7.2.2020 | 14:45
Mistök við verðlagningu orku
Kostnaður raforkuvinnslu á Íslandi er að yfirgnæfandi hluta fjármagnskostnaður, og þess vegna er hægt að áætla hann með góðri nákvæmni langt fram í tímann. Með því að gera langtímasamninga um orkusölu frá íslenzkum virkjunum er hægt að fjármagna þær með lítilli áhættu. Það þýðir, að þessi verkefni falla í einna lægsta vaxtaflokkinn hjá lánastofnunum. Vegna þess að framleiðsluháður kostnaður þessara virkjana er tiltölulega mjög lágur, er hagkvæmast að reka virkjanirnar stöðugt á sem næst fullu álagi. Þetta er einmitt Akkilesarhæll vindorkuveranna.
Þessi kostnaðaruppbygging hefðbundinna íslenzkra orkuvera, vatnsafls- og gufuaflsvera, hefur auðvitað áhrif á það, hvernig hagkvæmast er fyrir virkjunareiganda að semja um orkusöluna. Í henni þarf að vera hvati til kaupenda til að halda uppi stöðugu álagi og helzt sem næst stöðugu hámarksálagi, hvað sem í skerst á mörkuðum viðskiptavina orkuveranna. M.ö.o. að þessir viðskiptavinir vatnsafls- og gufuaflsvera haldi einna lengst út, þegar á móti blæs á afurðamörkuðum viðskiptavinanna. Á þessu hefur Landsvirkjun flaskað frá 2010, er upprunalegi rafmagnssamningurinn frá 1966 við Alusuisse, með mörgum viðbótum, var endurnýjaður, þar sem gildistími hans var að renna út.
Álmarkaðurinn 2019 var lélegri en árið áður, og enn eru engin handföst batamerki komin í ljós. Markaðurinn hefur þróazt til verri vegar en menn grunaði 2010. Afleiðingin er sú, að ISAL neyðist til að halda framleiðslu sinni 2020 við lágmarkið, sem ákvarðast af kaupskyldu raforkusamningsins, til að draga úr rekstrartapinu. Hin tvö álverin á Íslandi sjá ekki ástæðu til að feta sömu slóð, enda búa þau við umtalsvert lægra raforkuverð samkvæmt eldri samningum. Segir þetta ólíka hátterni sína sögu um áhrif raforkuverðsins á ákvarðanatöku og á afkomuna. Að flíka síðan meðalverðinu og fullyrða, að það sé samkeppnishæft, er ekki lausnarmiðuð nálgun vandamálsins, en Landsvirkjun stingur í hausnum í sandinn og lætur sig hafa þann málflutning.
Nú berast loksins einhver tíðindi ofan úr orku- og iðnaðarráðuneytinu í tilefni af þessu og var ekki vonum fyrr. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur nú ákveðið að komast til botns í þessu máli og hefur fengið til þess erlendan aðila, sennilega af því að hún treystir því ekki, að rannsókn innlendra aðila, sem þónokkrir gætu leyst þetta verkefni, yrði óvilhöll. Allt er undir því komið, hvernig verklýsing ráðherrans er. Til að komast til botns í því máli, hvort summa orkuverðs, flutningsgjalds og opinberra gjalda á rafmagnið til íslenzkra fyrirtækja með langtímasamninga við íslenzka orkubirgja sé samkeppnishæft, verður að taka alla kostnaðarþætti viðskiptavina þeirra með í reikninginn. Að hrapa að niðurstöðu í þessu máli er verra en að láta vera að rannsaka málið. Hætt er við, að rannsóknin verði æði yfirgripsmikil og dragist á langinn, nema hún sé í upphafi einskorðuð við þann viðskiptavin, sem þyngstar ber byrðarnar af völdum raforkukaupa í þessum hópi, reiknað í USD/MWh.
Nú berast fregnir af því, að viðskiptavinir íslenzks gagnaversfyrirtækis hafi séð sér þann kost vænstan að lækka hjá sér rekstrarkostnað með því að draga úr rafmagnsálaginu. Ber þá allt að sama brunni. Raforkubirgjar á Íslandi fara villur vegar um það, hvað er samkeppnishæft raforkuverð til meðalstórra og stórra raforkunotenda á Íslandi. Þegar þessi mál eru vegin og metin, blasir við, að Landsvirkjun sem langstærsti orkusali landsins á heildsölumarkaði hefur yfirverðlagt afurð íslenzkra orkulinda við gerð nýrra orkusamninga og sérstaklega við endurnýjun gamalla og heldur uppteknum hætti með þeim alvarlegu afleiðingum, sem þessi háttsemi getur haft og er þegar tekin að hafa fyrir íslenzkt þjóðarbú og atvinnustig í bráð og lengd.
Lesendum til glöggvunar verður nú vitnað til fréttar í Markaði Fréttablaðsins, 30. janúar 2020:
"Minnkandi orkukaup í gagnaverum":
""Í okkar tilviki hefur notkun dregizt saman um 10 MW frá því í lok árs 2018 án þess þó, að viðskiptavinum hafi fækkað eða að nýting á plássi sé lakari hjá okkur. Það er ekki ákvörðun, sem Advania Data Centers tekur, heldur hafa viðskiptavinir, sem leigja hjá okkur aðstöðu, ákveðið að draga úr raforkunotkun sinni", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, í samtali við Fréttablaðið."
Hér er um viðskiptavini að ræða, sem valið geta auðveldlega um orkubirgja, því að það er samkeppni á milli birgjanna í ólíkum löndum um að fá þá. Þetta er ekki eins og með álverseigendurna, sem hafa fjárfest gríðarlega í starfsemi sinni hér, og flutningur er óraunhæfur.
Það fer ekki á milli mála, þegar orkuverð og afkoma viðskiptavina orkubirgjanna eru athuguð, að íslenzkir raforkubirgjar hafa yfirverðlagt sig og þannig glutrað niður sterkri samkeppnisstöðu fyrir klaufaskap og/eða græðgi, sem er farin að koma þeim í koll með minnkuðum sölutekjum. Þetta er algert sjálfskaparvíti, því að auðvitað er vinnslukostnaður raforkunnar ekki hærri hér en á hinum Norðurlöndunum, á Bretlandi eða á Meginlandinu.
Flutnings- og dreifingarkostnaður er þó hærri hér um þessar mundir vegna smæðar, vegalengda og uppskiptingar raforkugeirans samkvæmt orkulöggjöf Evrópusambandsins, ESB, sem innleidd var hér gjörsamlega að óþörfu, enda Ísland ótengt innri orkumarkaði ESB, en vinnslufyrirtækin hefðu þó getað tekið tillit til þessa við verðlagningu sína, þótt arðgreiðslur þeirra hefðu þá vissulega minnkað. Hér er um dæmigerð mistök birgja á samkeppnismarkaði í verðlagningu að ræða. Verktakar, sem svona haga sér, missa strax viðskipti og detta að lokum út af markaðinum. Að hinu öfluga ríkisfyrirtæki Landsvirkjun skuli verða á þessi fingurbrjótur, vitnar um alvarlega gloppu í stjórnkerfi þess og meinloku forstjóra og stjórnar fyrirtækisins.
"Fyrirtækið vinnur nú að uppbyggingu nýs gagnavers í hátæknigarði í Kista-hverfinu í Stokkhólmi. Gagnaverið er það fyrsta, sem Advania Data Centers reisir erlendis, en fyrir eru gagnaver í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Eyjólfur segir ástæðuna fyrir því, að viðskiptavinir séu að draga úr raforkunotkun sinni fyrst og fremst vera hækkandi raforkuverð á Íslandi.
"Þau verð, sem bjóðast á íslenzkum orkumarkaði, hafa verið að hækka og eru orðin of há m.v. okkar helztu samkeppnislönd. Við erum langt frá því að vera samkeppnishæf við Norðurlöndin. Allir stórnotendur ættu að finna fyrir því í sjálfu sér", segir Eyjólfur og bendir á, að orkuverð í miðborg Stokkhólms sé um 20 % lægra en það, sem fyrirtækinu bjóðist á Íslandi."
Það eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, að raforkuverð til stórnotenda í minni kantinum sé jafnvel yfir 20 % hærra á Íslandi en í miðborg Stokkhólms. Þetta sýnir í hnotskurn alvarlegar afleiðingar af áherzlu forstjóra Landsvirkjunar á gróða fyrirtækisins og arðgreiðslur, og að hún er kolröng, því að verðlagning hinnar markaðsráðandi Landsvirkjunar er farin að fæla viðskiptavini frá landinu og er á leiðinni að flæma gamla viðskiptavini á brott. Stjórnir Landsvirkjunar frá 2010 hafa búið sér þessa stefnu, en eigandinn hefur aldrei mótað þessa stefnu og mótaði í upphafi aðra og miklu víðsýnni stefnu til heilla fyrir atvinnulíf landsins.
Gorgeir forstjórans um, að Landsvirkjun muni á næstu árum geta greitt arð í ríkissjóð upp á 10-20 mrdISK/ár er innistæðulaus og ósjálfbær, af því að hann hefur algerlega misreiknað þróun raforkuverðs í nágrannalöndum okkar. Þetta ríkisfyrirtæki, sem hefur markaðsráðandi stöðu á Íslandi, grefur nú undan hagsæld landsmanna með minnkandi orkusölu í stað þess að skjóta undir hana traustum stoðum, eins og það gerði á sínum fyrstu 45 árum. Er þetta ekki einnar messu virði á Alþingi og í ríkisstjórn ?
"Almennt séð er mikil eftirspurn eftir raforku, en það er aftur á móti minni eftirspurn eftir raforku á þeim verðum, sem hafa verið að bjóðast á Íslandi. Gagnaversmarkaðurinn er að vaxa ævintýralega í löndum á borð við Noreg og Svíþjóð, en vöxturinn hefur ekki verið eins mikill á Íslandi. Það eru einfaldar ástæður fyrir því, og ein af þeim er hátt raforkuverð."
Á upphafsárum Landsvirkjunar var haldgóð þekking í fyrirtækinu um það, hvernig raunhæft væri að efla fyrirtækið með samkeppnishæfri verðlagningu raforku frá fyrirtækinu. Neðri mörk verðsins eru að sjálfsögðu s.k. kostnaðarverð, þar sem reiknað er með ávöxtun fjárfestinga til verkefna með mjög litla áhættu. Efri mörkin eru raforkuverð í öðrum löndum, sem sækjast eftir viðkomandi starfsemi, að frádregnu óhagræði og viðbótar áhættu og kostnaði samfara staðsetningu á Íslandi, reiknað á hverja kWh umsaminnar orku. Í upphafi var þessi frádráttarliður stór, því að Íslendingar og Ísland voru óskrifað blað í augum erlendra fjárfesta, og þar af leiðandi var Ísland land mikillar áhættu.
Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, en samt eru enn viðbótar kostnaðarliðir, t.d. vegna fjarlægðar frá mörkuðum, sem verður að taka tillit til við verðlagningu raforku hér, ef á að freista fjárfesta til að stofna til og viðhalda atvinnustarfsemi hér. Bæði er, að tekinn hefur verið rangur póll í hæðina um þróun raforkuverðs ytra, og frádráttarliðirnir vanmetnir.
"Eyjólfur segir, að það sé umtalsverður munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Auk þess sé í umfjöllun um orkuverð á Íslandi oft dregin upp villandi mynd samanber það, sem kom fram á kynningarfundi Landsvirkjunar nýlega.
"Þar var verið að bera saman verð á stundarmörkuðum (spot) á Norðurlöndum og meðalverð í raforkusamningum, sem gerðir eru til margra ára og jafnvel áratuga. Raunin er hins vegar sú, að það meðalverð er eitthvert verð, sem enginn getur keypt á og er langt undir þeim verðum, sem okkur og öðrum nýlegum stórnotendum bjóðast.""
Hér er blekkingastarfsemi Landsvirkjunar um boðin orkuverð afhjúpuð. Meðalverðið er ekki í boði, heldur virðist jaðarkostnaðarverð með hárri ávöxtunarkröfu vera lagt til grundvallar bæði til nýrra viðskiptavina og gamalgróinna, þar sem komið er að endurnýjun samninga.
Hér gætir áhrifa frá löggjöf Evrópusambandsins, ESB, s.k. orkupökkum, en fyrsta innleiðingin átti sér stað hérlendis 2003 og sú seinasta 2019. Þar er einmitt kveðið á um aðgreiningu orkuvinnslu, flutnings og dreifingar, og síðan þá hefur heildarorkuverðið hækkað verulega vegna fjármögnunar Landsnets með gjaldskrá sinni, en áður rann fé frá raforkuvinnslunni til uppbyggingar flutningskerfis og dreifiveitna. Nú er í staðinn greiddur arður út úr orkuvinnslufyrirtækjunum til eigenda, og þannig er fé tekið út úr greininni, sem auðvitað hefur sín áhrif á verðlagninguna. Snúa þarf af þeirri braut, hugsanlega með sjóðsstofnun fyrir þennan arð, sem síðan veiti styrktarfé til þess átaks, sem fara þarf í vegna flutningskerfisins (t.d. Byggðalínu) og dreifiveitnanna (afnám loftlína með jarðstrengjum).
Það er reginmisskilningur hjá forstjóra Landsvirkjunar, að íslenzka raforkukerfið sé nú orðið svo burðugt, að hægt sé að taka út úr því stórfé án þess að skaða samkeppnishæfni þess. Hann lét hafa eftirfarandi eftir sér í viðtali við Morgunblaðið 22. janúar 2020:
"Það ræðst auðvitað af fjárfestingarstiginu hjá okkur, hvað fyrirtækið getur greitt í arð. Þær [svo ?] tvöfölduðust á síðasta ári, og þær eiga að geta gert það aftur í ár. Innan eins til tveggja ára geta þessar arðgreiðslur numið 10-20 milljörðum á ári. Ef við ráðumst í stóru verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, þá kann það að hafa einhver áhrif, og eins hefur það áhrif, hvernig okkar stærstu viðskiptavinum vegnar á alþjóðamörkuðum. En heilt yfir ætti þessi mynd að geta litið svona út."
Þessi stefna ríkisfyrirtækisins er reist á einokunarstöðu þess um þessar mundir, og hún skilur eftir sig sviðna jörð, eins og hér hefur verið rakið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)