15.10.2021 | 11:34
Vatnaskil viðskiptakjara og samkeppnishæfni
Orkukreppa hefur skyndilega riðið yfir Evrópu og Asíu, þ.e. lönd, sem háð eru innflutningi á jarðgasi. Bandaríkin eru t.d. ekki í þeim hópi, því að með nýrri vinnsluaðferð, "fracking", leirsteinsbroti, hafa Bandaríkjamenn orðið nettó útflytjendur á gasi. Evrópu, vestan Rússlands, hrjáir aftur á móti orkuhungur. Í sumar voru stillur og hitar, svo að vindmyllur framleiddu lítið og mikil orka fór í loftkælingu húsnæðis. Við þetta dró niður í birgðum Evrópusambandsríkjanna, og þar ríkir nú örvænting vegna lágrar birgðastöðu m.v. árstíma og gríðarlegra orkuverðshækkana, ekki sízt á rafmagni.
Þetta ástand kyndir undir verðbólgu í ESB og hækkar allan framleiðslukostnað, m.a. hjá verksmiðjum, sem Íslendingar keppa við með sínum útflutningsvörum. Íslendingar búa við þá gæfu, enn a.m.k., að rafmagnið er ekki á uppboðsmarkaði, heldur er verðið stöðugt. Allt annað er uppi á teninginum t.d. í Noregi, en Norðmenn keppa við okkur víða, en þar var raforkuverð frá virkjun 1,2 NOK/kWh á heildsölumarkaði, sem á gengi 11.10.2021 nemur 18 ISK/kWh, sem er meira en þrefalt verð til íslenzkra almenningsveitna. Þetta er svipað verð og í smásölu á Íslandi með flutnings- og dreifingarkostnaði. Ætla má, að verð til almennings í Noregi sé a.m.k. samsvarandi 30 ISK/kWh. Í Noregi er flutningsgjaldið og dreifingargjaldið lægra en hér, en Norðmenn borga aftur á móti raforkuskatt pr. kWh.
Kína hefur ekki farið varhluta af orkukreppunni, og þar er orðinn alvarlegur orkuskortur með rafmagnsskömmtun. Gömlum kolaorkuverum hefur þar verið lokað vegna mengunar í nærumhverfinu, þótt enn komi um 80 % kínverskrar raforku frá kolaorkuverum. Þetta hefur leitt til samdráttar í útflutningi Kínverja, m.a. á málmum, og er þetta meginástæða ört hækkandi álverðs. Verð hrááls er komið upp í 3200 USD/t og hefur hækkað í 2,1-falt verð frá C-19 lágmarkinu og 2,7-földun er spáð árið 2022 frá þessu lágmarki, því að eftirspurnin er einnig hratt vaxandi.
Fyrir íslenzkan efnahag hefur þetta mjög jákvæð áhrif. Fyrirtæki á borð við ISAL í Straumsvík, sem selur einvörðungu mjög virðisaukna vöru (sívalninga til þrystimótunar alls konar þversniða (prófíla)), fær fyrir vikið miklu hærra verð og mun sennilega borga upp allt tap áranna 2018-2020 (mrdISK 28,4) með hagnaði ársins 2021, ef Landsvirkjun grípur ekki til skerðingar ótryggðrar orku vegna metlágrar stöðu í Þórisvatni. Þar á bæ virðast menn sitja með hendur í skauti, þótt brýna nauðsyn beri til athafna, þ.e. nýrrar orkuöflunar fyrir Suð-Vesturland.
Alls töpuðu álverin á Íslandi mrdISK 50 undanfarin 3 ár. Nú er öldin önnur, og þau hafa hafið töluverðar fjárfestingar. ISAL mun fjárfesta fyrir mrdISK 1,3 í ár, og Norðurál hefur hafið umbreytingu steypuskála síns fyrir sívalninga fyrir um mrdISK 15. Þá munu fyrirtækin nú hefja aftur greiðslu tekjuskatts til ríkisins af sínum hagnaði. Þá má ekki gleyma kolefnisgjaldi álveranna inn í ETS-viðskiptakerfi ESB, sem gæti farið yfir mrdISK 2 í ár vegna hækkandi verðs á koltvíildiskvóta og vaxandi framleiðslu. Gjaldið rennur á endanum til íslenzka ríkisins. Þannig fjármagnar stóriðjan að nokkru aðgerðaáætlun ríkisins til að ná losunarmarkmiðum Íslands. Allt er þetta ígildi gjaldeyristekna, svo að þróun álmarkaðanna núna eflir hagvöxtinn á Íslandi.
Allur þessi viðgangur og samkeppnishæfni Íslands almennt veltur á aðgangi fyrirtækjanna að "grænni" orku á samkeppnishæfu verði að teknu tilliti til fjarlægðar Íslands frá helztu mörkuðum hráefna og afurða. Nú stendur þar hnífurinn í kúnni. Öll forystugrein Morgunblaðsins 11. október 2021 var helguð þessu viðfangsefni undir heitinu:
"Hér er næg orka".
Hún hófst þannig:
"Ekki þarf að fylgjast mjög með erlendum fréttum til að átta sig á, að orkumál verða vaxandi viðfangsefni á komandi misserum og árum. Jafnvel lengur, þó að viðurkenna verði, að spádómar verða þeim mun vafasamari sem rýnt er dýpra inn í þoku framtíðarinnar. Sumum þykir nóg um að þurfa að spá um fortíðina, eins og þekkt er."
Orkumál heimsins eru á breytingaskeiði, þar sem jarðefnaeldsneyti er á leið út, og kolefnisfríir orkugjafar leysa þá af hólmi. Til marks um þetta eru dvínandi fjárfestingar til leitar að nýjum orkulindum, og á stefnuskrá fleiri stjórnmálaflokka kemur krafan um, að ríkisstjórnir hætti að úthluta leitarleyfum. Það hillir þess vegna undir dvínandi framboð jarðefnaeldsneytis, eins og mjög hátt verð um þessar mundir gefur til kynna. Heimurinn getur þess vegna búizt við, að á meðan engin trúverðug orkulind er í sjónmáli til að standa undir stöðugri raforkuvinnslu á heimsvísu, t.d. kjarnorkuver með ásættanlegt rekstraröryggi og stuttan (geislavirkni undir mörkum innan hálfrar aldar) helmingunartíma geislavirks úrgangs, þá verði bæði olíuverð og gasverð og raforkuverð hátt.
Ef allt væri með felldu, væri þessi staða mála hagfelld Íslendingum, þar sem við búum við endurnýjanlegar orkulindir frá náttúrunnar hendi til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi, og þess vegna getur raforkuverð okkar verið tiltölulega stöðugt. Hér er hins vegar draugagangur á ferðinni, þar sem molbúar ganga aftur og beita öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir nýjar virkjanir. Þennan draugagang verður einfaldlega að kveða niður, beita hér beztu tækni við hönnun og framkvæmd á virkjunarstað og hefja framkvæmdir af kappi. Ekki veitir af. Ella verðum við að viðundrum alls heimsins.
Nú verður vitnað í síðari hluta forystugreinarinnar:
"Hér á landi eru aðstæður aðrar [en í Kína og Evrópu], nánast einstakar. Ísland er ekki ofurselt evrópska orkumarkaðnum [eins og Noregur - innsk. BJo], þó að stigið hafi verið óþarft skref í átt að honum með orkupakkanum alræmda. En Ísland er ekki með beina tengingu við evrópska markaðinn og lýtur því eigin lögmálum að verulegu leyti, sem er mjög til góðs."
Heildsöluverð raforku í Noregi hefur þrefaldazt á skömmum tíma, og er nú heildsöluverð þar svipað og smásöluverð hér til heimila. Þetta stafar af útflutningi raforku um sæstrengi til Danmerkur, Þýzkalands, Hollands og nú síðast til Englands. Norsk heimili og fyrirtæki keppa nú við neytendur í orkukreppu, sem sér ekki fyrir endann á í vetur, m.a. af því að Nord Stream 2 gaslögnin frá Rússlandi á botni Eystrasalts og til Þýzkalands hefur enn ekki verið tekin í notkun af pólitískum ástæðum, þótt hún sé tilbúin.
Það er ekkert vit í því fyrir hagsmuni almennings á Íslandi að leyfa tengingu aflsæstrengs frá útlöndum til Íslands. Íslenzka raforkukerfið á að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja á Íslandi og Íslands í samkeppni um fólkið, en ekki að verða gróðrarstía skammtíma gróðahugmynda, enda verður sá gróði augljóslega á kostnað rafmagnsnotenda hér á landi.
"Ísland er líka í þeirri stöðu, að hér á landi er næg orka, og það meira að segja sú orka, sem eftirsóttust er nú um stundir, s.k. græn orka. Hér er framleitt úr fallvatni og jarðvarma, svo [að] Ísland er einstakt á heimsvísu.
Íslendingar búa svo vel vegna hitaveitunnar, sem hefur yljað þeim áratugum saman, að þeir eiga erfitt með að skilja ástandið í Evrópu og áhrif hækkandi verðs á orku á hitastig á heimilum. Hér er sama, hversu napurt verður á vetrum, heimilin eru jafnan hlý og notaleg án þess, að kostnaður verði óhóflegur. Þetta eru lífsgæði, sem gjarna gleymast."
Jafnvel í hinum vatnsorkuríka Noregi, þar sem séð er nánast fyrir allri raforkuþörf landsmanna með raforkuvinnslu í vatnsorkuverum og vindorkuverum, einnig til upphitunar húsnæðis, hækkar raforkuverð stundum svo mikið á vetrum, að gripið er til eldiviðarbrennslu með tilheyrandi reykjarsvækju og sóti yfir þéttbýli. Sorglegar sögur eru frá Norður-Noregi um gamalt fólk, sem ekki gat greitt rafmagnsreikninga og króknaði úr kulda. Þegar raforkuskortur verður hérlendis vegna meiri eftirspurnar en framboðs, tekur stóriðjan fyrst á sig skellinn og aðrir, sem kaupa ótryggða orku, en forgangsorka til almenningsveitna verður ekki skert, nema í bilunum eða náttúruhamförum.
"En þetta eru líka lífsgæði, sem þarf að verja og byggja upp áfram. Ísland á að halda áfram að vera til fyrirmyndar að þessu leyti, og þess vegna verður að nýta þær auðlindir, sem landið hefur upp á að bjóða. Hér er töluverð raforkuframleiðsla á íbúa, en hún gæti verið enn meiri, öllum til hagsbóta. Fjöldi virkjanakosta er enn ónýttur, jafnvel kosta, sem taldir hafa verið í nýtingarflokki rammaáætlunar.
Eins og fyrrverandi orkumálastjóri benti á, hefur sú aðferð, sem rammaáætlunin er, ekki dugað, eins og til stóð. Nýr orkumálastjóri er óljósari í tali um þetta efni, þó að hún viðurkenni, að hægt hafi gengið."
[Undirstr. BJo.]
Það eru öfl í landinu, m.a. í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem eru haldin þeirri meinloku, að nóg sé komið af virkjunum í landinu. Er þá gjarna vísað til orkuöflunar á mann hérlendis, en sá mælikvarði sýnir einmitt mikilsverðasta framlag Íslands til baráttunnar við hlýnun jarðar. Á forsendum orkuskiptanna og á grundvelli beztu þekkingar á sviði slíkrar mannvirkjagerðar, sem vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir eru, eigum við að halda ótrauð áfram á þeirri glæstu braut, sem lýst er í tilvitnaðri forystugrein Morgunblaðsins og endaði þannig:
"Óvíst er, að tekizt hefði að koma upp hitaveitu hér á landi eða hefja virkjun fallvatna í stórum stíl, ef þau vinnubrögð, sem tíðkazt hafa á undanförnum árum, hefðu tíðkazt áður fyrr. Endalaus kæruferli hafa tekið við af framkvæmdagleði, og með sama áframhaldi er hætt við, að Ísland nái ekki að nýta með eðlilegum hætti alla þá hreinu og góðu orku, sem landið hefur upp á að bjóða. Það þýðir ekki aðeins, að landsmenn geta lent í ógöngum með fyrirhuguð orkuskipti, heldur líka, að þeir geta lent verr í þeim verðhækkunum, sem aðrar þjóðir standa frammi fyrir, enda kemur hækkandi olíuverð þeim mun verr við landsmenn sem minna er framleitt og nýtt af innlendri orku."
Þetta er kjarni málsins um núverandi stöðu orkumálanna á Íslandi. Það er spurning, hvort núverandi þunglamalega ferli við val á virkjanakostum hafi skilað nokkrum sköpuðum hlut til góðs fyrir náttúru landsins og komandi kynslóðir landsmanna. Það hefur hins vegar verið gríðarlega kostnaðarsamt skrifræðisbákn og náð að leggja dauða hönd á framkvæmdaviljann. Núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra er sá, sem í fyrra starfi sem framkvæmdastjóri Landverndar hefur lengst gengið í innihaldslausu þrasi og málaferlum vegna orkuframkvæmda. Það er brýnt að einfalda fyrirtækjum virkjanaundirbúning með skilvirkri stjórnsýslu, sem einfaldlega leggur mat á það, hvort við valda framkvæmdatilhögun hafi verið gætt hófs m.t.t. náttúrunnar og hvort bezta fáanlega tækni hafi verið lögð til grundvallar. Hér er um verkfræðilegt viðfangsefni að ræða, sem flækjufætur af öllu mögulegu tagi eiga ekki að komast upp með að rugla með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)