List hins mögulega

Með gríðarlegum bægslagangi var krafizt þjóðaratkvæðis um framhald á inngönguferli Íslands í Evrópusambandið áður en ljóst varð, að umsóknin er strönduð.  Átti þar líklega í hlut flokksbundið fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og margir aðrir.  Varð ótrúlegur hiti í fólki út af steindauðu máli, þ.e.a.s. þjóðaratkvæðagreiðsla upp á einar 200 milljónir kr getur ekki hleypt nýju lífi í dautt svikaferli, eins og hér verður gerð grein fyrir.  Síðasti utanríkisráðherra skuldar þing og þjóð sýringar á þögn sinni um raunverulega stöðu mála og látalæti undanfarið um, að framhaldið sé á valdi Íslendinga.

Miklu moldviðri er þyrlað upp um svik núverandi ráðherra við loforð sín í kosningabaráttu.  Koma þessar ásakanir úr hörðustu átt, þar sem núverandi formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, lofaði fyrir Alþingiskosningar 2009 þjóðaratkvæði um umsókn að ESB, og ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur, Katrín og Svandís, gengu algerlega í berhögg við stefnu flokks síns með því að samþykkja aðildarumsókn á Alþingi 16. júlí 2009.  Þetta eru alræmdustu svikahrappar íslenzkra stjórnmála um þessar mundir auk  Össurar.

Það stendur óhaggað, að ráðherrar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa í farteskinu frá æðstu stofnunum flokka sinna að draga skuli umsóknina frá 16. júlí 2009 til baka.  Síðan í baráttunni fyrir kosningarnar 27. apríl 2013 er mikið vatn runnið til sjávar og fram komnar upplýsingar, t.d. í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, sem gera kosningar um framhald inngönguaðlögunar fráleitar, algerlega marklausar og nánast hlægilegar, ekki sízt frá sjónarhóli ESB.   

Núverandi ráðherrar eru með framlagningu þingsályktunar ríkisstjórnarinnar um að hætta við umsókn um aðild að Evrópusambandinu að efna kosningaloforð flokka sinna.  Við þetta er í ályktuninni hnýtt ákvæði um, að ekki skuli senda umsókn til ESB að nýju án þess að leita samþykkis þjóðarinnar á því fyrst.  Það er hægt að fallast á það sjónarmið Bjargar Thorarensen, lagaprófessors, að þetta ákvæði þingsályktunarinnar megi missa sín, af því að það bindi um of hendur þings, þar sem meirihluti vill sækja á ný um aðild.  Slíkt er ekki hægt að útiloka að breyttu breytanda, og þess vegna má sleppa þessu, þó að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur geti haft þetta áfram í sínum samþykktum.  Björg Thorarensen telur fráleitt að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni, sem meirihluti þingheims hefur tekið upp á sína arma.  Stjórnskipulega hefur hún mikið til síns máls. 

Það verður hins vegar að vona í lengstu lög, að næst standi hugsanleg umsókn á traustari grunni, þ.e. Alþingi sé þá í raun reiðubúið að ganga aðlögunargötuna á enda og þjóðin hafi samþykkt umsóknina á þeim forsendum í bindandi atkvæðagreiðslu.  Ekkert af þessu var þáttur í þeirri vanreifuðu ólánsumsókn, sem hleypt var af stokkunum 16. júlí 2009, og því fór sem fór.  Hún strandaði á skeri ósamrýmanlegra stefnumiða Alþingis og Evrópusambandsins. Þetta voru mistök síðasta þingmeirihluta, og núverandi þingmeirihluti fær því ekki breytt.  Þess vegna er rökrétt að draga umsóknina til baka og að núllstilla ferlið.  Þegar RÚV, Fréttablaðið, Samfylkingin og Björt framtíð verða búin að vinna meirihlutann á sitt band, verður sótt um aftur og þeyst á fáki fráum inn um gáttir Berlaymont.  Baráttulaust mun það aldrei verða.   

Hvers vegna er útilokað, að Alþingi verði nú við kröfu stjórnarandstöðunnar um ráðgefandi almennar kosningar um spurninguna, hvort halda eigi inngönguferlinu áfram ?  Það eru 2 meginástæður fyrir því, enda lofaði hvorugur stjórnarflokkanna bæði að hætta við inngönguferlið og að halda um það ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.  Eingöngu átti að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna, ef ekki næðist meirihluti á þingi um afturköllun, enda er hitt fullkomlega órökrétt.  Þetta atriði hefur verið teygt og togað á alla vegu.   

Sér hver heilvita maður, hvílíkt rugl það væri, að ná samstöðu um aðalmálið, að hætta við, en ákveða þó þjóðaratkvæðagreiðslu um að taka upp þráðinn að nýju.  Þetta er dæmalaust rugl hvínandi úr tálknum stjórnarandstöðunnar, sem virðist gjörsamlega tapa glórunni, þegar ESB er annars vegar.  Skiptir þá engu máli, þó að skilja hafi mátt eitthvað annað á einhverjum frambjóðendum til þings, enda eru síðan komnar fram nýjar upplýsingar, sem útiloka þjóðaratkvæðagreiðslu: 

  1. Inngönguferlið stöðvaðist á síðasta kjörtímabili, þegar efniviður rýniskýrslu ESB á hið íslenzka stjórnkerfi landbúnaðar- og sjávarútvegsmála var kynnt aðlögunarnefndinni 2011.  Þar var enga eftirgjöf í kröfum um aðlögun að stjórnkerfi ESB í þessum málaflokkum að finna.  Það var heldur ekki neinn ádráttur gefinn um "sérlausn".  Í stað þess að leita til Alþingis um heimild til að koma til móts við kröfur ESB, þá gafst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur upp á umsóknarferlinu við svo búið, enda gerði makríldeilan við ESB henni ekki auðveldar um vik.  Össur Skarphéðinsson var nú orðinn strandkapteinn, eins og engum þurfti að koma á óvart, en breiddi lævíslega yfir það með því að færa í hönd farandi Alþingiskosningar sem ástæðu fyrir því að gera hlé á inngönguferlinu.  Engin áhrif taldi hann makrílinn hafa á ferlið. Hann lét líta svo út, að beinast lægi við að taka upp þráðinn eftir kosningar, en þar strandar algerlega á Alþingi, svo að þetta var hreinn blekkingarleikur. Össur ætlaði að berjast fyrir aðlögunarheimild frá Alþingi sem ráðherra eftir kosningar, en var kastað út í yztu myrkur af kjósendum, og að láta að vilja ESB núna mundi jafngilda illvígum svikum flestra núverandi stjórnarþingmanna við kjósendur sína.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna breytir engu, en kostar stórfé.  
  2. Samkvæmt hinni ágætu Stjórnarskrá lýðveldisins ber þingmönnum einvörðungu að fylgja sannfæringu sinni, og það væri þess vegna brot á Stjórnarskránni, ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu breytti afstöðu þingmanna.  Með öðrum orðum getur þjóðaratkvæðagreiðsla aðeins orðið ráðgefandi á Íslandi.  Það dettur engum í hug, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort halda beri ferlinu inn í ESB áfram, verði sú, að núverandi Alþingi samþykki tímasetta aðgerðaáætlun um aðlögun íslenzka stjórnkerfisins að kröfum ESB varðandi landbúnað og fiskveiðar til að hleypa lífi í steindautt inngönguferli.  Slíkt mundi jafngilda því, að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur breyttust í einu vetfangi úr stjórnmálaflokkum með yfirlýsta andstöðu við inngöngu Íslands í ESB yfir í að verða flokkar fylgjandi inngöngu.  Slíkt mundi jafngilda mestu kosningasvikum Íslandssögunnar og kemur að sjálfsögðu alls ekki til greina.

Hvers vegna eiga landsmenn að drattast með það lík í lestinni út þetta kjörtímabil, sem þessi umsókn er ?  Hún klýfur flokka, og hún klýfur þjóðina.  Það verður ekki hægt að lífga þetta lík við, nema forsendur gjörbreytist í ESB og/eða á Íslandi, og þá er miklu hreinlegra að sækja um á nýjum forsendum.  Strætisvagninn kemur aftur, þó að við hoppum ekki upp í hann núna, og það er heiðvirðust málafylgja inn á við og út á við að sitja við hreint borð. 

Það eru hins vegar öflugir hagsmunaaðilar í þessu landi, sem ekki mega heyra á slíkt minnzt.  Þeim og skoðanasystkinum þeirra á Alþingi hefur tekizt að hylja sannleikann í þessu máli í blekkingarvef.

  Því miður hefur talsverður fjöldi nytsamra sakleysingja látið blekkjast, enda eru hart rekin trippin í áróðrinum gegn ríkisstjórninni.  Hafa sumir fréttamenn þar farið offari og opinberað sig sem óyfirvegaða í starfi, sumir mundu segja sem skaphunda, gjammandi fram í, og með útblásið egó, sem er í engu samræmi við starfsvettvang þeirra, þar sem rósemi hugans, víðsýni og staðgóð þekking á umfjöllunarefni er undirstaða árangurs, þ.e. að hjálpa almenningi við að taka upplýsta afstöðu til mála.

Þriðji hópur þeirra, sem vilja halda dauðahaldi í inngönguferlið, virðist engra sérstakra hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi, en hefur þá lífsskoðun, að Ísland eigi helzt heima í ríkjasambandi, t.d. af því, að það sé of lítil eining til að standa sjálfstætt, og er gjaldmiðillinn, krónan, þá oft nefnd til sögunnar.

Við þessa 3 hópa glímir ríkisstjórnin, núverandi meirihluti á Alþingi og allir þeir, sem telja hag Íslands betur borgið sem fullvalda ríki en útnári í gríðarfjölmennu ríkjasambandi.  Tveir fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ráðizt gróflega og einkar ósmekklega að samflokksmönnum sínum opinberlega fyrir þessa skoðun þeirra og málafylgju, svo að eftirmálar gætu af hlotizt, því að erfitt er yfir að slétta.  Hið fyrra skiptið óð Þorsteinn Pálsson fram með fádæma svikabrigzl á hendur formanni Sjálfstæðisflokksins í Vikulokunum á Rás 1, og hið seinna skiptið fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fram með fúkyrðaflaumi í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins um samflokksmenn sína, sem aðra afstöðu hafa til ESB en hún sjálf, og kallaði þá ýmist "frekjupunga", "harðlínumenn" eða "svartstakka".  Stimplar af þessu tagi bera hugarfari viðkomandi vitni.

Orðaleppar af þessu tagi eru ekki líklegir til að auka þolinmæðina gagnvart fólki í flokkinum, sem leynt og ljóst, með stóryrðum, hótunum og hávaða á Austurvelli reynir að koma í veg fyrir, að yfirgnæfandi meirihluti þingliðs Sjálfstæðisflokksins framfylgi Landsfundarsamþykkt flokksins um afturköllun umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið í félagi við Framsóknarþingmenn, sem eru með sams konar samþykkt frá æðstu samkundu síns flokks í farteskinu.

Margnefnd skýrsla HHÍ varpar ljósi á eftirfarandi:

  • Inngönguferlið í ESB strandaði árið 2011 á skilyrðum Alþingis, og ekkert hefur þokazt síðan. Stækkunarteymi ESB gerði fjölmargar athugasemdir við stjórnkerfi Íslendinga á landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og fór fram á tímasetta og sundurliðaða áætlun um aðlögun þessa kerfis að stjórnkerfi ESB.  Allt samkvæmt bókinni hjá ESB, og óþarfi að verða heimóttarlegur út af því.
  • Þessi nýja staða var aldrei kynnt Alþingi á ári drekans, 2012, heldur var því blákalt haldið fram, að viðræður gengju vel, þó að skýrsla HHÍ sýni, að afraksturinn var hreinn tittlingaskítur.  Eina ráðið til að ná fleyinu af strandstað var að ganga á fund Alþingis og reyna að fá skilmálum þess í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum breytt.  Allt ár drekans virðist hafa liðið án þess að upplýsa Alþingi um hið rétta í málinu, að inngönguferlið hefði strandað á skilyrðum Alþingis.  Þetta er grafalvarleg hegðun fyrrverandi ríkisstjórnar, sem Össur á eftir að svara fyrir. 
  • Fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, og vikapilti hans, Þorsteini Pálssyni, varð allt ár drekans ekkert ágengt við að ná fram "sérlausnum" varðandi téða tvo málaflokka, enda hefur ESB engan áhuga á slíku, þar sem þær eru erfiðar í framkvæmd.  Verður að líta svo á, að hvorki sé núverandi þing fúsara til að gefa eftir fyrir ESB en hið fyrra né sé núverandi ríkisstjórn eða samninganefnd á hennar vegum líklegri til að finna "sérlausnir".  Þegar af þessum ástæðum er út í hött og væri fáránleg hegðun gagnvart ESB að efna nú til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort draga á umsóknina til baka eða að halda vonlausu þjarkinu áfram með ærnum kostnaði úr ríkissjóði.  Það er sjálfhætt við þessa umsókn.
  • Í ársbyrjun 2013 gefast þeir kumpánar, Össur og Þorsteinn, upp, en þá brestur þor og stjórnmálaleg heilindi til að viðurkenna stöðu sína sem strandkapteins og hjálparkokks hans.  Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði og mistókst hrapallega ætlunarverk sitt.  Í stað þess að ganga þá hreint til verks og slíta viðræðunum, þegar hér var komið sögu, þá þóttist Össur gera hlé á umsóknarferlinu fram yfir Alþingiskosningar, rétt eins og ekkert yrði auðveldara fyrir nýja ríkisstjórn en að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og ljúka ferlinu.  Hér var rétt ein blekking stjórnmálarefsins á ferð.  
  • Allt eru þetta firn mikil vegna óheilindanna að hálfu Össurar og Þorsteins, sem nú blasa við.  Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar stöðuskýrsla HHÍ var gefin út í febrúar 2014 og í kjölfarið þingsályktunartillaga lögð fram um að draga umsóknina til baka.  Þá þyrla þeir kumpánar og meðreiðarsveinar þeirra upp moldviðri út af meintum sviknum loforðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald eða stöðvun viðræðna, og tekur Þorsteinn þá sýnu meira upp í sig af svikabrigzlum í garð formanns Sjálfstæðisflokksins.  Allt er þetta moldviðri ætlað til að hylja mistök þeirra kumpána við að framfylgja stefnu sinni og draumsýn um inngöngu Íslands í ESB og til að draga dul á, að umsóknin stendur föst og kemst ekki lengra.  Að sínu leyti er jafnljóst, að nýjar upplýsingar skýrslunnar hafa gert allar fyrri meiningar og tal um skilmálalaust þjóðaratkvæði algerlega marklausar, af því að ómögulegt er við núverandi aðstæður að koma inngönguferlinu af stað aftur.  

  

 

  

 

   

  

 


Bloggfærslur 5. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband