Sæstrengsrímur kveðnar við raust

Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt.  Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar.  Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik. 

Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.

Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði.  Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu.  Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta.  Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili.  Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.

Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi.  Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:

  1. Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.  
  2. Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar. 
  3. Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn  aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands.  Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
  4. Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka.  Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu.  Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn. 
  5. Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu.  Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu.  Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt. 
  6. Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum.  Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.  

Prófessorinn reit:

"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið.  Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar.  Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.

Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum.  Hér er því af mörgu að taka."  

Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni.  Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna.  Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu. 

Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna.  Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar.  Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.

"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland.  Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."

 Hér er hrapað að niðurstöðu.  Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns.  Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði.  M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.

"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum.  Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára.  Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn.  Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu.  Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð.  Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."

Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli.  Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum.  Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu.  Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um. 

Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár.  Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það.  Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða.  Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun.  Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu. 

Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það.  Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis.  Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.

"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti.  Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."

Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður.  Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín. 

Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu.  Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.

Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum.  Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh.  Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár.  Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh.  Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.

Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við.  Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi  Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því.  Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi. 

Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.  

 

 norned_hvdc-cable-work-1

        


Bloggfærslur 29. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband