24.5.2016 | 10:12
Ferðaþjónusta á krossgötum
Öryggismál ferðamanna á Íslandi eru í skötulíki, og þar eru útlendingar auðvitað berskjaldaðri en innfæddir, þar sem aðstæður á Íslandi eru flestum ferðamönnunum framandi. Í fréttum hefur verið greint frá atburðum, þar sem legið hefur við stórslysi, og þá má nærri geta, að heildarfjöldi slíkra hér um bil slysa skiptir hundruðum á árinu 2016. Þetta er þriðja heims ástand, og má furðu gegna, að ekki skuli hafa verið gerð gangskör að róttækum úrbótum á helztu ferðamannastöðunum enn þá, því að frá árinu 2013 hefur verið ljóst, að róttækra aðgerða er þörf. Ekki vantar nú silkihúfurnar, sem um þessi mál eiga að véla.
Í Fréttablaðinu, föstudaginn 11. marz 2016, var t.d. frétt um algert aðbúnaðar- og eftirlitsleysi á einum aðalferðamannastað landsins, við Gullfoss. Þetta er gjörsamlega fyrir neðan allar skriður, og engu er líkara en beðið sé eftir næsta stórslysi áður en þessum vinsæla ferðamannastað verður hreinlega lokað af öryggisástæðum, a.m.k. að vetrarlagi. Lausnin blasir þó við.
Gera þarf eiganda/umráðaaðila viðkomandi staðar ábyrgan fyrir öryggi gesta og umgengni þeirra við staðinn, um leið og honum er veitt heimild til að innheimta komugjald af hverjum ferðamanni, enda hafi hann eftirlitsmenn og leiðbeinendur á staðnum og veiti a.m.k. fyrstu hjálpar aðstoð og hreinlætisþjónustu auk þess að koma upp og viðhalda göngustígum og útsýnispöllum, þannig að engum stafi bein hætta af heimsókninni og allir geti notið heimsóknarinnar, kvíðalausir.
Af þessu komugjaldi þarf síðan að innheimta fullan virðisaukaskatt, og er þar með komið auðlindagjald í ríkissjóð, og sveitarfélagið fær fasteignagjöld af aðstöðusköpun og jafnvel útsvar af starfsmönnum.
Nú verður vitnað til fréttarinnar um hið hættulega ástand við Gullfoss, sem virðist vera í boði ríkisstofnunar, eins og fram kemur í fréttinni:
"Flughálir svellbunkar liggja bókstaflega yfir öllu við Gullfoss þessa dagana. Ferðamenn flykkjast að í þúsundatali á hverjum degi, en ekkert er gert til að draga úr hálkunni á leið þeirra að útsýnisstaðnum. Lögregluborða hefur þó verið komið fyrir til að hindra aðgang að stígnum, sem liggur lokaspottann að fossinum."
"Þessa stund, sem stoppað var við Gullfoss, virtust margir gestir þar komnir vel af léttasta skeiði. Var með ólíkindum, að þeir skyldu allir hafa staðið í fæturna alla leið að handriðunum, sem hægt var að styðja sig við á meðan fossinn var skoðaður úr fjarska."
"Um árabil hefur verið rætt um, að úrbætur þurfi við Gullfoss. Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu, segir fossinn í umsjón Umhverfisstofnunar, sem annist þar hálkuvarnir, söltun og söndun. Ekki var sandkorn að sjá á svæðinu, þegar Fréttablaðið var þar á ferð. Ekki náðist í fulltrúa Umhverfisstofnunar í gær."
Andvaraleysi og ábyrgðarleysi umsjónaraðila og ábyrgðaraðila staðarins er algert. Það er vítavert og sætir sennilega refsingu að lögum, ef einhver kærir, svo að ekki sé nú talað um, ef slys verður, er leiðir til tímabundinnar eða varanlegrar örorku, t.d. beinbrots. Langlundargeð hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni sætir tíðindum, því að í raun væri réttast, að sýslumaður mundi loka ferðamannastöðum, þar sem lífi og limum gesta er augljós hætta búin, eins og við Gullfoss við vissar aðstæður.
Ferðamálafulltrúi sýslunnar á svæðinu er greinilega gjörsamlega ráðþrota, en einhver myndi kalla slíkan málflutning holtaþokuvæl í þessari stöðu:
""Þetta er mjög erfið staða að eiga við í alla staði. Það virðist einhvern veginn ekki vera hægt að landa þessu almennilega", segir Ásborg. "Við í ferðaþjónustunni erum núna í svo nýjum aðstæðum. Það var ekki svona ofboðslegur fjöldi hér áður fyrr á þessum tíma.""
Þetta er óboðlegur málflutningur, og ef hann er talinn vera gjaldgengur, þá mun þetta ástand vara þar til staðnum verður hreinlega lokað.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, velkist ekki í vafa um, hvað er til ráða, og gefur yfirvöldum ráðleggingar í "Kynningarblaði um fjárfestingu í ferðaþjónustu", dagsettu 27. febrúar 2016:
"Framleiðni er lægri í ferðaþjónustu en hjá atvinnulífinu í heild. Ef greinin heldur áfram að vaxa án þess að það breytist, munum við ekki njóta ávinningsins í formi bættra lífskjara. Lykilverkefni stjórnvalda er því að styðja við framleiðnivöxt í greininni. Það verður gert með því að horfa í meiri mæli á verðmæti hvers ferðamanns heldur en fjölda þeirra. Þar skiptir máli að stýra ferðamannastrauminum og að auka tekjur af hverjum ferðamanni með fjárfestingu í tekjuskapandi verkefnum.
Viðskiptaráð hefur talað fyrir því, að tekin verði upp aðgangsgjöld á vinsælustu áfangastöðunum. Það dregur úr átroðningi, dreifir álagi á fleiri ferðamannastaði, eykur tekjur á hvern ferðamann og skapar hvata til að fjárfesta og byggja upp."
Yfirvöld hafa brugðizt í því að skapa nauðsynlega lagaumgjörð til æskilegrar framleiðniaukningar í ferðamannageiranum. Samt eru ágæt fordæmi, og nefnir Björn Brynjúlfur Bláa lónið til sögunnar um vel heppnaða náttúrunýtingu með aðgöngugjaldi fyrir gesti. Bláa lónið er sem kunnugt er affallsvatn frá jarðgufuvirkjun í Svartsengi og er hluti af auðlindagörðum Hitaveitu Suðurnesja. Bláa lónið er lýsandi dæmi um það, hversu afskaplega vel orkunýting og ferðaþjónusta geta haldizt í hendur, og þetta fordæmi má vera til eftirbreytni um allt land, þó að mörgum innfæddum blöskri nú aðgangseyririnn.
Alls staðar, þar sem virkjanir á Íslandi eru opnar ferðamönnum til sýnis og fróðleiks, eru þær vinsælir viðkomustaðir. Sömu sögu er að segja úr öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, þar sem stórar vatnsaflsvirkjanir eru á meðal vinsælustu ferðamannastaða, og virkjaðir fossar, t.d. Niagara, hafa engan veginn misst aðdráttarafl sitt, því að um aðalferðamannatímann er um 30 % upprunalegs meðalrennslis hleypt á fossana, og verður upplifunin þá mjög nálægt því, sem væri við upprunalegt meðalrennsli.
Það væri mikill bjarnargreiði við viðleitnina til aukinnar framleiðni í ferðamannaiðnaðinum, svo að ekki sé nú minnzt á tekjustreymið af auðlindanýtingu landsins almennt, að breyta öllu miðhálendi landsins, 40 % af heildarflatamáli þess, í einn þjóðgarð, ef með þjóðgarði er átt við að útiloka landgræðslu, almennilega vegagerð, virkjanir og loftlínu- og jarðstrengjalagnir, á svæðinu. Slík tillaga mundi jafngilda því að varpa stríðshanzka að fjölmörgum aðilum, t.d. aðliggjandi sveitarfélögum, sem hafa fjölbreytilegri hugmyndir um sjálfbæra og þjóðhagslega hagkvæma nýtingu hálendisins en hrossatront og skakstur á niðurgröfnu þvottabretti í rykmekki. Sum þeirra segja farir sínar ekki í sléttar í viðskiptunum við núverandi þjóðgarða.
Það er mun vænlegri leið til sátta að láta markaðinn úrskurða um það, innan marka lögformlegs umhverfismats, í stað einstrengingslegrar forsjárhyggju misviturrar miðstjórnar, hvernig hagnýtingu náttúrunnar verður háttað. Þegar meiri reynsla kemst á stjórnsýslu og opinberan kostnað af Vatnajökulsþjóðgarði, stærsta þjóðgarði Evrópu, og meiri upplýsingar verða tiltækar um kosti og galla slíkra risaþjóðgarða, mætti hugsa sér þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta stórmál.
Hvað sagði hinn mæti hagfræðingur, Björn Brynjúlfur, um Bláa lónið ?:
""Þar er rukkaður aðgangseyrir, sem skilar sér í hvata til uppbyggingar. Núna er þar í gangi uppbyggingarverkefni fyrir um miakr 6,0. Til samanburðar nam fjárfesting ríkissjóðs í ferðaþjónustu í heild sinni Mkr 25 árið 2014 samkvæmt Hagstofunni (sem er 0,4 % af téðri fjárfestingu Bláa lónsins - innskot BJo). Þetta er stærsta ástæða þess, að fjárfesting í greininni er lág. Á meðan við rukkum ekki ferðamenn fyrir aðgang að vinsælustu ferðamannastöðunum, fáum við ekki tekjur, sem nýtast til að byggja þá upp. Við njótum því ekki ávinnings af náttúruauðlindum okkar", útskýrir Björn Brynjúlfur."
Hér er komið að kjarna málsins. Framleiðnin í ferðamannaiðnaðinum er lág, af því að ferðamaðurinn er ekki rukkaður fyrir aðgang að náttúruperlum, og þar af leiðandi er aðstaðan til móttöku þeirra fyrir neðan allar hellur víðast hvar, jafnvel stórhættuleg, heilsuspillandi og gróðureyðandi. Það er flotið sofandi að feigðarósi varðandi umhverfisspjöll af völdum of mikils ágangs ferðamanna og fjölda þeirra í viðkvæmum náttúruperlum. Þegar um slíka "ofnýtingu" náttúruauðlindar er að ræða, er lausnin sú alls staðar að hefta aðgengið og taka skattgjald af þeim, sem inn á svæðið er hleypt, sbr fiskveiðiauðlindina.
Þegar um er að ræða ágreining um nýtingu á náttúrunni, er hægt að láta markaðinn höggva á hnútinn með því að láta hagsmunaaðilana bjóða í nýtingarréttinn til ákveðins tíma, t.d. 40 ára. Þannig gætu ferðaþjónustufyrirtæki og virkjunarfyrirtæki t.d. boðið í einhvern virkjunarstað á miðhálendinu, svo að dæmi sé tekið.
Þjóðhagslega hagkvæmast er þó, að mati blekbónda, að virkja, ef a.m.k. 10 %/ár raunávöxtun er tryggð af fjárfestingunni með orkusölu, og selja ferðamönnum síðan aðgang að virkjuninni og veita þeim þar góðan viðurgjörning. Dæmin sýna, að slíkur "auðlindagarður" hámarkar afrakstur auðlindarinnar og sjálfbær virkjun og ferðamennska fara ágætlega saman. Að stilla virkjunarfyrirtækjum og ferðaþjónustufyrirtækjum upp sem andstæðingum er bábilja, sprottin út úr hugskoti einsýnna ofstækismanna.
Það er jafnvel hægt að fara svipaða tilboðsleið með loftlínuleiðir, þar sem landnýtingin er umdeild, t.d. yfir Sprengisand. Þar gæti Landsnet, ef það hreppir tímabundinn nýtingarrétt á loftlínu- og jarðstrengjaleið, verið með myndarlega sýningu á nýstárlegu mannvirki, spanspóluvirki, sem nauðsynlegt er að setja upp með um 25 km millibili til að unnt sé að reka 220 kV jarðstreng án þess að setja raforkukerfi landsins á hliðina vegna spennusveiflna. Slík mannvirki munu aðeins spanna örlítinn hluta hálendisins og megnið af því verða áfram "ósnortin víðerni".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)