Flokkur laus við hreðjatak Landverndar

Í ríkisstjórn situr stjórnmálaflokkur með afar sérvizkuleg viðhorf í öndvegi til framfaramála þjóðarinnar.  Flokkurinn tapaði í nýgengnum Alþingiskosningum þremur þingmönnum og er með aðeins 12,6 % fylgi.  Samt gerir hann kröfu um að leiða stjórnarsamstarfið á nýhöfnu kjörtímabili, heimtar óbreyttan ráðherrafjölda og þvælist að auki fyrir með sérvizku sína um ríkisbúskap, friðanir,  orkunýtingu og viðurkenningu á óhæfum ráðherraefnum sínum. Hvers vegna nenna formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þrátta við Katrínu Jakobsdóttur á annan mánuð um þetta, þegar annar stjórnmálaflokkur hefur opnað á raunhæfan samningsgrundvöll við þá um ríkisstjórn ?

Grein Jakobs Frímanns Magnússonar í Morgunblaðinu 28. október 2021 er til vitnis um þetta.  Greinin hét:

"Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum".

Þar skrifaði hann m.a.:

"Endurheimt votlendis [orkar tvímælis-innsk. BJo], rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa og aukin skógrækt eru þær mótaðgerðir, sem liggur beinast við, að við Íslendingar ráðumst í.  En hnattrænn umhverfisvandi leysist ekki með því, að hver þjóð hugsi bara um sjálfa sig.  Við hjá Flokki fólksins viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og ábyrgð, svo [að] draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.  Þar er mögulegt framlag okkar til loftslagsmála á heimsvísu ekki undanskilið."

Óháð því, hvað líður meintri loftslagsvá, sem er orðin loftslagstrúboðinu sem krossfesting frelsarans er kristnum mönnum, þá sigla þjóðir heims nú inn í tímabil orkuskipta, sem mun einkennast af háu orkuverði vegna framboðsskorts (af völdum minni fjárfestinga (það er nóg til)) og skattlagningar á jarðefnaeldsneyti eða losun. 

Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða að hefja virkjanaframkvæmdir hér til orkuútvegunar í stað jarðefnaeldsneytisins.  Einkaframtakið, erlent og innlent, mun síðan sjá um nýtinguna, eins og það hefur gert hingað til hérlendis, en með áherzlu á að knýja rafmagnsfartæki og að framleiða s.k. rafeldsneyti með "grænt" vetni sem grunnþátt, en einnig lífeldsneyti úr t.d. repju og nepju. Á meðan enginn aflsæstrengur er til Íslands, verður "hin græna" orka nýtt innanlands.  Þrátt fyrir orkukreppuna í Evrópu þurfa landsmenn vart að óttast sæstrengslögn á þessu kjörtímabili, enda er Orkupakki 4 kominn í frysti hjá EFTA, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á vefsetrinu. 

"Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanlegir málaflokkar. Ég verð seint talinn til ákafra virkjanasinna, en mér virðist sýn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessi mál skynsamleg.  Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu báðir flokkarnir til, að Íslendingar hæfu útflutning á grænni orku í formi rafeldsneytis.  Þannig gæti sprottið hér upp nýr og spennandi iðnaður ásamt tilheyrandi atvinnusköpun og ávinningi í loftslagsmálum."

Það verður hlutverk einkaframtaksins að finna markaði fyrir rafeldsneyti og lífeldsneyti, en ekki ríkisins.  Viljayfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun atvinnutækifæra og verðmætasköpunar þjóðarbúsins eru þó eðlilegar, en þeir, sem segja A, verða þá að vera tilbúnir til að segja B.  Það stendur virkilega upp á stjórnmálaflokkana og þingheim að setja leyfisferli vegna nýrra virkjana í viðunandi horf, en þau eru nú í algerri kyrrstöðu fyrir tilstilli afturhaldsflokksins með 12,6 % fylgið.

Jakob Frímann býður nú Sjálfstæðisflokkinum upp í dans.  Hann talar væntanlega fyrir hönd 6  þingmanna Flokks fólksins um, að hann er tilbúinn að leiða þjóðina á vit nýrra tíma, sem felst í að skapa tæknilegar og viðskiptalegar lausnir, sem eru raunhæfar til að draga úr losun Íslendinga og fleiri á koltvíildi í stað innantóms blaðurs vinstri grænna um hættuna, sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar.  Að hafa forsætisráðherra, sem endurómar Grétu Thunberg, en leggst gegn nauðsynlegum umbótum, er ógæfulegt fyrir eina þjóð.

"Ljóst er, að losa verður rammaáætlun úr höftum kyrrstöðu, öfgalaust, og horfa til kosta þess að nýta vindorku.  Eðlilegt virðist jafnframt, að sveitarfélög og íbúar komi í auknum mæli að því að ákvarða, hvar mörkin á milli nýtingar grænna orkukosta og náttúruverndar liggja."

Þarna koma fram heilbrigð og lýðræðisleg viðhorf.  Taka málin úr höndum sérlundaðra skrifborðsmanna, sem falið hefur verið að meta virkjanakosti og drekkt málinu í hreinum aukaatriðum, og færa matið í hendur viðkomandi sveitarfélags og íbúa þess, sem leggi dóm á virkjanakosti til nýtingar eða verndar með lýðræðislegum hætti.  Hljómar þessi tónlist ekki nógu vel fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að slíta erfiðri sambúð við forstokkaða sérvitringa í VG,  og fara nú að stíga dansinn með fólki, sem greinilega er ekki í viðjum Landverndarofstækisins ? 

Að lokum skrifaði Jakob Frímann Magnússon:

  "Það er ekki nóg að viðurkenna loftslagsvandann - við verðum líka að horfast í augu við tækifærin, og hvernig við Íslendingar getum axlað okkar ábyrgð.  Skynsamleg nýting orkukosta og öflug náttúruvernd geta vel farið saman.  Þær áskoranir bíða nýrrar ríkisstjórnar."

Þetta er mergurinn málsins, og ný ríkisstjórn verður að fara inn í næsta kjörtímabil með þetta að leiðarljósi.  Það dugar ekki lengur að ýta þessum viðfangsefnum óleystum á undan sér.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er stöðnunarafl með eina hugsjón: að ríkisvæða sem mest af starfseminni í landinu.  Menn hafa afleiðingu þessa úrelta hugsunarháttar nú fyrir augunum í eymdarásjónu  Landsspítalans, sem kominn er að fótum fram undir hroðalegri óstjórn sósíalistans Svandísar Svavarsdóttur, sem keyrt hefur spítalann í þrot með því að hrúga á hann allt of mörgum verkefnum, sem betur eru komin hjá einkageiranum, enda standi Sjúkratryggingar Íslands straum af kostnaðinum, óháð verkaðila.  


Bloggfærslur 7. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband