Andóf gegn bábiljum getur varla verið hræðsluáróður

Samfylking og Viðreisn vilja komast í ríkisstjórn eftir komandi kosningar, og það er ekki útilokað, að þeim takist það. Það fjölflokka kraðak, sem stefnir í, að verði á Alþingi eftir næstu kosningar, útilokar þó, að slík stjórn geti veitt þjóðinni þann stöðugleika og frið, sem nú er þörf á til að þróa hér enn meiri hagsæld.

Þeirra aðalmál og það, sem sameinar þær, er að fara aftur í aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB), þótt ótrúlegt megi virðast, og leiða þær í þetta skiptið til lykta og fá Alþingi í krafti trausts meirihluta þar til að leggja blessun sína yfir samkomulagið. 

Það, sem mælir gegn því, að þessi glannareið heppnist, er þó þjóðarviljinn og stjórnarskráin.  Stjórnarskránni er hægt að breyta, en þá þarf Alþingiskosningar, þar sem þjóðin getur stöðvað málið.  Að fara inn á þessa braut er tímasóun og sóun fjármuna, sem sagt tímaskekkja.  Það ber að stuðla að því að hindra þessa flokka í að komast í aðstöðu til að leggja út á glæfrabraut, sem þjóðin er andsnúin. Slíkt hafa kjósendur í hendi sér.

Þorsteinn Pálsson, ÞP, fyrrverandi forsætisráðherra, er iðinn við kolann og beitir ýmsum brögðum til afla þeim skoðunum sínum fylgis, sem eru kjarninn í stefnu Viðreisnar, að Íslandi sé bezt borgið í tilvonandi sambandsríki Evrópu (án Bretlands, Færeyja og EFTA-landanna).  Þetta er hreinræktuð bábilja, sem hefur margsinnis verið kveðin í kútinn.  Lítum á Kögunarhólsgrein hans í Fréttablaðinu 15. júlí 2021:

"Hræðsluáróður opnar ekki ný tækifæri": 

"Andófið gegn því, að þjóðin fái sjálf að ákveða, hvort stíga eigi lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu byggist fyrst og fremst á að skapa ótta við breytingar.

Þeir, sem eru lengst til hægri, beita nú sömu ráðum í þessari umræðu og þeir, sem voru lengst til vinstri og snerust öndverðir gegn aðildinni að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma."

Þetta eru rangfærslur. Það er enginn ótti við hið óþekkta, sem jafnan er samfara breytingum, sem stjórnar andstöðunni við aðildina að Evrópusambandinu, ESB.  Það er auðvitað mjög vel þekkt, hvað gerast mun við slíka inngöngu, og það er ískalt hagsmunamat, að sú fullveldisfórn mundi verða gríðarlegur baggi fyrir íslenzka þjóðfélagið, og sú gríðarlega aukning innleiðingar erlendrar löggjafar, sem samin er fyrir gjörólíkar aðstæður, yrði til mikils trafala fyrir okkar litla þjóðfélag og íþyngjandi fyrir áframhaldandi framleiðniaukningu. 

Ef vilji er fyrir hendi að spyrja þjóðina, hvort hún vilji ganga í ESB, hefði þingið getað ákveðið að gera það samhliða þingkosningunum í haust, en engin tillaga kom fram um það.  Það er nægilega vel vitað, hvað mundi koma út úr þeim aðlögunarviðræðum, sem vinstri stjórnin gafst upp á 2012. (Hún gafst upp á sjávarútvegskaflanum.)

Það er hins vegar tóm vitleysa að biðja stjórnmálaflokka, sem af grundvallarástæðum eru andvígir því að afsala meira sjálfstæði en orðið er til hins yfirþjóðlega valds í Brüssel, um að styðja það, að aðlögunarviðræður verði teknar upp að nýju, nema þjóðin hafi lýst yfir eindregnum vilja til þess (meirihluti fólks með atkvæðisrétt).  Þetta dróst Vinstri hreyfingin grænt framboð þó inn á veturinn 2009 til að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni. Sú vegferð tókst illa. Allt fór þar í handaskolum, eins og annað hjá þeirri ríkisstjórn. Samanburður ÞP á andstöðunni við aðildina að NATO 1949 og aðild að ESB 2021 er algerlega út úr kú.  Aðeins raunveruleikafirrtum mönnum dettur í hug að setja annan eins "bolaskít" á þrykk.

Síðan gerir hann fullveldið að umræðuefni og heldur áfram að bera saman alls óskyld fyrirbæri.  Tilgangurinn helgar meðalið:

"Fullveldið glatast.  Þetta var og er algengasta staðhæfingin. Reynslan af aðildinni af Atlantshafsbandalaginu sýnir hins vegar, að hún hefur styrkt pólitískt fullveldi landsins.

Reynslan af þátttöku í Fríverzlunarsamtökum Evrópu og síðar aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins, sem nú er kjarni Evrópusamstarfsins, hefur með ótvíræðum hætti eflt efnahagslegt sjálfstæði landsins og um leið fullveldi þess. 

Hvers vegna ætti lokaskrefið, sem er minna en aðildin að innri markaðnum, að leiða til fullveldisglötunar ?  Enginn hefur sýnt fram á það með rökum.

Enginn þeirra, sem halda því fram, að Ísland myndi tapa fullveldinu með fullri aðild, treystir sér til að halda því fram, að Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu ekki fullvalda ríki."

Það gætir hugtakabrenglunar hjá ÞP, og þá er ekki von á góðu.  Það er skoðun höfundar þessa vefpistils, að enginn vafi sé um öryggislega nauðsyn NATO-aðildarinnar og efnahagslega nytsemi EFTA-aðildarinnar og frjálsum viðskiptum yfirleitt.  Innri markaður ESB snýst hins vegar um miklu meira en frjáls viðskipti.  Hann snýst um frelsin 4 innan yfirþjóðlegs sambands, sem setur aðildarþjóðunum strangar reglur, sem þær verða að lögleiða hjá sér, og lúta síðan dómstóli þessa yfirþjóðlega sambands.  

Til að athuga, hvort þessi aðild að Innri markaðinum með EES-samninginum, sem Ísland hefur undirgengizt, styrki fullveldi landsins, er nú rétt að fara í smiðju til góðs lögfræðings, Arnars Þórs Jónssonar, en hann skrifaði m.a. þetta í Morgunblaðsgrein 10. júlí 2021:

"Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum."  

Af þessari skilgreiningu að dæma veður ÞP reyk eða  reynir vísvitandi að villa um fyrir almenningi með því að halda því fram, að aðildin að innri markaði ESB/EES hafi eflt fullveldi Íslands.  Allt annað mál er, hvort sú aðild hefur orðið þjóðinni efnahagshaglega hagfelldari en sá fríverzlunarsamningur, sem áður var í gildi á milli EFTA og ESB. Það er sjálfstætt athugunarefni, hvort EES-aðildin hafi leitt til meiri hagvaxtar hér en ella, og þar verður að taka tillit til beinna og óbeinna þátta, t.d. afleiðinga minni árlegrar framleiðni af völdum stórvaxins regluverks, sem sniðið er við stærri fyrirtæki en starfa á Íslandi að jafnaði.  Viðskiptaráð áætlaði, að þetta óhagræði drægi framleiðniaukningu niður um 0,5 %/ár. ÞP getur þannig ekki einu sinni fullyrt með rökum, að íslenzka hagkerfið sé nú stærra en ella vegna aðildarinnar að EES. 

Áhrif Evrópusambandsins á Íslandi mundu auðvitað aukast verulega með fullri aðild að Sambandinu.  Við mundum t.d. þurfa að taka upp 100 % af löggjöf ESB í okkar lagasafn, en hlutfallið er nú innan við 20 %.  Hvernig getur ÞP þá fullyrt, að lokaskrefið sé minna en aðildin að Innri markaðinum, þegar innleidd löggjöf mundi meira en 5-faldast ?  Á grundvelli umfangs og djúpt inngrípandi áhrifa ESB-löggjafarinnar á daglegt líf fólks í aðildarlöndunum er óhætt að segja, að Danmörk, Noregur og Svíþjóð geti ekki talizt vera fullvalda ríki í sígildum skilningi þess orðs. Þótt þau komi að lagasmíði og lagasetningu innan stofnana ESB, eru þau samt minna fullvalda en Ísland og Noregur, enda á meðal fámennari ríkja innan ESB. 

Næst vék ÞP að sjávarútvegsstefnunni, og þá batnaði nú ekki hundalógíkin:

 "Þá er fullyrt, að með fullri aðild fyllist Íslandsmið af erlendum fiskiskipum.  Það er röng fullyrðing.  

Raunveruleikinn er sá, að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins byggir á reglu um svonefndan hlutfallslegan stöðugleika.  Það þýðir, að engin þjóð fær rétt til veiða, nema unnt sé að sýna fram á veiðireynslu á næstliðnum áratugum. 

Engin þjóð hefur slíka veiðireynslu.  Íslandsmið verða því áfram aðeins fyrir íslenzk fiskiskip.  Og sérhver aðildarþjóð setur sínar eigin stjórnunarreglur.  Ekki þarf því að breyta fiskveiðilöggjöfinni vegna aðildar."

Barnalegar fullyrðingar ÞP hér að ofan um fulla stjórn Íslendinga á Íslandsmiðum eftir inngöngu í ESB hvíla á gildandi bráðabirgðaákvæði "CAP-Common Agricultural Policy", sameiginlegri sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB. Henni getur ráðherraráðið breytt hvenær sem er að tillögu Framkvæmdastjórnarinnar, og nú hefur skapazt mikil þörf fyrir ný fiskimið fyrir stóran ESB-flotann, þar sem hann er að missa aðstöðu sína innan brezku fiskveiðilögsögunnar á næstu 5 árum.  Endanleg fiskveiðistefna ESB kemur fram í hvítbók ESB um efnið.  Þar er gert ráð fyrir jöfnum aðgangi allra útgerða aðildarlandanna að öllum fiskimiðum í lögsögu Sambandsins, og verði veiðiheimildir boðnar út eða upp, þegar aðstæður leyfa. 

Það þarf ekki að fjölyrða um, hvernig ástandið verður á íslenzkum útgerðum og sjávarbyggðum, þegar þær fara að keppa við evrópskar stórútgerðir um veiðiréttinn í íslenzku lögsögunni.  Stórt skarð verður óhjákvæmilega höggvið í gjaldeyrisöflun landsmanna og lífsviðurværi landsbyggðarinnar.  Í þessu ljósi geta menn skoðað fiskveiðistefnu Viðreisnar, sem í stuttu máli er uppboð veiðiheimilda, og þar með ekkert annað en aðlögun íslenzkrar sjávarútvegsstefnu að því, sem koma skal hjá ESB.  Kjósendur í íslenzkum sjávarbyggðum og víðar hljóta nú að hugsa sig um tvisvar áður en þeir ljá Viðreisn atkvæði sitt í Alþingiskosningum. 

Síðan sneri ÞP sér að gjaldmiðilsmálum, og þá tók ekki betra við:

 "Til þess að Ísland geti vaxið út úr kreppunni, þarf fyrst og fremst stöðugan gjaldmiðil.  Opna þarf fleiri tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir unnar sjávarafurðir og nýsköpun í þekkingariðnaði.  Viðspyrna ferðaþjónustunnar er líka fólgin í þessu." 

Það er ekki heil brú í því, að Ísland væri betur sett með EUR en ISK til að komast út úr Kófinu.  ISK tók dýfu við upphaf Kófs og fram á haustið 2020, en hefur síðan sótt í sig veðrið og náð nýju jafnvægi, sem er öllum atvinnugreinunum (nema innflutningsverzlun) hagfelldara en gengið fyrir Kóf og dregur væntanlega dám af launahækkunum, sem urðu 2020.

Akkilesarhællinn í sambandi við unnar sjávarafurðir, sem ÞP nefnir, er samkeppnishæfni þeirra við unnar sjávarafurðir í ESB, á Bretlandi, í Bandaríkjunum og á öðrum mörkuðum.  Það þarf enn að auka framleiðnina hér, aðallega með áframhaldandi tæknivæðingu, þar sem launakostnaður á klst er hærri hérlendis en á þessum mörkuðum. 

Hvað ætli seðlabankastjóri ESB-ríkisins Póllands hafi að segja um sjálfstæða gjaldmiðla ?  Það kom fram í grein Adams Glapinski í Morgunblaðinu 13. júlí 2021:

"Þetta er einmitt ástæðan fyrir því, að við höfum okkar eigin gjaldmiðil, pólskt zloty - að hafa möguleikann á að reka sjálfstæða og óháða peningamálastefnu, sem er mikilvægur dempari fyrir okkur.

Við höfum metnaðarfull framtíðaráform, sem öll eiga eitt sameiginlegt - að auðvelda Póllandi að ná efnuðustu löndunum.  Til að ná þessu markmiði verðum við ekki aðeins að beita skynsamlegri peningamálastefnu, heldur einnig að nýta til fulls þau tækifæri, sem skapast vegna aukningar gjaldeyrisforða okkar."

Þetta var niðurstaða Pólverja, og söm varð niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu Svía á sinni tíð. Þá má minnast á niðurstöðu ríkisstjórnar Tonys Blair með George Brown sem fjármálaráðherra.  Ítarleg rannsókn Breta gaf þá til kynna, að það yrði brezku efnahagslífi og fjármálakerfi ekki til framdráttar, nema síður væri, að fórna sterlingspundinu og taka upp EUR. Áhættan væri meiri en verjanlegt væri að taka.

Þegar pólitískir flautaþyrlar á Íslandi gaspra um, að það hljóti að verða íslenzka hagkerfinu til góðs að fórna ISK fyrir EUR, þá er það marklaust hjal og skortir allan hagfræðilegan og stjórnmálalegan trúverðugleika; er sem sagt algerlega út í loftið. 

Að lokum skrifaði Þorsteinn Pálsson af sínum Kögunarhóli, þar sem hann þó virðist vera eins og álfur út úr hóli í þessum skrifum sínum: 

"Breytt ríkisstjórn gæti horft fram á við og látið vinna heildstætt mat á ríkari möguleikum Íslands í fjölþjóðasamstarfi nýs tíma.

Þannig má leysa hræðslupólitíkina af hólmi og opna málefnalega umræðu um ný tækifæri til verðmætasköpunar og aukins athafnafrelsis."  

ÞP dreymir um, að sjónarmið hans um innmúrun Íslands innan veggja tollabandalags Evrópusambandsins verði ofan á í næstu ríkisstjórn. Það er óþarfi að eyða fé í skýrsluskrif um þetta "heildstæða mat" Þorsteins, því að það er mjög vel þekkt, hvaða áhrif innganga í ESB hefur á viðskiptakjör og annað. Það er hins vegar viðskiptalega mjög óáhugavert að láta múra sig innan "Festung Europa", því að þar fer sífellt minni hluti heimsviðskiptanna fram.  Mun áhugaverðara er að leita eftir fríverzlunarsamningum, gjarna í samfloti innan EFTA, við önnur þróuð svæði í góðum vexti, eins og t.d. Norður-Ameríku.  

Berlaymont sekkur

 

    

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 18. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband