20.12.2015 | 10:57
Vindmyllur í íslenzkum belgingi
Föstudaginn 20. nóvember 2015 var greint frá því í Morgunblaðinu, að vindrafstöðin að Belgsholti í Melasveit væri nú "komin upp í fjórða sinn". Í fréttinni segir:
"Haraldur Magnússon, bóndi í Belgsholti, reisti vindmyllu í júlí 2012, og var það fyrsta vindmyllan hér á landi, sem tengd var við landsnetið. Síðar hafa mun stærri vindmyllur verið tengdar við kerfið, í Búrfelli og Þykkvabæ. Vindmyllan hefur skemmst þrisvar, meðal annars vegna galla í hönnun og smíði, og hefur Haraldur eytt miklum tíma og fjármunum í að útbúa hana sem best."
Vindmyllan í Belgsholti virðist af mæligildum á vefsetrinu, http://www.belgsholt.is, vera 20 kW að málraun, en myllurnar á Hafinu norðan Búrfells eru 900 kW. Blekbóndi reiknaði á sínum tíma út orkuvinnslukostnað þeirra m.v. upplýsingar Landsvirkjunar og fékk út tæplega 90 USD/MWh eða 11,7 kr/kWh (130 ISK/USD). Á Englandi svarar raforkukostnaður frá vindmyllum á landi nú til 125 USD/MWh, og er þessi kostnaðarmunur í samræmi við ólíkan árlegan nýtingartíma á uppsettu afli vindmyllanna í löndunum tveimur, en vindmyllurnar á Hafinu ná fullum afköstum við vindstyrkinn 10 m/s, og oftast blæs meira í þessari hæð yfir sjávarmáli en í hæð Belgsholts.
Blekbónda er ókunnugt um heildarkostnaðinn við vindmylluna hjá Haraldi, bónda, á Belgsholti, en vegna smæðar sinnar gæti vinnslukostnaður hennar verið ívið hærri en vinnslukostnaður tilraunamylla Landsvirkjunar. Vindmylla Haraldar stendur nærri hafi, svo að nýtingartími hennar er líklega svipaður og hinna hátt standandi vindmylla á Hafinu, en raunasaga vindmyllunnar í Belgsholti bendir til sterkra sviptivinda.
Ef gert er ráð fyrir, að vinnslukostnaður vindmyllanna á Belgsholti sé samt um 10 % hærri en vindmyllanna á Hafinu, þá nemur hann um 13 kr/kWh. Ef reiknað er með, að raforkuverð til Belgsholtsbónda sé svipað og til þessa blekbónda, þá er sparnaðar hins fyrr nefnda um 3,5 kr/kWh.
Belgsholtsbóndinn sparar sér nefnilega bæði flutningskostnað og dreifingarkostnað raforku, sem í tilviki blekbónda nema 59 % af heildarkostnaði raforku. Orkuvinnsluverðið til blekbónda nemur án orkuskattsins, sem fellur brott um áramót 2015/2016, og án hins álagða 24,0 virðisaukaskatts aðeins 5,4 kr/kWh. Þetta þarf að bera saman við líklegan vinnslukostnað vindmylla Landsvirkjunar, sem á Hafinu er 11,7 kr/kWh, en getur orðið lægri í fyrirhuguðum vindmyllulundum hennar vegna þess, að þar verða vindmyllurnar um ferfalt stærri að afli hver mylla, ef af verður.
Gerum ráð fyrir, að tækniþróunin og hagkvæmni stærðarinnar lækki kostnaðinn á orkueiningu um 20 %, niður í 9,4 kr/kWh. Kostnaður raforkuvinnslu með vindmyllum verður samt 4 kr/kWh hærri en orkuverð án flutnings- og dreifingarkostnaðar til almennings um þessar mundir. Mismunurinn nemur 74 % og sýnir í hnotskurn, hversu glórulaus sú viðskiptahugmynd Landsvirkjunar er að setja upp vindmyllulundi á Íslandi til orkuvinnslu inn á landskerfið, þegar fjöldinn allur af hagkvæmari virkjunarkostum vatnsfalla og jafnvel jarðgufu er fyrir hendi. Erlendis er að renna upp fyrir mönnum, að vindmyllur og sólarhlöður eru sennilega úrelt þing, enda hillir undir nýja orkugjafa og miklu stærri og stöðugri orkuver.
Einu staðirnir á Íslandi, þar sem vindmyllur geta hugsanlega orðið hagkvæmar á næstunni, eru eyjar í byggð við landið, og kemur Heimaey þá fyrst upp í hugann. Þann 1. ágúst 2015 birtist í vikuritinu The Economist frásögn af vindmylluverkefni á eyjunni Block Island, sem er 20 km undan strönd Rhode Island í BNA. Þar eru um 1000 heilsársíbúar og 15000 sumargestir, sem nú reiða sig á dísilknúna rafala, sem brenna milljónum lítra af olíu ár hvert. Undan strönd eyjarinnar á senn að setja upp fyrstu vindmyllur BNA á hafi úti (offshore).
"Fimm vindrafstöðvar, hver að uppsettu afli 6,0 MW, munu fara í rekstur haustið 2016. Deepwater Wind, fyrirtækið, sem stendur að verkefninu (sem kosta á MUSD 250 - mia ISK 33 - BJo), gerir ráð fyrir því að lækka orkureikning eyjarskeggja um 40 %. Vindmylluverið mun framleiða meiri orku en þörf er á á eyjunni, nóg fyrir 17´000 heimili, svo að umframorka verður send til meginlandsins."
Vestmannaeyjar koma helzt til greina fyrir sambærilegan vindmyllugarð, þó að hann megi hæglega staðsetja á landi, í Heimaey, og verður hann þá mun ódýrari. Blekbóndi hefur reiknað út, hver vinnslukostnaður vindmyllanna úti fyrir Block Island er m.v. ávöxtunarkröfu 8,0 %/ár, afskriftatíma 15 ár, rekstrarkostnað 5,0 MUSD/ár og 130 kr/USD. Vinnslukostnaðurinn verður þá 48 kr/kWh.
Sé tekið mið af hlutfalli ensks vinnslukostnaðar vindmylla á landi og á sjó, sem er 69 %, þá gæti vinnslukostnaður sambærilegs vindmyllulundar í Vestmannaeyjum numið 33 kr/kWh. Vestmannaeyingar hafa núna sæstreng úr landi og geta fengið nauðsynlega viðbótarorku um hann, ef orkuvinnslan er ónóg í vindmyllulundi Heimaeyjar af einhverjum orsökum, og þeir geta sent umframorkuna til lands. Þess vegna er hugsanlega hagkvæmt fyrir Vestmannaeyinga eða eitthvert orkufyrirtækið að setja upp vindmyllulund í Vestmannaeyjum, en uppi á fastalandinu er arðsemi slíks mesti vonarpeningur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)