4.11.2021 | 09:51
Orkupakki 4 í uppnámi innan EFTA
Nú geisar orkukreppa á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu, og bera margir kvíðboga fyrir vetrinum, því að ekki munu allir geta staðið straum af orkureikningunum, þar sem einingarverðið hefur jafnvel þrefaldazt og var þó hátt fyrir. Angar þessa teygja sig til vatnsorkulandsins Noregs, sem hefur rækilega tengt raforkukerfi sitt við þessi skortsvæði raforku. Þar sem norska þjóðin lendir þá í beinni samkeppni um sína eigin orku á uppboðsmörkuðum Evrópu (Nord Pool fyrir norðanverða Evrópu), hefur raforkuverðið jafnvel hækkað meira hlutfallslega í Noregi, þar sem það var mun lægra en á Bretlandi og á meginlandinu og góðar tengingar á milli orkusvæða jafna orkuverðið, en stærri markaðurinn verður alltaf ráðandi.
Öflugir norskir sæstrengir voru nýlega teknir í notkun, annar til Þýzkalands og hinn til Bretlands, sem hafa aukið fylgni norsks raforkuverðs við hið brezka og þýzka. Þetta veldur nú eðlilega óánægju í Noregi, og vilja nú sumir, að Norðmenn taki stjórn strengjanna í eigin hendur, en með Orkupakka 3 framseldu þeir völdin til regluverks ESB og markaðarins. Stórþingsmenn vilja margir hverjir niðurgreiðslur á raforkuverði í Noregi, en það rímar illa við Orkupakka 3, og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti fljótlega veifað refsivendi sínum um samningsbrot í kjölfar slíks inngrips á markaði.
Meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu Orkupakka 3 í norskan rétt 2018, en Stórþingið samþykkti hana samt undanbragðalaust vegna fyrirskipunar frá stjórn Verkamannaflokksins (þá í stjórnarandstöðu) til þingflokksins um að kjósa sem einn maður með innleiðingunni, þótt grasrót flokksins (flokksdeildir í flestum fylkjum) væri því andsnúin.
Samtökin "Nei til EU" höfðuðu síðan mál gegn ríkinu fyrir þá ákvörðun Stórþingsins að beita ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu um slíkt valdaframsal, og er málið enn fyrir dómstólunum. Ef Orkupakki 3 kæmi aftur til atkvæðagreiðslu í þinginu og þá með kröfu um 3/4 atkvæða til að teljast samþykktur, yrði hann felldur.
Eftir þrýsting frá Noregi samþykkti Alþingi Orkupakka 3 með undanbrögðum, sem var "skítamix", af því að það stenzt ekki Evrópurétt að innleiða samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar með skilyrðum. Evrópuréttur er rétthærri landsrétti samkvæmt EES-samninginum, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, fjallaði um í fyrirlestri í Valhöll 28.10.2021. Það brýtur í bága við Stjórnarskrá Íslands, og deilur ríkja innan ESB við Framkvæmdastjórnina um þennan forgangsrétt ESB-réttar ber nú hátt í fréttum. Hefur Framkvæmdastjórnin lagt sektir á pólska ríkið fyrir dóm Hæstaréttar Póllands, sem kveður á um, að stjórnarskrá Póllands sé æðsta löggjöf, sem stjórnvöldum og borgurum í Póllandi ber að fara eftir. Nema sektirnar 1,0 MEUR/dag. Ursula von der Leyen hefur ekki tekið svona hart á Merkelstjórninni í Berlín, þótt Rauðhempurnar í Karlsruhe hafi úrskurðað stjórnarskrá Sambandslýðveldisins æðri réttarheimild en úrskurði ESB-dómstólsins og sáttmála ESB.
Nú er ný ríkisstjórn tekin við í Noregi. Að henni standa Verkamannaflokkur og Miðflokkur. Hún er þess vegna minnihlutastjórn, því að SV, systurflokkur VG hérlendis, hrökk fljótlega úr skapti stjórnarmyndunarviðræðna.
Hvaða stefnu hefur nýja norska ríkisstjórnin um Orkupakka 4 ? Stjórnarsáttmálinn þegir um það. Það bitastæðasta í nýja stjórnarsáttmálanum um EES er þetta:
"Regjeringen skal jobbe mer aktivt for å fremme norske interesser innenfor rammene av avtalen, og handlingsrommet i EÖS-avtalen skal tas i bruk med særlig vekt på å sikre nasjonal kontroll på områder som norsk arbeidsliv, energi og jernbane."
Snörun gæti litið þannig út:
"Ríkisstjórnin ætlar að vinna einbeittar að því að halda á lofti norskum hagsmunum innan ramma samningsins, og virkja skal athafnarými EES-samningsins með sérstakri áherzlu á að tryggja stjórn þjóðarinnar á sviðum s.s. norku atvinnulífi, orku og járnbrautum."
Hin pólitíska staða er þannig, að hygði ríkisstjórnin á innleiðingu Orkupakka 4, þá yrði uppreisn í Miðflokkinum, sem mundi leiða til stjórnarslita eða höfnunar Stórþingsins á þessari ESB-orkulöggjöf áður en málið færi til Sameiginlegu EES-nefndarinnar.
Verkamannaflokkurinn vill ekki fá Orkupakkann til formlegrar afgreiðslu í EFTA, því að þá yrði að beita neitunarvaldi þar af Noregs hálfu áður en hann kemst til Sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá stöðu vill Verkamannaflokkurinn ekki fá upp á sinni vakt vegna sambúðarinnar við ESB. Verkamannaflokkurinn er enn hallur undir aðild Noregs að ESB, en vaxandi væringar eru innan flokksins vegna þessa.
Hvað gera bændur þá ? Jú, ESB mun fá þau skilaboð, að EFTA vilji fresta innleiðingu Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil, og ef hvorki Íslendingar né Liechtensteinar hreyfa þessu máli, mun það liggja í láginni a.m.k. til 2025. Það er harla ólíklegt, að núverandi stjórnarflokkar á Íslandi vilji gerast málsvarar innleiðingar Orkupakka 4 í andstöðu við norsk stjórnvöld, enda yrði slíkt frumhlaup andvana fætt. Norðmenn ráða lögum og lofum í EFTA-hópinum í EES. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni á þeim bænum. Íslendingar eru þar í farþegasætinu og valdhafar Noregs í bílstjórasætinu. Frá fullveldissjónarmiði er staða Íslands gagnvart ESB að sumu leyti enn verri en Noregs, enda eru engin dæmi þess, að íslenzk stjórnvöld hafi stöðvað nokkurt mál frá ESB, sem komið hefur til umfjöllunar EFTA. Orkupakki 4 er ekki fyrsta málið, sem Norðmenn stöðva þar.
Það er vaxandi óánægja með EES-samninginn í Noregi. Í stjórnarsáttmálanum er veitt fyrirheit um að leggja mat á valkosti, sem Noregi kunna að standa til boða, aðra en EES. Þar eru menn sennilega að hugsa um fríverzlunarsamninga. Blasa þar aðallega 2 kostir við, þ.e. að Noregur semji á eigin spýtur við ESB um tvíhliða fríverzlun eða að EFTA semji við ESB um fríverzlun við ESB fyrir öll 4 lönd EFTA. Það gæti orðið Íslendingum farsælast, og mundu þá EFTA/EES-þjóðirnar 3 njóta góðs af öflugri og reyndri utanríkisþjónustu Svisslands.
Það er æskilegt, að hérlendis fari fram svipuð úttekt á framtíðar fyrirkomulagi samskipta við ESB á lögfræðilegum, viðskiptalegum og menningarlegum grundvelli. Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hélt merkt erindi í Valhöll 28. október 2021, um stöðu íslenzks réttarkerfis gagnvart ESB-réttinum, sem fékk forgangsgildi gagnvart landsrétti með gildistöku EES-samningsins á Íslandi 1. janúar 1994. Á fundinum í Valhöll var áberandi sú skoðun, að sú staða væri óviðunandi til frambúðar, að íslenzka stjórnarskráin yrði að víkja fyrir ESB-rétti, þar sem þessi 2 réttarkerfi greindi á við mat á úrlausnarefnum, og að ekki kæmi til greina að aðlaga stjórnarskrána ESB-rétti.
Sams konar viðhorf eru uppi í Noregi, og alkunn er réttarfarsdeila Pólverja við framkvæmdastjórn ESB, sem lagt hefur dagsektir á Pólverja, eins og áður segirt, á meðan þeir verða ekki við kröfum ESB um að taka af öll tvímæli um, að ESB-réttur hafi hærri réttarstöðu en stjórnarskrá Póllands. Framkvæmdastjórnin telur framtíð ESB hvíla á þessu atriði og líður engin frávik.
Þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe (rauðhempurnar) hefur sett ofan í við ESB-dómstólinn í Lúxemborg fyrir að fara út fyrir réttarheimildir sínar og kveða upp úrskurði, t.d. um heimildir seðlabanka evrunnar til skuldabréfakaupa, sem skortir lagaheimildir. Þar sem ESB sé ekki sambandsríki, eins og þýzku löndin eru, heldur aðeins ríkjasamband, þá hafi stjórnarskrá Þýzkalands hærri réttarstöðu en t.d. Lissabonsáttmálinn.
Þessi lagalegi ásteytingarsteinn getur orðið ESB og EES erfiður ljár í þúfu. Lénsveldishugarfar meginlandsins um, að lögin komi að ofan og yfirstéttin setji lýðnum þessi lög, gengur þvert á engilsaxneska og norræna hefð um, að lögin komi frá fólkinu og séu m.a. sett til varnar réttindum þess gagnvart ríkisvaldi og yfirstétt. Þessi mikli hugarfarsmunur átti þátt í, að meirihluti kjósenda á Bretlandi var búinn að fá sig fullsaddan af lagaflóðinu frá Brüssel til stimplunar í Westminster og batt enda á það í þjóðaratkvæðagreiðslu 2016. Hrakspár í kosningabaráttunni og jafnvel í kjölfarið og fram á þennan dag hafa orðið sér til skammar. Í þingkosningunum 2019 rauf svo Íhaldsflokkur Borisar Johnson "rauða múrinn" á milli Norður- og Mið-Englands, en norðan hans hefur Verkamannaflokkurinn ráðið lögum og lofum nánast frá styrjaldarlokum (1945). Kjörorð Borisar, "Levelling up", þ.e. að bæta lífskjör á Norður-Englandi til jafns við Suður-England sló í gegn, og stjórn hans vinnur hörðum höndum að þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)