Tækifærin bíða, en verða þau gripin ?

Nýlega var haldin í Reykjavík (Hörpu) fjölmenn, fjölþjóðleg ráðstefna um heimskautasvæðin.  Þessi ráðstefna er gott dæmi um þá tilhneigingu stjórnmálamanna að nota hlýnun jarðar og hafanna sem tilefni til að slá um sig, tala fjálglega um alvarlegar afleiðingar útblástursins, en valda um leið óþörfum útblæstri. Stjórnmálamenn slá sér á brjóst og gera mikið úr vandanum, en það skortir mikið á, að gjörðir fylgi orðum, sbr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar.  Í tilviki VG á Íslandi keyrir um þverbak, því að flokkurinn leggst þversum gegn því, að það sé gert á Íslandi, sem allir tala þó um, að jarðarbúar þurfi helzt á að halda til að draga úr gróðurhúsaáhrifum, þ.e. að virkja endurnýjanlegar og nokkurn veginn kolefnisfríar orkulindir, til að unnt sé að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi án þess að fórna hagvexti, hag almennings og velferðarkerfinu, eins og við þekkjum það. 

Vaxandi gagnrýni gætir í garð IPCC, sem gefið hefur út sína 6. skýrslu um hlýnun andrúmsloftsins og tengsl hennar við vaxandi koltvíildisstyrk andrúmsloftsins. Útkoman úr reiknilíkönum IPCC passar alls ekki við mælingar gervihnatta á hitastigi andrúmslofts í mörgum þversniðum um alla jörð um a.m.k. 40 ára skeið.  IPCC ýkir hitastigulinn verulega, eins og fjallað hefur verið um á þessu vefsetri. Slikar skekkjur reiknilíkana geta orðið afdrifaríkar fyrir þá, sem á þeim taka mark. Fyrir heiminn allan eru gríðarverðmæti undir.  Vitlaus stefnumörkun getur leitt til fjárfestinga, sem sliga efnahag viðkomandi þjóða.

Nú hefur prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ gagnrýnt ófræðilega talnameðferð IPCC, sem leitt hafi til rangra ályktana um hitastigulinn og upphrópana um mun örari hlýnun en talnagögnin gefi tilefni til, sbr Morgunblaðsgrein hans 14. október 2021, sem gera þarf betri skil. 

Allt tal um "hamfarahlýnun" er illa ígrundað áróðursbragð þeirra, sem eru með óhreint mjöl í pokahorninu.  Þess vegna er engin ástæða til örvæntingar, en full ástæða til að hefja nú þegar markvissa sókn hérlendis að aukinni "grænni" raforkuvinnslu um 12 TWh/ár, m.v. núverandi orkuvinnslugetu um 20 TWh/ár, árið 2040, árið, sem stjórnvöld hafa að markmiði, að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust. 

Í forystugrein Morgunblaðsins, 13. september 2021,

 "Tækifærin framundan",

sagði m.a. eftirfarandi:

"En þó að horfur séu góðar, er að mörgu að hyggja og viðfangsefnin fjarri því einföld.  Umsvif ríkisins eru meðal þess mikilvægasta, sem þarf að glíma við á næsta kjörtímabili, ef ekki á illa að fara [með] efnahag þjóðarinnar og þá þjónustu, sem landsmenn vilja búa við.

Verkalýðsfélög opinberra starfsmanna auglýsa nú af miklum móð mikilvægi þeirra starfa, sem opinberir starfsmenn vinna, þó að enginn hafi lýst efasemdum um þau störf, sem í þeim auglýsingum eru nefnd [kostnaður við þessa auglýsingaherferð hefur ekki verið upplýstur enn, en kostnaður við auglýsingaherferð ASÍ, þar sem "Nóg er til", mun hafa numið MISK 40.  Þessi meðferð fjár ber vott um spillt hugarfar - innsk. BJo]. 

En það að störfin þarf að vinna, felur ekki í sér, að þeir, sem inna þau af hendi, verði að vera opinberir starfsmenn. Þvert á móti eru líkur á, að mörg þessara starfa væru betur komin hjá einkareknum fyrirtækjum og breytir þá engu, þó að ríkið mundi í flestum tilvikum áfram tryggja, að þjónustan væri í boði."

Alvarlegasta dæmið um ógöngur, sem ríkisrekstur getur ratað í, er heilbrigðiskerfið.  Hvert neyðarópið öðru átakanlegra berst nú frá úrvinda starfsfólki Landsspítalans.  Hvernig halda menn, að viðbrögð yfirvalda og annarra í þjóðfélaginu væru, ef Landsspítalinn væri einkarekinn og núverandi staða kæmi þar upp ?  Það væri allt á hvolfi, en reyndar er afar ósennilegt, að spítalinn hefði ratað í núverandi ógöngur, ef hann væri einkarekinn. 

S.k. fráflæðisvandi hefur lengi verið vandamál þar, en nú hefur verið upplýst, að einkaaðili hafi boðizt til að létta á þessum fráflæðisvanda, en hann er búinn að bíða eftir svari frá heilbrigðisráðuneytinu síðan í ágúst 2021.

Það má fullyrða, að núverandi kreppa Landsspítalans stafar af einstrengingshætti í heilbrigðisráðuneytinu, sem virðist hafa horn í síðu einkaframtaksins á heilbrigðissviði og virðist leggja allt í sölurnar til að lágmarka viðskiptin við einkafyrirtæki innanlands.  Þetta er forkastanlegt viðhorf í ljósi stöðunnar. Í heilbrigðisgeiranaum liggur fjöldi ónýttra tækifæra með því að virkja einkaframtakið til starfa á grundvelli samkeppni um verð og gæði.  Það dugir ekki að stjórna heilbrigðisgeiranum í anda sósíalistískrar hugmyndafræði, heldur verður að létta á Landsspítalanum með samstarfi við einkageirann, þar sem þess er nokkur kostur.   

"Kórónukreppan hefur kostað ríkissjóð háar fjárhæðir og skuldsetningu, sem allgóð samstaða var um, að hann tæki á sig, og virðist það hafa heppnazt vel.  En skuldasöfnun verður að snúa við á næsta kjörtímabili, og er það ein ástæða þess, hve brýnt er að endurskoða starfsemi ríkisins, straumlínulaga þann rekstur, sem ríkið þarf að halda áfram hjá sér, færa rekstur annarrar starfsemi til einkaaðila og hætta óþarfri starfsemi." 

Allt er þetta satt og rétt, en það er auðveldara að ræða en í að komast.  Það væri þó stór ávinningur, ef svipaður texti mundi rata inn í næsta stjórnarsáttmála, því að þá yrði það viðfangsefni hæfra stjórnmálamanna að finna á þessu lausnirnar, sem duga.  Starfið er e.t.v. hafið með s.k. stafrænu Íslandi, en takist það verkefni vel, getur það bætt þjónustuna og sparað ríkissjóði kostnað. 

Það eru gríðarleg tækifæri í sjávarútveginum við fullvinnslu og gjörnýtingu aflans.  Þá virðast landsmenn vera að fá umbun nú fyrir að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og hlífa loðnustofninum, þegar hann var í lágmarki, því að nú mun hann koma sterkur inn.  Morgunblaðið birti um það frétt 2. október 2021 undir fyrirsögninni:

 "Risavertíð fram undan í vetur".

Hún hófst þannig:

"Ráðgjöf um loðnukvóta upp á 904 kt á vertíðinni í vetur, þann stærsta síðan í byrjun aldarinnar, voru tíðindin, sem bárust frá Hafrannsóknarstofnun í gærmorgun.  Í hlut Íslands komu rúm 662 kt eða hátt í 10 sinnum meira en síðasta vetur, þegar kvóti Íslendinga var um 70 kt.  Einnig kom fram á fundinum, að árgangurinn, sem bera mun uppi veiðina 2022-2023, væri sterkur." 

 

 Ef vel gengur á væntanlegri loðnuvertíð, munu gjaldeyristekjur hennar nema um mrdISK 60, sem hugsanlega eykur verga landsframleiðslu um 1 %.  Hér er því búhnykkur á ferðinni, sem auðvelda mun landsmönnum lífsbaráttuna og gera rekstur ríkissjóðs og sveitarsjóða, þar sem loðnan skapar atvinnu, auðveldari.  Ábyrgir forráðamenn þessara sjóða munu flýta greiðslum af lánum, sem hvíla á skuldsettum sjóðum þeirra. 

Þessi tíðindi eru jákvæð fyrir lífríki lögsögunnar við Ísland, því að óttazt var, að hlýnun sjávar rýrði lífríkið af nytjastofnum, en loðnan verður jafnframt æti fyrir t.d. þorskinn, sem þá þyngist hraðar en ella og þarf síður að leita út fyrir lögsöguna í leit að æti. 

Útflutningsverðmæti sjávarútvegsins munu verða yfir mrdISK 300 árið 2022, útflutningsverðmæti málm- og kísiliðnaðarins gætu orðið mrdISK 500.  Vafalítið verður metár hjá meginvaxtarbroddi landsins um þessar mundir, fiskeldinu, þar sem útflutningsverðmætið gæti numið mrdISK 45.  

Ef fjöldi erlendra ferðamanna nær 1 M 2022 (fjölgun um 2/3 frá 2021), gætu gjaldeyristekjurnar af þeim numið mrdISK 200.  Þarna eru komnar gjaldeyristekjur yfir mrdISK 1000, og er enn ýmislegt ótalið, s.s. hugverkaiðnaðurinn (hugbúnaðarsmíði).  Það eru þess vegna góðar horfur, en það þýðir ekki, að nóg sé til að auka enn meir hlutdeild launakostnaðar hjá fyrirtækjum landsins en varð með lífskjarasamningunum, því að þetta hlutfall er í hæstu hæðum á alþjóðavísu, og samkeppnishæfni landsins er í 21. sæti, á meðan hin Norðurlöndin tróna í efstu sætunum.  Nú þarf að sýna ráðdeild, gætni og hófsemi, veita fyrirtækjunum ráðrúm til að skapa svigrúm til að bæta kjörin með enn meiri framleiðniaukningu.  Að öðrum kosti sögum við í sundur greinina bolmegin, sem við sitjum á. 

Nú eru enn uppi raddir um gríðarlegan ávinning, sem hafa mætti af útflutningi rafmagns um aflsæstreng til útlanda, sbr leiðari Vísbendingar, 37. tbl. 2021, og ummæli fyrrverandi forseta lýðveldisins.  Þessi málflutningur er þó algerlega úr lausu lofti gripinn, því að það er þjóðhagslega hagkvæmara að nýta orkuna til verðmæta- og atvinnusköpunar innanlands en að flytja hana utan, eins og hvern annan námugröft.  Þetta virðast núverandi stjórnarflokkar vera einhuga um, en hjáróma raddir um gullgröft og spákaupmennsku verða lengi við lýði.

Hvaðan á að taka orku fyrir aflsæstreng ?  Enginn leggur sæstreng svo langa leið upp á minni flutning en um 8 TWh/ár.  Verði sú orka virkjuð til útflutnings um sæstreng, fer heldur betur að sneiðast um hagkvæma orkukosti til orkuskiptanna.  Þarna er á ferðinni fótalaus málflutningur spákaupmanna, sem ekki hika við að rústa athafnalífi landsins og hag heimilanna með háu orkuverði innanlands, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur tengingar við háverðsraforkukerfi erlendis.

Ógæfuleg orkustefna Evrópusambandsins og ýmissa aðildarlanda þess hefur nú leitt það í ógöngur í orkumálum.  Áherzla þess á meingallaða orkugjafa vinds og sólar, sem eru mjög óáreiðanlegir, eins og alkunna er, hefur gert þessar þjóðir mjög háðar bruna jarðgass til hitunar og raforkuvinnslu. Þegar á eitt leggjast mikil gasþörf og stopulir aðdrættir, er afleiðingin gasforði í lágmarki og mikil hækkun orkuverðs. 

Bretar verða fyrir barðinu á þessu sama.  Þeir tímar eru nú liðnir, þegar Bretar voru sjálfum sér nógir með eldsneytisgas.  Þá innleiddu þeir húshitun með gasi og reistu mörg gasknúin raforkuver.  Þeir hafa rifið megnið af gasgeymum sínum, og forðageymslur rúma nú aðeins 3 % af ársnotkun, sem er 1/30 af því, sem talið er viðunandi fyrir þjóð, sem alfarið er háð innflutningi á gasi. 

Bretar hafa líka reitt sig mikið á vindmyllur til raforkuvinnslu og fyllt í skarðið með rafmagni frá gasorkuverum, þegar afköst mylla falla.  Þessi orkustefna kemur þeim nú í koll, þegar þeir endurræsa kolaorkuver í neyð sinni, en á Bretlandi eru reyndar líka í byggingu og í undirbúningi kjarnorkuver.

ViðskiptaMogginn birti 13. október 2021 gröf af framvirku verði á raforku frá 13. apríl 2021 til 11. október 2021 í 5 Evrópulöndum og á Nord Pool orkumarkaðinum. Meðaltal upphafsverðsins var 59,7 USD/MWh, og meðaltal lokaverðsins var 123,3 USD/MWh.  Hækkunin nemur 2,1-földun.  Raforkuverðið stefnir í að verða ósjálfbært, þ.e.a.s. það mun valda efnahagskreppu og verðbólgu, s.k. "stagflation", því að Evrópa verður ósamkeppnisfær á mörgum sviðum, þar sem Evrópumenn stunda framleiðslu nú.

Ef ráðamönnum hér væri einhver alvara með öllu óráðshjalinu um "hamfarahlýnun", þá mundu þeir stuðla að því að aðstoða Evrópu með því að fara í samningaviðræður við evrópsk fyrirtæki um fjárfestingar hér gegn langtímasamningum um kaup á "grænni" orku.  Það mundi muna langmest um slíkt framlag Íslendinga til loftslagsviðfangsefnisins.

  Eins og fram kemur í grein prófessors Jónasar Elíassonar í Morgunblaðinu, 18.10.2021, er aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið gaf út, hvorki fugl né fiskur.  Þar á bæ eru menn algerlega úti á þekju; kalla marklaust plagg aðgerðaáætlun, gefa það út með lúðrablæstri og söng og vona síðan það bezta.  Hér mætti kannski segja: "kóngur vill sigla, en byr hlýtur að ráða".

Téð orkuverðsfrétt Morgunblaðsins hófst þannig:

"Undanfarna mánuði hefur raforkuverð hækkað jafnt og þétt í Evrópu, og hafa fyrirtæki neyðzt til að draga úr starfsemi vegna þessa.

M.a. ákvað hollenzka álfyrirtækið Aldel að loka álveri sínu í hafnarborginni Delfzijl, líkt og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær.  

Annað dæmi frá Hollandi er, að zinkframleiðandinn Nyrstar hefur dregið úr framleiðslu af sömu ástæðu, en fyrirtækið framleiðir einnig kopar og aðra málma."

Orsakir framboðsbrests á vörum í heiminum eru ekki BREXIT, eins og flautaþyrlar hafa slengt fram, heldur sóttvarnarráðstafanir og orkukreppa.  Í fréttinni var síðan fjallað um raforkuverð, og Ísland sett í það samhengi:

"Til að setja þessar tölur [frá  Evrópu] í samhengi kom fram í síðasta ársreikningi Landsvirkjunar, að meðalverð til stórnotenda væri 21,1 USD/MWh, sem svarar 18,2 EUR/MWh.  Af ýmsum ástæðum er það ekki með öllu samanburðarhæft við það verð, sem iðnaður í Evrópu greiðir, þá m.a. vegna ríkisstyrkja og hagstæðari langtímasamninga."

Að bera saman framvirkt verð nú í orkukreppu og verð, þegar C-19 lamaði markaðina, er gagnslítið.  Fremur ber að líta til núverandi verða á Íslandi.  Hjá ISAL í Straumsvík er það komið á 5. tuginn í USD/MWh, og það kveinkar sér enginn undan því, þegar afurðaverðið er yfir 4000 USD/t (virðisaukin vara gefur e.t.v. 1500 USD/t yfir hráálsverðinu á LME). Þetta sýnir, hversu sjálfsagt er að tengja raforkuverðið við skráð markaðsverð framleiðslunnar, þótt núverandi forstjóri Landsvirkjunar hafi af mikilli vanþekkingu talað gegn því alla tíð.

"Sem áður segir, hefur hækkandi verð á jarðgasi komið illa niður á málmbræðslum í Evrópu, en samkvæmt samantekt Bloomberg starfa um 3,2 M manna í orkufrekum iðnaði í Evrópu.  Getur það því haft keðjuverkandi áhrif, ef svo fjölmennum vinnustöðum er lokað.

Varðandi hækkun á gasverði er aukin eftirspurn frá Kína, Japan og Suður-Kóreu tengd við hlýtt og þurrt fyrrasumar, og þurrkar hafa sett strik í reikning vatnsafls í Brasilíu, og það aftur aukið spurn eftir jarðgasi.  Þá var síðasti vetur kaldur í Evrópu og svo gengið á gasbirgðirnar, að lítið má út af bregða.

Við þetta bætist minni gasvinnsla í t.d. Hollandi og Bretlandi, sem aftur hefur í för með sér, að álfan er háðari innflutningi á gasi."

Kína og Suður-Kórea hafa reist talsvert af kjarnorkuverum á undanförnum árum, og ríkisstjórn Japans hefur lagt það til við þingið, að lokuð kjarnorkuver landsins, sem teljast uppfylla öryggisskilmála, verði endurræst eftir áratug frá Fukushima slysinu. Hlutfall raforkuvinnslu eftir orkugjöfum í Brasilíu og í heiminum (í sviga) eftir orkugjöfum er eftirfarandi:

  • Vatnsorka         71,1 % (16,8 %)
  • Jarðefnaeldsneyti 21,6 % (65,8 %)
  • Vindur             4,5 % ( 4.7 %)
  • Kjarnorka          2,8 % (10,4 %)
  • Sól                0,0 % ( 1,9 %)

Á Íslandi er hlutdeild vatnsafls u.þ.b. 73 % og jarðgufu 27 %. Víða er tjaldað til einnar nætur í orkumálunum, eins og nú er að koma á daginn.  Vindorkan og sólarorkan skipta ótrúlega litlu máli m.v. alla umræðuna og fjárfestingarnar, sem þessir orkugjafar fá.  Vegna hins slitrótta rekstrar síns eru þessir orkugjafar hluti af vandamálinu, en ekki þáttur í lausninni.  Hún hlýtur að vera fólgin í kjarnorku, vatnsafli og jarðgufu.  Á Íslandi eru nánast aldrei þurrkaár samtímis á öllu landinu, og þess vegna er óhætt að virkja meira af vatnsafli samhliða öflugum flutningslínum á milli landshluta.  Jarðgufan er ekki föst í hendi til raforkuvinnslu, og fara þarf varlega við að finna sjálfbært jafnvægi á milli innstreymis gufu í virkjað forðabúr og brottnáms gufu til virkjunar.

 

  

  


Bloggfærslur 19. október 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband