23.8.2020 | 18:37
Bjargi sér hver sem bezt hann getur
Allar iðnaðarþjóðir heims og flestar, ef ekki allar, aðrar hafa orðið fyrir alvarlegum skráveifum af völdum hinnar bráðsmitandi veiru SARS-CoV-2, sem hefur valdið illræmdasta faraldri í sögu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, að sögn framkvæmdastjóra hennar. WHO gaf sjúkdóminum hið bráðstofnanalega heiti COVID-19, en Bandaríkjaforseta, sem dró BNA út úr WHO, er tamara að tala um Kínaveiruna. Þetta kvikindi hefur á ferli sínum innvortis í hýslinum "homo sapiens" stökkbreytt sér nokkrum sinnum, eins og ólíkindatólið og vísindamaðurinn Kári Stefánsson í Íslenskri erfðagreiningu, ÍE, hefur frætt Íslendinga fjálglega um. Þótt sósíalistanum Svandísi Svavarsdóttur, hafi ekki þóknazt að strjúka Kára eðlilega meðhárs fyrir ómetanlega góðan þátt ÍE við að fást við vágestinn, þá hefur þetta merkilega einkafyrirtæki, að miklu eða öllu leyti í erlendri eigu, haldið áfram að leggja sig í líma við að draga þunglamalegt ríkisapparatið að landi. Er ekki kominn tími til, að innlend einkafyrirtæki á sviði læknisfræði fái loks að njóta sín, t.d. á sviðum, þar sem hið opinbera er með allt á hælunum ?
Þann 27. júlí 2020 ritaði Philippe Legrain, fyrrverandi efnahagsráðgjafi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, athyglisverða grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi þó því villandi heiti:
"Evrópa bjargar sér".
Fyrirsögnin ber með sér alþekktan ruglanda á Evrópusambandinu og Evrópu. Þennan ruglanda er t.d. að finna í heiti evrubankans og æðsta dómstóls Evrópusambandsins. Því fer fjarri, að rétt sé að setja jafnaðarmerki á milli ESB og Evrópu og sú villa óx gróflega við úrsögn næst öflugasta ríkis Evrópu (vestan Rússlands) úr ESB. ESB ætlar ekki að bera sitt barr eftir það áfall.
Ágreiningur innan sambandsins vex og verður illvígari. Nú er ekki lengur hægt að skella skuld misklíðarinnar á Breta, heldur virðist Sambandið vera að gliðna um fellingafjöll Alpanna. Það er líka gjá á milli austurs og vesturs innan Sambandsins, sem liggur austan Þýzkalands og að öðru leyti um gamla "Járntjaldið". Hvort Úrsúlu von der Leyen tekst að bera græðandi smyrsl á sárin (hún er læknir), er óvíst. Ferill hennar sem varnarmálaráðherra Þýzkalands var ófagur, en Bundeswehr er í sárum eftir asnaspörk hennar þar við að reyna að uppræta fornar hefðir hersins og virðingu fyrir föllnum stríðshetjum. Jafnvel mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, í einkennisbúningi Wehrmacht, lét hún rífa ofan af vegg. Stríðsmáttur Bundeswehr, ekki sízt Luftwaffe, var í molum eftir ráðstafanir hennar. Hvernig mun viðskilnaður hennar verða í Brüssel ? Þar eru nú lykilstöður mannaðar Þjóðverjum og þeim hefur fjölgað mjög í Berlaymont. Kannski þeim takist að halda ferlíkinu á floti ?
Grein sína hóf Legrain þannig:
"Eftir 4 sólarhringa af erfiðum samningaviðræðum og mörgum sársaukafullum málamiðlunum hafa leiðtogar Evrópu komizt að samkomulagi um byltingarkenndan mrdEUR 750 björgunarsjóð. Sem merki um samhug gagnvart Ítalíu, Spáni og öðrum löndum, sem enn eru í sárum vegna COVID-19-krísunnar, er samkomulagið stórt skref fram á við fyrir Evrópusambandið. Það gerir hins vegar lítið til að taka á dýpstu vandamálum evrusvæðisins."
Að risavaxinn björgunarsjóð þurfi að setja á koppinn handa ríkjum, sem orðið hafa undir í samkeppninni við germönsku ríkin á evrusvæðinu, Þýzkaland, Austurríki og Holland, er sjúkdómseinkenni á myntsamstarfinu. Þar er vonlaust að vera, nema reka stranga aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum og tryggja samkeppnishæfni atvinnulífs landsins. Hið fyrra hafa Þjóðverjar gert með því að binda í Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins reglur um ríkisbúskapinn, og hið síðara er gert með framleiðnihvetjandi umhverfi fyrir fyrirtækin og hóflegum launahækkunum, sem ekki verða umfram framleiðniaukninguna.
"Enn betra er, að samkomulagið [leiðtoganna] felur í sér marga jákvæða þætti tillögu Merkel og Macron, þar sem mrdEUR 390 vegna ESB-styrkja eru efstir á blaði án margra skilyrða. Fjögur af efnaðri ríkjum Norður-Evrópu með Hollendinga í fararbroddi höfðu áður sett það sem skilyrði, að ESB veitti eingöngu lán, sem væru háð því, að ríkisstjórnirnar, sem þægju þau, framkvæmdu umbætur, sem ESB krefðist (og að þjóðirnar samþykktu þau). En ágeng skilyrði af því taginu hafa slæmt orð á sér eftir samskipti ESB og Grikklands fyrir áratug, þannig að Suður-Evrópuþjóðirnar gátu engan veginn samþykkt neitt slíkt."
Hrakfallasaga evrusamstarfsins er dæmalaus, og meðferðin á Grikkjum fyrir tæplega áratug var forkastanleg, þar sem þeim var fórnað á altari peningaveldis í ESB. Þýzkir og franskir bankar, lánadrottnar Grikklands, voru skornir úr snörunni og lengt í hengingaról Grikkja. Evrópusambandið er ekki góðgerðarstofnun, sem hleypur undir bagga með aðildarríkjunum, þegar á bjátar. Evrópusambandið er samansúrrað hagsmunaveldi evrópsks stórauðvalds og búrókrata í Brüssel, sem maka krókinn með risasporslum og skattafríðindum.
Hérlendis eru barnalegar sálir, sem vilja fyrir alla muni troða Íslandi inn í þessa samkundu og japla jafnan á tuggunni um friðarhlutverk ESB í Evrópu, sem er ímyndun ein. Vinstri stjórninni 2009-2013 mistókst ætlunarverk sitt með aðildarumsókn og aðlögunarferli í kjölfarið, en umsóknin er enn geymd í skúffu í aðalstöðvunum, Berlaymont, í Brüssel. Trúin á nytsemi aðildar hefur nú breytzt í trúarbrögð.
"Helzti kosturinn við björgunarsjóðinn er þó pólitískur. Með honum sýnir Evrópusambandið, að það getur komið Evrópubúum til hjálpar, þegar þeir þurfa mest á því að halda. Þetta ætti að veita nauðsynlegt mótvægi við vantrú á sambandið og draga úr reiði fólks vegna krísunnar."
Þarna er mikil óskhyggja á ferðinni. Evrópusambandið mundi gera Evrópubúum mest gagn með því að leggja sjálft sig niður og leysa upp evruna. Þar með mundu Evrópubúar losna við 40 k blýantsnagara, sem virka sem hreinræktaðar afætur á vinnandi fólk Evrópu. Núverandi aðildarríki myntsamstarfsins mundu þá annaðhvort taka upp sinn gamla gjaldmiðil, eða þau mundu bindast samtökum um einhvers konar gjaldmiðilssamstarf, e.t.v. í tvennu eða þrennu lagi. Það blasir við, að germanskar þjóðir bindist slíkum samtökum, rómanskar þjóðir myndi sín samtök og e.t.v. slavneskar. Finnar munu að fornu fylgja Germönum, en Grikkir munu sennilega lýsa yfir þjóðargjaldþroti með skuldir ríkissjóðs um 180 % af landsframleiðslu. COVID-19 kann að ríða efnahag Ítala gjörsamlega á slig líka, þótt mrdEUR 82 í títtnefndum björgunarsjóði ESB séu markaðir Ítölum. Það er dropi (5 %) í hafið hjá 60 M manna þjóð, þar sem ríkisskuldir stefna í 160 % af landsframleiðslu árið 2021.
"Frá sjónarhóli stjórnsýslu er samkomulagið mikill sigur fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem var oft utanveltu í myntbandalagskreppunni 2010-2012. Það verður Framkvæmdastjórnin, sem tekur mrdEUR 750 lánið til að fjármagna sjóðinn, og hún mun beina styrkjum og lánum með fjárveitingarvaldi sínu innan ESB. Með annað augað á greiðslu skuldarinnar eftir 2027 mun hún einnig hafa yfirumsjón með leit að nýjum tekjustofnum fyrir ESB, svo sem skatti á stafræna þjónustu eða kolefnisjöfnunarskatti innflutnings."
Þjóðverjar hafa nú undirtökin í Berlaymont, og hér má greina handbragð þeirra. Þeir ætla að standa í stafni björgunaraðgerðanna, og munu reyna að gæta þess vandlega, að féð nýtist af skynsamlegu viti, en brenni ekki á spillingarbáli. Þeir ætla greinilega að auka við fjárlög ESB, þótt síðustu 10 Sambandsreikningar eða svo hafi ekki hlotið samþykki skipaðra endurskoðenda, af því að þeir töldu fullnægjandi skýringar með útgjöldum skorta.
Það var vonum seinna, að sást til áforma um kolefnisjöfnunargjald á innflutning. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist í nýlegu blaðaviðtali vera orðinn þreyttur á tvískinnungi í umhverfisverndarumræðunni. Annars vegar væru lagðar þungar byrðar á hagkerfi EES-ríkjanna til að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum, en hins vegar væri flutt inn á svæðið ótæpilegt vörumagn frá ríkjum, sem losuðu margfalt meira út í umhverfið en ríkin í EES við sams konar framleiðslu, ekki sízt Íslendingar, sem eru þar fremstir í flokki ásamt Norðmönnum.
Í næstu tilvitnun í Legrain kemur fram, að ESB-ríkin séu nú að heykjast á orkustefnu sinni, enda er hún óskilvirk og dýr. Henni hefur nú verið skákað aftar í forgangsröðina með krókódílstárum í Berlaymont:
"Gallinn er sá, að vegna þess, að björgunarsjóðurinn var felldur inn í víðtækari samningaviðræður um fjárhagsáætlun ESB 2021-2027, þurfti að gera nokkrar óheppilegar málamiðlanir. Áður en heimsfaraldurinn brast á var Evrópska græna samkomulagið til að takast á við loftslagsbreytingar flaggskipsframtak Ursulu von der Leyen, forseta Framkvæmdastjórnarinnar. Nú hefur verið dregið úr fjárveitingum til að styðja við umskipti í hreinni orkugjafa."
Það er reyndar engin þörf á því lengur á meginlandinu að greiða niður sólar- og vindorku vegna mikils framboðs slíkrar orku á samkeppnishæfu verði m.v. kol og jarðgas. Það er hins vegar full ástæða til að huga að "lokalausn" á þessum málum og þróa umhverfisvæna orkugjafa, sem staðið geta undir jafnri og mikilli framleiðslu. Hér er væntanlega helzt um að ræða kjarnorku, þ.e. sundrun annarra efna en úrans og samruna vetnisatóma.
Í lokin skrifaði Philippe Legrain:
"Eftir myntbandalagskrísuna 2010-2012 benti mannúðarfrömuðurinn George Soros á, að Merkel gerði alltaf rétt nóg til að halda evrunni gangandi, "en aldrei meira en það". Þetta á enn við. Björgunarsjóðurinn er kærkomið skref fram á við, en hann leysir ekki grunnvanda evrusvæðisins, s.s. ósjálfbæra skuldaþróun á Ítalíu, tilhneigingu til verðhjöðnunar í Þýzkalandi og skort á endurstillingu hagkerfa. Evrusvæðið er sloppið fyrir horn í þetta sinn, en það er samt engan veginn komið í varanlegt skjól."
Spurningin er sú, hvort verr hafi verið farið en heima setið, þ.e. að samkomulag leiðtoganna hafi verið svo dýru verði keypt, að kalla megi Phyrrosarsigur fyrir ESB. Evrópusambandið er ófært um að ráðast að rótum vandamála sinna. Angela Merkel er á útleið, og arftaki hennar mun verða annarrar gerðar, sem þýðir, að það heyri brátt fortíðinni til, að Þjóðverjar skrifi upp á stórfelldar millifærslur úr vösum sínum til þeirra, sem neita að beita sig þeim lágmarksaga, sem ríki þurfa til að tekjur hrökkvi fyrir útgjöldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)