Hagsæld verður aðeins reist á hófsemi

Matt Ridley rekur í bók sinni, "Heimur batnandi fer", hvernig flest hefur gengið mannkyni í haginn undanfarin tvöhundruð ár. Allur kostur þorra manna hefur snarbatnað, fæða, húsnæði, ný tæki og tækni, lyf og læknishjálp. Þetta hefur skilað sér í mikilli fólksfjölgun og lengri og betri ævidögum en fyrir tíma tæknibyltinga 19. aldar, t.d. hagnýtingu jarðefnaeldsneytis og rafmagns.

Í bókinni sýnir Ridley, hvernig flest lífsgæði hafa snarlækkað í verði fyrir fjöldann. Eitt hefur þó ekki lækkað eins skarpt og vænta mátti, en það er húsnæði. Ridley telur, að þá staðreynd megi skýra með ýmsum afskiptum hins opinbera af húsnæðismálum. Annars vegar stýri hið opinbera skipulagsmálum og skammti land til bygginga. Hins vegar hvetji það til skuldsetningar við íbúðakaup með því að niðurgreiða vaxtakostnað. Hvort tveggja leiði til hærra íbúðaverðs.  Á Íslandi er gríðarlegum upphæðum, 10-20 milljörðum kr,  varið úr ríkissjóði til vaxtabóta árlega, og væri rétt að kynna áætlun um afnám þeirra í áföngum um leið og skilyrði til vaxtalækkana og hagstæðari lántöku til öflunar húsnæðis eru sköpuð. 

Nú eru ýmis teikn á lofti um, að ofangreindri hagsældarþróun hins tæknivædda hluta mannkyns sé lokið.  Það er ekki vegna þess, að tækniþróun mannkyns sé lokið, heldur af þeirri lýðfræðilegu ástæðu, að þjóðirnar viðhalda ekki fjölda sínum lengur og er jafnvel tekið að fækka.  Meðalaldur hækkar, og gamlingjarnir verða í sumum löndum óbærilegur baggi á sífellt fækkandi fólki á vinnualdri, sem óhjákvæmilega mun leiða til kjararýrnunar.  Þetta á við um Evrópu, Japan, Kína o.fl., en ekki jafnfljótt né í sama mæli í Bandaríkjunum, BNA.  Þar gætir aftur á móti vaxandi þjóðfélagsóánægju vegna vaxandi misskiptingar tekna og eigna og kynþáttaspenna virðist einnig fara þar vaxandi.

Leið Þjóðverja, Sozial-Marktwirtschaft, einnig kölluð fyrsta nýfrjálshyggjan, eða Félagslegt markaðshagkerfi, er gæfulegri til langtímaárangurs í kjaramálum og samfélagssáttar en leið Engilsaxa, sem kennd er við Nýfrjálshyggju Reagans og Thatchers

Á Íslandi fjölgar fólki enn um u.þ.b. 2500 manns á ári þrátt fyrir tímabundið fleiri brottflutta en aðflutta innfædda á tímabilinu 2009-2013, t.d. 4000 manns til Noregs.  Þar í landi horfa menn nú hins vegar framan í djúpstæða kreppu, þó að þeir séu enn í afneitun. Fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi blasir við á nýju ári, því að norskar fjölskyldur eru mjög skuldsettar og eimreið athafnalífs Norðmanna, olíu- og gasvinnsla, er ekki lengur rekin með hagnaði, heldur með tapi, þegar fjárfestingar, rekstrarkostnaður og arðsemikröfur eru teknar með í reikninginn.  Ekkert bendir til breytinga á þessari stöðu á næstu árum, og mun tiltölulega lágt eldsneytisverð létta undir með Evrópu, vestan Rússlands, Japönum og öllum, nema eldsneytisútflutningslöndum, sem mörg hver hafa ekki í önnur hús að venda. Fjárflótti er brostinn á í Noregi, sem lýsir sér í því, að seðlabanki Noregs ver daglega talsverðum gjaldeyri til að halda uppi gengi NOK, sem hefur þó fallið um fjórðung. Þetta er ekki ritað af Þórðargleði, heldur til að benda á fallvaltleika hagkerfis, sem gegnsýrt er af einhvers konar gullgrafaragræðgi.  

Mjög hefur horft til betri vegar í íslenzka hagkerfinu frá síðustu Alþingiskosningum.  Minnkandi verðbólga, sem nú er komin niður fyrir 1,0 % á ársgrundvelli, hefur valdið því, að umsamdar hóflegar kjarabætur hafa skilað sér með þeim hætti ofan í vasa launþega, að vísitala kaupmáttar hverrar unninnar klukkustundar var í nóvember 2014 sú hæsta, sem mælzt hefur, eða 120,5 stig, og bötnuðu kjör almennings mæld á þennan mælikvarða um yfir 5,0 % árið 2014.   Það er engum vafa undir orpið, að verðlagsstöðugleiki í hagkerfi, eins og okkar, þar sem laun eru aðalútgjaldaliður flestra fyrirtækja, varðar leiðina til bættra lífskjara. Verkalýðsforingjar, sem ekki skilja þessi einföldu sannindi, eru ekki starfi sínu vaxnir. Ef þeir ætla að koma hér á upplausn aftur, óstöðugleika, verðbólgu, gjaldþrotum og atvinnuleysi, er ábyrgðarhluti þeirra meiri en þeir eru menn til að standa undir.   

Ein af forsendum verðlagsstöðugleikans eru hófsamar launahækkanir, sem taka mið af verðmætasköpun í landinu. Allir verða að sýna biðlund og taka þátt í að skjóta stoðum undir öfluga framleiðsluvél á Íslandi, eins og þeir eru menntaðir til.

Það er alveg áreiðanlegt, að launahækkun fjölmennra stétta úr takti við greiðsluþol viðkomandi fyrirtækja mun hafa eyðileggjandi áhrif á samkeppnihæfni þeirra og stöðugleikann, því að þau munu þurfa að velta kostnaðaraukningunni út í verð sinna vara og þjónustu, eða hreinlega að leggja upp laupana, og verðbólgan losnar úr grindum.  Það eru í sjálfu sér engin rök í þessu sambandi, þó að menn geti fengið betri kjör erlendis.  Það verður aðeins að taka tillit til þess undir hverju íslenzka hagkerfið getur staðið, enda hafa fjölmargar stéttir í landinu getað haldið hinu sama fram, þó að nú taki að sneiðast um atvinnutækifæri á erlendri grundu vegna hrörnunar hagkerfa allt í kring.  Með þolinmæði og hófsemi mun íslenzka hagkerfið ná þessum hagkerfum, og þá munu kjarabætur ekki láta á sér standa.

Það er hins vegar annar flötur á launamálum miðstéttarinnar, og hann snýr að skattheimtunni.  Tæplega önnur hver króna af launahækkun hennar er samstundis tekin af henni og flutt í hirzlur ríkisins.  Samstarfsáætlun síðustu ríkisstjórnar og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, tók mið af, að ríkissjóði yrði bætt upp tekjutap sitt eftir Hrun með tvennum hætti. Aukin skattheimta skyldi brúa 45 % bilsins, og niðurskurður og hagræðing í ríkisrekstri skyldi skila 55 % af því, sem vantaði.  Vinstri stjórnin hafði hins vegar ekkert bein í nefinu til að framfylgja þessari áætlun, heldur varð hlutdeild skattahækkana 84 % og sparnaðar 16 %.

Það er meira að segja ofmælt, að vinstri stjórnin hafi sparað 16 %.  Hún skar niður framkvæmdir í vegamálum og viðhaldi ríkiseigna, en um varanlega hagræðingu og sparnað í ríkisrekstrinum sjálfum var ekki að ræða.  Hún stórskaðaði heilbrigðisgeirann og menntageirann með því að skera fjárveitingar við nögl og ætlaðist til sömu þjónustu án nokkurra kerfisbreytinga, sem leitt gætu til langvarandi sparnaðar.  Ósjálfbær niðurskurður vinstri aflanna kemur nú niður á afkomu ríkissjóðs, því að bæta verður fyrir stjórnsýsluleg asnaspörk og grillur jafnaðarmanna og vinstri grænna.  Vinstri öflin reka nú óþjóðholla stefnu, sem lýsa má sem smjaðri fyrir Brüssel-veldinu og fjármálaveldinu, eins og krystallaðist í Icesave-deilunni og afstöðunni til bankaskatts og skattlagningar á þrotabúunum.  Þessi einkennilega blanda hefur komið í stað baráttunnar fyrir "alræði öreiganna¨.  

Nú er hafin sókn til að lækka framfærslukostnað í landinu með lækkun óbeinna skatta og gjalda á vörur í landinu, sem búrókrötum fortíðar hefur þótt við hæfi að meðhöndla sem lúxusvarning.  Nú er hins vegar greinilega komið að því í tengslum við komandi kjarasamninga að lækka tryggingagjaldið og beinu skattana, og væri eðlilegast í þessu sambandi að afnema efsta þrep tekjuskattsins..  Slíkt mundi bæta kjör miðstéttarinnar gríðarlega, hvetja til aukins vinnuframlags allra stétta og auka skilvirkni skattheimtunnar til muna.  Þar með er hægt að láta hærri krónutölu bætast við neðri hluta launataflanna.

Gríðarlegir fjármunir íslenzkra útflytjenda tapast við efnahagshrun Rússlands.  Evrópa er í illvígri og líklega langvarandi efnahagslægð.  Lækkandi eldsneytisverð mun þó hjálpa upp á kaupmátt Evrópubúa til fiskkaupa, og Bandaríkjamarkaður lofar góðu, enda er þar rífandi gangur.  Málmmarkaðir verða áfram óbeysnir á meðan hagvöxtur í heiminum er við sögulegt lágmark.  Fjárfestingar á þjóðhagslegan mælikvarða láta bíða eftir sér í orkukræfa iðnaðinum hérlendis, en hver veit, nema Eyjólfur hressist, og fréttir voru nú einmitt að berast af því, að PCC hefði lokið við fjármögnun kísilmálmvers á Bakka við Húsavík. Það verður áfram að sigla þjóðarskútunni af mikilli kostgæfni á milli skers og báru.  Kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða. 

 Vaxtakostnaður ríkisins

   

    

   

 

  


Bloggfærslur 9. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband