18.5.2016 | 16:57
Viðsnúningur forseta
Forseti lýðveldisins sá sér leik á borði eftir umrótið í stjórnmálum hérlendis í byrjun apríl 2016 og sneri við ákvörðun sinni um að bjóða sig ekki aftur fram til forsetaembættisins, sem hann þó hafði tilkynnt þjóðinni um í nýársávarpinu 1. janúar 2016. Sinnaskiptin voru tilkynnt á blaðamannafundi að Bessastöðum mánudaginn 18. apríl 2016. Enn tók Ólafur Ragnar sinnaskiptum daginn eftir, að Davíð Oddsson tilkynnti um framboð sitt sunnudaginn 8. maí 2016. Ekki er ólíklegt, að umræðan um Panamaskjölin og konu hans hafi haft einhver áhrif á ákvörðun forsetans, enda var lágkúrulegt, hvernig fréttamenn þýfguðu Ólaf Ragnar um fjármál Moussaieff-fjölskyldunnar.
Þessar vendingar gjörbreyta baráttunni fyrir forsetakosningarnar. Um frambjóðendur í forsetakjörinu mátti segja, að þar voru margir kallaðir, en fáir eru útvaldir þar á meðal, þ.e. með nauðsynlega hæfileika og leiðtogahæfni, og verður reyndar ekki með góðu móti séð, hvaða erindi sumir þeirra töldu sig eiga til Bessastaða, enda hafa nú margir fallið úr skaptinu. Á Bessastöðum hefur aldrei ríkt nein meðalmennska, hvað þá eitthvað lakara, og svo verður vonandi áfram.
Ljóst er, að hjónin á Bessastöðum þrifust þar vel, og forsetinn kaus helzt að halda áfram í starfi, hvað sem stjórnmálastöðunni í landinu líður, þar til umræðan um eignir Moussaieff-fjölskyldunnar á aflandseyjum hófst og skattskil af þeim. Þetta var ómakleg aðför að dr Ólafi og konu hans. Sumir blaðamenn hafa enga sómatilfinningu.
Ritstjóri Morgunblaðsins taldi framboðsmál forsetans 20. apríl 2016 vera leiðigjarnt leikrit, og að aðeins væri hægt að horfa oft á tvö leikrit, Kardimommubæinn og Dýrin í Hálsaskógi, en nú væri þriðja leikritinu þvingað upp á landsmenn, því að valið væri ekkert. Nú var landsmönnum sem sagt til viðbótar við hin tvö leikritin boðið upp á "Bessastaðabóndann bljúga með öryggið á oddinum", en sýningum þess leikrits var sem sagt aflýst af óviðráðanlegum ástæðum.
Ritstjórinn vitnaði í orð eins aðdáenda forsetans, nafna hans Harðarsonar, stjórnmálafræðiprófessors, sem hefur tekið mikið upp í sig undanfarið og fræðimannsheiðurinn farið fyrir lítið, um, hversu vel dr Ólafur Ragnar þrífst í embætti:
"Þessir atburðir, og sérstaklega það, hvernig hann ekki bara gerði Sigmund Davíð Gunnlaugsson að forsætisráðherra, heldur slátraði honum líka, það eru atburðir, sem honum líka ekki illa."
Hér vísar stjórnmálafræðiprófessorinn líklega til blaðamannafundarins, sem forsetinn hélt á forsetaskrifstofunni á Bessastöðum síðdegis sama dag og hann synjaði forsætisráðherra um þingrofsheimild. Þar komst Ríkisráðstaskan í fyrsta sinn í sviðsljósið, enda má telja líklegt, að á þessari stundu hafi dr Ólafur þegar verið kominn í kosningaham. Er sá gamli ekki árennilegur, ef honum mislíkar verulega, en fyrrverandi forsætisráðherra hafði engan veginn kunnað sig þá um morguninn og lagt hausinn í gapastokkinn.
Líklegt er, að dr Ólafur hafi metið það svo 2012 og 2016, að starfsaldur hans í embætti yrði sér helzt að fótakefli, ef og þegar hann mundi leita endurkjörs. Í apríl 2016 sá hann sér leik á borði að slá þann leiða, sem margir væru e.t.v. búnir að fá á þeim hjónum, og gætu þar af leiðandi ekki hugsað sér hann sem Bessastaðabónda í aldarfjórðung.
Forseti lýðveldisins gerði sér lítið fyrir þann 5. apríl 2016 og sýndi og sannaði, að hann er enn í fullu fjöri og sterkur á svellinu, þegar á reynir. Hann tók hárrétta ákvörðun, er hann synjaði samþykkis á þingrofsheimild til handa fyrrverandi forsætisráðherra landsins, því að hótun um þingrof eða þingrofið sjálft hefði verið óþingræðislegur gjörningur, þar sem hreinn og klár þingmeirihluti var fyrir hendi, eins og stjórnarandstaðan leiddi strax í ljós með vantrauststillögu, 38:25. Jákvæð viðbrögð núverandi forsætisráðherra við framboði dr Ólafs sýna, að fyrrverandi forsætisráðherra lék óafsakanlegan einleik gegn þingræðinu, er hann hélt í hina örlagaríku Bessastaðaför að morgni 5. apríl 2016. Ríkisráðstaskan verður aldrei aftur höfð með í för upp á von og óvon.
Forseti lýðveldisins, 72 ára, stóð þarna sem klettur í hafinu til varnar þingræðinu, og þingræðið þarf á öllum tiltækum bakhjörlum að halda til að halda velli. Sitjandi forseti hefur það umfram alla frambjóðendurna, nema einn, að hann hefur sannað fyrir alþjóð, að hann getur staðið í ístaðinu, þegar á þarf að halda, og það gæti vissulega þurft á því að halda aftur á þessu kosningaári, svo að ekki sé minnzt á næsta kjörtímabil forsetans. Davíð Oddsson hefur einnig sýnt og sannað á sínum starfsferli, að hann stendur í ístaðinu, þegar á reynir, og lætur engan kúga sig, en vafi leikur á því með hina frambjóðendurna, og alveg sérstaklega er ástæða til að efast um það, þegar Guðni Th. Jóhannesson á í hlut. Það sýna uppgjafar ummæli, er hann viðhafði, þegar hart var deilt um þjóðhættulega Icesave-samningana. Þau má túlka sem stuðning hans við þáverandi ríkisstjórn og þá stefnu hennar að samþykkja Icesave-samningana.
Það er rétt hjá forsetanum, að veður eru nú válynd í stjórnmálunum. Það er vegna þess, að nú standa líkur til, að sá mikli árangur, sem náðst hefur við að færa Ísland aftur í hóp landa með frjálst hagkerfi verði í uppnámi eftir næstu Alþingiskosningar, af því að borgaraleg öfl nái ekki nægum þingstyrk til að mynda meirihlutastjórn, heldur muni stjórnleysingjar rotta sig saman með vinstri flokkunum til að grípa ríkisvaldið hreðjatökum og fara með það af algeru ábyrgðarleysi, hæfileikaleysi, stefnuleysi og hatri á borgaralegum, frjálslyndum öflum í landinu. Það má búast við skrípaleik getulítilla Alþingismanna eftir kosningar og sundurlyndri hrakfallastjórn, sem sameinast um það eitt, að halda borgaralegum öflum frá völdum. Þá má miðstétt landsins fara að biðja fyrir sér, því að afleiðing óstjórnar er fljót að koma fram í veskjum hennar sem auknar álögur og óðaverðbólga, eins og dæmin sanna.
Við þessar aðstæður er ómetanlegt fyrir þjóðina að hafa traustan bakhjarl á Bessastöðum, mann, sem oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hefur reynzt glöggskyggnari og kjarkaðri öðrum mönnum, þegar fokið hefur í flest skjól. Davíð Oddsson lætur engan vaða yfir sig á skítugum skónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)