21.11.2021 | 14:04
Ótilhlýðilegur samanburður
Virtir raunvísindamenn hafa með rökföstum hætti og með vísunum til áreiðanlegra mælinga gagnrýnt vinnubrögð IPCC (Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ). Telja sumir, t.d. John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við UAH í BNA, hitastigshækkun andrúmsloftsins vera stórlega ýkta af IPCC og vísa þá til viðamikilla hitastigsmælinga með gervihnöttum, sem þeir hafa unnið úr og sem IPCC skellir skollaeyrum við, eða þeir telja um eðlilega sveiflu hitastigs að ræða í kringum fast meðaltal undanfarinna 2000 ára og leggja fram gögn sín því til sönnunar (árhringjamælingar trjáa).
Hér eru ábyrgir vísindamenn á ferð, sem ekki hafa verið gerðir afturreka með kenningar sínar og gögn með neinum rökstuddum hætti, heldur hefur IPCC beitt þöggun. Það er lítilmótlegt og samræmist engan veginn hefðbundnum vísindalegum vinnubrögðum. Gagnrýnendurnir eru aðeins knúnir áfram af sannleiksást og virðingu fyrir vísindalegum heiðri.
Þess vegna er miður að sjá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs, líkja þessum strangheiðarlegu vísindamönnum við einhvern Sergei Jargin, sem hann kveður bera brigður á þá margsönnuðu læknisfræðilegu staðreynd, að einangrunarefnið asbest sé stórhættulegt öndunarfærum manna, ef ögnum úr því er andað að sér. Enginn hefur hrakið það með rökum, sem standast vísindalegar kröfur. Þess vegna er þessi samanburður villandi og í raun algerlega út í hött.
Téð Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2021 bar fyrirsögnina:
"Er ekki asbest allt í lagi ?",
og vitnar eiginlega um skrýtinn hugarheim. Greinin hófst þannig:
"Asbest er frábært efni, sem nota má til einangrunar og eldvarna. Olía er líka frábært efni, sem nota má til að knýja vélar og tæki. Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein. Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma. Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun. Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann. Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða. Margir vísindamenn telja notkun olíu umhverfislega neikvæða. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa. Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa. Til er umhverfisvænni tækni, sem leysti að mestu asbestið af hólmi. Til er umhverfisvænni tækni, sem leyst getur olíu að mestu af hólmi."
Þetta er kostulegur samsetningur, sem virðist ætlað að kasta rýrð á vandaða gagnrýni nokkurra virtra raunvísindamanna, sem ekki mega vamm sitt vita. Hæpið er, að skrif með svona samlíkingum verði nokkrum málstað að gagni. Að kalla asbest "frábært efni" er furðulegt, þegar það er sannað með klínískum rannsóknum, að það er svo hættulegt heilsu manna, að öll umgengni við það, niðurrif og förgun, er svo varasöm, að klæðast verður loftþéttum, einnota búningum við vinnu í grennd við það, hvað þá snertingu.
Höfundurinn heldur því fram, að "til [séu] vísindamenn, sem drag[i] neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa". Hvaða vísindamenn eru það ? Það er þvert á móti viðtekin staðreynd, sem hefur ekki verið andmælt með vísun til viðurkenndra rannsókna, að bruni jarðefnaeldsneytis leysir úr læðingi skaðlegar agnir og gastegundir, sem hættulegar geta verið heilsu manna og valda árlega ótímabærum dauða milljóna manna. Þar að auki verða iðulega mengunarslys við leit, öflun og vinnslu þessara efna og hræðileg eru námuslysin. Seigdrepandi eru áhrif kolaryks á unga og hrausta kolanámumenn. Um þetta er enginn ágreiningur. Þess vegna er til mikils að vinna að losna við þessi efni úr orkunotkunarferlum manna, þótt þau muni nýtast í ýmsum efnaferlum.
Víkjum þá að "lífsandanum", en svo hefur koltvíildið verið nefnt, af því að það er næring fyrir allar plöntur jarðar og þörunga hafsins. Þannig er það ásamt súrefninu ein af undirstöðum lífsins á jörðunni. Það verður til með margvíslegum hætti, og orkunotkun mannsins hefur vissulega leitt til aukningar á styrk þess í andrúmslofti. Traustar mælingar liggja að baka þessari fullyrðingu, svo að um það verður ekki deilt, að núverandi styrkur þess er um 420 ppm.
Það er heldur ekki deilt um gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld, en það er hins vegar deilt um áhrif þessa gróðurhúsalögmáls á hitastigsþróunina í andrúmslofti jarðar. Veðurhjúpurinn verður fyrir margvíslegum áhrifum, og þar ríkir flókið samspil. Ein virkunin er hitageislun út í geiminn, og hún eykst með hækkandi hitastigi andrúmslofts samkvæmt ákveðnu lögmáli eðlisfræðinnar. Prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH í BNA, heldur því fram, að í loftslagslíkönum IPCC sé þessi þáttur vanmetinn, sem leiði til útreikninga á allt of háum hitastigli. Hann rökstyður mál sitt með hitastigsmælingum gervihnatta yfir 40 ára tímabil, sem enginn hefur véfengt.
Síðan hafa tölfræðingar gagnrýnt mjög meðferð IPCC á tímaröðum, og telja þeir ályktanir IPCC um yfirvofandi hækkun hitastigs glannalegar, og að þær fái ekki staðizt, sbr grein prófessors Helga Tómassonar í Morgunblaðinu 14.október 2021. Hann vitnar þar í rannsóknir á hitastigi jarðar 2000 ár aftur í tímann, sem bendi aðeins til tregbreytanlegra hitastigssveiflna um fast meðaltal, þ.e. núverandi hækkun gæti verið náttúruleg. Í þessu samhengi verður að gæta að því, að margir vísindamenn spá ísöld eftir um 1500 ár.
Síðan fullyrðir höfundurinn, að "til [sé] umhverfisvænni tækni, sem leyst [geti] olíu að mestu af hólmi". Ef lífið er svona einfalt, af hverju eykst þá með hverju árinu (ef Kófsárið 2020 er undanskilið) notkun jarðefnaeldsneytis ? Það er vitaskuld af því, að fullyrðingin er röng. Það vantar á markaðinn frambærilega og nægilega umhverfisvæna tækni til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á heimsvísu. Það er hægt staðbundið mjög bráðlega, s.s. á Íslandi, en sjálfbærar orkulindir skortir einmitt. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Kjarnorkutæknin, sem nú er á markaðinum, gæti það, en almenningur í mörgum löndum telur hana of hættulega og virðist meta meiri vá af kjarnorkuverum en brennslu jarðefnaeldsneytis. Löggjafinn í sumum löndum hefur jafnvel gert eigendum kjarnorkuvera að loka þeim á næstu árum, þótt ekkert annað blasi þá við en aukin brennsla jarðefnaeldsneytis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)