Að kasta barninu út með baðvatninu í Kófinu

Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem hún boðaði 14. ágúst 2020 um sóttvarnir á landamærum landsins, sætir tíðindum.  Á sama tíma og nýgengisstuðull smita á landinu í heild fer frekar lækkandi, er gripið til einna harkalegustu og dýrkeyptustu verkfæranna í verkfærakistu Sóttvarnalæknis (ÞG), sem hann skenkti ríkisstjórninni í viku 33/2020 og sagði "vessgú", nú getið þið, en hann hefur hingað til lagt tillögu fyrir heilbrigðisráðherra, sem ríkisstjórnin hefur jafnan samþykkt. Nú var það eins og við manninn mælt.  Ríkisstjórnin féll á prófinu; hún gein við einum dýrkeyptasta kostinum, sem var alger óþarfi, þar sem farsóttin var þegar í rénun á Íslandi í viku 33/2020.

 Valkostir sóttvarnalæknis voru 9 talsins:

  1. Aðgangur ferðamanna óheftur.  Þessum valkosti mælir ÞG ekki með, enda er þetta öfgakostur, sem á ekki við m.v. gang heimsfaraldursins og nútíma tækni.  
  2. Ýtrustu hömlur á komur til landsins.   ÞG telur þetta óraunhæft í framkvæmd og ekki koma að fullu í veg fyrir dreifingu innanlands.  Þetta er öfgakostur, sem á alls ekki við núna, þegar faraldurinn er í hjöðnun innanlands.  Það má ekki gleyma því, að atvinnulíf landsins er háð opnum fólksflutningum til og frá landinu, og það er hæpið, að framkvæmdavaldið hafi lagaheimild til þessarar ákvörðunar. Aðgerðin felur í sér frelsisskerðingu, sem framkvæmdavaldið án atbeina löggjafarvaldsins á ekki að hafa heimild til. Landinu hefur enn ekki verið lokað í þessum faraldri, þótt farþegaflug hafi að mestu lagzt af í 3 mánuði, og það er óeðlilegt, að framkvæmdavaldið véli eitt um slíka ákvörðun, heldur verði hún reist á þingsályktun eða beinum lagafyrirmælum. 
  3. Allir í 14 daga sóttkví án skimunar.   Þetta telur ÞG, að myndi fækka ferðamönnum verulega og að erfitt verði um eftirlit með, að sóttkví verði virt.  ÞG telur, að líkur á dreifingu veirunnar innanlands minnki, en hverfi ekki.  Ferðamönnum myndi fækka svo mjög, að engum vandkvæðum verður háð að hafa með þeim eftirlit, enda hlýtur að mega setja á þá ökklaband.  Kostnaður sóttkvíar lendir á ferðamönnum, en tekjutap ferðageirans yrði nánast algert.  Þessi aðgerð er meira íþyngjandi en búast má við, að sóttvarnalög heimili, og kemur ekki til greina m.v. núverandi tæknistig. 
  4. Allir skimaðir við komuna.   Hér er ekkert getið um, hvort viðhafa ber heimkomusmitgát eða sóttkví á tímabilinu frá skimun og þar til niðurstaða er tilkynnt, en væntanlega er sóttvarnalega árangursríkara að viðhafa sóttkví.  Ef farþeginn er sýktur, eru taldar um 80 % líkur á, að niðurstaða skimunar verði "jákvæð".  Þetta er þar af leiðandi viðunandi örugg aðferð, ef farþegum frá löndum með nýgengisstuðul yfir 100 verður meinaður aðgangur að landinu og á meðan summa nýgengis innanlands og á landamærum er undir 40.  Skimunargetan verður þá næg í þessa aðgerð utan sumarannar m.v. núverandi stöðu og tempra má álag skimunar með þeim málefnalega hætti að hnika til kröfum um nýgengi í brottfararlandi. Við núverandi stöðu er þess vegna eðlilegt að velja þennan valkost Sóttvarnalæknis fyrir fólk frá öllum löndum heims, þar sem nýgengið er undir 100.  
  5. Allir skimaðir við komuna, sóttkví í 4-6 daga, þá önnur skimun.   Þetta er fyrirkomulagið, sem gildir f.o.m. 19. ágúst 2020.  Þetta telur ÞG, að sé áhrifaríkast út frá sóttvarnarsjónarmiði, en er það nóg ?  Kostnaður er mikill fyrir ríkissjóð og fyrir ferðamennina, sem standa straum af sóttkvínni, enda segir ÞG, að aðferðin krefjist mikillar rannsóknargetu, skipulags og mannafla, og sé þar að auki kostnaðarsöm. Hann bætir við þeim annmarka, að eftirlit með sóttkví gæti reynzt erfitt. Það er þó misskilningur, því að sóttkvíarhræður verða fáar. Líklegast er, að þessi aðgerð gangi af ferðaþjónustunni dauðri.  Þetta er að kasta barninu út með baðvatninu og hefur þótt skýrt merki um dómgreindarleysi.  Ríkisstjórnin hefur í núverandi stöðu hjaðnandi faraldurs og takmarkaðs álags á heilbrigðiskerfið (1 á spítala, enginn í gjörgæzlu) tekið skakkan pól í hæðina með því að mikla fyrir sér neikvæða þróun víða erlendis, vaðið út í fenið án vandaðrar ígrundunar valkosta m.t.t. til efnahagsþróunarinnar hérlendis.  Þegar ríkissjóður safnar 1 mrdISK/dag í skuldir, má ekki drepa niður neina tekjulind landsins með móðursýkislegum ráðstöfunum. 
  6. Fólk frá áhættusvæðum skimað, aðrir ekki.  Þessi aðferð hefur reynzt vera ófullnægjandi smitvörn m.v. eftirlitið á landamærunum.  Fólk þykist hafa verið í öruggu landi í 14 daga, en er að koma frá svæðum með hátt nýgengi.  Þá er auðvitað ekkert svæði "öruggt", eins og sóttvarnayfirvöld brenndu sig illilega á í vetur, þegar þau trúðu því, að sum svæði Alpanna væru "örugg".
  7. Allir skimaðir á landamærum, 5-7 daga sóttkví og önnur sýnataka fyrir fólk af áhættusvæðum.  Ekki er ljóst, hvers vegna sóttkvíin á að vara lengur í þessu tilviki en þegar allir eru settir í sóttkví.  Þessi aðferð getur verið réttlætanleg við verri aðstæður en nú eru uppi.
  8. Sóttkví allra í 7 daga, sem lýkur með sýnatöku.  Enn misreiknar sóttvarnalæknir áhrifin á ferðamannastrauminn, því að hann heldur, að erfitt verði að hafa eftirlit með "fjöldanum" í sóttkví.  Þetta er ein af aðferðunum til að nánast stöðva veiruflutning til landsins.  
  9. Skimun frá lágáhættusvæðum, en 14 daga sóttkví frá áhættusvæðum.Hér er spurning, hvernig áhættusvæði er skilgreint.  Almennt felur þessi aðferð í sér mikið óréttlæti og mismunun ferðamanna, sem vilja heimsækja landið.

Þann 13. ágúst 2020 birtist í Morgunblaðinu þörf hugvekja eftir Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, þar sem hann leggur áherzlu á vandað og fjölþætt mat yfirvalda áður en frelsisskerðandi ákvarðanir eru teknar, og nauðsyn aðkomu löggjafans til að sannprófa, að meðalhófs hafi verið gætt af hálfu framkvæmdavaldsins.  Þetta eru orð í tíma töluð.  Greinin, "Réttarríkið og Covid-19", hófst þannig:

"Fréttaflutningur af Covid-19 (C19) veldur mér stöðugum ónotum, sem hafa ágerzt eftir því, sem liðið hefur á sumarið, sérstaklega þegar ég mæti grímuklæddu fólki á víðavangi eða sé grímuklædda bílstjóra eina á ferð í bifreiðum sínum.  Frammi fyrir slíkri sjón get ég ekki varizt þeirri hugsun, að óttinn hafi yfirtekið dómgreindina.  Ójafnvægi, sem af því leiðir, samræmist illa klassískum hugmyndum um dyggðugt líf, þ.e. um meðalhóf milli tveggja lasta.  Skeytingarleysi um eigið líf og annarra er augljóslega löstur, en það er ofsahræðsla einnig."

Í sumar hefur borið á skeytingarleysi, sem sýnir, að almenningur er orðinn þreyttur á 2 m reglunni og öðrum sóttvarnartakmörkunum.  Mest ber á því, þar sem áfengi er haft um hönd.  Þá ríður á, að ráðamenn sýni gott fordæmi og að eitt gangi yfir alla.  Á þessu hafa verið brotalamir.  Þegar um þingmenn og ráðherra er að ræða, kemur augljóslega til kasta stuðningsmanna þeirra, þegar þing kemur saman, Landsfundur verður haldinn eða við undirbúning framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar. Hins vegar getur vitleysan líka gengið í ofstækisátt, sem kenna má við óttann, og eru mýmörg fáránleg dæmi um slíkt, eins og við er að búast.

"Hafa má skilning á því, að stjórnvöld hafi viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, þegar C19 skaut fyrst upp kollinum.  Í ljósi staðreynda, sem síðan hafa skýrzt, m.a. um dánartíðni og meðalaldur látinna, þarf stöðugt að leita endurmats í því skyni að afstýra því, að viðbrögð stjórnvalda valdi meira tjóni en veiran sjálf.  Í því samhengi sakna ég þess að hafa ekki heyrt fleiri íslenzka lækna tjá sig um málið. Með sama hætti hefur samfélag íslenzkra lögfræðinga verið gagnrýnislaust á aðgerðir stjórnvalda hingað til.  Þá hefur stjórnarandstaðan engu bætt efnislega við umræðuna. 

Í stuttu máli virðist mér umræðan um C19 einkennast af gagnrýnisleysi og áherzlu á hlýðni. Fjölmiðlar, sem í upphafi fluttu fregnir af dánartíðni, hafa í seinni tíð fjallað meira um fjölgun tilfella.  Slík nálgun getur haft þær afleiðingar, að almenningur ofmeti hættuna, sbr nýlega könnun Kekst CNC, sem gefur vísbendingu um, að 29 % Breta telji, að 6-10% eða jafnvel stærri hluti dauðsfalla á Bretlandseyjum megi rekja til C19.  Slíkt mat er þó fjarri opinberri tölfræði, sem sýnir 0,1 % dánarhlutfall."

  Þess má geta, að hérlendis hefur dauðsföllum fækkað á tímabilinu, sem SARS-CoV-2 hefur geisað, enda eiga allar smitandi pestir erfiðara uppdráttar á tímum samkomutakmarkana, sótthreinsunar og félagslegrar fjarlægðar (handaböndum og faðmlögum fækkar).  Fjöldi látinna af smituðum er tæplega 0,5 %, og álagið á heilbrigðiskerfið í bylgju 2 er fremur lítið, enda er tiltölulega stór hluti sýktra í yngri kantinum. 

Það hafa ýmsar efasemdarraddir heyrzt úr þjóðfélaginu um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að velja valkost 5.  Sú borðleggjandi spá ferðaþjónustunnar, að straumur ferðamanna til landsins mundi þurrkast upp, er að rætast.  Ríkisstjórnin situr nú uppi með Svarta-Péturinn.  Hún getur ekki lengur skákað í skjóli sterkrar stöðu ríkissjóðs.  Hún er orðin veik, og versnandi lánshæfismat ríkissjóðs blasir við.  Ríkisstjórnin verður að fara að ná skynsamlegu jafnvægi á milli sóttvarna og tekjustreymis.  Hvers vegna heyrist ekkert um að opna á ferðalög til fleiri landa utan Schengen, svo fremi nýgengi sjúkdómsins sé þar viðunandi (NG<100) ?

Þingmenn ríkisstjórnarinnar eru farnir að tjá sig opinberlega um málið, og er það vel.  Sigríður Á. Andersen, Óli Björn Kárason og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður, hafa efasemdir um núverandi stefnumörkun. Ríkisstjórnin stefnir efnahag landsins í algert óefni, og stjórnarandstaðan virðist í hvoruga löppina geta stigið.  Annað mun kannski koma í ljós, þegar þingið kemur saman. 

Síðasti hluti greinar Arnars Þórs var svohljóðandi:

"Aðrir eru betur til þess fallnir að meta, hversu alvarleg heilsufarsógn C19 er í reynd, en sem almennur borgari hlýt ég að hafa rétt og skyldu til að horfa á tölfræðilegar upplýsingar og draga sjálfstæðar ályktanir, fremur en að samþykkja umyrðalaust, að vísindamönnum og ráðherrum séu falin öll völd.  

Í fljótu bragði virðist mér t.d., að sóttvarnalög nr 19/1997, sem auglýsing heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir byggist á, skorti ákvæði um, að ákvarðanir ráðherra skuli koma til umræðu og endurskoðunar hjá löggjafarþinginu við fyrsta tækifæri, en slíkt ákvæði er t.d. að finna í sóttvarnalögum í Noregi.  Miðað við allar þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, hlýtur að mega vega öryggissjónarmið gagnvart öðrum mannlegum og samfélagslegum hagsmunum, þannig að feta megi farsælustu leið.  Hvað verður t.d. um heilbrigðiskerfið, ef atvinnuleysi eykst úr öllu hófi með þeim afleiðingum, að skatttekjur dragast saman og erfitt verður að fjármagna sjúkrahúsin ?  Slík þróun hefði í för með sér sjálfstæða ógn við heilsu og líf borgaranna.  Framangreind sjónarmið um lög og landsstjórn eru til áminningar um, að við reglusetningu í lýðræðisríki ber að ræða mál út frá fleiri hliðum en einni og leita viðunandi jafnvægis milli allra þátta, sem máli skipta.  

Þótt öryggisþátturinn sé mikilvægur, ber okkur í lýðræðislegu tilliti að leggja skynsamlegt mat á hættuna og hafa burði til að mæta því, sem vekur kvíða og ótta.  A.m.k. má öllum vera ljóst, að til langframa getum við ekki látið stjórnast af óttanum einum.  Hver eru mörkin, sem miða ber við í þessu samhengi ?  Ef öryggissjónarmið eiga ein að ráða ferð - og ef bíða á þar til covid-smit hafa með öllu horfið - þurfum við að búa okkur undir gjörbreytta tilveru.  Þolir sálarlíf og efnahagur þjóðarinnar slíkt til langframa ?"

Undir þetta skal heilshugar taka.  Það er einmitt kjarni gagnrýninnar á ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem gildi tók á landamærunum 19. ágúst 2020, að "öryggisþátturinn" hafi hlotið of mikið vægi og efnahagsþátturinn of lítið vægi. Í raun má segja, að ríkisstjórnin hafi misnotað neyðarhemilinn og gripið til hans að óþörfu.  Það var alls ekkert neyðarástand í uppsiglingu í landinu.  Bylgja 2 var farin að hjaðna, aðeins 1 COVID-19 sjúklingur á sjúkrahúsi, og hann var ekki í gjörgæzlu.  

Það er misskilningur, að hægt sé að útrýma veirunni í landinu við núverandi aðstæður.  Það ber að taka upp sem eðlilegasta lifnaðarhætti með viðeigandi sóttvörnum, eðlilega starfsemi skóla með grímuskyldu í framhaldsskólum.  Grímuskyldu alls staðar, þar sem hópazt er saman, og þar gildi 1,0 m fjarlægðarregla og fjöldamark við 1000.  

Á landamærunum er eðlilegast að skima alla eða senda ella í 14 daga sóttkví.  Afnema núverandi takmörkun á þjóðerni ferðamanna, en stýra ferðamannafjöldanum að skimunargetunni með kröfum um nýgengi smita í viðkomandi landi undir tilgreindum mörkum. Það er málefnaleg aðferð, sem lagar sig að ástandinu erlendis.   

 


Bloggfærslur 20. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband