6.9.2020 | 10:31
Olíuvinnsla á hverfanda hveli
Nú bendir allt til, að "peak oil", þ.e. hámarki olíuvinnslu hafi verið náð árið 2019 með um 35 mrdtu vinnslu úr jörðu (35 milljarðar tunna). Nú sjást merki þess, að olíurisar á borð við BP og Shell hafi áttað sig á vatnaskilunum og séu að selja óhagstæðari olíulindir sínar og lækka verðmæti óunnins olíuforða síns í bókhaldi. Þetta stafar af verulega lækkuðum spám þeirra um framtíðar olíuverð og lækkuðum spám þeirra um eftirspurn. Grundvöllur slíkra spáa eru minni væntingar um hagvöxt í heiminum, og valda þar nokkru um ýfingar Bandaríkjanna og Kína, en orkuskiptin leika einnig orðið stórt hlutverk.
Dæmi um þessi umskipti er ákafi BP í að selja hinar fyrrum gjöfulu olíulindir sínar í Prudhoe-flóa, en 1300 km olíulögn þaðan og til Valdez þótti tæknilegt afrek árið 1977, þegar starfsemin þar hófst. BP og Royal Dutch Shell afskrifuðu í viku 28/2020 olíulindir að verðmæti mrdUSD 17,5 og mrdUSD 22,0.
Skýringin á þessu er sú, að fyrirtækin telja, að borun og dæling úr þessum olíu- og gaslindum verði aldrei arðbær. Með öðrum orðum telja þau, að verðið muni aldrei ná sömu hæðum og fyrr, heldur verða á bilinu 40 USD/tu - 60 USD/tu fram yfir miðja þessa öld eða þar til tímabili jarðefnaeldsneytis lýkur. Þetta er afar athyglisverð breyting, sem gefur von um, að takast muni að hemja loftslagshlýnunia, en aðalsökudólgurinn, kolin, eru þó ekki nefnd hér.
Bretar höfðu áform um að hætta kolanotkun árið 2025 og Þjóðverjar rúmum áratug síðar. Aðalkolabrennararnir, Kínverjar, hafa þó enn ekki birt slíkar áætlanir, svo að vitað sé. Kófið setur þó strik í reikninginn í þessum efnum sem öðrum, þar sem öll hagkerfi veikjast af þess völdum, og það mun seinka fjárfestingum í orkuskiptunum. Hefur það þegar komið fram við áætlunargerð Evrópusambandsins, ESB, en orkupakkar þess hvetja til hás orkuverðs til að fjármagna ný orkuver, aðallega af vistvænni tegundinni.
Samkvæmt Rystad Energy, sem er ráðgjafarfyrirtæki um orkumál, mundi verða unnt að vinna úr 90 % af þekktum olíubirgðum heimsins með a.m.k. 10 % arðsemi, ef Brent-verðið færi yfir 100 USD/tu. Nú er Brent-verðið rúmlega 40 USD/tu, og við slíkt verð fellur u.þ.b. helmingur þekktra olíubirgða út sem óarðbær.
Í síðustu ársskýrslu sinni gerði Shell ráð fyrir, að Brent-verðið næði USD 60/tu, en í Kófsfárinu gerir fyrirtækið ráð fyrir 40 USD/tu árið 2021 og 50 USD/tu árið 2022. BP gerir ráð fyrir, að meðal-Brent-verð á tímabilinu 2021-2050 verði 55 USD/tu. Aðeins fyrir nokkrum mánuðum var meginspá fyrirtækisins sú, að á næstu 20 árum yrði þetta verð að jafnaði 70 USD/tu. Þetta jafngildir verðlækkunartilhneigingu um a.m.k. 20 %.
Gasverð frá Henry Hub, sem er viðmiðunarstaður fyrir eldsneytisgas, er spáð hjá BP, að lækki til langs tíma úr 4,0 USD/MBThU í 2,9 USD/MBThU (MBThU=milljón brezkar hitaeiningar) eða um tæplega 30 %. Þessi snöggu umskipti eru merkileg, og olíufélögin ætla ekki að brenna inni með verðlausar eignir. Þessi þróun verður hagkerfum iðnþróuðu ríkjanna hagstæð, en hvati orkuskiptanna dvínar. Sú þróun er nú komin á skrið, sem ekki verður stöðvað.
Sums staðar, þar sem olíufyrirtæki eru í ríkiseigu, er núverandi verð nógu hátt til arðsamrar vinnslu, en ekki nógu hátt til að koma jafnvægi á ríkisreksturinn, t.d. í Miðausturlöndum, þar sem staðan krefst róttækra samfélagsbreytinga. Annars staðar þýðir núverandi verð, að olíunni verður einfaldlega ekki dælt upp. Í Kanada verður aðeins unnt að nýta 42 % olíuforða í jörðu á meðan Brent-verðið er undir 60 USD/tu, og hlutfallið fellur í 16 % við 40 USD/tu. Orkan, sem þarf til að nýta og vinna þykkan olíusand Kanada gerir þennan olíusand (Bitumen) verðlítinn. Angóla hefur á síðustu árum beitt skattaívilnunum til að örva olíuvinnslu undan ströndum sínum, en hár kostnaður hindrar fjárfestingar. Norski olíusjóðurinn gæti tekið að skreppa saman, því að norska ríkið er farið að jafna reksturinn með honum.
Allt eru þetta merki um, að halli undan fæti hjá olíuiðnaðinum vegna dræmrar eftirspurnar. Það eru ný tíðindi, sem olíurisarnir hafa brugðizt merkilega fljótt við. Þeir kjósa að eiga aðeins lindir, sem þola verðsveiflur og hægt verður að nota áfram, þótt yfirvöld setji strangari mörk á mengun við bruna jarðefnaeldsneytis. Risarnir hafa einnig lækkað hjá sér rekstrarkostnaðinn. Árið 2019 var verðið, sem dugði 5 stærstu fyrirtækjunum - ExxonMobil, Shell, Total, Chevron og BP - fyrir nægri framlegð upp í fjárfestingar og arðgjöf aðeins helmingur þess, sem þurfti árið 2013 samkvæmt Goldman Sachs. Þetta er stórkostlegur árangur, og nú hafa neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins dregið enn úr fjárfestingum fyrirtækjanna. Fyrir sum fyrirtækjanna á þessi þróun sér stað samhliða því, að þau hafa lagt fyrir sig nýtingu hreinni orkugjafa. "Við snúumst ekki um magn - við snúumst um verðmæti", sagði Bernard Looney, aðalforstjóri BP nýlega.
Þessi saga bendir til, að háorkuverðstímabilið sé liðið. Íslendingar þurfa auðvitað að laga sig að þessari stöðu, en ekki að ríghalda í úreltar spár um sívaxandi orkuverð, eins og okkar stærsta orkufyrirtæki, Landsvirkjun, því miður virðist gera, landinu til stórtjóns, því að samkeppnishæfni landsins líður undir lok, ef ekki verður strax söðlað um og tekin einfaldlega upp upphaflega verðlagsstefna Landsvirkjunar. Hún snerist um það að verðleggja orkuna rétt ofan við meðalkostnað fyrirtækisins við orkuöflunina, en ekki m.v. jaðarkostnað orkuöflunar (næstu virkjun). Arðinn af orkuöflun og orkuvinnslu fær ríkið þá með skattlagningu fyrirtækja, sem nýta þessa orku til framleiðslustarfsemi og með skattlagningu starfsmanna, sem þar vinna, og af þeirra neyzlu. Þetta var kjarni "New Deal", sem reif Bandaríkin upp úr eymd Kreppunnar miklu og mörg önnur ríki tóku upp með góðum árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)