Stjórnkerfi sóttvarna er ábótavant

Hlutverk Sóttvarnarlæknis er að varpa upp valkostum fyrir yfirvöld um sóttvarnaraðgerðir eða að gera til þeirra tillögur um sóttvarnir.  Eðli máls samkvæmt eru tillögur Sóttvarnarlæknis gerðar út frá þekkingu hans og mati á því, sem sóttvarnarlega er bezt, en er það endilega þjóðhagslega bezt eða bezt til þess fallið að lágmarka hið samfélagslega tjón af heimsfaraldri ?  Svarið markast af því við hvers konar heimsfaraldur er að eiga. 

Ef heimsbyggðin hefði t.d. þurft að kljást við þann skelfilega sjúkdóm ebólu, sem geisaði í Vestur-Afríku 2013-2016, en tókst með harðfylgi að kveða niður, og nú hefur verið þróað bóluefni gegn, þá er lítill vafi á því, að beztu sóttvarnaraðgerðirnar eru jafnframt samfélagslega hagkvæmastar, af því að þær lágmarka tjónið.  Ebóluveiran var bæði bráðsmitandi og bráðdrepandi.  Alls er vitað, að 28´616 sýktust og af þeim létust 11´310 úr þessum innvortis blæðingasjúkdómi, sem gefur dánarhlutfall CFR=40 %, og dánarhlutfall sýktra á sjúkrahúsum var 60 %. 

Til samanburðar er dánarhlutfall COVID-19 greindra á Íslandi CFR=0,5 % og IFR=0,3 %, þ.e. dánarhlutfall þeirra, sem taldir eru hafa sýkzt af SARS-CoV-2-veirunni hérlendis.   Fyrir aldurshópinn 0-70 ára er IFR=0,1 %, sem er sambærilegt við það, sem þekkist í inflúenzufaröldrum.  Þegar þannig háttar til með hættuna, sem af faraldri stafar, eins og COVID-19, þá aftur á móti þarf að taka tjónið af sóttvarnaraðgerðunum með í reikninginn áður en ákvörðun um þær er tekin.  Gagnrýnisefnið er, að það virðist alls ekki hafa verið gert hingað til hérlendis.

Allar sóttvarnaraðgerðir eru íþyngjandi fyrir atvinnulíf og einstaklinga.  Í Morgunblaðsgrein Þorsteins Siglaugssonar 11. september 2020 kom fram, að fyrir hvert 1 % viðbótarstig atvinnuleysis ykjust dánarlíkur þeirra, er fyrir því yrðu, um 6 % ári seinna. Þegar aukið atvinnuleysi í landinu af völdum núverandi sóttvarnaraðgerða, einkum á landamærunum, er athugað, kemur í ljós, að lífslíkur fleira fólks en smitazt hafa af kórónaveirunni hingað til hérlendis munu rýrna umtalsvert á Íslandi af völdum sóttvarnaaðgerða stjórnvalda.  Þessu verða gerð betri skil síðar.  Sóttvarnaraðgerðir eru þannig dauðans alvara frá fleirum en einu sjónarhorni. Hamlandi aðgerðir fyrir komufarþega eru mestar á landamærum Íslands af öllum EES-löndunum samkvæmt samantakt Evrópusambandsins.  Það eitt ætti að hringja aðvörunarbjöllum á skrifstofum ráðherranna og í þingflokksherbergjum.  Íslenzk stjórnvöld hafa farið offari í þessum efnum, þvert á það, sem þau fullyrða sjálf, og þannig fórnað meiri hagsmunum fyrir minni.  Þessi staða ber vott um óvönduð vinnubrögð og dómgreindarleysi forsætis- og heilbrigðisráðherra.  

Gunnlaugur H. Jónsson skrifaði merka grein í Fréttablaðið 10. september 2020 undir fyrirsögninni:

"Opnum landamærin fyrir farþegum sem ólíklega smita".

Hún hófst þannig:

"Í þessari grein eru færð rök fyrir breyttum aðferðum við skimun á landamærum.  Við þurfum að opna landamærin, því [að] það er mikilvægt heilbrigðis- og félagsmál.  Þetta snýst ekki eingöngu um sóttvarnir.  Jafnmikilvægt er almennt heilbrigði í landinu, og þar er atvinnuleysi mikill áhættuliður.  Rannsóknir sýna, að atvinnumissir er eitt alvarlegasta áfall, sem fullorðnir einstaklingar verða fyrir á eftir ástvinamissi og skilnaði (Holms and Rahe)."

 Þarna kveður við allt annan tón en heyrzt hefur frá stjórnvöldum, og það má furðu gegna, að þau skuli vera gjörsamlega vanbúin til að fást við þetta viðfangsefni á vitrænan hátt.  Gunnlaugur mælir fyrir svipaðri nálgun á viðfangsefninu og pistlahöfundur þessarar vefsíðu o.fl.  

Tillaga Gunnlaugs er að skipta komufarþegum í 3 hópa eftir smithættu í heimalandi og brottfararlandi til Íslands.  Farþegar í A-flokki (vegabréf og brottfararland) fari í einfalda eða enga skimun.  Farþegar í B-flokki fari í tvöfalda skimun án sóttkvíar.  Farþegar í C-flokki fari í tvöfalda skimun með sóttkví. 

Þetta eru virðingarverðar tillögur, en flokkur B skilar takmörkuðum ávinningi m.v. flokk A, því að sýktir, sem ekki greinast í fyrri skimun, smita í 5 daga fram að seinni skimun.  Á móti telur höfundur þessa pistils engan komufarþega nægilega örugglega heilbrigðan til að sleppa við skimun, nema hann geti sýnt gilt vottorð um ónæmi.

Meginhugsunin er góð, þ.e. að opna landamærin gegn nægilegum sóttvarnarráðstöfunum.  Þar mætti t.d. fyrst um sinn nota viðmiðunargildi Evrópusambandsins (ESB) í skjalinu

"Travel and transportation during the coronavirus pandemic", 

en það er nýgengisstuðullinn NG=50.  Ef NG<50 verði skimað einu sinni og ef NG_> 50, þá verði skimað tvisvar með sóttkví á milli.  

Þann 8. september 2020 birtist mjög góð grein í Morgunblaðinu eftir Karl Rútsson, rafeindavirkja og tækjahönnuð, sem hann nefndi:

"Og hvað svo og hvað svo".

Karl telur stjórnvöld hér og erlendis hafa farið offari í viðbrögðum sínum við SARS-CoV-2-veirunni með alvarlegum afleiðingum fyrir efnahag landsins og fjárhag fjölda heimila.  Þetta blasir nú við, og það er með eindæmum, að yfirvöld landsins skuli ekki sjá þetta og grípa í taumana áður en óþarfa tjón verður enn þá meira.  

Karl skrifaði m.a.:

"Bara á Íslandi deyja tugir úr lungnabólgu árlega, mun fleiri en hafa dáið hér úr COVID-19 til þessa. Það er ekki mikið í fréttum.  Árlega deyja milli 10 og 20 manns á Íslandi í umferðarslysum, ungir sem aldnir.  Það væri auðvelt að breyta því, ef beitt væri jafnharkalegum aðgerðum og gegn COVID-19.  Er vilji fyrir því ?" 

Þarna þrýstir Karl á kýli, sem búið hefur um sig í öllu Kófinu.  Hvers vegna eru hafðar uppi íþyngjandi og kostnaðarsamar sóttvarnaraðgerðir gegn COVID-19, þegar önnur og skeinuhættari fyrirbrigði leika lausum hala ?  Nú er tekið að halda því fram, að sóttvarnaraðgerðir íslenzkra stjórnvalda séu ekki öfgafullar í samanburði við útlönd.  Þetta er villandi málflutningur, því að þær eru mjög öfgafullar, þegar tekið er tillit til þess, sem er í húfi.  Dauðsföll á tíma Kófsins hafa hérlendis hingað til verið færri en að meðaltali á sama tímaskeiði undanfarin 3 ár. 

Í Bylgju 2 hefur fjöldi samtíma innlagna á sjúkrahús ekki farið yfir 1 og yfirleitt enginn verið í gjörgæzlu.  Enginn hefur látizt af völdum COVID-19 í Bylgju 2.  Samt er haldið uppi sóttvarnaraðgerð á landamærum, sem er að kyrkja stærstu atvinnugrein landsins og haldið er uppi skrýtnum fjöldatakmörkunum í þreksölum og sundlaugum auk íþyngjandi fjöldatakmarkana á mannamótum, þ.á.m. í réttum landsins, og þar má helzt ekki hafa söngvatn um hönd. Öðru vísi mér áður brá.

Er yfirvöldum landsins ekki sjálfrátt ?  Lögmenn hafa bent á, að slík hegðun stjórnvalda styðjist hvorki við Stjórnarskrá né stjórnsýslulög.  Samt lemja stjórnvöld hausnum við steininn og þykjast vera að verja líf og heilsu landsmanna.  Þau eru á kolröngu róli.

"Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig öll heimsbyggðin hefur sameinazt í allsherjar múgsefjun við að forðast jafnhættulitla veiru og hér um ræðir; líklega er hér að raungerast máttur nútíma fjölmiðla og samskiptamiðla, upplýsingarnar berast beint í vasa allrar heimsbyggðarinnar á sekúndubroti, og svo apar hver eftir öðrum og allri gagnrýni er ýtt til hliðar; hræðslan við dauðann kyndir bálið.  Þó er dauðinn það eina, sem víst er, að alla hendir, og aldnir og veikburða eiga augljóslega stytzt eftir."

Það á eftir að gera Kófið upp, reyna að útskýra viðbrögð stjórnvalda og leggja mat á árangur þeirra, kostnað og tekjutap landsins.  Ekki er ólíklegt, að niðurstaðan verði sú, að stjórnmálamenn og embættismenn hafi víða farið á taugum, þegar þeir stóðu andspænis nýrri veiru frá Wuhan í Kína.  Kostnaðurinn verður líklega metinn margfaldur á við ávinning aðgerðanna. 

Það er hárrétt að reyna að einangra hópsmit, eins og Þjóðverjar hafa einhent sér í og Kínverjar gerðu með árangri í Wuhan, en þaðan og til þess að drepa heila atvinnugrein í dróma á heimsvísu og þar með stærstu atvinnugrein sumra landa er langur vegur.  Það er líka sjálfsagt að verja viðkvæma hópa, beita persónulegum sóttvörnum og skimun á landamærum að vissu marki. 

Með því að valda fjöldaatvinnuleysi með aðgerðum stjórnvalda eru þau hins vegar að kalla yfir þjóðfélagið mikið böl og persónulega harmleiki, sem eru líklega þungbærari en þeir, sem reynt er að forða með aðgerðunum.  "The Show must go on."

"Nú er heimsbyggðin nánast rjúkandi rúst efnahagslega, og afleiðingarnar samt varla farnar að koma í ljós, framundan eru óteljandi gjaldþrot, atvinnuleysi og eignamissir, og víða í heiminum mun fólk á bezta aldri deyja í þúsundavís beint og óbeint af völdum þessara manngerðu hamfara. 

Stundum er lækningin verri en sjúkdómurinn; ég held, að það eigi heldur betur eftir að koma í ljós í þessu tilfelli."

Karl Rútsson er glöggur og réttsýnn maður, sem ekki fer með neitt fleipur.  Það er því miður líklegt, að yfirvöld víða hafi verið of ómarkviss og valdið miklu meira tjóni en nemur tjóninu, sem aðgerðirnar áttu að afstýra.  Yfirvöld þykjast vera að bjarga mannslífum, en afleiðingar gjörða þeirra hafa valdið heimskreppu og orðið og munu verða fjölmörgum að fjörtjóni. 

Á Íslandi náði sjúklingafjöldinn hámarkiinu 122 í Bylgju 2 þann 18. ágúst 2020 og hefur síðan lækkað yfir 40 %.  Sjúkrahúsin eru fjarri þolmörkum.  Hvað réttlætir þá hænufet, eins og hækkun aðgengis þrekstöðva og sundstöðva úr 50 % í 75 % og samkomutakmarkana úr 100 í 200 ?  Hvers vegna ekki 100 % og 1000 með persónulegum sóttvörnum og tilslökun á landamærunum í von um, að meira líf færist í ferðamannaiðnaðinn og fólk verði vart minni þvingana innanlands ?  Það verður að hafa í huga, að sóttvarnarráðstafanir eru rándýrar, og sumar skila þær sáralitlu.  

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 15. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband