Undarleg orkuverðlagning

Á sama tíma og raforkuverð í öllum viðskiptalöndum Íslendinga hefur farið lækkandi, þá hækkar raforkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna á Íslandi, og hagnaður fyrirtækisins vex. Það þekkist varla erlendis um þessar mundir, að hagnaður orkufyrirtækja fari vaxandi. Þetta misgengi raforkuverðs hérlendis og erlendis skaðar samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja.  Íslenzka hagkerfið má sízt við þessari rýrnun samkeppnishæfni að halda nú, þegar margfalt meiri hækkun launakostnaðar ríður yfir fyrirtækin en þekkist erlendis. Úr því að Samkeppnisstofnun gerir ekki athugasemd við þessa afleiðingu markaðsráðandi aðstöðu, verða stjórnvöld að grípa í taumana, enda er risinn á markaðinum alfarið í ríkiseigu. 

Þessi staða mála er algerlega óþolandi í ljósi þess, að það er engin þörf á henni.  Landsvirkjun er leiðandi fyrirtæki og þar af leiðandi verðmótandi á raforkumarkaðinum.  Fyrirtækið lækkaði hreinar skuldir sínar árið 2015 um ISK 26 mia, og hagnaðurinn nam þá ISK 10,8 mia eða MUSD 84,2 og jókst um 7,4 % frá 2014 í sömu mynt.  Hagnaður fyrirtækisins sem hlutfall af tekjum nam 20 %. 

Afkoma Landsvirkjunar er mjög góð, og fyrirtækið á nægan orkuforða í vetur, því að vatnshæð miðlunarlónanna Þórisvatns og Hálslóns er yfir meðaltali. Eftir lækkun á verði til álvera Fjarðaáls og Norðuráls samkvæmt rafmagnssamningum fyrirtækjanna í tengslum við lækkun álverðs, en hækkun til ISAL samkvæmt rafmagnssamningi ISAL og Landsvirkjunar 2010, þá er nú meðalverð til stóriðju sem hlutfall af meðalverði til almenningsveitna orðið of lágt m.v. hlutfall vinnslukostnaðar fyrir þessa aðila í virkjunum Landsvirkjunar. Sumir kalla þetta, að almenningur greiði niður verð til stóriðjunnar.  Þá stöðu er nauðsynlegt að leiðrétta með afturköllun verðhækkana Landsvirkjunar til almenningsveitna undanfarin 2 ár.  

Það ber þess vegna allt að sama brunni.  Ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun ber siðferðisleg og samfélagsleg skylda til að lækka orkuverð til almennings og fyrirtækja á orkumarkaði án langtímasamninga á borð við málmvinnslufyrirtækin.  Annað verður að flokka sem okur leiðandi fyrirtækis á fákeppnismarkaði, og yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar um tíföldun arðgreiðslna, sem nú eru um ISK 1,5 mia, á næstu árum verður að skoða í þessu ljósi. 

Staða orkumála á Íslandi er mjög annarleg, þegar sú staðreynd er höfð í huga, að íslenzkir raforkunotendur brenna árið 2016 olíu, af því að þeir fá ekki raforku á samkeppnishæfu verði, enda okur í gangi, eins og hér hefur verið bent á. Eftir Björgvini Skúla Sigurðssyni, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, er eftirfarandi haft í Fréttablaðinu 15. febrúar 2016 í frétt undir fyrirsögninni:    "Vilja 30 % lægra rafmagnsverð":

"Fiskibræðslur hafa því beðið Landsvirkjun um að lækka rafmagnsverðið um allt að 30 % frá því í fyrra til að jafna núverandi olíuverð.  Það er meira en við teljum okkur geta gert.  Við vonum auðvitað, að hreinleiki íslenzku raforkunnar réttlæti hærra verð fyrir hana miðað við mengandi olíu, enda eru aðstæður á mjölmörkuðum nú mjög góðar."

Það er anzi hrokafullt af þessum orkusölumanni Landsvirkjunar að segja við fulltrúa fiskimjölsverksmiðjanna, að þeir hafi ráð á að auka rekstrarkostnað sinn og þá að draga úr hagnaði fyrirtækjanna, á sama tíma og rekstur Landsvirkjunar skilar methagnaði og tíföldun arðgreiðslna er boðuð af forstjóranum.  Hvernig halda menn, að þessir Landsvirkjunarfulltrúar hagi sér þá við viðskiptavini sína á lokuðum samningafundum ?  Ætli þeir neyti ekki aflsmunar með talsverðum bolabrögðum ?

Í sömu frétt Fréttablaðsins er haft eftir Jóhanni Peter Andersen, framkvæmdastjóra FÍF, að hann gæti trúað því, að álíka mikið sé nú brætt með olíu og rafmagni, en væri allt uppsett rafkyndingarafl verksmiðjanna notað, mundi raforkunotkunin vaxa um 50 % og fara í 75 % afkastagetunnar og olíunotkunin að sama skapi minnka.  Er einhverjum blöðum um það að fletta, á grundvelli þessara upplýsinga, að raforkuverð Landsvirkjunar er ósamkeppnishæft og stjórnendur Landsvirkjunar eru að verðleggja fyrirtækið út af markaðinum ?  Það er hins vegar ekki þannig, að Landsvirkjun sé ósamkeppnishæf.  Hún mundi áfram skila miklum hagnaði, þótt hún ýtti olíukyndingu út af markaðinum með verðlækkun, og hún hefur næga orku í miðlunarlónum sínum í vetur til að gera þetta. 

Stjórn og stjórnendur Landsvirkjunar hafa tapað áttum, og eigandinn, ríkið, og fulltrúar eigendanna, Alþingismenn, verða snöfurlega að sjá til þess, að stefnubreyting verði þar á bæ.

Afar athygliverð grein um raforkumál eftir Elías Elíasson, fyrrverandi sérfræðing í orkumálum hjá Landsvirkjun, birtist í Morgunblaðinu 23. febrúar 2016 undir fyrirsögninni,

"Sæstrengur og raforkumarkaður ES".  Þar segir um hlutverk íslenzkra raforkufyrirtækja:

"Íslenzk orkufyrirtæki voru stofnuð til þess, að almenningur og atvinnustarfsemi í landinu hefðu næga og ódýra orku úr að spila.  Orkuverðið þurfti þó að vera nægilega hátt til að hvati væri til fjárfestinga og orkuöryggi væri þannig tryggt til lengri tíma."

Þetta er hverju orði sannara, og ekki er vitað til, að eigendastefna frábrugðin þessari hafi verið samþykkt í neinu orkufyrirtækjanna.  Samt hefur Landsvirkjun síðan 2010 rekið alvarlega af leið og rekur nú okurstefnu og sinnir ekki þörfum ört vaxandi hagkerfis fyrir raforku, heldur virðist algerlega úti á þekju og góna út í heim, eins og eftirfarandi tilvitnun í Hörð Arnarson í frétt í Fréttablaðinu 23. febrúar 2016,

"Forstjórinn segir Landsvirkjun bjóða gott verð á raforku", ber með sér:

"Hörður sagði, að þessi mikla eftirspurn (á Íslandi) væri mjög sérstök í því efnahagsumhverfi, sem ríkir í heiminum í dag.  Almennt væri lítið um fjárfestingar, og orkuverð í heiminum væri lágt."

Nokkru síðar í grein sinni reit Elías:

"Landsvirkjun, sem er ráðandi fyrirtæki í raforkugeiranum, telur það þó hlutverk sitt að auka verðmæti þeirrar auðlindar, sem henni er trúað fyrir.  Innan þessarar stefnumörkunar rúmast býsna margt, bæði fyrrnefnd stefna sem og hin að reka fyrirtækið með hámarksgróða."

Landsmenn sjá nú svart á hvítu, að kúvending hefur orðið í stefnu Landsvirkjunar.  Það er ekki lengur ætlunin að sjá almenningi og atvinnulífi fyrir rafmagni á verði, sem telja má þeim hagstætt í samanburði við helztu viðskiptalöndin, heldur hefur verið söðlað um í átt að hámarksgróða Landsvirkjunar.  Fyrirtækið er alfarið í eigu ríkisins, svo að almenningur á Íslandi á heimtingu á útlistun á því, hvenær og hvernig þessi stefnubreyting átti sér stað í stjórn Landsvirkjunar, í ríkisstjórn og á Alþingi.

Það hefur sannarlega stundum verið efnt til undirskriftasöfnunar á meðal kjósenda af minna tilefni en þessu með áskorun til Alþingis um að semja, ræða og samþykkja þingsályktunartillögu, sem staðfestir, að hið upprunalega almenna hlutverk Landsvirkjunar, sem hér að ofan var tíundað með tilvitnun í Elías Elíasson, skuli áfram vera í gildi, þar til Alþingi ákveði annað.

Segja má, að gælur ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við sæstreng á milli Íslands og Bretlands séu hneyksli, því að líta má svo á, að um sé að ræða samsæri spákaupmanna gegn hagsmunum almennings og atvinnulífs á Íslandi, svo að spyrja má, hvað stjórn Landsvirkjunar sé eiginlega að bauka ?  Um líklega verðþróun á samtengdum raforkumarkaði ritar Elías í téðri grein:

"Reglur um viðskipti yfir slíkar tengingar hvetja til jöfnunar orkuverðs við báða enda.  Slík tenging við raforkumarkað Evrópu með sæstreng mundi væntanlega hækka almennt orkuverð hér á landi, eins og mál standa nú, en óvíst er um framtíðina.  Viðræður um sæstreng hafa átt sér stað, en ekki borið árangur."

Það hefur verið merkilega hljótt um sæstrengsmálið á þessu ári, og rýninefnd verkefnisins á vegum iðnaðarráðherra hefur enn ekki skilað af sér, svo að tekið hafi verið eftir, og átti meðgöngutími hennar þó að vera liðinn, sé rétt munað.  Hlýtur að styttast í, að einhver afrakstur birtist af störfum þessarar nefndar, sem væntanlega verða sett undir Argusaraugu. 

Lokaorð tilvitnaðrar greinar Elíasar Elíassonar eru merkileg og umhugsunarverð:

"Sé sæstrengur skoðaður þannig í ljósi stefnu Landsvirkjunar og málflutnings, vaknar grunur um, að verðmæti Íslands sem staðar fyrir arðbæran rekstur fyrirtækja kunni að minnka meir en verðmæti auðlindarinnar vex.  Gerist það, er hafið ferli, sem erfitt getur orðið að snúa við aftur. 

Er ekki kominn tími til, að Landsvirkjun skýri áform sín á skiljanlegan hátt fyrir almenningi ?"

Er ekki kominn tími til, að stjórnvöld taki upp hanzkann fyrir íslenzkt atvinnulíf og almenning og leiðrétti þá ósvinnu, sem nú viðgengst á fákeppnismarkaði raforku ?  Þar sem stórt fyrirtæki makar krókinn í krafti ríkjandi stöðu á markaði, þar leiðrétta stjórnvöld stöðuna neytendum í vil í þjóðfélagi frjáls markaðshagkerfis með félagslegu ívafi.    

 


Bloggfærslur 28. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband