8.12.2021 | 13:25
Orkustefna í skötulíki
Orkustefna lands er lítils virði, ef hún varðar ekki leiðina að orkuöryggi, þ.e. búi svo vel í haginn fyrir nægt framboð afls og orku, að skortur forgangsorku myndist ekki, nema ófyrirsjáanlegir atburðir á borð við náttúruhamfarir eða ófrið ríði yfir. Nú horfir illa með vatnsbúskap Landsvirkjunar í vetur, sem þegar er komið í ljós, að koma mun harkalega niður á atvinnustarfsemi í landinu, sem samið hefur um kaup á ótryggðri raforku, bæði skammtíma og síðar langtíma.
Ef illa fer, mun þurfa að skerða forgangsorku líka, sem er neyðarúrræði. Að svo sé komið í rekstri raforkukerfisins, þar sem ríkisfyrirtæki gegna langstærstu hlutverki, og á sama tíma sé engin vinna í gangi við framkvæmdir í nýjum meðalstórum eða stórum virkjunum á vegum ríkisfyrirtækja, er þungur áfellisdómur yfir stjórnun ríkisins á þessum málaflokki, sem varðar hagkerfið gríðarmiklu, svo að ekki sé talað um það umhverfisslys að þurfa að brenna olíu, þar sem olíubrennarar eru til vara fyrir rafmagnið.
Afturhaldsöfl hafa drepið málaflokkinn í dróma. Eins og vanalega koma umhverfisráðstafanir gæningja eins og bjúgverpill í fangið á stjórnvöldum sem aukinn bruni jarðefnaeldsneytis. Það gerist nú á meginlandi Evrópu, og það gerist nú á Íslandi. Ef hér hefði tekið til starfa ný um 100 MW virkjun á svæði, sem 220 kV flutningskerfi Landsnets spannar, væri hvorki orku- né aflskortur í vetur. Það er einsdæmi frá stofnun Landsvirkjunar, að á tíma orkuskorts skuli ekki hilla undir umtalsverða virkjun á vegum fyrirtækisins. Stendur á framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Hvað í ósköpunum veldur þessum sofandahætti, doða og/eða amlóðahætti ?
Til sannindamerkis um þjóðhagslegan kostnað, sem nú blasir við af völdum orkuskerðinga Landsvirkjunar til fiskiðnaðarins, er forsíðufrétt Morgunblaðsins 3. desember 2021 um, að loðnubræðslur fengju einvörðungu 25 MW af umsömdum 100 MW af ótryggðu afli í vetur. Til að vega þetta upp þurfa verksmiðjur, sem einnig eru með olíukatla, að brenna olíu. Orðagjálfur stjórnmálamanna um 55 % samdrátt koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990 er afhjúpað sem innihaldslaust blaður, þegar svona er í pottinn búið. Þetta heimatilbúna vandamál er orðið að ófyrirgefanlegu heimilisböli landsstjórnarinnar.
Hér verður að gera bragarbót á hið snarasta, enda eru virkjanakostir til nánast verkhannaðir og tilbúnir til útboðs. Nýi ríkisstjórnarsáttmálinn gefur undir fótinn með, að nú verði slegið í klárinn. Nú kemur til kasta innviðaráðherrans og orkuráðherrans.
Íslendingar eru í óviðjafnanlegri stöðu á meðal Evrópuþjóða, hvað orkuöflun varðar. Flestar aðrar þjóðir hafa farið á braut óskilvirkrar kolefnisfrírrar orkuöflunar á borð við vindmyllur og sólarhlöður, sem taka háan toll af efnaauðlindum jarðar m.v. orkuvinnslugetu á endingartíma, eða þær halda áfram að reisa kolefnisspúandi orkuver á borð við gas- og kolaorkuver. Á árinu 2021 hefur vindafar verið óhagstætt í Evrópu fyrir vindmyllur, og þær þess vegna framleitt óvenjulítið. Á sama tíma hefur raforkueftirspurn vaxið umfram framboðsaukningu, sem leitt hefur til óvenjulágrar birgðastöðu alls jarðefnaeldsneytis og þess vegna hárrar verðlagningar allrar orku samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar.
Sumir hérlendis tala fjálglega um nauðsyn orkuskipta til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmslofts um 2°C eða meira fyrir árið 2080 síðan 1850, þótt röð gervihnattamælinga á hitastiginu bendi aðeins til meðalhitastiguls 0,14°C/10 ár á síðustu 30-40 árum, og þessi hækkun gæti hæglega gengið til baka, en þeir mega samt ekki heyra minnzt á nýjar virkjanir. Þetta eru hreinræktaðir loddarar með sína snákaolíu til sölu. Að láta loddara móta orkustefnuna, leiðir auðvitað aðeins í ógöngur, eins og nú er komið á daginn.
Orkustefna Þýzkalands og margra annarra landa Evrópusambandsins (ESB) er sú að loka öllum kjarnorkuverum fyrir árslok 2022, en reiða sig á vindorkuver og sólarhlöður. Þetta er óumhverfisvænt og óskilvirkt. Hver vindmylla er tiltölulega efnisfrek, nýtingartími á ári er stuttur og endingin er skammvinn. Um 65 t af Cu (kopar) fara í um 6 MW vindmyllu, og slík koparvinnsla útheimtir 50 kt námugröft.
Árið 2021 einkenndist af stillum, og vegna uppsveiflu hagkerfisins í ár og lágrar stöðu jarðgasforðans í Evrópu (vestan Rússlands) er kolabrennsla Þjóðverja nú með mesta móti og öll orkuverð í Evrópu í hæstu hæðum og knýja áfram verðbólgu, sem margir núlifandi Evrópumenn hafa aldrei séð áður. Ofan á angist vegna hárra orkureikninga í Evrópu bætast áhyggjur út af liðsafnaði Rússa við austurlandamæri Úkraínu og þeirri staðreynd, að 41 % af jarðgasinnflutningi Evrópu kemur frá Rússlandi.
Í Frakklandi er afstaðan til kjarnorkuvera allt önnur, og þar kemur um helmingur raforkunnar frá kjarnorkuverum og t.d. á Bretlandi 16,5 % og vaxandi. Þar er ætlunin að loka öllum, nema einu kjarnorkuveri, fyrir 2030 vegna aldurs og reisa ný með nýrri tækni. Bretar eru þó að reisa nýtt, stórt kjarnorkuver, Hinkley Point C, 3,2 GW, fyrir mrdGBP 23, sem jafngildir fjárfestingu 9,5 MUSD/MW. Þetta er 3-4 faldur virkjunarkostnaður á Íslandi.
Til að auka samkeppnishæfni kjarnorkunnar er Rolls Royce nú með minni og forsmíðaðar einingar kjarnakljúfa og gufuhverfla í hönnun, s.k. SMR (Small Modular Reactors), 0,47 GW, sem lækka virkjunarkostnaðinn um 35 % niður í 6,2 MUSD/MW, og fjöldaframleiðsla og samkeppni frá öðrum framleiðendum, t.d. frönskum, mun lækka verðmiða kjarnorkunnar enn meira. Þessi orkuver geta staðið undir stöðugu álagi og orkuverðið verður lítið háð verðsveiflum á úrani.
Bretum hefur orðið vel ágengt með minnkun losunar koltvíildis frá raforkuverum. Á 10 ára tímabili 2012-2021 drógu þeir úr þessari losun um 51 %, og á árabilinu 2021-2030 ætla þeir að draga úr losun vegna raforkuvinnslu um 57 % og fara niður í 100 Gt CO2. Þetta verður gert með lokun kolakyntra vera og gangsetningu SMR-kjarnorkuvera. Þessi stefnumörkun mun veita Bretum forskot á Evrópusambandið, sem hjakkar í sama farinu vegna rangrar stefnumörkunar. Bretar munu styrkja samkeppnisstöðu sína gagnvart ESB vegna lægra orkuverðs.
Flest ríki heims hafa lýst yfir, að þau stefni á kolefnishlutleysi árið 2050 eða eftir tæplega 30 ár. Það er risaverkefni á heimsvísu í ljósi þess, að jarðefnaeldsneyti stendur að 83 % af frumorkunotkun jarðarbúa. Ótti við þvingunarráðstafanir stjórnvalda til að draga úr eftirspurn hafa leitt til 40 % lækkunar fjárfestinga í leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis síðan 2015, og þetta hefur þegar haft áhrif á framboðið, einnig á gasinu, á sama tíma og þjóðir vilja taka það í notkun í stað kola og olíu. Þess vegna hefur verð á því rokið upp úr öllu valdi. Skortur á LNG, sem Bandaríkjamenn hafa boðið ESB í stað gass um Nord-Stream 2 frá Rússum, nemur nú 2 % af eftirspurn á heimsvísu, en er spáð, að verði 14 % árið 2030. Ef ESB ekki semur við Rússa um kaup á gasi um Nord-Stream 2 lögnina, verður áfram mjög hátt orkuverð í Evrópu. Slík staða eykur spurn eftir íslenzkri raforku, en Landsvirkjun situr samt með hendur í skauti. Þessi doði í boði ríkisins er dýrkeyptur.
Árið 1990 hófu ríki heims að samkeppnisvæða orkumarkaðinn. Orkuyrirtæki keppa þá um hylli neytenda með því að bjóða sem hagstæðasta afhendingarskilmála, og þau keppa um orkuna sín á milli á uppboðsmörkuðum. Þegar hillir undir aflskort, hækkar verðið, og fyrirtækin fara í fjárfestingar. Í skortskerfi, eins og núna, þar sem framboð orku getur ekki annað eftirspurn, koma regingallar þessa kerfis fram, því að fyrirtækjum og heimilum blæðir.
Það getur ekki gengið til lengdar, að Norðmenn þurfi að greiða sem svarar 90 ISK/kWh í landi, þar sem raforkuverðið með flutningi, dreifingu og sköttum hefur í venjulegu árferði verið jafnvel lægra en á Íslandi eða 15-20 ISK/kWh. Þetta samkeppniskerfi orku, sem ESB hefur tekið upp á arma sína með orkupökkunum, virkar sem hengingaról fyrir neytendur við núverandi aðstæður.
Talið er (The Economist 16.10.2021-The energy shock), að fjárfestingar á heimsvísu í orkumálum þurfi meira en að tvöfaldast og fara í 4-5 trnUSD/ár til 2050 eða alls um trnUSD 135 fram til 2050. Í þessum samanburði sleppa Íslendingar tiltölulega vel, en það verður að vera hér einhver vilji til verka (virkjana og línulagna) til að nýta náttúrulegt forskot Íslands. Hvenær skyldu orkuyfirvöld í Stjórnarráðinu rumska ? Þau hafa sofið Þyrnirósarsvefna með þeim afleiðingum, sem nú eru öllum berar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)