Covid: hversu lengi endist ónæmi bólusetninganna - 1 af 2

Sebastian Rushworth, sænskur læknir, birti 5.11.2021 athyglisverða grein um ofangreint efni á vefsetri sínu.  Hún á ríkulegt erindi hérlendis hjá fullbólusettri þjóð, þar sem hjarðónæmi ætti að ríkja, ef allt væri með felldu með bóluefnin, en það er öðru nær.  Aldrei hafa greind dagleg smit C-19 verið fleiri en í lok viku 45/2021 um einstaka daginn (single´s day), þegar opinberar sóttvarnarhömlur voru hertar til muna á Íslandi.  Svo virðist sem þessar hömlur geri illt verra, því að þær draga pestina á langinn.  Aðeins er gagn af náttúrulegu ónæmi til lengdar, og í pest, þar sem lífslíkur sýktra eru um 99,8 %, virðist það vera sú leið, sem rétt er að fara, sbr Svíþjóð. Orð sóttvarnarlæknis um, 3. sprautan verði leið út úr óförunum og til hjarðónæmis, standast ekki tölfræðilegar athuganir á virkni og endingu bóluefnanna, hvort sem vörn gegn smiti eða alvarlegum veikindum á í hlut.  Bóluefnin eru misheppnuð, og það ber að viðurkenna hið fyrsta og hætta að eyða fé skattborgaranna í almennar bólusetningar.  

"Það er óheppilegt, að lyfjafyrirtækin skyldu ákveða að hætta tilraunum sínum snemma með því að gefa fólki í lyfleysuhópnum bóluefni eftir aðeins fáa mánuði.  Það þýðir, að engin langtíma eftirfylgni var með covid bóluefnum í tilviljanakenndu úrtaki, og það mun aldrei verða.  Það merkir, að við verðum að reiða okkur alfarið á könnunargögn, þegar við reynum að gera okkur grein fyrir öryggi og skilvirkni bóluefnanna yfir langan tíma. 

Það er ástæða þess, að nýleg sænsk rannsókn er afar áhugaverð.  Ætlunin með rannsókninni var að ákvarða, hversu skilvirk bóluefnin eru við að verja gagn covid til lengdar (þ.e. eftir meira en fáeina mánuði).  Þetta var tölfræðilega grunduð rannsókn, svo að engin furða er, að hún skyldi koma frá Svíþjóð.  Svíþjóð er almennt viðurkennd fyrir að vera öðrum framar í að safna saman og flokka mikið magn lýðfræðilegra gagna og að nota þau í skýrslum sem þessum.

Höfundarnir byrjuðu á að finna alla íbúa Svíþjóðar, sem höfðu hlotið fulla bólusetningu gegn covid-19 seint í maí 2021.  Þá höfðu 3 mismunandi bóluefni verið í notkun í Svíþjóð: Moderna, Pfizer og AstraZeneca.  Bólusettir voru síðan paraðir við óbólusetta á sama aldri og kyni og búandi í sama sveitarfélagi. Alls voru 1´684´958 manns í rannsókninni.  Fylgzt var með þeim fram að október [2021, 4 mánuðir], hvort þeir sýktust af covid-19.

Nú, hvað leiddi rannsóknin í ljós ?

Eins og eðlilegt er, voru bóluefnin áhrifarík við að verjast covid með einkennum í 2 mánuði frá bólusetningu.  Þetta sýndi líka tölfræðilega blinda rannsókn lyfjafyrirtækjanna og varð grundvöllur viðurkenningar á bóluefnunum til almennrar notkunar.  Í heild nam lækkun hlutfallslegrar áhættu á 31-60 daga tímabili 89 %. 

Hins vegar varð hröð lækkun á gagnsemi bólusetninganna eftir þessa fyrstu 2 mánuði.  Eftir 4-6 mánuði frá bólusetningu lækkuðu bóluefnin hlutfallslegar líkur á smiti um 48 % !

Þetta er áhugavert með það í huga, að ríkisstjórnir höfðu upphaflega sett markið fyrir viðurkenningu bóluefnanna við 50 % hlutfallslega lækkun.  Ef krafizt  hefði verið 6 mánaða tilraunatímabils fyrir kynningu niðurstaðna í stað 2 mánaða, þá mundu bóluefnin hafa verið talin of óskilvirk til notkunar og samþykki hefði verið hafnað. 

 

Þetta er ekki alveg nákvæmt.  Eitt bóluefni varði betur en sem nam 50 % hlutfallslegri lækkun eftir 6 mánuði - Moderna bóluefnið.  Á 4-6 mánaða skeiði frá bólusetningu var hlutfallsleg lækkun Moderna 71 %.  Pfizer gaf þá aðeins 47 % hlutfallslega lækkun áhættu, og áhrif AstraZeneca voru á þessu tímabili engin. 

Það er skiljanlegt, að Moderna-bóluefnið gaf betri vörn en Pfizer-bóluefnið.  Þótt samsetning bóluefnanna sé í raun eins, er Moderna-skammturinn þrefalt stærri.  Þetta er líklega skýringin á því, að Moderna hefur fylgt mun hærri tíðni hjartavöðvabólgu, sem er ástæða þess, að það er ekki lengur leyfilegt að nota það til að bólusetja fólk undir 30 ára aldri í Svíþjóð."

Framhald greinar Rushworths læknis verður birt í næsta pistli.  Þarna virðist vera komin skýring á haldleysi bóluefnanna við að skapa hjarðónæmi.  Eru einhverjar rannsóknir, sem benda til, að 3. sprautan verði eitthvað skárri ?  Þetta verður vítahringur samfélaganna og gróðastía lyfjafyrirtækjanna, þar til nægilega margir hafa smitazt og myndað náttúrulegt ónæmi til að hjarðónæmi náist.  


Bloggfærslur 16. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband