1.7.2015 | 09:52
Kaupahéðinn ógnar ímynd
Margt er skrýtið í kýrhausnum. Á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) hefur verið stofnað til sýndarveruleika með viðskiptum með upprunavottorð raforku. Samkvæmt Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 30. júní 2015 var svo komið árið 2014 eftir sölu íslenzkra virkjunarfyrirtækja utan á vottorðum um endurnýjanlega orku, að opinber samsetning íslenzkrar raforkuvinnslu var þannig:
- endurnýjanleg 45 %
- jarðefnaeldsneyti 32 %
- kjarnorka 23 %
Össur Skarphéðinsson, ESB-frömuður, lagði örlagaárið 2008 fram frumvarp á Alþingi um innleiðingu tilskipunar ESB um þennan sýndarveruleika, og var það samþykkt sem lög nr 30/2008 með öllum greiddum atkvæðum, 48, en 15 voru fjarverandi. Má ætla, að sumir þingmenn hafi ekki gert sér skýra grein fyrir afleiðingum þessarar lagasetningar fyrir ímynd Íslands sem land hreinnar raforkuvinnslu, því að margháttaður efi um það getur sótt á, ef svipaðar upplýsingar og ofangreindar standa á rafmagnsreikningunum.
Það er alvarlegt mál, að fyrirtæki á Íslandi, stór og smá, ásamt heimilunum, mega nú ekki halda því fram út á við, að þau noti einvörðungu endurnýjanlega orku. Með þessu er komið aftan að fyrirtækjum, sem gerðu langtímasamninga um orkukaup fyrir gildistíma téðra laga og vegið að grundvelli þessara samninga um kaup á raforku, sem unnin væri með sjálfbærum hætti. Í orkusamningunum er meira að segja tíundað, hvaðan orkan á að koma, og hvenær á að afhenda hana í tilteknu magni. Að banna þessum fyrirtækjum, viðskiptavinum virkjanafyrirtækjanna, nú að halda því fram, t.d. gagnvart sínum viðskiptavinum, að álið frá fyrirtæki þeirra á Íslandi sé framleitt fyrir tilstuðlan raforku, sem unnin er úr endurnýjanlegum orkulindum, vitnar um óboðlegt viðskiptasiðferði.
Fyrir vikið er nú ímynd Íslands sem land sjálfbærrar raforkuvinnslu, þeirrar langmestu í heiminum á hvern íbúa, í uppnámi. Fulltrúar eigendanna, innri endurskoðendur og aðrir, sjá það svart á hvítu, að þeir hafa verið ginntir af viðsemjendum sínum, Landsvirkjun o.fl., til að kaupa umhverfisvæna vöru, en opinberlega er hins vegar verið að farga hér geislavirkum úrgangi, sem enginn veit, hvað gert er við, og spúa svo miklu koltvíildi út í andrúmsloftið, auk brennisteinstvíildis, sóts og annars viðbjóðs, að Ísland er fyrir löngu komið út fyrir losunarheimildir sínar.
Ef Ísland væri nú tengt Bretlandi um tvíátta sæstreng, væri ekki lengur hægt að halda því fram, að meira en 99,9 % raforku á Íslandi komi frá rafölum, sem knúnir eru með sjálfbærum hætti. Hér er verið að tefla í tvísýnu gríðarlegum hagsmunum fyrir tiltölulega lítinn ávinning, og þess vegna ætti ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að ríða á vaðið og steinhætta þessum viðskiptum. Ef nauðsyn krefur, verður eigandinn að koma vitinu fyrir stjórn fyrirtækisins, eins og Iðnaðarráðherra ýjar að í viðtali við Morgunblaðið í dag, 1. júlí 2015, á afmælisdegi Landsvirkjunar, sem á sér glæsta sögu, en hefur villzt af leið.
Þessi viðskipti við íslenzk orkufyrirtæki eiga ekki við. Viðskiptunum er ætlað að beina orkufyrirtækjunum í endurnýjanlegar orkulindir, en það er megnasti óþarfi á Íslandi, því að ekki hvarflar að eigendum íslenzkra virkjunarfyrirtækja að virkja neitt annað en endurnýjanlegar orkulindir, þ.e. fallvötn, jarðgufu, vind og e.t.v. öldur eða sjávarföll í tilraunaskyni. Sólarorka er virkjuð í minna mæli, einkum af fjölskyldum, t.d. í sumarhúsum. Það orkar tvímælis að kalla jarðgufuna endurnýjanlega í sumum tilvikum, en á alþjóðlega vísu er hún skilgreind endurnýjanleg.
Hér skal fullyrða, að Landsvirkjun er með sölu sinni á upprunarvottorðum, eins og hér hefur verið rakið, að kasta perlu fyrir svín. Verð fyrir vottun á endurnýjanlegri orku hefur "undanfarin ár" verið á bilinu 0,07-0,30 EUR/MWh samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar til Morgunblaðsins þann 30.06.2015 á bls 12. Miðgildið er 0,18 EUR/MWh. Miðað við gengi þann dag jafngildir þetta 0,20 USD/MWh eða 0,6 % af meðalverði Landsvirkjunar. Í Morgunblaðsfréttinni segir, að aðeins 45 % íslenzkrar raforku sé úr endurnýjanlegum lindum. Þá hafa verið seld vottorð fyrir um 55 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar eða 7,2 TWh. Þetta eru aðeins um MUSD 1,44 eða MISK 200. Upphæðin er smáræði hjá því viðbótar verði, sem erlend fyrirtæki eru fús til að greiða fyrir sjálfbæra orkuvinnslu. Viðskipti orkufyrirtækja hérlendis með upprunavottorð endurnýjanlegarar orku eru viðskiptalegt glapræði og ber að afleggja hið snarasta til að varðveita hreina ímynd Íslands í rafmagnslegum efnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)