Landsreglari tjáir sig

Eins og kunnugt er, gegnir Orkumálastjóri líka hlutverki Landsreglara (National Energy Regulator), sem er æðsti fulltrúi Evrópusambandsins (ESB) hér á landi á sviði orkumála eftir innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3).  Hlutverk hans er í stuttu máli að hafa eftirlit með því, að stefnu ESB sé framfylgt hérlendis, eins og hún birtist í orkulöggjöf ESB, innleiddum orkupökkum, og að íslenzkri löggjöf á þessu sviði sé fylgt.  Þar sem ósamræmi er á milli þessa tvenns, skal löggjöf ESB vera rétthærri við túlkun.  Þetta er skýrt tekið fram í EES-samninginum. 

  Nú virðist vera kominn upp ágreiningur á milli Landsreglara og ráðherra umhverfis- og auðlindamála og reyndar einnig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, því að Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður VG, hefur andmælt sjónarmiðum Landsreglara um regluverk vindmylla frá A-Ö.  Báðir hafa skrifað í Fréttablaðið um ágreininginn, og Landsreglarinn borið andmælin til baka á sama vettvangi. 

Sá, sem skrifar fyrir hönd Landsreglara, er starfsmaður hans, Skúli Thoroddsen, lögmaður.  Grein hans í Fréttablaðinu þann 17. júní 2020 bar yfirskriftina:

"Vindorka fellur ekki að rammaáætlun".

Hún hófst þannig:

"Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, segir hér í blaðinu, 12. júní sl., að "vindorka sé hluti af heildarskipulagi orkuvinnslu og falli að rammaáætlun".  Á vegum Landsvirkjunar séu "vindorkuver í orkunýtingarflokki og biðflokki "svokallaðrar rammaáætlunar" og margir myllulundir í skoðun.  Þetta er rangt. 3ja rammaáætlun hefur ekki verið samþykkt, og engir vindlundir eru í núgildandi áætlun. Það er Orkustofnun [les Landsreglari], sem ákveður, hvaða virkjunarkostir eru nægilega skilgreindir, til þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun og faghópar, á hennar vegum, geti yfirhöfuð fjallað um þá.  Orkustofnun hefur ekki skilgreint neina vindorkukosti og því engir myllulundir í skoðun á þeim bæ.  

Umhverfisráðherra sagði, aðspurður  um vindorku, það vera "mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun".  Atvinnuvegaráðuneytið kveðst aðspurt aldrei hafa haldið þessu fram.  Afstaða þess sé óbreytt, en "þessi mál" séu til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta og "niðurstöðu verði að vænta innan skamms".  

Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skriplar á skötunni, þegar kemur að því lagaumhverfi, sem hann á að starfa eftir.  Hann virðist fljótfærari en góðu hófi gegnir fyrir mann í hans stöðu.  Með Orkupakka #3 fékk Orkustofnun sjálfstæða stöðu innan stjórnkerfisins, og Orkumálastjóri (Landsreglari) er óháður ráðuneytunum, nema um fjárveitingar; staðan hefur ígildi orkuráðherra.  Túlkun Skúla Thoroddsen er vafalítið rétt.  Orkustofnun (Landsreglari) skammtar Verkefnahópi Rammaáætlunar verkefni, og hann getur hvorki hafið sjálfstæða rannsókn á einu né neinu.  Úr því að Orkustofnun ekki hefur enn skilgreint neinn vindorkukost, er allur undirbúningur vindorkuverkefna unninn fyrir gýg.  Það er t.d. algerlega ótímabært fyrir sveitarfélög að breyta aðalskipulagi sínu til að geta hýst vindorkuver innan sinna vébanda.  Það er Landsreglarinn, sem gefur tóninn, á meðan OP#3, eða seinni orkupakkar, hefur hér lagagildi. 

"Tillaga umhverfisráðherra um vindorkukosti í 3ju rammaáætlun, Blöndulund í nýtingarflokk og Búrfellslund í biðflokk, er byggð á hugmynd verkefnastjórnar um "vindorkuver Landsvirkjunar", án afstöðu Orkustofnunar og þannig reist á röngum grunni.  Ráðherra er vissulega frjálst að leggja hana fram sem sína tillögu í þágu Landsvirkjunar þrátt fyrir ágallana og mismuna þar með vindorkufyrirtækjum.  Þar á Alþingi síðasta orðið eða eftir atvikum dómstólar."

 

 "Fyrir liggur, að um orkurannsóknir slíkra kosta [vinds] fer eftir lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auðlindalögum, sem lög um rammaáætlun vísa til í því sambandi.  Auðlindalögin gilda ekki, hvorki um vind né vindorkurannsóknir.  Sú stefnumörkun, sem felst í rammaáætlun, takmarkar stjórnarbundnar heimildir sveitarfélaga í skipulagsmálum.  Slíkar skerðingar í þágu almannahagsmuna til verndar eða nýtingar á náttúruauðlindum, þurfa ótvíræða, skýra lagastoð, eins og rammaáætlun er varðandi vatnsföll og háhitasvæði.  Hvort rammaáætlun taki til vindorku, ríkir í bezta falli óvissa um.  Sé það svo, kæmi það í hlut Orkustofnunar að skilgreina vindorkulandsvæðin.  Hin "takmörkuðu gæði", sem þannig verða til í eignarlandi sumra - en ekki allra - eða í þjóðlendum, yrði ríkið að bjóða út.  Slíkt útboð tæki til skipulagssvæðis með gildu virkjunarleyfi fyrir vindlund til handa orkufyrirtæki á grundvelli jafnræðis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekkert regluverk lýsir slíkum útboðsferli hér á landi, frá afmörkun vindlunda til virkjunarútboðs.  Svo virðist sem umhverfisráðherra vaði reyk um rammaáætlun, villtur vega.  En þessi mál eru annars til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta, og þaðan er niðurstöðu að vænta "innan Skamms". 

Undirstrikunin er pistilhöfundar til að leggja áherzlu á, að þar heldur Landsreglari Evrópusambandsins um fjaðurstaf.  Umhverfis- og auðlindaráðherra er úti á þekju í þessu máli, og það virðast sumir þingmenn vera líka, t.d. Ari Trausti Guðmundsson, sem stakk niður penna og andmælti Skúla Thoroddsen á sama vettvangi. Í raun og veru er texti Skúla algerlega samhljóma úrskurði ESA árið 2016, sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, féllst á af fullkomnu dómgreindarleysi.  Það verður sem sagt að bjóða nýtingarrétt orkulinda í eigu ríkisins út á Evrópska efnahagssvæðinu.  Það felur í sér stórkostlegt fullveldisafsal yfir auðlindum Íslands, sem hafa mun mjög neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.  Héldu menn, að OP#3 mundi bara engin áhrif hafa á Íslandi, ef bara væri móazt við að taka við aflsæstreng frá Innri orkumarkaði ESB ? Orkulindirnar eru í uppnámi, þótt upphaflegi EES-samningurinn spanni þær ekki. 

 burfellmgr-7340


Bloggfærslur 11. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband