Ógnarlegar náttúruhamfarir - það sem koma skal ?

Ógurlegt ástand hefur skapazt í suð-austanverðri Ástralíu af völdum skógarelda vegna mikilla þurrka á þessu svæði. Úrkoma í Ástralíu sveiflast lotubundið og er nú nálægt hefðbundnu lágmarki. Jafnframt hafa hitamet verið slegin á þessu sumri í Ástralíu, og er þó hefðbundið heitasta tímabil ekki enn gengið í garð. Við vesturjaðar Sidneyborgar fór hitastig yfir 49°C í viku 02/2020.      Í Indónesíu, sem er norðan við Ástralíu, hafa á sama tíma orðið heiftarlegustu flóð í langan tíma.

Þarna virðist hafa orðið hliðrun á veðrakerfum, a.m.k. um stundarsakir, og sökinni er skellt á aukningu styrks koltvíildis í andrúmsloftinu úr 0.03 % í 0.04 % á 170 árum.  Hér skal ekki kveða upp úr með það, heldur viðra röksemdir með og á móti.  

Hvað sem því líður, þá hafa fjárfestingarbankar og tryggingafélög nú tekið til við að hringja viðvörunarbjöllum út af loftslagsbreytingum. Þetta á t.d. við um borgir í Bandaríkjunum, þar sem sjávarflóð geta valdið miklum usla.  Þar er nærtækt að óttast um Flórídaskagann, sem er flatur og lágur allur saman.  Nú er slíkum ríkjum ráðlagt að búast við  meðaltalstjóni af völdum loftslagsbreytinga, sem nemur 0,5-1,0 % á ári af VLF. Ef þetta er heimfært upp á íslenzka efnahagskerfið, fást 15-30 mrdISK/ár.  Tjónið, sem varð á Íslandi í norðanáhlaupinu á jólaföstu 2019 nam e.t.v. þriðjungi af lágmarki þessa bils, og þar var líklega um að ræða óveður, sem búast má við á 10 ára fresti.  Þetta er áhætta, sem Íslendingar hafa búið við frá landnámi, en þá var hlýrra hér en nú er. 

Hagur Íslands er hins vegar háður náttúrunni í meiri mæli en flestra annarra landa, og jafnvægi hennar er óstöðugt. Því má slá föstu, og maðurinn (homo sapiens) er orðinn svo öflugur nú á tímum, að hann getur truflað jafnvægi náttúrunnar.  Náttúrulegar hitasveiflur má m.a. sjá í löngum borkjörnum úr Grænlandsjökli. 

Viðkvæmt jafnvægi á t.d. við um Golfstrauminn, sem veikzt hefur á undanförnum árum, og um lífríki hafsins.  Flytji nytjastofnar sig um set, getur hæglega orðið efnahagslegt tjón hérlendis á ofannefndu bili.  Loðnan sannar þetta.  Hvarf hennar jafngildir um 20 mrdISK/ár tapi útflutningstekna, en á móti hefur makríllinn komið upp að ströndum landsins í ætisleit (étur um 3,0 Mt/ár) og bætt tjónið, þótt ekki séu allir nágrannar okkar þeirrar skoðunar, að við megum nýta hann þrátt fyrir þetta.  Það þykir okkur ósanngjarnt sjónarmið, og þar er verk að vinna fyrir íslenzka hafréttarfræðinga, fiskifræðinga, útgerðarmenn og stjórnarerindreka. Alþjóðlega gæðavottunarstöðin MSC leggur nú lóð sitt á þessar vogarskálar með því að svipta ríkin við norðanvert Atlantshafið gæðavottun á nýtingu norsk-íslenzku síldarinnar.  Innan ESB eru miklar áhyggjur um fiskveiðiaðstöðu ESB-ríkjanna eftir útgöngu Breta.  ESB leggur til, að fyrsta viðfangsefni útgöngusamninganna verði fiskveiðiheimildir innan brezkrar lögsögu.  Bretar geta aðeins fallizt á skammvinna aðlögun ESB að algeru brotthvarfi úr brezkri landhelgi, því að mestu hagsmunirnir eru í hefðbundnum kjördæmum Verkamannaflokksins, sem Íhaldsflokkurinn vann á sitt band í desemberkosningunum 2019, og Boris Johnson lofaði kjósendum þar því strax eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi standa við bakið á þessum nýju kjósendum Íhaldsflokksins.  

Á hinn bóginn er einsýnt, að landbúnaðurinn hérlendis mun njóta góðs af hlýnun með aukinni uppskeru og fleiri mögulegum tegundum, og aukin úrkoma er jafnframt fylgifiskur hlýnunar, svo að ekki ætti að væsa um vatnsbúskapinn í framtíðinni. Það þýðir, að rekstur vatnsorkuvera verður enn hagkvæmari í framtíðinni en verið hefur.   

Sé líkan IPCC nærri lagi, má nú ljóst vera, að meðalhitastig á jörðu mun hækka meira en var viðmið Parísarsáttmálans, 1,5°C-2,0°C.  Þessu veldur losun manna á 43 mrdt/ár af koltvíildi, CO2, sem er auðvitað til viðbótar enn meiri náttúrúlegri losun.  Til að minnstu líkur yrðu á að halda hlýnun undir 2°C, þyrftu helztu losunarþjóðirnar að draga mun meira úr losun en þær skuldbundu sig til í París, og fæstar þjóðir eru komnar á rekspöl minnkandi losunar.  Aðeins Evrópusambandið, ESB, hefur sýnt vilja til þess nú undir forystu Ursulu von der Leyen, sem senn mun kynna "Græna samninginn" sinn (Green Deal), sem kveða mun á um a.m.k. 55 % samdrátt í losun ESB-landa 2030 m.v. 1990. Þetta er kjörið tækifæri fyrir ESB til að öðlast langþráða stjórnun orkumála Evrópusambandslandanna.  Til þess gagnast óttastjórnun með ragnarök ("inferno") á næstu grösum, nema styrk hönd miðstýringar í Brüssel stemmi á að ósi.  

Það er hins vegar hægara sagt en gert að minnka CO2-losun; "The Devil is in the Detail", og lausn án kjarnorku er ekki í sjónmáli án þess að skaða samkeppnishæfni ESB-landanna meira en góðu hófi gegnir, og þá verður verr farið en heima setið, því að án fjárhagslegs styrkleika er verkefnið vonlaust. Þetta hefur hins vegar Greta Thunberg og hennar fylgifiskar, einnig hérlendis, ekki tekið með í reikninginn.  Ef fótunum verður kippt undan hagvextinum, t.d. með mjög háum koltvíildisskatti, mun hagkerfið skreppa saman, velferðarkerfið hrynja og  fjöldaatvinnuleysi skella á.  Þetta er efnahagskreppa, og í kreppu minnkar auðvitað neyzlan, en ekkert afl verður til reiðu til að knýja fram orkuskipti. Bretar eru líklegir til að taka forystu á þessu sviði, því að þeir hafa ekki útilokað kjarnorkuna sem þátt í lausninni, og hún er sem stendur eini raunhæfi valkosturinn við kolaorkuverin.  Bretar ætla að loka síðasta kolaorkuveri sínu 2025, en Þjóðverjar 2035. Á Íslandi og í öðrum löndum eru núllvaxtarsinnar talsvert áberandi.  Þeir telja hagvöxt ósjálfbæran.  Þetta fólk mun aldrei geta leitt orkuskipti, því að þau krefjast öflugs þróunarstarfs og mikilla fjárfestinga, sem er nokkuð, sem afturhaldsstefnur geta aldrei staðið undir.  Þær bjóða aðeins upp á aukið atvinnuleysi og versnandi lífskjör.

Það var fyrirséð við gerð Parísarsamkomulagsins í desember 2015, að samdráttur í losun (hún hefur á heimsvísu aukizt síðan þá) myndi ganga of hægt til að halda hlýnun undir 2°C m.v. árið 1850 (þá var enn "Litla ísöld" !).  Þess vegna var í samkomulaginu gert ráð fyrir að sjúga CO2 úr iðnaðar- og orkuverareyk og jafnvel beint úr andrúmsloftinu og binda það í stöðugum efnasamböndum neðanjarðar.  Að draga CO2 úr andrúmsloftinu er erfitt, því að þar er það aðeins í styrk 0,041 %.  Þetta er líka mjög dýrt í álverum vegna mjög lítils styrks koltvíildis í kerreyk þeirra (<1 %, í kolaorkuverum hins vegar um 10 %).

Á vegum ESB hefur verið stofnaður sjóður að upphæð mrdEUR 10, sem á að styrkja þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda og brottnáms CO2 úr iðnaðarreyk.  Fyrsta auglýsing hans eftir styrkumsóknum verður 2020, og líklegt er, að frá Íslandi muni berast umsóknir til að þróa áfram aðferðir ON (Orku náttúrunnar) á Hellisheiði.  Hjá ON á Hellisheiði er þessi förgun koltvíildis sögð kosta 30 USD/t, sem er aðeins 1/3 af kostnaði þessa ferlis erlendis.  Fyrir álverin er þetta áreiðanlega miklu dýrara en í jarðgufuvirkjuninni á Hellisheiði.  Hvers vegna velja þau ekki fremur hinn örugga kost að semja við skógarbændur á Íslandi um bindingu á a.m.k. hluta af 1,6 Mt/ár CO2 fyrir jafngildi um 30 USD/t ?

Hér sjáum við í hnotskurn vanda baráttunnar við koltvíildi í andrúmsloftinu.  Með því að ferfalda koltvíildisskattinn upp í 100 USD/t CO2 væri hugsanlega hægt að þvinga fyrirtæki til að setja upp CO2-brottnámsbúnað í afsogskerfi sín, en það mundi hins vegar setja viðskomandi starfsemi á hliðina, og þar með hefðu yfirvöld kastað barninu út með baðvatninu.  Eins og sást á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid í desember 2019, skortir samstöðu á meðal ríkja heims um sameiginlegar aðgerðir, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  Fyrir vikið er rétt að beina hluta af fénu, sem til ráðstöfunar er, til rannsókna á brýnustu mótvægisaðgerðum gegn hlýnun upp á meira en 3,0°C.  

IPCC gaf það út 2018, að til að halda hlýnun undir 2°C þyrfti að fjarlægja 100-1000 mrdt af CO2 úr andrúmsloftinu og/eða losunarreyk fyrir næstu aldamót, og miðgildið var 730 mrdt CO2, þ.e.a.s 17 ára núverandi losun.  Einmitt þetta hafa þörungar og jurtir gert í meira en einn milljarð ára.  Viðarbrennsla er talin kolefnishlutlaus orkuvinnsla, af því að skilað er til andrúmsloftsins því, sem nýlega var tekið þaðan.  Þetta auðveldar viðarkurlsnotendum á borð við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga leikinn.  

Hængurinn við bindingu með skógrækt er mikil landþörf skógræktar. Nýskógrækt að flatarmáli á við Rússland áætlaði IPCC 2018, að myndi aðeins draga 200 mrdt CO2 úr andrúmsloftinu til aldamóta, sem ekki hrekkur til að halda hlýnuninni nægilega í skefjum samkvæmt IPCC. Til mótvægis þessum vanda mætti þá grisja skóga, endurplanta og breyta nokkrum hundruðum af um 2500 kolakyntum orkuverum heims í sjálfbær viðarkurlsorkuver (pellets).  500 slík umbreytt kolaorkuver mundu þá spara andrúmsloftinu 5 mrdt/ár CO2 eða 12 %, og munar um minna.  

Ísland býður hins vegar upp á mikla möguleika fyrir íslenzkan iðnað til að verða kolefnishlutlaus fyrir tilskilinn tíma (2040). Vegna hlýnandi og rakara loftslags eykst gróðursældin hérlendis með hverjum áratugi.  Til að kolefnisjafna núverandi áliðnað á Íslandi þarf 260 kha lands, og slíkt landrými er fyrir hendi í landinu án þess að ganga á aðrar nytjar.  Slíkt gróðursetningarátak mundi skapa talsverða vinnu í landbúnaðinum og efnivið úr grisjun til kurlbrennslu í iðnaðinum og til (kolefnisfrírrar) orkuvinnslu og síðar meir viðarnytjar til húsbygginga o.fl.  Hvers vegna hefur ekki Loftslagsráð frumkvæði að því að koma á samstarfi Skógræktarinnar, skógarbænda og iðnaðarins í þessu skyni ? Slíkt væri ólíkt þarfara en að eiga viðtöl við fjölmiðla með kökkinn í hálsinum út af meintu svartnætti framundan.

Aðeins 19 af koltvíildisspúandi orku- og iðjuverum heimsins fjarlægja hluta af koltvíildismyndun sinni úr reyknum og binda hann neðanjarðar.  Alls nemur þetta koltvíildissog aðeins 40 Mt/ár eða 0,1 % af losun manna.  Hér þarf að geta þess, að hafið sogar til sín 1/4 og landgróður 1/4.  Staðan er engu að síður þannig, að samkvæmt IPCC er orðið vonlaust að halda hlýnun undir 2,0°C og líklegast, að hún verði yfir 3,0°C.

Fólk af alls konar sauðahúsi tjáir sig um loftslagsmálin og á fullan rétt á því, þótt af mismiklum skilningi sé.  Hrokinn og stærilætið leynir sér þó ekki, þegar efasemdarmenn um ýtrustu áhrif aukningar koltvíildisstyrks í andrúmsloftinu eru uppnefndir "afneitunarsinnar". Það er gefið í skyn, að efasemdarmenn afneiti staðreyndum.  Ekkert er fjær sanni. Þetta er hins vegar tilraun til að þagga niður í þeim, sem vilja rökræða þessi mál í stað þess að játast undir hin nýju trúarbrögð um "hamfarahlýnun".  Ein lítil spurning til þöggunarsinna gæti t.d. verið, hvernig kenningar um "hamfarahlýnun" koma heim og saman við þá staðreynd, að þann 2. janúar 2020 var slegið kuldamet á Grænlandsjökli, er þar mældust -66°C ?

Í Morgunblaðinu 29. nóvember 2019 birtist "baksviðsviðtal" Baldurs Arnarsonar við Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem hafði þar nánast ekkert fram að færa annað en yfirborðskennda frasa, einhvers konar loftslagsfroðu, sem hann gerir út á í opinberri umræðu.  Viðtalinu lauk með spádómi í dómsdagsstíl án þess að setja málið í tölulegt samhengi af viti.  Umræða af þessu tagi hefur verið kölluð "tilfinningaklám".  Það er gert út á ótta við breytingar:

"Ég held, að sá fjöldi ferðamanna, sem nú koma, sé ágætur.  Ég held, að 5 milljónir ferðamanna væru hvorki æskilegt markmið menningarlega né umhverfislega fyrir Ísland.  Eins og ég ræði um í fyrirlestri mínum [í Borgarleikhúsinu-innsk. Mbl.], held ég, að heimurinn sé að fara að breytast mjög hratt.  Það verða settar hömlur á flug á næstu árum; styttri ferðir verða ekki sjálfsagðar.  Ég held, að Íslendingar þurfi að laga sig að því, að við fáum færri ferðamenn í lengri tíma; að það verði jafnmargir ferðamenn á hverjum tíma.  Það verði hins vegar ekki talið siðferðilega rétt að skreppa í þriggja daga ferðir til útlanda, heldur heldur muni fólk fara [svo ?; verða] miklu lengur og betur [svo ?], þegar það ferðast."

Þótt rithöfundurinn haldi, að núverandi ferðamannafjöldi sé kjörfjöldi hérlendis, þá segja staðreyndir ferðageirans annað.  Gistirými er vannýtt, og tekjur eru of litlar m.v. þann fjölda, sem þar starfar nú, og hefur þó umtalsverð fækkun starfsmanna átt sér stað frá undirritun Lífskjarasamninganna, svo að nú er heildarfjöldi atvinnulausra í landinu kominn í 7600.  Hugmyndafræði rithöfundarins er hugmyndafræði stöðnunar, afturhalds, sem leiða mun til aukins landflótta kunnáttufólks héðan.

Hann heldur, að 5 M ferðamanna sé meira en landið ræður við með góðu móti, en útskýrir ekki, hvað hann á við.  Heildarfjöldinn 5 M getur t.d. verið samsettur af 2 M millilendingarfarþega og 3 M gistifarþega.  Með því að hluti þeirra fljúgi beint til Akureyrar eða Egilsstaða má dreifa þeim betur um landið og takist einnig að dreifa þeim betur yfir árið, þarf lítið að fjárfesta til viðbótar við núverandi innviði, gistirými og afþreyingaraðstöðu.  Góð nýting fjárfestinga er lykillinn að góðum rekstri og traustri atvinnu.  

Rithöfundurinn virðist halda, eins og Greta Thunberg, að flugið sé stórskaðlegt andrúmsloftinu.  Þetta er misskilningur hjá þeim.  Koltvíildislosun flugvéla er innan við 3 % af heildarlosun manna, og innanlandsflug í heiminum losar sennilega innan við 1 %.  Hvers vegna ætti að leggja hömlur á það, eins og rithöfundurinn spáir, að verði gert ?  Heldur hann virkilega, að þetta sé vænleg aðferð til betra lífs ?

Hugarórar rithöfundar eru ekki vænlegur grundvöllur spádóma.  Það, sem nú þegar er í gangi á þessu sviði, er þróun rafknúinna flugvéla fyrir vegalengdir undir 1000 km, nánar tiltekið tvinn flugvélar, þar sem bæði verða rafhreyflar og hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti.  Sennilega munu bæði birtast flugvélar með rafhlöðum og vetnishlöðum á þessum áratugi, fyrst í litlum flugvélum, <20 manna, og síðar í hinum stærri.  Þessar vélar munu smám saman leysa jarðefnaeldsneytisvélar af hólmi á öllum vegalengdum, enda umhverfisvænni og lágværari og auk þess hagkvæmari, er frá líður, í rafhami.

Hinn pólinn í loftslagsumræðunni gaf á að líta í Morgunblaðinu 6. desember 2019, en þar birtist greinin "Loftslagsvísindi hrjáð af fölsunum",

eftir Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing. Þar var óspart vitnað í raunvísindamenn og valvísi gastegunda á bylgjulengd geislunar fyrir varmaupptöku. Friðrik skóf ekki utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn; hann nýtti sér eðlisfræði gasa, og ólíkt færði hann betri rök fyrir máli sínu en rithöfundurinn, sem veður á súðum og reynir að framkalla hagstæð hughrif áheyrenda og lesenda fyrir áróður sinn. Slíkt hefur lítið vægi í umræðunni til lengdar.  Það ætti að vera tiltölulega fljótgert að sannreyna staðhæfingar Friðriks.  Grein hans hófst þannig:

"Hin 123 ára gamla kenning Arrheniusar um hlýnun loftslags af völdum koltvísýrings frá mönnum hefur nú vakið spár um "hamfarahlýnun".  Arrheniusi yfirsást meginatriðið, áhrif loftrakans.  Hálfum áratug eftir, að kenningin kom fram, var hún hrakin af Knut Ångström, en hefur samt skotið upp kollinum, þegar veðurlag hefur hlýnað (eftir 1920 og 1980)."

Þessari hressilegu grein sinni með tilvitnunum í merka raunvísindamenn lauk Friðrik með eftirfarandi hætti:

"Eðlisfræðileg lögmál sýna, að þau litlu áhrif, sem koltvísýringurinn hefur á hitastigið í lofthjúpnum, eru þegar að mestu komin fram.  Koltvísýringurinn, sem er nú þegar í lofthjúpnum, tekur upp nær alla varmageislun, sem hann getur tekið upp, en það er á bylgjulengdunum 2,7, 4,3 og 15 míkron. Útstreymi varmageislunar út úr lofthjúpnum er ekki á þeim bylgjulengdum, heldur á 8-12 míkrón, sem koltvísýringurinn getur ekki tekið upp.  

Aukið magn af koltvísýringi í loftinu breytir þessu ekki, sem þýðir, að styrkur koltvísýringsins í andrúmsloftinu hefur hverfandi áhrif á hitastigið á jörðinni. Metan hefur sömuleiðis hverfandi áhrif af sömu ástæðum.  Það er geislaupptaka loftrakans, sem er yfirgnæfandi og veldur obbanum af gróðurhúsaáhrifunum.

"... það hefur ekki verið sýnt fram á með sannfærandi hætti, að aukning CO2 í andrúmsloftinu hafi ákveðin áhrif á loftslag." (Prof. em. D. Thoenes, Hollandi.)

Af rannsóknum færustu óháðra vísindamanna er orðið ljóst, að aukinn koltvísýringur í lofthjúpnum hefur hverfandi áhrif á loftslagið á jörðinni." (Undirstr. BJo.)

Hér eru mikil tíðindi á ferð, ef sönn eru, þ.e. að útgeislun jarðar sé á tíðnibilinu 8-12 míkrón og hvorki koltvíildi né metan geti sogað í sig geislaorku á því bylgjusviði.  Það var einmitt skýringin á áherzlunni, sem lögð var á hámarks leyfilega hlýnun 2°C á Parísarráðstefnunni í desember 2015, að við meiri hlýnun mundi ekki ráðast við hana, þ.e. hitastigsþróunin myndi þá lenda í óviðráðanlegum hækkunarspíral, t.d. vegna þiðnunar sífrera Síberiu, sem myndi losa úr læðingi gríðarmagn metans, sem er sögð meira en tvítugfalt sterkari gróðurhúsalofttegund en koltvíildi.  Ef hvorug þessara lofttegunda getur tekið til sín útgeislun jarðar, fellur þessi hamfarakenning um sjálfa sig.  Tiltölulega einfalt ætti að vera að grafa þetta upp.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband