Firring forsætis

Sóttvarnayfirvöld hafa tvisvar flaskað á s.k. öruggum svæðum í sambandi við hina bráðsmitandi, en yfirleitt fremur skaðlitlu veiru, SARS-CoV-2, sem veldur sjúkdóminum COVID-19.  Þetta er öndunarfærasjúkdómur í ætt við lungnabólgu, sem er reyndar aldrei hættulaus, en meirihluti sýktra af þessari veiru verður fyrir vægum eða engum einkennum.  Sjúkdómurinn getur hins vegar lagzt þungt á fólk, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir, og veiran getur valdið tjóni á flestum líffærum líkamans, ef marka má upplýsingar lækna á Langbarðalandi, sem einna lengst hafa barizt við ólíkindatólið, sem veira þessi er. Veira þessi er þannig gerð, að engin furða er, að fjöllunum hærra fljúgi, að hún eigi upphaf sitt á rannsóknarstofu.  Því heldur m.a. fram Nóbelsverðlaunahafi sá, sem fyrstur skilgreindi HIV-veiruna. 

 

Í hið fyrra skiptið héldu hérlend sóttvarnayfirvöld því fram í vetur, að viss skíðasvæði í Ölpunum væru ekki sýkt, þegar hið sanna var, að allir Alparnir voru þá undirlagðir af téðri kórónaveiru.  Fólki frá þessum "öruggu" svæðum var hleypt óhindrað inn í landið, og þess vegna gaus hér upp megn faraldur í marz 2020 með meiri fjölda sýktra sem hlutfall af íbúafjölda en annars staðar þekktist þá.  Með hörðum og viðeigandi sóttvarnaaðgerðum tókst að hemja faraldurinn fyrr en sóttvarnayfirvöld reiknuðu með og má segja, að tilslakanir hafi verið anzi hægar. 

Í hið síðara skiptið voru Norðurlöndin, utan Svíþjóðar, og Þýzkaland skilgreind sem "örugg" svæði, og sluppu þá farþegar frá þessum ríkjum við skimun.  Líklegt er, að með þessum óskimuðu farþegum, hérlendum íbúum og öðrum, hafi smit dreifzt um samfélagið, og það er reyndar vitað í tilviki Rúmena, sem hingað komu frá Þýzkalandi og þóttust hafa dvalið þar í tvær vikur eða svo. 

Það gerist svo í óttablöndnu andrúmslofti s.k. Bylgju 2 af COVID-19 í Evrópu og víðast hvar annars staðar, að ríkisstjórn Íslands tilkynnti 14. ágúst 2020, að hún myndi grípa í neyðarhemilinn þann 19. ágúst 2020 með því að setja alla komufarþega í tvöfalda skimun og 5 daga sóttkví á milli.  Það var fyrirsjáanlegt og við því var varað, að þessi "sóttvarnaraðgerð" yrði hrikalega dýrkeypt og væri óþörf og óviðeigandi við aðstæðurnar, sem þá ríktu.  2/3 farþega afbókuðu ferðir sínar hingað 19. ágúst og dagana í kjölfarið, og sá viðsnúningur, sem var að verða innan ferðaþjónustunnar, gufaði upp í einni svipan, og nú blasa við lokanir og uppsagnir starfsfólks í stórum stíl. 

Hver var staða faraldursins 14. ágúst 2020 ? 

Nýgengið (NG) innanlands var 21,0 og á landamærunum 5,5 eða 26,5 alls, og var þá lægra en dagana 6 á undan.  Smitin sólarhringinn á undan voru 5 og alls engin þróun upp á við sjáanleg.  Sjúklingafjöldinn var 112, þar af 1 á sjúkrahúsi og enginn í gjörgæzlu.  Fjarri fór, að heilbrigðiskerfið væri að oflestast.  Sóttvarnaraðgerðir eru rándýrar, því meiri, þeim mun dýrari, og það er stórlega gagnrýnivert, að stjórnvöld skyldu fáta í neyðarhemlinum án þess að hafa til þess sýnilega ástæðu.  Afleiðingarnar eru, að stöðugleika hagkerfisins er ógnað, erlendum eigendum ríkisskuldabréfa lízt ekki á blikuna, heldur selja eignir sínar, svo að Seðlabankinn verður að verja ISK með því að selja 1 % gjaldeyrisvarasjóðsins og sígur ISK þó. 

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, reyndi að bera í bætifláka fyrir gjörðir sínar með því að bregða upp villuljósum í Morgunblaðsgrein þann 24. ágúst 2020, sem hún nefndi:

"Skýr leiðarljós fyrir almannahag".

Verður nú gripið niður í þessa grein forsætisráðherra:

"Frá upphafi hefur leiðarljós stjórnvalda verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar, og því hefur verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins.  

Annað leiðarljós hefur verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma, þannig að þau hafi sem minnst áhrif [á] lífsgæði almennings." 

Hér bregður Katrín upp villuljósum, sem leiða til rangra ákvarðana ríkisstjórnarinnar um sóttvarnir vegna ferðalanga til landsins.  Sóttvarnir skerða frelsi fólks og eru dýrkeyptar.  Því meiri sóttvarnir, þeim mun meiri kostnaður eða tekjutap.  Hvers vegna nú að setja "heilbrigði þjóðarinnar" í forgang einvörðungu m.t.t. til veirunnar SARS-CoV-2 ?  Flest slys og líkamstjón verða við einhvers konar íþróttaiðkun.  Á þá að banna íþróttir til að draga úr álagi á heilbrigðisgeirann ?  Sælgæti er viðbjóðslegur óþverri fyrir heilsuna.  Er þá ekki sjálfsögð lýðheilsuaðgerð að banna sælgæti ?  Það stafar engin sú ógn af téðri kórónaveiru fyrir lýðheilsuna eða heilbrigðiskerfið, eins og varpað er ljósi á með tölum úr Kófinu hér að ofan, að réttlætanlegt sé að svæfa áður lamaða ferðaþjónustu um allt land með einstæðum aðgerðum á landamærum, sem talið er, að svipta muni um 5000 manns starfi sínu og lífsbjörg, draga enn meir úr gjaldeyrisöflun með slæmum áhrifum á gengi ISK og auka enn skuldasöfnun ríkissjóðs og samdrátt þjóðarframleiðslu. 

Katrín gumar af öðru "leiðarljósi" sínu, sem sé að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma.  Þessa hagsmuni hefur hún vegið og léttvæga fundið.  Hún hefur nákvæmlega ekkert tillit tekið til þeirra.  Allir almennilegir stjórnendur vega saman kosti og galla aðgerða og búa til lausn, sem lágmarkar tjónið eða hámarkar heildarávinninginn, eftir því hvort við á.  Ef Katrín hefði gert það, hefði hún sagt sem svo: við getum ekki litið á neinn farþega sem örugglega ósmitaðan.  Þess vegna skimum við alla fyrir kórónuveirunni, sem hingað til lands leggja leið sína. Það eru um 20 % líkur á, að sýktur greinist ekki við eina skimun og 0,05 % líkur á, að sýktur sé á meðal farþega.  Þetta þýðir, að 0,01 % af farþegum eða 1 af hverjum 10.000 farþegum sleppa sýktir inn í landið.  Dánarlíkur af völdum kórónaveirunnar á Íslandi eru innan við 0,5 %.  Þetta þýðir, að minna en 1 af hverjum 2 milljón farþegum munu valda hér dauðsföllum.  Þetta er mun minni áhætta en þjóðfélagsþegnarnir hafa sætt sig við á öðrum sviðum samfélagsins, t.d. í umferðinni á vegunum.  Þess vegna eigum við að skima alla farþega einu sinni, og þeir gæti að sóttvörnum sem sýktir væru, þar til niðurstaða skimunar berst.  Jafnframt er ljóst, að engin sóttvarnarrök eru fyrir því að takmarka fjölda brottfararlanda til Íslands með þeim þrönga hætti, sem nú er gert.  Annaðhvort mætti miða við ákveðið nýgengi í brottfararlandi og einfalda skimun, t.d. NG=100, eða heimila einnig þjóðernum með hátt nýgengi, t.d. NG>100, komuna hingað gegn tvöfaldri skimun og sóttkví á milli.  Varla geta yfirvöld hinna Schengen-landanna haft nokkuð á móti þessu ?

"Faraldurinn hefur verið í vexti í heiminum undanfarnar vikur.  Smitum á landamærum hefur fjölgað í réttu hlutfalli við það. [Er það rétt ?-innsk. BJo.] Allt bendir til, að önnur bylgja faraldursins hér á landi tengist smitum, sem hafa flotið yfir landamærin þrátt fyrir varúðarráðstafanir.  Við blasti, að það þurfti að vega og meta, hvernig ætti að heyja næstu orrustu í því stríði, sem staðið hefur yfir á Íslandi frá lokum febrúar. 

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að fengnum tillögum okkar færustu vísindamanna, var að herða þyrfti aðgerðir á  landamærum með því að taka þar upp tvöfalda skimun með 4-5 daga sóttkví á milli sem valkost við 14 daga sóttkví.  Þar var byggt á reynslunni af aðgerðunum frá 13. júlí, þær útvíkkaðar og hertar.  Ákvörðunin byggist á þróun faraldursins hér heima og erlendis, en líka á þeim leiðarljósum, sem sett voru í upphafi að verja líf og heilsu fólks og tryggja, að samfélagið geti gengið áfram með sem eðlilegustum hætti."

Hugarheimur Katrínar er furðulegur.  Hún upplifir sig vera í stríði og slátrar ferðaþjónustunni með köldu blóði.  Hún sendir líklega 5000 fjölskyldur á vönarvöl með framferði sínu, en bjargar engum frá alvarlegum sjúkdómi, hvað þá dauða.  Hún getur ekki skýlt sér á bak við Sóttvarnalækni, því að hann gerði í þetta sinn enga tillögu til heilbrigðisráðherra, heldur lagði hann fram 9 valkosti.  Ríkisstjórnin valdi þann kost, sem Sóttvarnalæknir taldi beztan út frá sóttvarnasjónarmiðum, en gallinn á gjöf Njarðar er einfaldlega sá, að sá kostur er gjörsamlega óviðeigandi við núverandi aðstæður.  Hann er neyðarhemill, sem ríkisstjórnin misnotaði.  Meðalhófsregla Stjórnsýslulaga er virt að vettugi, því að vægari úrræðum var sjálfsagt að beita með broti af tilkostnaði neyðarhemilsins og með alveg viðunandi árangri. 

"Í aðdraganda þess, að farið var að skima á landamærum og þannig greitt fyrir umferð, lét ríkisstjórnin vinna hagræna greiningu á þeirri stöðu.  Hún hefur nú verið uppfærð m.t.t. reynslunnar.  Margt áhugavert kemur þar fram, m.a. að hagræn rök hnígi að því að herða beri aðgerðir á landamærum til þess að tryggja, að innanlandshagkerfið verði ekki fyrir of miklu raski af hörðum sóttvarnarráðstöfunum.  Þar er enn fremur bent á, að ferðatakmarkanir, sem ákveðnar eru hér á landi, eru ekki það eina, sem ræður fjölda ferðamanna; þar skipta ferðatakmarkanir annarra ríkja líka máli, en einnig almennur ferðavilji, sem gera má ráð fyrir, að minnki, þegar faraldurinn er í miklum vexti.  Stjórnvöld munu áfram vinna að því að meta áhrif faraldursins og sóttvarnaráðstafana á efnahagslífið."

Það er áhyggjuefni, að forsætisráðherra skuli láta frá sér fara svo einfeldningslegan texta.  Hún er ekki að verja "innanlandshagkerfið" með því að herða aðgerðir á landamærunum.  Hún kæfir með því ferðaþjónustuna og veldur þar með stórtjóni á "innanlandshagkerfinu".  Síðan koma "selvfölgeligheder", sem hún ber á borð sem merkilegar niðurstöður "sérfræðinga".  Þeir eru nú ærið mistækir, margir hverjir, og vandasamt að nota þá rétt, eins og alþjóð veit. 

Síðan þylur hún upp efnahagssamdrátt nokkurra ríkja og reynir að tengja hann við sóttvarnaraðgerðir þeirra. Það er mjög óvarlegt að gera, enda fellur hún í þá gryfju að draga af þeim kolranga ályktun: 

"Þarna spilar margt inn í, en segir okkur samt, að ekki er hægt að draga þá einföldu ályktun, að harðar sóttvarnarráðstafanir skili sjálfkrafa meiri samdrætti."

Það er einmitt þannig, að sóttvarnarráðstafanir á borð við ferðatakmarkanir og samkomutakmarkanir eru dýrar og að öðru óbreyttu til þess fallnar að draga úr hagvexti.  Aðalatriðið er, hvort þær eru gagnlegar, þ.e. hvort tjónið af þeirra völdum verði minna en af því að sleppa þeim.  Mikilvægast er, að þær séu réttar, þ.e. viðeigandi og hvorki of litlar né of miklar.  Þær eru þess vegna vandasamar og ekki á færi Sóttvarnalæknis eða Landlæknis að feta þetta einstigi.  Hér hefur Katrín, forsætisráðherra, misstigið sig herfilega, eða eins og Norðmenn segja: "traðkað á salatinu".  

Í lok greinarinnar skrifaði Katrín:

"Baráttunni við veiruna er hvergi nærri lokið.  En þegar henni lýkur, er okkar markmið, að hægt verði að segja, að saman hafi okkur tekizt að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig, að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni takist að vinna hratt til baka það, sem tapazt hefur í þessum faraldri.  

Í opnu lýðræðissamfélagi er mikilvægt, að fram fari umræða um ólíka þætti þessarar baráttu og eðlilegt, að það sé rætt með gagnrýnum hætti, hvernig gripið er inn í daglegt líf fólks, og hvernig efnahagslífi þjóðarinnar verði sem bezt borgið.  

Stefna íslenzkra stjórnvalda hefur frá upphafi verið skýr; að verja líf og heilsu fólks og tryggja sem eðlilegastan gang alls samfélagsins.  Allar aðgerðir okkar endurspegla þessi leiðarljós og miða að því að tryggja hag almennings á Íslandi sem allra bezt."

Það er nú þegar ljóst, að tjónið af völdum sóttvarnaaðgerða vegna veirunnar er gríðarlegt og skuldasöfnun hins opinbera ofboðsleg.  Efnahagslífi þjóðarinnar er ekki borgið, heldur er það í algeru uppnámi, þar sem við liggur, að öllum viðsnúningi hins opinbera frá 2013 hafi verið á glæ kastað.  Forsætisráðherra er veruleikafirrt, ef hún heldur, að staðan sé allt önnur. Frelsi einstaklinganna hefur auðvitað verið fórnað á altari sóttvarnanna, en forsætisráðherra skrifar, eins og hún sé að berjast fyrir frelsinu.  Hún snýr öllu á haus.  

Það er alls ekki rétt, að reynt hafi verið að feta hinn gullna meðalveg á milli heilsuverndar og eðlilegs gangs samfélagsins.  Sóttvarnaraðgerðir hafa gengið allt of langt og lamað eðlilegan gang þjóðfélagsins til skamms tíma og bundið þjóðinni þunga skuldabagga til langs tíma.  Það þýðir ekkert fyrir forsætisráðherra að þyrla upp einhverju moldviðri í tilraun til að draga dul á þetta. 

 

 


Bloggfærslur 27. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband