, að þessir tvímenningar hefðu verið að svíkjast um í vinnunni með því að gaufa við vitlausustu undirskriftasöfnun, sem um getur ? 

Því hefur verið haldið fram, að þessi undirskriftasöfnun eigi engan rétt á sér, af því að hún hvetji til þjóðaratkvæðagreiðslu um skattamál.  Það eru einfeldningsleg rök.  Eru ekki flestir þeirrar skoðunar, að Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslurnar hafi verið býsna vel heppnaðar, og fjölluðu þær þó um skattamál, þegar öllu er á botninn hvolft ?  Það, sem gerir þessa undirskriftasöfnun hins vegar algerlega ótæka, er, að með henni er almenningur hvattur til að greiða atkvæði um, að einhver annar greiði skattana fyrir hann, í þessu tilviki tiltekinn atvinnurekstur, þ.e. sjávarútvegurinn.  Þetta er ósiðlegt og ber keim af einelti, þar sem meirihlutinn mundi kúga lítinn minnihluta til mikilla fjárútláta í þeirri von að þurfa að greiða minna sjálfur í framtíðinni, sem að vísu er algerlega borin von.  Það er alveg öfugt.  Öflugur sjávarútvegur mun vafalaust létta meira undir með skattborgurunum í framtíðinni en veiklaður sjávarútvegur.   Að leggja upp með svona lágkúru í undirskriftasöfnun er algerlega óboðlegt.      

Borgaralega þenkjandi öfl eru þeirrar skoðunar, og ráðherrar Laugarvatnsstjórnarinnar hafa sumir lýst sams konar viðhorfum, að fjárfestingar í sjávarútvegi séu mjög arðsamar og muni þess vegna skapa góðan hagvöxt tiltölulega fljótt.  Hagvöxtur er undirstaða raunkjarabóta, sem mun að u.þ.b. 40 % skila sér í opinbera sjóði.  Þess vegna ber að afnema grimmileg rangindi, sem sjávarútvegurinn, og þar með aðallega landsbyggðin, er beittur með ofsköttun miðað við aðra atvinnuvegi, og hvetja hann þess í stað til fjárfestinga.  Allir munu græða á því, ekki sízt ríkissjóður, en Jón Steinsson, dósent, mun þó sitja eftir "með skeggið í póstkassanum" sem og þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem liggja nú á því lúasagi að veifa hugsanlegum blóðpeningum frá útgerðinni framan í væntanlega peningaþega.  Slæm var nú frammistaða þeirra með stjórnartaumana í sínum höndum, en þetta er algerlega síðasta sort og sýnir fíflagang vinstri flokkanna í hnotskurn.

Téður dósent fullyrðir, að veiðigjaldið sé langhagkvæmasta tekjulind ríkissjóðs.  Þetta er afar ófræðimannsleg fullyrðing, enda fer réttmæti hennar algerlega eftir því, hvernig gjaldið er lagt á.  Greinargerðir umsagnaraðila um frumvarpið, þ.á.m. úr fræðimanna samfélaginu, báru með sér mjög miklar efasemdir um, að rétt væri að álagningunni staðið, svo að Jón Steinsson er staddur úti á berangri með fullyrðingu sína.  Hér skal vitna orðrétt í dósentinn, þó að málflutningur hans nái ekki máli:

"Það er vegna þess, að veiðigjaldið er einungis lagt á umframhagnað-þ.e. hagnað umfram þann hagnað, sem útgerðin þyrfti til þess að fá eðlilegan arð af því fé, sem lagt hefur verið í reksturinn.  Þar sem gjaldheimtunni er hagað með þessum hætti, hefur hún ekki áhrif á hegðun fyrirtækjanna (nema hvað þau greiða vitaskuld lægri arðgreiðslur til eigenda sinna).  Með öðrum orðum, jafnmargir fiskar verða dregnir úr sjó og jafnmikil verðmæti búin til úr þeim, hvort sem veiðigjaldið er tíu mia kr eða þrjátíu mia kr.  Hagnaður útgerðarinnar er ævintýralegur í báðum tilvikum."

Það er með ólíkindum, að kennari við bandarískan háskóla skuli gera sig sekan um annað eins skilningsleysi og rangfærslur staðreynda og þarna koma fram.  Er hann virkilega að kenna bandarískum stúdentum hagfræði af þessu tagi ?  Málflutningurinn mundi sóma sér úr penna kennara við Havana háskóla á Kúbu, þó ekki í hagfræði, heldur í marxískum fræðum um það, hvernig koma á auðvaldinu á kné og svæla atvinnustarfsemi undir ríkið.  Téður dósent gerir þarna engan greinarmun á framlegð upp í fastan kostnað annars vegar og hins vegar hagnaði.  Slíkt rugl er dauðasök fyrir umræðu um atvinnumál. 

Ef sjónarmið Jóns Steinssonar, dósents, hefðu verið ríkjandi á 19. öld, þá mundu sjómenn enn róa til fiskjar á árabátum, þilskipaútgerð hefði aldrei hafizt hvað þá vélbátaútgerð og togaravæðing.  Fiskar væru að sönnu dregnir enn úr sjó, en vegna skattlagningar, sem hirðir lungann úr framlegðinni, þá hefði engin fjárfestingargeta myndazt, og þess vegna hefði enginn lánað til fjárfestinga, og engin þróun orðið.  Ísland væri þá enn fátækt land, og fiskimið Íslands væru þá örugglega nýtt af útgerðum annarra landa, sem væru miklu tæknivæddari en sú íslenzka.  

Íslenzkur sjávarútvegur á í harðvítugri samkeppni við erlendan sjávarútveg, sem jafnvel er stórlega niðurgreiddur af hinu opinbera.  Íslendingar saga þess vegna í sundur greinina, sem þeir sitja á, með því að beita sjávarútveginn skattlagningu, sem gerir honum erfitt fyrir í samkeppninni, ekki sízt með vanhugsaðri og/eða hatursfullri eignaupptöku, sem á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndunum og alls ekki í Bandaríkjunum, þó að þaðan berist nú gjallandi boðskapur, sem á sér engan hljómgrunn þar.  

  Þórshöfn í Færeyjum  

 

   Eigandi gengur betur um eign sína

   

 

 


Bloggfærslur 23. júní 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband