25.12.2021 | 14:28
Auðvitað er brýn þörf á nýjum virkjunum
Forstjóri OR hefur lengi þann steininn klappað, að ekki vanti nýjar virkjanir hérlendis, og alls ekki þurfi að virkja til að knýja farartæki á landi með rafmagni eða rafeldsneyti. Þetta er leiðinleg meinloka hjá þessum jarðfræðingi.
Til að knýja tæplega 200 k (k=1000) farartæki (175 k fólksbíla og 10 k vinnuvélar og vagna) um 2030 þarf að framleiða um 2 TWh/ár í virkjun. Álag þessarar raforkunotkunar verður ekki jafndreift yfir sólarhringinn, vikuna og árið, eins og segja má, að eigi við um álverin, og þess vegna þarf tiltölulega mikið uppsett afl að baki orku til fólksbílanna, sem flestir verða knúnir frá rafgeymum, eða um 350 MW, en vinnuvélar og vagnar verða flestar á vetni og afleiðum þess. Framleiðsla þess getur verið tiltölulega jöfn, svo að aflþörf þess er aðeins um 150 MW, þótt orkuþörfin geti orðið svipuð og fólksbílanna árið 2030. Alls eru þetta 2 TWh og 500 MW í orku- og aflþörf vegna farartækja á landi 2030, ef vel á að vera.
Þar að auki kemur orkunotkun í höfnum og lífeldsneyti á fiskveiðiflotann. Orku- og aflþörf verður þar af leiðandi að líkindum meiri en þetta árið 2030 vegna orkuskiptanna, ef nálgast á markmið stjórnvalda. Þeir, sem gera svo lítið úr þessari orkuþörf, að ekkert þurfi að virkja á þessum áratugi, eru algerlega úti að aka í þessum efnum, því að landsmenn munu ekki aka á ótryggðri orku. Þeir verða að geta reitt sig á trausta forgangsorku, ef orkuskiptin eiga einhvern tímann að verða barn í brók.
Virkjunartími ásamt leyfisveitingum er langur á Íslandi, og þess vegna veitir ekkert af því að fara að hefjast handa, enda er aukin spurn eftir orku á öðrum sviðum líka. Til samanburðar er Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá áformuð 95 MW og 720 GWh/ár að uppsettu afli og framleiðslugetu. Það er skammarlegt að halda að sér höndum nú og vilja eða geta ekki fullnægt raforkuþörf í landinu á tímum alvarlegs skorts á endurnýjanlegri orku víðast hvar í heiminum.
Í Fréttablaðinu 10. desember 2021 birtist frétt, sem reist var á speki forstjóra OR um orkuþörf og virkjanaþörf. Fyrirsögnin bar þess merki, að þessi forstjóri virðist telja viðvarandi orkuskort viðunandi og að engin þörf sé á að virkja. Þetta er dæmalaus málflutningur fyrir mann í hans stöðu, og mundu sumir kenna við ábyrgðarleysi gagnvart rafmagnsnotendum. Það hefur t.d. verið upplýst, að ON, dótturfélag OR, hefur séð sér þann kost vænstan í núverandi ástandi að fresta ráðgerðu viðhaldi í gufuaflsstöðvum sínum, væntanlega vegna skorts á vélarafli í landinu. Það er óeðlilegt og býður hættunni heim að grípa til þess óyndisúrræðis, jafnvel þótt vatnsstaða Þórisvatns sé bágborin. Það er aldrei hægt að skáka í því skjólinu, að allt gangi eins og í sögu og að allt vélarafl sé tiltækt, þegar hæst á að hóa. Það er óverjandi að reka raforkukerfi á horriminni, þannig að ekkert megi út af bregða.
"Forstjóri OR telur enga þörf á fleiri virkjunum til orkuskipta"
Fréttin hófst þannig:
"Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.
"Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess, að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn, eins og er. Það er ekki vegna þess, að það vanti virkjanir. Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi. Ástæðan er, að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna", segir Bjarni."
Maðurinn viðurkennir orkuskortinn, en telur hann ekki stafa af virkjanaskorti. Það má benda honum á, að ekki hefði enn þurft að koma til skerðinga hjá neinum notenda Landsvirkjunar, ef Hvammsvirkjun (95 MW, 720 GWh/ár) hefði tekið til starfa í haust, því að hún mun nota sama vatnið (350 m3/s) og virkjanir í Efri-Þjórsá og Tungnaá. Forgangsorkan er upp urin að mati Landsvirkjunar m.v. upplýsingar fyrirtækisins um að hafa hafnað óskum notenda um viðbótar orku. Með stefnu sinni í virkjanamálum er téður Bjarni að vísa raforkunotendum orkuumskiptanna á ótryggða orku, sem auðvitað nær engri átt. Hvað skyldi manninum ganga til ?
Einu sinni var maður, sem var kallaður Vellygni- Bjarni. Téður Bjarni nær ekki svo langt, en útskýring hans á því, hvers vegna hægt er með gróða að selja stóriðju á borð við álver raforku á lægra verði en heimilinum sýnir fullkomið skilningsleysi á málinu:
"Bjarni segir, að Ísland framleiði 5 sinnum meira rafmagn en aðrar [og] 80 % af því fari til stóriðju. Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess, að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum. Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum."
Þetta er bolaskítur (e. bullshit). Hér á eftir koma nokkrar ástæður þess, að forgangsorka til álvera er ódýrari í framleiðslu en forgangsorka til heimila:
- Um er að ræða mikið magn til eins notanda, sem tekur við 220 kV rafmagni af Landsneti og sér sjálfur um niðurspenningu og dreifingu innan verksmiðjusvæðisins, bæði á jafnstraumi og riðstraumi.
- Notkun álvers, sem er uppistaða stóriðjuálagsins, er að jafnaði lítt breytileg yfir sólarhringinn árið um kring, svo að framleiðslutækin í virkjun eru mjög vel nýtt (nýting um 94 % yfir árið) við að framleiða fyrir viðkomandi álver. Hjá heimilum er álagið lítið, nema þar sem rafhitun er, og ójafnt, meira á veturna en á sumrin og yfirleitt með toppi um kl. 1900. Þetta veldur lítilli nýtingu framleiðslutækja í virkjun eða um 60 %.
- Aflstuðullinn, sem er ákveðinn mælikvarði á nýtingu búnaðar í virkjun við að framleiða söluhæfa afurð, er miklu hærri í álverum en í dreifiveitum heimilanna, eða yfir 0,97 m.v. um 0,8 í dreifiveitunum.
- Þegar virkjunareigandinn gerir samning við stóriðju um orkusölu, fær hann kauptryggingu fyrir næstum allri forgangsorku virkjunarinnar í 25-45 ár, háð gildistíma samnings. Slíkt dregur mjög úr áhættu fjárfestingarinnar, sem veitir hagstæðari lánskjör, og þar með verður fjármagnskostnaðurinn lægri, en hann er um 95 % af kostnaði vatnsaflsvirkjana.
- Uppsett afl í vatnsaflsvirkjun borgar sig að hafa umfram það, sem þarf til að framleiða forgangsorku vegna þess, að flest árin á rekstrartíma virkjunar má búast við meira vatni til virkjunarinnar en svarar til forgangsorkunnar, sem myndar hinn fjárhagslega grundvöll virkjunarinnar. Umframorkan kemur ekkert við sögu við verðlagningu forgangsorkunnar, heldur er verðlögð sér, enda nemur kostnaðurinn við framleiðslu hennar aðeins breytilegum kostnaði virkjunarinnar, sem í megindráttum er rekstrarkostnaður hennar. Að tengja verðlagningu forgangsorku við skerðingarheimildir virkjunareiganda á ótryggðri orku er grundvallar misskilningur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)