Af áliðnaðinum

Framleiðsla undirstöðuefna fyrir iðnað heimsins hefur átt mjög á brattann að sækja á þessu ári, og um þverbak keyrði, þegar bráðsmitandi veirusjúkdómur í öndunarfærum manna barst um allan heim frá Kína, og sér enn ekki fyrir endann á ósköpunum. Nú hafa læknar á Langbarðalandi upplýst um þá niðurstöðu reynslu sinnar og rannsókna, að umrædd kórónaveira geti í raun lagzt á hvaða líffæri líkamans sem er.  Það er nýtt af nálinni og bendir til, að eigi sé allt með felldu um tilurð þessarar veiru.

Þar sem sóttvarnaraðgerðir flestra yfirvalda koma í veg fyrir myndun hjarðónæmis, verður SARS-CoV-2 líklega ógnvaldur, þar til bóluefni hefur verið þróað, e.t.v. árið 2021.  Veiran hefur leikið hagkerfi heimsins grátt, lamað atvinnulífið og spurn eftir undirstöðuefnum á borð við ál, járnblendi og kísil, hefur fallið.  Nýlega komu fréttir af tímabundinni lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka, vitað er um viðsjárverða framtíð álvers ISAL í Straumsvík, og samningaviðræður Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness voru mjög þungar, þegar síðast fréttist.  

Eftir þóf og þjark hófust alvöru samningaviðræður um raforkusamninginn á milli ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar seint í maí 2020.  Ef slitnar upp úr þeim samningaviðræðum, mun ISAL að líkindum stöðva starfsemi sína og kaup á öllum aðföngum, þ.m.t. rafmagni, síðsumars. Ætlunin er að leiða í ljós nú í júlí 2020, hvort samningar um endurskoðun raforkuverðs Landsvirkjunar til ISAL geti náðst.

Ekki þarf að orðlengja, að það yrði enn eitt áfallið fyrir efnahag landsins, og tap gjaldeyristekna, sem raska mun viðskiptajöfnuðinum til hins verra með mögulega slæmum afleiðingum fyrir gengi ISK og verðlagið á Íslandi, ef af stöðvun þessarar starfsemi verður.  Þótt fjárhagstap eigandans af þessari starfsemi hafi síðast liðin 2 ár numið tæplega mrdISK 20, þá hefur íslenzka þjóðarbúið verið með allt sitt á hreinu og notið tugmilljarða gjaldeyristekna á hverju ári vegna greiðslna fyrirtækisins fyrir raforku, vinnu starfsmanna þess og verktaka og fyrir ýmsa aðra þjónustu.  

Lítið spyrst út um gang viðræðnanna, en ýmislegt annað gerist, sem er ekki til þess fallið að bæta andann manna á milli í þessum viðræðum.  Í miðju Kófinu tilkynnti Landsvirkjun um tímabundna lækkun raforkuverðs til viðskiptavina sinna með langtímasamninga til að létta undir með þeim.  Fyrirtækið tilkynnti ISAL um 10 % tímabundna lækkun, sem er aðeins 40 % af hámarkslækkuninni, sem tilkynnt var.  Síðan hvarf fyrirtækið frá þessari lækkun án þess að tilkynna um þá stefnubreytingu opinberlega. Hvers konar stjórnarhættir eru þetta eiginlega ?  Ekki er síður furðulegt að innheimta fyrir maí 2020 fyrir meiri raforku en þá var notuð.  Það hefur verið sameiginlegur skilningur beggja fyrirtækjanna á orkusamninginum hingað til, að ákvæðinu um 86 % kaupskyldu af forgangsorku eigi aðeins að beita við ársuppgjör viðskiptanna.  Nú gæti myndazt inneign ISAL hjá Landsvirkjun, því að það er ætlun fyrirtækisins að auka aftur framleiðsluna kröftuglega, ef samningar takast.  Með framferði Landsvirkjunar, t.d. skammarbréfum til Rio Tinto, syrtir stögut í álinn.  

Innan Landsvirkjunar er orðrómur uppi um, að forstjórinn óttist viðbrögð skuldabréfaeigenda, ef kaupskyldan er ekki innheimt jafnóðum.  Hann virðist þannig hafa lofað upp í ermina á sér í blóra við orkusamningana.  Ef slitnar upp úr samningaviðræðum á milli ISAL/RT og LV og ISAL verður lokað, þá mun Rio Tinto vafalítið láta reyna á það frammi fyrir dómurum að fá verulegan afslátt á kaupskyldunni m.a. vegna þess, að LV hafi ekki gengið til samninga í góðri trú.  Forstjóra ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar virðist verða á hver fingurbrjóturinn öðrum verri.  Hann starfar á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins.  Hversu lengi er hún reiðubúin að taka þátt í og ábyrgjast þessa gandreið forstjórans ?

Í Morgunblaðinu 24. júní 2020 birtist frétt Höskuldar Daða Magnússonar um "íslenzka uppgötvun" á sviði álframleiðslu.  Nú veit höfundur þessa vefpistils ekki gjörla um smáatriði þessarar uppgötvunar.  Þó kom það fram, að ál hefði verið framleitt við 500 A straum með þessari nýju tækni og að skautin séu úr keramik og málmum.  Þetta rímar við frumbýlingstilraunir álfyrirtækja um aldamótin síðustu við að framleiða ál án kolefna. Hætt er við, að mikilvægi þessarar "uppgötvunar" sé mjög orðum aukið og í raun séu stór álfyrirtæki miklu lengra komin á þessu sviði en fyrirtækið Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðin. Hvers vegna er látið eins og það sé í fyrsta sinni undir sólunni, að ál er framleitt kolefnisfrítt ?

Sannleikurinn er sá, að Alcan, sem Rio Tinto keypti fyrir allmörgum árum, og Alcoa hafa stundað rannsóknir í mörg ár með það stefnumið að gera álframleiðsluna kolefnisfría.  Sá áfangi að gera þetta í litlu tilraunakeri við 500 A náðist fyrir fjöldamörgum árum. Með því er björninn ekki unninn. Tæknilegi vandinn er að gera þetta með hagkvæmum og öruggum hætti við fullan iðnaðarstraum.  Þá er átt við 1000 sinnum hærri straum en frumkvöðlar á Íslandi voru að föndra við og básúnuðu síðan sem meiriháttar uppgötvun (technical breakthrough ?). 

Fyrir nokkrum árum stofnuðu fyrirtækin Rio Tinto og Alcoa með sér þróunarfélagið Elysis og lögðu fyrirtækinu til mikið fé.  Þetta þróunarfélag hefur náð svo miklum árangri, án þess að berja sér tiltakanlega á brjóst fyrir það, eins og Ketill, skrækur, gerði á sinni tíð, að nú er verið að framleiða kerbúnað fyrir tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi (þróunaraðstaða franska ríkisálfélagsins Pechiney, sem Alcan keypti á sinni tíð), sem á að verða tilbúin til rekstrar með  fullum iðnaðarstraumi fyrir árslok 2021. Gangsetning þessarar tilraunaverksmiðju markar raunveruleg tímamót í álheiminum, en ef gjörningur Arctus Metals og Nýsköpunarstöðvarinnar mun hafa einhverja þýðingu, á eftir að útskýra í hverju sérstaðan felst m.v. rannsóknir t.d. rússneska álrisans Rusal.

Frétt Höskuldar bar hið vafasama heiti:

"Íslensk tækni í kapphlaupi við risa á álmarkaði".

Efasemdir hljóta að vakna, þegar þess er gætt, að fyrir 20 árum voru ýmsar rannsóknarstofnanir, t.d. í hinu rótgróna áltæknisamfélagi Tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, að feta sig áfram með kolefnisfría álframleiðslu með lágum straumi. Var þetta iðulega kynnt á námstefnum Tækniháskólans í Þrándheimi, sem haldnar voru annað hvert ár. Hérlendis virðist vera um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, og "íslenzka tæknin", sem áhöld geta verið um, hvort er íslenzk, vera a.m.k. tveimur áratugum á eftir tímanum. Ef um einhverja sérstöðu er að ræða, sem hafi marktæka kosti framyfir t.d. Elysis-tæknina, hefur algerlega mistekizt að koma henni á framfæri.  

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, kom í þessari frétt með fráleita speki.  Hann gerði því skóna, að nýja tæknin myndi hafa minna umhverfislegt gildi, væri hún nýtt Kína, með öll sín kolakyntu orkuver, en á Íslandi.  Lofthjúpur jarðar gerir auðvitað engan greinarmun á því, hvort t.d. 1 Mt/ár eru framleidd með þessari nýju tækni í Kína eða á Íslandi.  Svona málflutningur frá félagi álframleiðenda á Íslandi gerir ekkert gagn.  

Þá var í lok fréttarinnar viðtal við Guðbjörgu Óskarsdóttur, forstöðumann hjá Nýsköpunarmiðsöð Íslands og framkvæmdastjóra Álklasans:

""Við viljum sjá svona lausnir koma sem fyrst hingað til lands, svo [að] það er ánægjulegt, að íslenzkt fyrirtæki sé að vinna að þessari byltingu.  Öll stærstu álfyrirtækin í heiminum eru að horfa til þessarar tækni í framtíðinni", segir Guðbjörg Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og framkvæmdastjóri álklasans.  

Guðbjörg segir, að líklega verði þess ekki langt að bíða, að umrædd tækni verði tekin í gagnið.  Á stórum álmarkaði sé pláss fyrir fleiri en eina lausn. 

"Jón Hjaltalín hefur sagt sjálfur, að álver, sem ekki eru tengd þessum stóru, sýni tækni hans áhuga, enda vilja allir vera með svona lausn, þegar hún kemur og er tilbúin.  Það, að íslenzkur frumkvöðull sé kominn þetta langt núna, styrkir samkeppnisforskot hans."" 

Um þetta er vægast að hafa þá umsögn, að orð Guðbjargar lýsi meðvirkni. Það er fráleitt að tala um nýja tækni, þegar í hlut á tilraunastarfsemi í mælikvarðanum 1:1000, því að megnið af þróunarvinnunni er eftir, og hún er að baki í þróunarverkefninu Elysis. Ef um nýja aðferð er að ræða, í hverju lýsir hún sér, og hverjir eru kostir hennar m.v. við löngu þekktar aðferðir háskólasamfélaga og álrisa ? 

Fyrir utan rafkerfið í álverksmiðju, þá er rafgreiningin hjartað í henni.  Í hvoru tveggja liggja gríðarlegar fjárfestingar.  Engum, sem snefil af þekkingu og reynslu hefur af starfsemi þessa geira, dettur í hug, að nokkurt álfyrirtæki kjósi fremur samstarf við smáfyrirtæki og nýgræðing á þessu sviði, sem virðist vera langt á eftir tímanum, en þróaða og reynda tækni, sem tækni Elysis verður eftir áratug. 

Hugtakaruglingur tröllríður umfjöllun sumra fjölmiðla um álframleiðslu.  Hann var áberandi í frétt Markaðar Fréttablaðsins 25. júní 2020 og kom fram í fyrirsögninni:

"Juku framleiðslu hreins áls eftir lokanir á meginlandinu".

Í þessu felst fullkomin mótsögn, því að hreinálsframleiðsla er sérgrein, sem ekki þrífst, ef markaðir "lokast".  Hreinál er yfir 99,9 % ál, sem yfirleitt næst aðeins með flóknu hreinsiferli í steypuskála, en það sem í fyrirsögninni er átt við, er hráál, ómeðhöndlað ál, beint upp úr venjulegum rafgreiningarkerum, sem ekki er notað beint í neina framleiðslu, heldur fer allt í endurbræðslu. Hráál keranna inniheldur vanalega minna en 97,5 % ál.  Þetta hlutfall mun hækka með innleiðingu kolefnisfrírrar framleiðslutækni. Á hrááli og hreináli er grundvallarmunur, og ruglingurinn kann að stafa af ónákvæmri orðanotkun talsmanna sumra álveranna, þó ekki ISAL, því að blaðafulltrúi fyrirtækisins notaði orðið "hráálskubbar", sem getur verið rétt, en einnig eru sums staðar við lýði hleifasteypuvélar, og þar eru steyptir hráálshleifar við þessar og aðrar aðstæður, þar sem ríður á að halda uppi eða auka til muna afkastagetu steypuskálanna án þess að steypa samkvæmt pöntunum.  

Upphaf þessarar fréttar Markaðarins var þannig:

"Þegar kórónuveirufaraldurinn hafði skollið á Evrópu af fullum krafti, brugðust íslenzku álverin við með því að framleiða hreinál í stað sérhæfðara málmblendis að sögn talsmanna álveranna.  Minni orkukaup og afslættir á raforkuverði til stórnotenda munu draga úr tekjum Landsvirkjunar á árinu [2020]."

Þessi frásögn bendir til, að vitleysan eigi rætur að rekja til talsmanna Norðuráls og Fjarðaáls, en þeir mega ekki mæta svona illa lesnir til leiks.

Svo undarlega sem það hljómar, þá hefur stóriðjufyrirtækið, sem hæst verð greiðir fyrir raforku Landsvirkjunar, enn engan Kófsafslátt fengið, þótt fyrirtækið hafi í apríl 2020 tilkynnt ISAL um 10 % lækkun.  Ekki nóg með það, heldur rukkaði fyrirtækið fyrir meiri orku en notuð var í maí.  Þetta heitir ruddaframkoma, þegar ekki er skafið utan af óþverranum. 

Landsvirkjun reyndi í Kófinu að koma sér í mjúkinn hjá eigendum sínum (hún gefur skít í viðskiptavinina), og til marks um slepjuháttinn er eftirfarandi úr sömu frétt:

"Afslættir til stórnotenda einir og sér námu allt að 25 % og munu kosta fyrirtækið a.m.k. mrdISK 1,5 á þessu ári.  Orkukaup álveranna hafa að sama skapi verið minni á þessu ári en hinu síðasta, en ekki liggur fyrir, hversu mikið þessi minni eftirspurn raforku mun kosta Landsvirkjun að sögn talsmanns Landsvirkjunar."

Upphæðin mrdISK 1,5, sem talsmaður Landsvirkjunar segir hana fórna með sjálfskipaðri verðlækkun, er dropi í hafið og t.d. aðeins um 11 % af tapi ISAL 2019.  Það er víða pottur brotinn.

S1-ipu_dec_7-2011

 

 

 

  


Bloggfærslur 16. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband