2.12.2021 | 11:42
Sæstrengsviðskipti í hillingum
Viðskipti með rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Bretlands eða annað mundu lúta öðrum lögmálum en þau viðskipti, sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við HÍ, dregur upp mynd af um sæstrengi á milli Noregs og Danmerkur á fyrri tíð. Ástæðurnar eru miklu meiri fjárfesting í Íslandsstreng og meiri rekstrarkostnaður vegna orkutapa og mikils dýpis, sem þýðir væntanlega mun meiri flutningskostnað, enda mun strengeigandinn vilja fá nokkuð mikið fyrir snúð sinn, þar sem áhætta fjárfestingarinnar er mikil (bilanahætta o.fl.). Hluti af kostnaðinum er fólginn í tiltölulega miklum orkutöpum á langri leið.
Statnett í Noregi (norska Landsnet) á allar millilandatengingar fyrir raforkuflutninga til og frá Noregi, svo að hagnaður af þeim fjárfestingum hefur nýtzt við uppbyggingu flutningskerfis í Noregi. Landsnet hefur enga burði í þær hundraða milljarða fjárfestingar (ISK), sem flutningskerfi og aðveitustöð, afriðla- og áriðlastöð hérlendis vegna millilandatengingar, útheimta. Þá er takmarkað svigrúm í íslenzka raforkukerfinu, að miðlunarlónum meðtöldum, til að jafna út sveiflur í framboði og eftirspurn raforku á miklu stærri raforkumarkaði. Norska raforkukerfið var og er stærra en hið danska vegna rafhitunar húsnæðis og stóriðjuálags í Noregi og gat þess vegna tekið að sér þetta miðlunarhlutverk. Að reyna að heimfæra þessi viðskipti Norðmanna upp á aðstæður Íslendinga er óraunhæft og gæti í versta tilviki reynzt verða einhverjum stjórnmálamönnum villuljós. Það er of mikill spákaupmennskubragur á íslenzkri sæstrengsumræðu og of lítill raftæknilegur þungi. Hvernig á t.d. að verja íslenzka notendur fyrir truflunum af völdum yfirsveiflna (harmonics) og spennusveiflna, sem geta orðið skaðlegar. Það er hættuleg ofeinföldun að ætla að afrita gamlar viðskiðtahugmyndir til Íslands í þessum efnum. Það liggur við að vera einfeldningslegt.
Lítum á, hvað téður prófessor og varaformaður Viðreisnar hafði fram að færa um þetta efni:
"Nýtt viðskiptalíkan þróaðist því í kjölfar tengingarinnar milli Noregs og Danmerkur. Dönsk kolaorkuver framleiddu raforku jafn og þétt. Dægursveifla er hins vegar í eftirspurn eftir raforku [hún er miklu minni á Íslandi en í Danmörku og Noregi vegna mikils stóriðjuálags - innsk. BJo]. Hún er lítil á nóttunni, en toppar á daginn. Verð á raforku tekur mið af þessari sveiflu og er hærra yfir daginn en á nóttunni. Viðbrögð eigenda norskra vatnsaflsvirkjana var að draga úr framleiðslu á nóttunni, kaupa í staðinn orku frá Danmörku og geyma vatnið í miðlun til að nota það yfir daginn, þegar verðið í Danmörku var hátt. [Þetta stafar af kostnaði við að breyta álagi kolaorkuvera. Nú eru gasorkuver að taka við af þeim hvarvetna í Evrópu, og þau eru miklu sveigjanlegri í rekstri - innsk. BJo.]
Þannig gátu norskar vatnsaflsvirkjanir hagnazt á viðskiptum með raforku innan dags [sólarhrings]. Þetta líkan reyndist svo ábatasamt, að það borgaði sig að auka framleiðslugetu norskra vatnsaflsvirkjana umfram miðlunargetuna [fjárfestingar í auknu vélarafli - innsk. BJo]. Miðlunin fékk nýtt hlutverk, að geyma danska næturorku til að selja hana dýrar yfir daginn. Arðsemi í rekstri norska raforkukerfisins óx mikið í kjölfarið á sama tíma og framleiðslukostnaður raforku lækkaði, enda tóku norskar vatnsaflsvirkjanir yfir hlutverk mun dýrari valkosta í framleiðslu á orku yfir daginn í Danmörku, s.s. díselaflstöðva."
Þetta er fortíðarlýsing. Nú keyra yfirleitt gasorkuver á móti vindorkustöðvum í Danmörku, þar sem gasorkuverin taka upp álagssveiflur. Danir eru nú nettókaupendur raforku frá Noregi til að spara dýrt gas.
Síðan kom draumsýn Viðreisnar um "opnun íslenzka raforkukerfisins":
"Eins og hér hefur verið rætt, myndi opnun íslenzka raforkukerfisins skapa nýjar forsendur fyrir ábata af þeim virkjunum, sem þegar hafa verið reistar. Hægt væri að fá betra verð fyrir orkuna á stærri markaði. Hægt væri að selja umframframleiðslugetu í stað þess að hleypa vatni framhjá virkjunum í góðum vatnsárum.
Hægt væri að stórbæta afkomu með því að nýta miðlunina til að geyma orku í stuttan tíma og jafna þannig misræmi í framboði og eftirspurn, sérstaklega sveiflum, sem tengjast framleiðslu annarra endurnýjanlegra orkukosta, s.s. vindorku og sólarorku. Allt þetta myndi stórbæta arðsemi núverandi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu."
Þetta er skrifborðsæfing hagfræðings, sem gerir tvenn mistök. Hann áttar sig ekki á, að gasorkuver eru að yfirtaka reglunarhlutverkið í raforkukerfum Evrópu, og þá felst í því sóun að senda "sömu orkuna" fram og til baka eftir löngum sæstreng. Kjarni málsins er sá, að hann vill kasta barninu út með baðvatninu með því að stórhækka raforkuverðið í landinu og kallar það að "stórbæta arðsemi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu". Það á þvert á móti að vera sérstakt keppikefli landsmanna að viðhalda hér lágu orkuverði og leggja þannig grunninn að góðum lífskjörum landsmanna og mikilli notkun á sjálfbærum orkulindum, sem nóg er af til atvinnustarfsemi og heimila, nema það feigðarflan yrði ofan á að tengja þetta litla raforkukerfi við risakerfi Evrópu. Þeir, sem mæla með því, hafa ekki hugsað málið til enda, eða eru ábyrgðarlausir í sínum málflutningi.
"En spurningar vakna einnig um, hvort auka ætti framleiðslu til að auka enn þennan ábata. Því meira, sem flytja mætti út af orku, [þeim mun] meiri yrði ábatinn. Á sama tíma er ljóst, að verulegt rask og umhverfiskostnaður fylgir virkjanaframkvæmdum. Hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar ganga í gagnstæðar áttir."
Enginn fjárfestir leggur í að fjármagna aflsæstreng hingað, nema tryggt verði, að nýting hans standi undir fjárfestingunni á 10-20 árum. Til að svo megi verða þurfa að fara um strenginn um 8 TWh/ár, og megnið af því þarf að koma frá nýjum virkjunum (tæplega 40 % aukning). Það getur sízt af öllu orðið sátt um slíkt í þjóðfélaginu eða á Alþingi, ef fylgifiskurinn verður stórhækkað raforkuverð í landinu, aukin verðbólga og verri samkeppnisstaða við útlönd.
Það er mjög huglægt mat, hvað er "verulegt rask", og það er rangt, að "hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar gang[i] í gagnstæðar áttir", nema átt sé við afturhald, sem hefur alltaf verið á móti nánast öllum virkjunum. Hönnuðir hafa nú yfir að ráða meiri getu til að búa til lausn með góðri nýtingu orkulindar, sem fellur vel að umhverfinu, enda eru sjálfbærar orkuvirkjanir Íslands vinsælir áningarstaðir ferðamanna.
"Svar hagfræðinnar er, að hvort tveggja eigi að meta og bera saman með skipulögðum hætti. Allar framkvæmdir ættu að fara í kostnaðar- og ábatamat, þar sem skipulega yrði lagt mat á hagnað af raforkuframleiðslu annars vegar og umhverfiskostnað hins vegar. Þetta er því miður ekki gert í dag.
Rammaáætlun hefur ekki nýtt sér slíkt skipulegt mat, þó [að] einstakir kostir hafi verið metnir, og það er heldur ekki skylda að framkvæma það vegna einstakra verkefna. Þetta er mjög miður, því [að] mat á heildarábata fer hvort eð er fram - bara ekki skipulega. Þegar ákvörðun er tekin um að virkja, er í raun verið að ákveða, að ábati virkjunar sé meiri en umhverfiskostnaðurinn - þó svo engin tilraun sé gerð til að leggja skipulega mat á hann. Matið er óbeint og því miður oft pólitískt. Þessu þarf að breyta."
Málið er ekki eins einfalt og hagfræðingurinn vill vera láta. Annars hefði Verkefnastjórn um Rammaáætlun líklega bitið á agnið. Það eru til almennt viðurkenndar aðferðir til að reikna kostnað virkjunar í ISK/kWh og þar með arðsemi virkjunar, ef markaðsverð orkunnar er þekkt. Málið vandast, þegar kemur að umhverfiskostnaðinum. Þar vantar hlutlæg viðmið, sem sátt ríkir um. Kostur væri, að Orkustofnun legði hér eitthvað að mörkum og þá helzt með vísun til alþjóðlegra viðmiðana.
Viðreisnarvaraformaðurinn vill taka pólitíkina út úr þessu ákvörðunarferli. Það er í anda Evrópusambandsins og ACER, Orkustofnunar ESB, en er það lýðræðisleg hugsun ? Varla frekar en annað á þeim bænum. Alþingi á áfram að taka ákvarðanir um helztu virkjanir landsins yfir ákveðnum mörkum, t.d. 35 MW, en hafa þá helzt í höndunum hlutlægt hagfræðilegt mat á kostum og göllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)