Keifað í Kófinu

Innan ríkisstjórnarinnar og í samfélaginu hefur verið kallað eftir stefnumörkun í þessum heimsfaraldri, sem ekkert bólar á hjá sóttvarnaryfirvöldum landsins. Þó glitti í hana nú á síðustu dögum ársins, er sóttvarnarlæknir, síðastur manna, eygði von um hjarðónæmi vegna náttúrulegs ónæmis.  Hin miklu vonbrigði með bólusetningarnar eru, að þær reyndust ófærar um að skapa hjarðónæmið, sem sóttvarnaryfirvöld þó lofuðu afdráttarlaust, ef þátttakan yrði góð, og hún varð það. Þó voru nokkrir, sem veigruðu sér við þessum bólusetningum, margir þeirra vegna undirliggjandi heilsufarsveikleika.  Það er fljótfærnislegt og óskynsamlegt að draga þá ályktun, að þeim hefði farnazt betur eftir smit, ef þau hefðu látið bólusetja sig.

Sóttvarnarlæknir og Landlæknir og margir fleiri í læknastétt virðast ekki í stakkinn búin til að líta vítt yfir sviðið.  Það væri óskandi, að Alþingi sýndi þann mannsbrag að semja leiðarvísi fyrir stjórnvöld út úr þessu Kófi, en í fjarveru slíks leiðarvísis verður ríkisstjórnin að taka af skarið og bera nýja stefnumörkun undir þingið.  Ríkisstjórnin þarf að leita ráða út fyrir heilbrigðiskerfið, sem er niðurgrafið í eigin vandamál.  Hún getur t.d. leitað til Jóns Ívars Einarssonar, læknaprófessors, sem skrifaði áhugaverðar hugleiðingar um þessi mál á Innherja Vísis 26.12.2021, sem hann nefndi:

 "Siglum báruna". 

Undir fyrirsögninni:

 "Reynum aðrar leiðir til eðlilegs lífs",

skrifaði læknirinn:

"Í næstum 2 ár höfum við reynt að nota sömu tólin (sam[komu]takmarkanir, grímur, fjarlægðarmörk o.s.frv.), en sitjum þrátt fyrir það áfram í sömu súpunni.

Það er hins vegar ekki hægt að vera með strangar samfélagslegar takmarkanir til eilífðarnóns.  Skaðinn af þeim er of mikill til lengdar.  Við þurfum að halda áfram með lífið, og það er helzt unga fólkið, sem líður fyrir það ástand, sem við höfum skapað.  Við þurfum því að sleppa tauminum meira og undirbúa okkur, eins og bezt verður á kosið, áður en að því kemur. 

Aðalatriðið er, að nú er þörf á nýrri hugsun, sérstaklega m.t.t. þess, að við erum nú að fást við nýtt afbrigði, sem er meira smitandi og virðist valda minni veikindum, langflestir eru bólusettir, og ný lyf hafa komið fram, sem minnka líkur á alvarlegum veikindum hjá þeim, sem smitast."

Þarna kveður við nýjan tón m.v. þann fádæma grátkór, sem einkennir þau úr heilbrigðisstéttum, sem tjá sig um stöðu heimsfaraldursins C-19 á Íslandi og viðnámsþrótt heilbrigðiskerfis og samfélags gegn honum. Rannsóknir í Suður-Afríku benda til, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron-afbrigðinu veiti líka mikla vörn gegn deltu-afbrigðinu.  Þess vegna gæti ómíkron smit og ónæmi í kjölfarið varðað leið mannkyns út úr heimsfaraldri af völdum allra afbrigða SARS-CoV-2 veirunnar.

Bóluefnin veita hins vegar afar litla vörn gegn smiti af völdum ómíkron og enga vernd eftir 2 mánuði frá bólusetningu, benda ísraelskar athuganir til.  Augljóslega er þá vernd bóluefna gegn veikindum afar takmörkuð, og ísraelskir læknar hafa nú varpað fram áhyggjum af því, að 3 sprautur eða meira geti valdið óafturkræfri veiklun á öllu ónæmiskerfi líkamans. Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa hingað til skellt skollaeyrum við öllum varnaðarorðum um mRNA-bóluefnin (genatækni), eins og áróður þeirra fyrir bólusetningum barna ber vott um.

Læknirinn, Jón Ívar Einarsson, varpaði fram hugmynd í 6 liðum að stefnubreytingu í sóttvarnarmálum í téðri grein.  Nú ríður á, að pólitísk stjórnvöld í landinu axli ábyrgð sína og hverfi af braut huglausrar hlýðni sinnar við þröngsýna sóttvarnarembættismenn, sem fastir eru í sama farinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir neikvæðum afleiðingum frelsisskerðinga almennings og líklega afar takmörkuðu gagni af þeim:

  1. "Undirbúa mætti sjúkrastofnun, sem sinnti eingöngu covid-sjúklingum.  Þessi stofnun hefði gjörgæzlu og aðra nauðsynlega aðstöðu og stoðmeðferðir.  Þetta hefur verið gert áður í meðhöndlun smitsjúkdóma og hægt að gera það aftur.  Starfsfólk, sem vinnur á covid-stofnuninni, myndi einungis vinna þar og fengi því greitt álag/hærri taxta í samræmi við það."  --  Ef þetta hefði verið gert strax í byrjun faraldursins, hefði það sennilega létt álagi af Landsspítalanum og dregið úr hættu á smitum inn á spítalann.  Nú er álagið lítið af innlögnum, en mikið vegna veikinda/sóttkvíar starfsfólks og vegna göngudeildarinnar. Spítalinn þarf að meta, hvort þetta breytta fyrirkomulag yrði til bóta úr þessu. Búið er að slaka á kröfum um lengd einkennalausrar einangrunar og sóttkvíar starfsfólks Landsspítalans, enda er mannekla höfuðvandamál sjúkrahússins.  Þannig hafa stjórnvaldsráðstafanir bitið í skottið á sér.
  2. "Undirbúa þarf almenning, eins og bezt verður á kosið.  Fólk er hvatt til að fara í bólusetningu og örvunarbólusetningu áður en samfélagslegum takmörkunum er aflétt.  Þeir, sem kjósa það hins vegar ekki, geta tekið upplýsta ákvörðun um það, enda hættan á alvarlegum veikindum eftir smit lítil hjá hraustum, ungum einstaklingi." --  Ástæðan fyrir þeim ógöngum, sem samfélagið er í núna vegna ómíkron, er haldleysi bóluefnanna, og skaðsemi þeirra hefur líka verið staðfest hjá óvenju stórum hópi sprautuþega. Langtíma virkni á ónæmiskerfi og mikilvæg líffæri er óþekkt.  Er þá ekki skynsamlegra að birgja spítalana upp af lyfjum, sem gagnleg hafa reynzt í baráttunni við SARS-CoV-2 ?
  3. "Þegar þjóðfélagið er eins vel undirbúið og hugsazt getur, ætti að hætta handahófskenndum, kostnaðarsömum og oft tilgangslitlum sóttvarnaraðgerðum.  Þetta á m.a. við um smitrakningu, skimun á landamærum, notkun hraðprófa fyrir stórviðburði og notkun almennings á grímum.  Ef fólk vill nota grímur, er því að sjálfsögðu frjálst að gera það eftir sem áður.  Áfram ætti að hvetja til og minna á handþvott og spritti." -- Þetta er hægt að taka undir, enda er það kjarninn í hugmyndum læknisins um nýja aðferðarfræði.  Hvetja ætti fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, til að viðhafa ráðstafanir, sem draga úr hættu á hópsmitum, en skyldan sé afnumin.  Allt mun þetta spara þjóðfélaginu stórfé og létta fólki lífið.  
  4. "Þegar búið er að undirbúa hlutina vel, mætti samfélagið ganga að mestu eðlilega.  Ungt fólk og börn gengur í skóla, er í íþróttastarfi o.s.frv.  Ef fólk verður veikt, þá heldur það sig heima, eins og við höfum alltaf gert.  Ekki er skylda að fara í sóttkví eða smitgát, þótt umgengni hafi verið við einstakling, sem greinist með covid.  Ef fólk, sem hefur verið útsett, vill vera heima/fara varlega, þá getur það auðvitað gert það.  Þetta mun byggja upp náttúrulegt ónæmi í samfélaginu tiltölulega fljótt, sérstaklega með omicron afbrigðinu, sem er mjög smitandi og virðist valda mildari veikindum.  Náttúrulegt ónæmi stórs hluta þjóðarinnar mun svo hjálpa til [við] að minnka líkur á síendurteknum smitbylgjum, þótt vissulega sé mögulegt, að ný afbrigði muni koma upp, sem valdi aftur veikindum hjá þeim, sem smitazt hafa af fyrri afbrigðum." -- Jafnvel sóttvarnarlæknir Íslands talaði um það í hádegisfréttum RÚV 29.12.2021, að nú mætti fara að huga að tilslökunum í samfélaginu vegna vægra veikinda, en ekki var hann þá tilbúinn að fara að dæmi Bandaríkjamanna um styttingu sóttkvíar og einangrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, heldur vill hann nú bíða eftir ráðleggingum frá  sóttvarnarstofnunum Evrópu.  Maðurinn er allt of regandi í sinni afstöðu, sem er ekki traustvekjandi.  Hin pólitísku stjórnvöld verða að taka af skarið.  Athuganir í Suður-Afríku, þar sem ómíkron afbrigðisins varð fyrst vart, veita von um, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni veita nægilegt viðnám gegn öllum afbrigðum SARS-CoV-2 til að hindra faraldra. Einkennalaus sóttkví er orðin tímaskekkja.  
  5. "Fólki í áhættuhópum er ráðlagt að fara áfram varlega, og gerðar eru ráðstafanir til að færa því nauðsynjar, ef þarf.  Ef um blönduð heimili er að ræða, væri boðið upp á tímabundið húsnæði/hótel fyrir hluta heimilismanna, ef nauðsyn væri á.  Þeim, sem búa á blönduðum heimilum, er einnig ráðlagt að fara varlega og e.t.v. að fara í skyndipróf í meira mæli.  Ný lyf virðast minnka líkur á innlögn hjá áhættuhópum, og mikilvægt [er] að nota þær aðferðir, sem til eru til að lágmarka hættu á alvarlegum veikindum í þessum hópi og öðrum." -- Þarna minnist Jón Ívar á ný lyf við C-19.  Þau hljóta að verða einn af hyrningarsteinum hinnar nýju sóttvarnarstefnu, sem liggur til eðlilegra lífs en nú og að hætta að reiða sig á og leggja stórfé og tíma í fullkomlega misheppnuð bóluefni. Margt bendir til, að bóluefnin veiti alls enga vernd gegn ómíkron.  Þess vegna er það eins og út úr kú að hvetja nú foreldra til að láta  bólusetja börn sín með efnum, sem eru meira en lítið varasöm fyrir þau, ef marka má dr Robert Mallone, aðalhöfund mRNA-tækninnar.
  6. "Starfsfólk annarra heilbrigðisstofnana, sem sinnir aðhlynningu sjúklinga og áhættuhópa, þyrfti að fara í dagleg covid-próf og vera með viðurkennda grímu og nota hlífðarbúnað við aðhlynningu, á meðan mestur fjöldi smita gengur yfir."

 

Þann 27.12.2021 birti Morgunblaðið harða ádrepu á sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn fyrir tréhestalega stjórnun sóttvarna, þar sem farið er offari í frelsisskerðingum m.v. vægari einkenni nýrra afbrigða veirunnar á borð við ómíkron.  Þar er brotið á grundvallarréttindum almennings, þegar önnur vægari úrræði eru í boði. Tregða sóttvarnarlæknis við styttingu einkennalausrar einangrunarvistar og sóttkvíar, sem ómíkron afbrigðið hefur þó orðið ýmsum öðrum þjóðum ástæða til að gera, er lítið dæmi um embættisfærslu, sem hefur mesta tilhneigingu til að hjakka í sama farinu.  Téð grein í Morgunblaðinu var eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, og hét einfaldlega:

"Hættið þessu".

Hún hófst þannig:

"Ráðstafanir íslenzkra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi [brot á stjórnsýslulögum - innsk. BJo]. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum.  Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt, að jafnvel þeim, sem hafa smitazt af veirunni, stafar ekki hætta af henni.  Meira en 95 % þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni.  Þeir, sem eftir standa, veikjast lítillega, en nær enginn alvarlega.  Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember sl. (bls.6).

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem þar er, beittir frelsisskerðingum til að hindra, að smit berist milli manna.  Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér, er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma.  Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa.  Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitazt af veirunni.  Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum, sem hefur smitazt.  Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar.  Samt segja yfirvöld, að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag.  Svo er að skilja, að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 400-500 ?"

Allt umstangið er sagt vera til að verja heilbrigðisstofnanir, aðallega Landsspítalann, en nú blasir við, að þetta gerræðislega fyrirkomulag er helzta orsök vandræða Landsspítalans nú um stundir á formi gríðarmikils álags á starfsfólkið, sem þó heldur uppi þjónustunni.  Við þessar aðstæður blasir við, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda gera aðeins illt verra, og þess vegna ber að afnema sóttkví og einkennalausa einangrun.  Það mun aðeins stytta tímann fram að náttúrulegu ónæmi og létta á atvinnulífinu og stofnunum sveitarfélaga og ríkis. 

Í lok greinar sinnar dró höfundurinn saman rök sín:

"Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi, sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna.  Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér, sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar. 

Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: hættið þessu og það strax."

 

 

  

 


Bloggfærslur 31. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband