Flug í háska

Þegar sótt er að innviðum landsins, er nauðsynlegt að grípa til varna og hefja gagnsókn, ef kostur er.  Til innviða má telja samgönguleiðirnar, vegi, hafnir og flugvelli ásamt raforkukerfinu, t.d. raforkuflutningsmannvirkin, og er þá fátt eitt upp talið. 

Um flesta þessa þætti gildir, að þeir eru í herkví skipulagsvalds í höndum sveitarstjórna, þó að um þjóðveg 1, landshafnir, varaflugvelli millilandaflugsins og flutningslínur á 132 kV spennu og hærri, gildi eindregið, að þau hafa svo mikið þjóðhagslegt gildi, að eðlilegast er að færa skipulagsvald þeirra úr höndum sveitarstjórna og til ríkisins, enda er sá háttur á hafður víða erlendis. Ella er hætta á því, að við mat á skipulagskostum verði meiri hagsmunir, þ.e. þjóðarhagsmunir, látnir víkja fyrir minni hagsmunum, þ.e. meintum hagsmunum viðkomandi sveitarfélags, þar sem mannvirkið er staðsett eða opinber aðili leggur til að staðsetja það.  Hagsmunir sveitarfélags, eins og meirihluti viðkomandi sveitarfélags metur þá, kunna að stangast á við hagsmuni landsins, eins og meirihluti þjóðarinnar metur þá.  

Einmitt þannig háttar til með Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni, að meirihluti borgarstjórnarinnar saumar með óbilgjörnum og hættulegum hætti að starfseminni og stefnir að því að gera flugvöllinn órekstrarhæfan, svo að starfsemi hans lamist og leggist síðan af, og borgin geti þá breytt flugvellinum í byggingarland. 

Þegar litið er til þeirra gríðarlegu hagsmuna, sem hér eru í húfi fyrir heildina, er þessi þróun mála líklega einsdæmi hérlendis og vandfundin sambærileg dæmi erlendis frá, þar sem jafnmiklir þjóðarhagsmunir hafi verið eða séu í húfi, enda er skipulagsmálum víða þannig fyrir komið, að önnur eins staða og hér er uppi, getur ekki komið upp.  Alþingi verður að höggva á hnútinn með lagabót í þessum efnum.

Mesta undirskriftasöfnun Íslandssögunnar til stuðnings óbreyttri starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni, þar sem 75 þúsund manns lýstu yfir stuðningi við starfsemina, fór fram ekki alls fyrir löngu.  Trúlega styður meirihluti Reykvíkinga veru flugvallarins áfram, og þessu fólki býðst gullið tækifæri til að sýna hug sinn í verki með því að hafna þeim stjórnmálaflokkum í borgarstjórnarkosningunum í maí 2014, sem staðið hafa að lúalegum árásum, hreinni aðför að flugvallarstarfseminni með það að markmiði að svæla hana burt. 

Nú háttar þannig til, að hvort sem menn staðsetja sig á hægri eða á vinstri væng stjórnmálanna, geta þeir stutt flugvöllinn með því að kjósa til hægri eða vinstri.  Hér skal ekki draga dul á, að ágreiningur sé í röðum þeirra flokka, sem hér er átt við, um flugvallarmálið, en þó er það þannig, að forystumenn á listum Sjálfstæðisflokksins og Dögunar eru stuðningsmenn flugvallarins, en forystumenn á listum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa allir staðið að aðför gegn Reykjavíkurflugvelli.  

Það er búið að gera ítarlega grein fyrir því, hvers vegna á að láta Reykjavíkurflugvöll í friði með sínar 3 flugbrautir.  Verði sú stutta, NA-SV, aflögð, rýrnar notagildi vallarins umtalsvert, og hætta á slysum í miklum hliðarvindi eykst. 

Ekki þarf að tíunda mikilvægi flugvallarins fyrir sjúkraflugið, en hann getur hreinlega skilið á milli lífs og dauða í mörgum tilvikum á ári hverju.  Þyrlur geta ekki leyst vængjað sjúkraflug af hólmi, og þær geta ekki lent í mjög litlu skyggni, sem iðulega þarf að gera í Keflavík.  Þyrlurnar þurfa aðflugstæki, sem eru fyrir hendi á Reykjavíkurflugvelli.  Verði honum lokað, komast þyrlurnar ekki að sjúkrahúsunum í slæmu veðri. 

Vængjuð sjúkraflug eru ekki færri en 500 á ári utan af landi til Reykjavíkur.  U.þ.b. helmingur þeirra eru forgangsútköll, og yfir 200 eru bráðatilvik.  Þá er verið í kapphlaupi við tímann.  Að meðaltali getur lokun Reykjavíkurflugvallar þýtt 1,5 klst lengingu á flutningstíma sjúklings, og menn geta ímyndað sér aukið álag á umferðina á Reykjanesbraut, m.a. vegna 300 tilvika um forgangsakstur í misjöfnum veðrum og um þá flöskuhálsa, sem enn eru á þessari leið að sjúkrahúsunum.  Það þarf ekki að tíunda hættuna í flutningi frekar, sem hundruða sjúklinga verður búin á hverju ári til viðbótar við núverandi áhættu.  Lokun Reykjavíkurflugvallar mundi setja sjúkraflugið í algert uppnám.  Enginn stjórnmálamaður getur axlað þá ábyrgð.  Samt berst læknirinn Dagur fyrir eyðileggingu Reykjavíkurflugvallar með oddi og egg.  Þessi lokun hefur svo örlagaríkar afleiðingar, að þjóðaratkvæðagreiðsla kemur vel til greina til að taka af skarið um framtíð flugvallarins.  Til að spara fé gæti hún verið rafræn. 

Kostnaðaraukinn fyrir innanlandsflugið og millilandaflugið af því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur og að missa Reykjavíkurflugvöll sem varavöll er feiknarlegur og margfaldur á við ávinning byggðar í Vatnsmýrinni.  Á hverjum halda menn, að sá kostnaðarauki lendi ?  Það er ekki nóg með það, heldur mun flugvallarleysi í Reykjavík hreinlega koma niður á samkeppnihæfni landsins, eins og gerð verður grein fyrir.

Í 19 sæta flugvélum innanlandsflugsins mundi þurfa að fækka sætum um 3-4 í hverri ferð eða allt að 21 % vegna meiri eldsneytisþarfar til varaflugvallar fyrir norðan eða austan.  Til þess að fá sömu tekjur þarf að hækka farmiðann um 27 % og vegna lengra flugs frá Keflavík til allra áfangastaða þarf 5 % til viðbótar eða 32 % hækkun kostnaðar per flugsæti hið minnsta.  Þetta auk ferðatímalengingar um 1,5 klst aðra leið telur Hörður Guðmundsson hjá Örnum, að muni kodda innanlandsfluginu, sem nú keppir við einkabíl, rútur og ferjur. 

Hann segir, að Ernir hafi árið 2012 flutt tæplega 40 000 farþega.  Hann kveður ríkið hafa fengið kr 7 713 af hverjum farmiða á formi ýmissa skatta, sem hafi verið um helmingur af farmiðaverðinu.  Þetta gæti þýtt, að meðalmiðaverðið færi í 20 000 kr, sem er hækkun um kr 4600.  Ríkið hirðir þannig um 300 milljónir kr af flugfarþegum Arna yfir árið.  Kæmi til greina í sáttaskyni, að ríkið gæfi smám saman eitthvað eftir af þessum tekjum til borgarinnar ?

Þá er komið að óhagræði, kostnaðarauka og meiri kolefnislosun millilandaflugsins vegna lokunar Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar.  Millilandaflugið er orðið svo stórt í sniðum, að lokun helzta varaflugvallar þess hefur í för með sér kostnaðarauka og tekjutap, sem nær þjóðhagslegum stærðum og rýrir samkeppnihæfni landsins frá bæjardyrum landsmanna sjálfra, sem vilja bregða sér af bæ, og frá sjónarmiði gestanna, erlendra ferðamanna, sem mjög horfa í kostnað og þægindi, og hafa fjölmarga aðra kosti um að velja. 

Í meira en 80 % flugferða er Reykjavíkurflugvöllur varavöllur fyrir þotur Icelandair.  Valkostirnir eru Akureyri, Egilsstaðir og Glasgow, sem hafa í för með sér allt að tvöföldun á aukaeldsneyti um borð eða 10 t.  Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair mun kostnaðarauki og tekjutap fyrirtækisins á þessum áratugi nema um 1,0 milljarði kr á ári m.v. núverandi spá um farþegakm og eldsneytisverð.  Að missa Reykjavíkurflugvöll getur fjölgað millilendingum, sem lengir ferð um a.m.k. 1,0 klst og gerir hana miklu dýrari.  Kostnaðarauki og tekjutap vegna alls þessa og fækkunar farþega getur þess vegna hæglega numið 2,0 milljörðum kr á ári.  Svipaða sögu er að segja um hin flugfélögin, sem fljúga til Keflavíkur, svo að tapið fyrir millilandaflugið gæti hæglega numið 3,0 milljörðum kr á ári.

Einar Dagbjartsson, flugstjóri hjá Icelandair, sagði í viðtali við Morgunblaðið, laugardaginn 12. apríl 2014:

"Mér finnst álíka gáfulegt að ætla sér að eyðileggja Reykjavíkurflugvöll og að ætla að fylla upp í Reykjavíkurhöfn, af því að það vanti fleiri kaffihús."

Undir þetta er algerlega hægt að taka.  Það vantar hvorki byggingarland í Reykjavík né á höfuðborgarsvæðinu sem heild.  Þegar Íslandi ríður á að auka samkeppnihæfni sína til að afla meiri gjaldeyris, má ekki rýra hana með því að auka verulega kostnað við eina aðaltekjulind landsins, ferðamannaiðnaðinn, með veikum rökum, sem reist eru á, að væntanlegir íbúar í Vatnsmýri eigi daglega erindi í 101 Reykjavík.  Eiga þeir að fara þangað á reiðhjólum ? 

Síðast en ekki sízt verður að taka til varna fyrir flugkennsluna í landinu, en miðstöð hennar er í Vatnsmýrinni.  Borgaryfirvöld sækja nú með dólgslegum hætti að Fluggörðum og heimta starfsemina þar á brott árið 2015.  Þessi framkoma er einsdæmi að hálfu yfirvalda í einni höfuðborg og verður að brjóta á bak aftur.  Borgaryfirvöld kasta sprengju á Fluggarða og þar með er flugnám í landinu í algeru uppnámi.  Ekki er boðið upp á neina lausn að hálfu borgarinnar frekar en fyrri daginn undir þessum dæmalausu stjórnendum, sem telja sig hafa fullt umboð til að klekkja á einkaframtakinu.  Hafa borgaryfirvöld leyfi til að haga sér svona ?  Nei, þessi yfirtroðsla er gróf misbeiting valds, siðlaus og gjörsamlega ólíðandi.  Hvorki Dagur né S. Björn virðast kunna mannasiði, þegar flugstarfsemi er annars vegar. 

Aukin spurn er eftir flugmönnum á Íslandi.  Icelandair réð í vetur 30 nýja flugmenn og hafði þá ráðið 58 nýja flugmenn á þremur árum og lítið lát á þessari aukningu.  Áhugi fyrir flugnámi er mikill, og allir bekkir í bóklegu námi fullsetnir.  Það verður aðeins talið borgaryfirvöldum til glópsku og/eða mannvonzku að taka ímyndaða hagsmuni borgarinnar af íbúabyggð á þessu svæði fram yfir hagsmuni alls þess unga fólks, sem er þarna í krefjandi námi, og fram yfir fyrirtækin, sem eru grundvöllur vaxtarins í ferðamannaiðnaðinum.  Núverandi staða mála er óskiljanleg.  Eru Rauðu Khmerarnir við völd í Reykjavík ?  Það eru alla vega ekki þjónar fólksins, sem með völdin fara í Ráðhúsinu við Tjörnina.

Engu er líkara en ofstækisfull, þröngsýn og illa ígrunduð skoðun skipulagsviðvaninga, jafnvel amatöra, ráði nú aðför minnihlutahóps borgarbúa að flugöryggi í landinu.  Sérvitringar um þéttingu byggðar í Reykjavík, helzt í póstnúmeri 101 og þar í grennd, hafa bitið í sig, að íbúabyggð í Vatnsmýrinni muni gjörbreyta Reykjavík til hins betra og að með því að ryðja Reykjavíkurflugvelli úr vegi muni hagur strympu vænkast til muna.  Rökin, sem fyrir þessu hafa verið færð, væru ekki einu sinni talin vera gjaldgeng, þar sem skortur er á landrými, hvað þá hérlendis, þar sem mikið landrými og margt ágætlega byggingarhæft, má telja til kosta Íslands umfram mörg önnur lönd. 

Alls staðar kunna borgaryfirvöld að meta flugvöll innan borgarmarkanna, nema á Íslandi, þar sem þröngsýnir og ólýðræðislega sinnaðir sérvitringar hafa náð völdum.  Vinnubrögð þeirra eru ólýðræðisleg, vegna þess að þeim hafa borizt undirskriftir 75 þúsund manns, sem standa vilja vörð um óskerta og örugga starfsemi á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri, en borgaryfirvöld hafa gefið þeim langt nef og ekki borið við að rökstyðja, hvers vegna hunza á ákall þeirra til borgaryfirvalda.

Málefni Reykjavíkurflugvallar eru málefni ríkisins.  Reykjavíkurborg hefur klúðrað tækifærinu, sem henni gafst til að sýna og sanna, að hún stendur undir hlutverki sínu sem höfuðborg Íslands.  Ríkið verður að yfirtaka skipulagshlutverkið í Vatnsmýrinni.  Þar ber að leiða til öndvegis Flugráð og Skipulagsstofnun ríkisins.  Hér sem endranær verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri.  Almannaheill og lýðræðisleg stjórnskipan landsins krefst þess.  Alþingi á leik.

   

    

 

 

 

 

    

   


Bloggfærslur 17. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband