Veiran verður á meðal vor

Sigríður Á. Andersen, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hefur að mati höfundar þessa vefpistils verið rödd skynsaminnar í afstöðunni til aðgerða gegn veirunni og umtals um þróun farsóttarinnar.  Hún varar við að "dramatísera" þróunina með orðum eins og "bakslagi".  Það verður að halda starfsemi þjóðfélagsins sem eðlilegastri og þar með skólunum með þeim varúðarráðstöfunum, sem tiltækar eru á borð við andlitsgrímur og hanzka.  Áherzlu ber að leggja á að verja viðkvæma hópa, sem sóttvarnaryfirvöld hafa rækilega upplýst um, hverjir eru. 

Við verðum að lifa með þessari veiru, þangað til nægilega mikið af bóluefni berst til landsins til að skapa hjarðónæmi.  Rússar hafa tilkynnt, að þeir hyggist hefja bólusetningu á framlínufólki sínu í baráttunni við COVID-19 í október 2020.  Það mun létta þeim róðurinn, ef vel tekst.  Enn er undir hælinn lagt, hvenær öruggt bóluefni kemur á markaðinn á Vesturlöndum.  Enn hefur ekki tekizt að þróa bóluefni gegn HIV-veirunni eftir 20 ára rannsóknarvinnu, og sagt er, að SARS-CoV-2 svipi til HIV-veirunnar.  Ekkert bóluefni er enn til gegn eldri gerðum kórónuveirunnar (flensuveiru).

Skimun á landamærum gegnir sjálfsagt vísindalegu hlutverki, en það, sem hún hefur skilað til smitvarna, er ekki í neinu samræmi við tilkostnaðinn.  Í viku 32/2020, sem var fyrsta heila vikan í ágúst, höfðu frá 15.06.2020 greinzt 32 virk smit í meira en 75´000 sýnum úr fólki að koma til Íslands.  Sýktir innkomandi ferðamenn, að heimamönnum meðtöldum, námu þannig um 0,04 % af þýðinu, sem er lægra hlutfall en nemur hlutfalli COVID-19-sýktra í íslenzka þjóðfélaginu samkvæmt nálgunarmælingum Íslenskrar erfðagreiningar, ÍE.  Hlutfallið þar á milli er marktækt eða 2,5.  Þar á ofan verður að taka tillit til smithættunnar.  Talið er, að hver smitaður íbúi í landinu smiti að jafnaði 2,5 aðra, en erlendir ferðamenn eru mun minna smitandi, af því að þeir eru í nánum samskiptum við miklu færri hérlendis.  Þetta smitnæmi gæti vefpistilshöfundur ímyndað sér, að væri undir 1,0.  Takmarka mætti fjölda ferðamanna hingað með kröfu um nýgengisstuðul í landi þeirra undir 100, þegar þeir bóka ferð.  Að þessu öllu virtu, geta erlendir ferðamenn ekki haft nein úrslitaáhrif á gengi veirunnar hér. Þegar sóttvarnarráðstafanir eru gerðar í landinu, einkum á landamærunum, verður að taka tillit til staðreynda, sem nú eru fyrir hendi um þennan nýlega vágest, í stað þess að ofvernda íbúa landsins með öllum þeim kostnaði og tekjutapi, sem slíkt leiðir af sér.  

Skimun á landamærum orkar tvímælis m.v. hversu lágt hlutfall ferðamanna greinist smitaður.  Ef kostnaður við hverja skimun er kISK 15, þá nemur kostnaðurinn við að finna hvern sýktan ferðamann MISK 40 eða kUSD 300.  Þetta er mun hærri upphæð en búast má við, að nemi kostnaðinum af að hleypa hinum sýkta inn í landið.  Fækka mætti skimunum með því að einungis ferðamenn frá löndum með hátt nýgengi, t.d. 50-100, væru skyldaðir í skimun eða sóttkví.  Þá mundi fólk frá t.d. Frakklandi (NG=57) og Spáni (NG=122) af Schengen-löndunum þurfa að fara í skimun m.v. stöðuna 1.-6. ágúst 2020.  

Það er mjög æskilegt, að skólakerfið starfi sem mest óraskað.  Þar af leiðandi ber að fagna tilslökun á fjarlægðarreglu fyrir framhaldsskólanemendur úr 2,0 m í 1,0.  Hvers vegna ekki að minnka smithættuna þar með grímuskyldu, ef fjarlægð er minni en 2,0 m. 

Sundlaugum og öðrum heilsueflandi stöðum, eins og þrekmiðstöðvum, ber að halda opnum fram í rauðan dauðann með nauðsynlegum fjöldatakmörkunum og grímunotkun, ef fjarlægð er undir 2,0 m.  Fyrir utan almenna fjölatakmörkun ætti að setja hámarksfjölda á m2 á veitingastöðum, því að þar er grímunotkun óraunhæf.  Hvers vegna ekki að leyfa starfsemi kvikmyndahúsa, leikhúsa og tónleikahaldara með 1,0 m reglu og grímuskyldu fyrir gesti, og tíðri innköllun hluta starfsfólks til skimunar ?  

Í sunnudags Moggagrein sinni 9. ágúst 2020, 

"Þetta veltur á okkur",

ritaði Þórdís Reykfjörð, ferðamálaráðherra, þetta m.a.:

"Bakslag reynir jafnvel enn meira á þrautseigju okkar og þolinmæði en þær hörðu aðgerðir, sem gripið var til [til] að kveða fyrstu bylgjuna niður.  Samheldnin, sem ríkti á mestu ögurstundum í baráttunni og gleðin yfir sameiginlegum árangri víkur fyrir vonbrigðunum með bakslagið.  Við sjáum í samfélaginu, að þetta veldur vanlíðan, óþoli og leit að sökudólgum."

Hér gerir ráðherrann mikið úr meintu bakslagi, sem er hugtak, sem Sigríður Andersen, Alþingismaður, telur óviðeigandi í þessu sambandi á þeim tíma, þegar ljóst er, að veiran verður ekki kveðin niður fyrr en hjarðónæmi hefur skapazt og að við verðum að búa við þessa veiru í samfélaginu.  Eftir á séð virðast sóttvarnarráðstafnir við fyrstu bylgju hafa verið of strengar og íþyngjandi (dýrkeyptar), því að fyrsta bylgjan hjaðnaði svo hratt, að kom sóttvarnayfirvöldum á óvart. 

Í næsta bút greinarinnar kemur skoðun ráðherrans á þessu raunverulega fram, og pistilhöfundur vill þar taka undir með Þórdísi:

"Þetta er skiljanlegt og þarf ekki að koma á óvart.  En það þarf ekki heldur að koma á óvart, að þetta bakslag skyldi koma.  Það hefur allan tímann verið talað á þeim nótum, að það væri líklegt. Það hefur verið sagt alveg skýrt, að við gætum þurft að læra að "lifa með veirunni" í töluvert langan tíma.  Við þurfum að setja okkur andlega í þann gír.  Öðru vísi komumst við ekki með góðu móti í gegnum þetta tímabil."

Síðasta málsgreinin er kjarni málsins, en hvað felst í "að lifa með veirunni".  Í stuttu máli er átt við, að þjóðlífið geti að mestu gengið sinn vanagang að viðhöfðum lágmarks sóttvörnum.  Í þessu gæti t.d. falizt að leyfa þéttsettna bekki á tónleikum og í kvikmyndahúsum (með 1 sæti á milli ótengdra), ef grímuskylda yrði virt.  

Síðan tekur Þórdís tvo hagfræðinga til bæna, en þeir þykjast hafa fundið það út, að betur borgi sig fyrir þjóðfélagið að hindra ferðir innlendra og erlendra um landamæri Íslands.  Þótt alls ekki megi vanmeta skaðleg heilsufarsáhrif þess vágests, sem allt þetta umstang snýst um, þá telur höfundur þessa vefpistils, að hagfræðingarnir hafi ekki hitt naglann á höfuðið við þessar vangaveltur sínar, enda er ekki vitað um neitt eyland, sem hefur lokað sig af vegna smithættu af SARS-CoV-2. Segja má, að lokunarstefnan og "að lifa með veirunni" sjónarmiðið takist á.  

Þórdís skrifar:

"Tveir hagfræðingar, Þórólfur Matthíasson og Gylfi Zoëga, hafa nýlega kvatt sér hljóðs og lýst þeirri skoðun, að tilslakanir á landamærunum hafi verið misráðnar og gefa í skyn, að fjölgun smita núna undanfarið sé afleiðing þeirra ákvarðana.  Það á ekki við rök að styðjast."

Það er rétt hjá Þórdísi, að hagfræðingarnir virðast fremur vera á tilfinninganótunum með þennan málflutning sinn.  Það er ekki hægt að útiloka, að smit berist til landsins, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki hægt að útiloka landsmenn frá samskiptum við útlendinga.  Þar með sitjum við uppi með innanlandssmit og enga ferðamenn, hvorki innkomandi né útfarandi.  Innanlandssmit hefur um hríð verið greint í 0,1 % þýðisins.  Sýnaþýðið á landamærunum er að 0,04% smitað, og eru Íslendingar þar á meðal innkomandi ferðamanna.  Lítil smithætta af ferðamönnum veldur því, að sú tilgáta hagfræðinganna, að stöðvun ferðamennskunnar borgi sig fjárhagslega fyrir þjóðarbúið eða auki við lífsgæðin í landinu virðist vera og er sennilega alveg út í hött.  Þessi tillaga þeirra, ef tillögu skyldi kalla, nýtur varla nokkurs fylgis, og íslenzk yfirvöld mundu ekki ríða feitum hesti frá fjarfundum, þar sem þau reyndu að útskýra, hvernig sú einangrunarniðurstaða hefði verið fengin, sérstaklega þar sem tillagan hefur alls ekki komið frá sóttvarnaryfirvöldum landsins. 

Að lokum reit Þórdís, ferðamálaráðherra m.m.:

""Stjórnmálamaður gerist hagfræðingur" gæti nú einhver sagt.  Já, ég leyfi mér að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, efnahagslífsins, fyrirtækja og einstaklinga.  Ég leyfi mér líka að benda á, að þótt það sé rétt hjá Gylfa, að atvinnuleysisbætur örvi eftirspurn, þá er það ekki sjálfbært. 

 Við þurfum núna á öllu okkar að halda.  Öllum þeim tekjum, sem við getum aflað með ábyrgum hætti.  Allri okkar sérfræðiþekkingu á sóttvörnum.  Öllu því aðhaldi, sem við getum beitt í ríkisfjármálum, sérstaklega með nýsköpun í ríkisrekstri og snjöllum lausnum ásamt því að örva efnahagslífið, eins og kostur er.  Allri okkar árvekni gagnvart vágestinum.  Og allri okkar þrautseigju, þolinmæði og samtakamætti."

Það er vert að taka undir þetta með ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar.  Rökrétt framhald af þessu er að hleypa ferðamönnum utan Schengen-svæðisins til Íslands með einni skimun á landamærunum, ef Nýgengisstuðullinn í landi þeirra eða brottfararlandinu er á bilinu 50-100, en hleypa fólki ekki inn, ef það hefur á undanförnu 14 daga tímabili dvalið í landi með nýgengisstuðul yfir 100. 

Gylfi Zoëga settist niður við skriftir eftir lestur sunnudagspistils ráðherrans og úr varð grein, sem birt var í Morgunblaðinu 10. ágúst 2020 undir fyrirsögninni:

"Í tilefni af grein ráðherra".

Höfundi þessa vefpistils finnst holur hljómur í boðskap Gylfa, sem gæti stafað af því, að sterk rök skorti og að hann hafi ekki ígrundað málefnið nægilega vel.  Það ber að fagna andstæðum sjónarmiðum, en smithættan, sem hann telur stafa af tiltölulega fáum ferðamönnum í haust og vetur er stórlega ofmetin.  Gylfi vill pakka landinu inn í bómull, ofvernda þjóðina.  Þetta er skrýtinn málflutningur hjá hagfræðingi og nefndarmanni í Peningastefnunefnd Seðlabankans:

"Stjórnvöld þurfa að ákveða, hversu mikið eigi að örva eftirspurn eftir ferðaþjónustu á næstu mánuðum með því að auðvelda ferðir um landamæri.  En þá er einnig við því að búast, að Íslendingar ferðist meira til útlanda, sem dregur úr innlendri eftirspurn.  Ferðir innlendra sem erlendra ferðamanna yfir landamæri auka hættuna á, að farsóttin komi til landsins aftur, eftir að núverandi bylgja er gengin niður.  Það þarf ekki sóttvarnalækni til þess að skilja, að því meiri, sem hreyfanleiki fólks er, þ.e.a.s. því fleiri Íslendingar, sem ferðast til útlanda og því fleiri erlendir ferðamenn, sem hingað koma, þeim mun meiri hætta er á, að farsóttin berist til landsins."

 Við þetta er ýmislegt að athuga.  Eftir að þessi árstími er genginn í garð, eru litlar líkur á, að Íslendingar, sem vilja "lengja hjá sér sumarið" með sólarlandaferð, en komast ekki vegna smitsjúkdómshindrana yfirvalda, muni eyða meiru fé innanlands fyrir vikið.  Ætli séu ekki meiri líkur á, að þeir auki sparnað sinn og hyggi gott til glóðarinnar, þegar lífið færist í eðlilegra horf ?

Að fara með almennar og óskilyrtar eða magnteknar staðhæfingar, eins og hagfræðingurinn gerir um samband "hreyfanleika ferðamanna" og smithættu innanlands er villandi og býður hættunni á röngum ályktunum lesandans heim.  Þessi staðhæfing Gylfa er álíka nytsamleg, og ef pistilhöfundur tæki sig til og skrifaði blaðagrein um það, að hættan á, að ekið verði á bíl hans stóraukist við það að fara á honum út á vegina í stað þess að láta hann standa á hlaðinu.

Í lýðræðisþjóðfélagi ber stjórnvöldum að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku, eins og Arnar Þór Jónsson, héraðsdómslögmaður, bendir á í mjög þarfri hugvekju í Morgunblaðinu 13. ágúst 2020, og huga um leið að beztu þekkingu í þessum efnum.  Slíka ákvarðanatöku er t.d. hægt að reisa á því sjónarmiði, að öllum, sem hingað vilja koma í lögmætum tilgangi sé heimil för með skilyrðum, sem snúa að nýgengi COVID-19 í heimalandi þeirra eða þaðan, sem þeir koma.  Nýgengisstuðullinn 20 reisir óskynsamlega háar skorður við frjálsri för.  Talan NG=100 virðist réttlætanlegri, enda séu ferðamenn skimaðir, ef NG>50.  Þar sem fólk búsett á Íslandi er mun meira smitandi en almennt ferðafólk, er eðlilegt að beita það strangari sóttvarnaákvæðum, t.d. tvöfaldri skimun og sóttkví á milli við komu til landsins.  Með þessu móti væri gætt meðalhófs, en með núverandi fyrirkomulagi á landamærunum er ekki gætt meðalhófs. 

"Ef aukið flæði ferðamanna hefur í för með sér, að farsótt geisi innanlands, verður efnahagslegt tjón þjóðarbúsins margfalt meira en sá ávinningur, sem fjölgun ferðamanna hefði í för með sér.  Hagkerfi margra Vesturlanda hefur orðið fyrir miklu áfalli í ár; ekki vegna þess, að ferðamönnum hefur fækkað, heldur af því, að fólk getur ekki mætt til vinnu og margvísleg viðskipti geta ekki átt sér stað.  Ekki þarf að horfa mikið lengra en til Bretlands til þess að sjá slæmar efnahagslegar afleiðingar farsóttar og harkalegri sóttvarna en Íslendingar hafa hingað til kynnzt." 

Hagfræðingurinn getur varla verið þekktur fyrir að senda frá sér slíkan texta.  Hann getur ekki fullyrt, að efnahagstjónið af völdum geisandi farsóttar innanlands af völdum ferðamannafjölgunar verði margfalt á við ávinninginn af fjölgun ferðamanna.  Hér er verið að mála skrattann á vegginn til að skapa andrúmsloft ótta, sem fær stjórnvöld til að hálfloka landinu, og efnahagslegar afleiðingar farsóttar eru algerlega háðar sóttvarnarviðbrögðunum.  Þessi ráðgjöf er ekki upp á marga fiska.  

Enn heggur Gylfi í sama knérunn:

"En þeir, sem taka ákvarðanir fyrir hönd þjóðarinnar, verða að hafa heildarhagsmuni skýra.  Ekki má horfa framhjá þeim mikla efnahagslega skaða, sem verður, ef farsóttin herjar á samfélagið í vetur.  Efnahagslegt tap af völdum farsóttar innanlands getur verið mikið, eins og sést í mörgum nálægum ríkjum."

Við verðum að lifa með veirunni, og óttinn er mjög slæmt vegarnesti í langferð.  Miklu nær er að blása til gagnsóknar, reyna að auka tekjurnar á öllum sviðum, svo að stöðva megi skuldasöfnun, sem hefur verið mikil það, sem af er árinu, og efla mótvægisaðgerðir, sem gefizt hafa vel, á borð við skimun fyrir veirunni og smitrakningu með sóttkví, sem stytta má í 5 daga með skimun.  Það má heita líklegt, að heimurinn þurfi að glíma við miklu hættulegri veiru en SARS-CoV-2 síðar, og þess vegna vert að þjálfa varnarviðbrögð og færa reynsluna inn í hönnun nýja spítalans við Hringbraut, sem verður að vera í stakk búinn til að fást við skæða veirufaraldra. 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 13. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband