Hugmyndafræðilegt skipbrot

Heilbrigðisráðherra hefur rekið skefjalausa ríkisvæðingarstefnu á sviði heilbrigðismála með þeim afleiðingum m.a., að líkja má Landsspítalanum við strandað risaskip (á íslenzkan mælikvarða) og einkareknu læknastofurnar eru í uppnámi.  Skjólstæðingar kerfisins í nútíð og framtíð eru meginfórnarlömb þessa stríðsrekstrar ráðherrans í nafni löngu afdankaðrar hugmyndafræði marxismans, en allt starfsfólk Landsspítalans og læknastofanna líður önn fyrir ástandið, eins og nýleg yfirlýsing 985 lækna bar með sér.  Það tekur langan tíma að bæta skaðann og koma á góðu jafnvægi, en ágæt byrjun væri að semja við sérfræðilækna og létta á Landsspítalanum með útvistun þaðan til aðila innanlands. 

Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi,  hefur ritað mikið um heilbrigðismál og sýnt fram á, að miðstýring og ríkisvæðing að hætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er fjarri því að vera sjálfsögð eða eðlileg leið til þess að veita sjúklingum hérlendis góða þjónustu.  Hann óttast, að núverandi stefnumörkun heilbrigðisráðuneytisins muni kalla fram tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem ber að varast til að magna ekki stéttaskiptinguna í landinu.  Hann ritaði í Morgunblaðið 3. marz 2021 undir fyrirsögninni:

"Gegn tvöföldu kerfi".

Greinin hófst þannig:

"Hugmyndafræðin að baki lögum um sjúkratryggingar er skýr, "að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag", eins og segir í 1. grein laganna.  Markmiðið er "að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar" og um leið "að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna".

Það var mikilvægt hjá ÓBK að rifja upp þessi grundvallaratriði sjúkratryggingalaganna.  Með aðför heilbrigðisráðherra að starfsemi sérfræðilækna á sjálfstæðum læknastofum og í læknamiðstöðvum virðist hún hafa brotið þessi lög, því að hún neitar sanngirniskröfu þessara lækna um hækkun gjaldskrár þeirra til samræmis við hækkun launavísitölu (launakostnaður vegur þyngst í rekstri læknastofa) og neyzluverðsvísitölu.  Þar með keyrir hún stofurnar í fjárhagslegt þrot, nema læknarnir taki aukaþóknun af sjúklingum, sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ekki heimild heilbrigðisráðuneytisins til að endurgreiða.  Þar með brýtur ráðherra lagaákvæði um "jafnan aðgang" og einnig um "hámarksgæði" þjónustunnar.  Um þetta skrifaði Þórarinn Guðnason,  hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, í Morgunblaðið 20. maí 2021 undir yfirskriftinni:

"Þúsund orð um einingarverð".

Hún hófst þannig:

"Í langvarandi samningsleysi undanfarinna ára hafa sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar oft upplifað villandi málflutning frá stjórnvöldum. Nýlega var því t.d. haldið fram, að einingarverð sérfræðilækna hafi verið verðbætt að fullu eftir að samningur lækna rann út og reglugerð ráðherra tók við; reglugerð, sem ákvarðar einingarverð einhliða. Sannleikurinn er allt annar, eins og verður rakið hér.  Á 13 árum, frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2021 hefur einingarverð hækkað um 65 %, en launavísitalan um heil 134 %.  Einingarverðið ákvarðar upphæð greiðslu fyrir ákveðin læknisverk, og er greiðslan notuð til að greiða allan kostnað við rekstur læknastofanna, þ.á.m. laun starfsfólks.  Engar aðrar greiðslur koma til."

Það er ríkisvaldinu ósamboðið að reyna með þessum hætti að knésetja starfsemi sjálfstætt starfandi lækna í læknamiðstöðvum og læknastofum, en aðferð heilbrigðisráðherra er að kippa rekstrargrundvellinum undan þeim. Þessi afstaða ráðherrans er óskiljanleg í ljósi þess, að við neyðarástandi liggur á Landsspítalanum og hann annar engan veginn þeim verkefnum, sem hann á að sinna (biðlistar). Það er engum vafa undirorpið, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stórefla starfsemi þessara læknastofa á þeim sviðum, þar sem gæðin eru fullnægjandi, því að einingarkostnaðurinn er lægri þar en t.d. á Landsspítalanum.  Nýir valdhafar í heilbrigðisráðuneyti verða að snúa ofan af vitleysunni (sósíalismanum) og auka á næsta kjörtímabili hlutdeild þessarar starfsemi einkageirans í yfir 5,0 % af heildar útgjöldum til heilbrigðismála. 

Áfram með Þórarin Guðnason:

"Til að geta haldið rekstri læknastofa áfram, hafa læknar neyðzt til að hækka gjaldskrá sína með því að innheimta s.k. aukagjöld eða komugjöld af sjúklingum - og skyldi engan undra, sem horfir á meðfylgjandi mynd.  [Hún sýnir, að hækkun einingarverðs læknastofanna er aðeins um 70 % af hækkun launavísitölu. Þannig rekur heilbrigðisráðherrann sitt stríð gegn einkaframtakinu.  Þetta er óásættanleg aðför með öllu og verður að leiðrétta hið fyrsta.  Um þetta hneyksli þarf að ræða í kosningabaráttunni í sumar/haust - innsk. BJo.] Þessi aukagjöld eru bein afleiðing þeirrar gliðnunar, sem þar sést.  Gjöldin eru í raun aðeins leiðrétting á gamalli úr sér genginni gjaldskrá, sem ekki hefur verið samið um í 8 ár, og yfirvöld hafa síðan valið að láta ekki fylgja verðlagi."

 Þegar svona er í pottinn búið, þarf engan að undra, að nýliðun á læknastofunum er ekki sem skyldi, og er meðalaldur þessara lækna að nálgast 60 ár.  Það er grafalvarlegt, ef aðstæður á Íslandi eru svo ókræsilegar fyrir tilstilli stjórnvalda, að vel menntaðir og þjálfaðir sérfræðingar veigra sér við að snúa heim til fósturjarðarinnar til að starfa þar. Framkoma stjórnvalda er til að skammast sín fyrir. 

"Án gjaldskrárhækkana í formi aukagjalda hefði sennilega verið búið að loka einhverjum læknastöðvum nú þegar. Gjöldin hafa einfaldlega gert læknum kleift að halda rekstri áfram.  Lokun læknastöðva hefði verið slæmur kostur, sett sjúklinga, starfsfólk og heilbrigðiskerfið í vanda og hefði getað valdið ófyrirséðum skaða. Skerðing á þjónustu, lengri bið, óvissa og óöryggi meðal sjúklinga eru allt þekktar afleiðingar þess, sem gerist, ef breytingar á heilbrigðisþjónustu eru illa undirbúnar."

Aðför heilbrigðisráðherra að einkarekinni heilbrigðisþjónustu misheppnaðist vegna þessara aukagjalda, sem skjólstæðingarnir tóku á sig.  Með þeirri vitneskju, sem við nú höfum um bágborna getu Landsspítalans til að sinna öllum sínum verkefnum (nýleg yfirlýsing 985 lækna) má fullyrða, að heilbrigðiskerfið hefði lagzt á hliðina, ef sósíalistanum á stóli heilbrigðisráðherra hefði heppnazt hugsjónastarf sitt að leggja téðan einkarekstur í rúst.  Þá hefði ekki jaðrað við neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, heldur hefði það skollið á. Vinstri hreyfingin grænt framboð er ábyrg fyrir þessari ráðsmennsku og verðskuldar makleg málagjöld í komandi Alþingiskosningum. 

Nú skal halda áfram að vitna í grein Óla Björns:

"Eftir því sem þjóðin eldist, munum við þurfa að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ekki sízt þess vegna er mikilvægt, að fjármunir séu nýttir með skynsamlegum hætti, og þar skiptir skipulagið mestu.  Ég hef áður haldið því fram, að innan kerfisins sé inngróin tregða til að nýta kosti einkaframtaksins, auka valmöguleika almenning og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna.  Vegna þessa hefur aldrei tekizt fyllilega að virkja lögin um sjúkratryggingar - ná markmiðum þeirra um öfluga þjónustu við sjúkratryggða, ná rekstrarhagkvæmni og styrkja ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Þessi innbyggða tregða hefur aukizt á síðustu árum.  Afleiðingin er veikari og verri þjónusta. 

Að óbreyttri stefnu festist íslenzk heilbrigðisþjónusta í sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta.  Með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar með áherzlu á ríkisrekstrarvæðingu heilbrigðisþjónustunnar verður til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar." 

Þarna tíundar þingmaðurinn ÓBK, hvers vegna ríkisvaldið á þegar í stað að leggja af þjóðnýtingarstefnu sína á heilbrigðisgeiranum, sem ekkert er minnzt á í stjórnarsáttmálanum, en beina þess í stað auknu fé til hins einkarekna hluta heilbrigðisgeirans með útvistun verkefna.  Þesssi rök hafa hvergi verið hrakin, en hverjar eru þá röksemdir sósíalista fyrir núverandi feigðarflani heilbrigðisráðuneytisins ?

Þau eru lágkúrulegar dylgjur um, að læknastofurnar misfari með traust, stundi ofgreiningar og oflækningar og rukki þannig SÍ og sjúklinga um of háar fjárhæðir. Þetta er ómerkilegur og einfeldningslegur áróður sósíalista fyrir ömurlegum málstað sínum.  Læknastofurnar eru undir eftirliti Landlæknisembættisins og SÍ, sem er farin að gera stikkprufur og sannreyna innsenda reikninga.  Enginn sómakær læknir hættir á að fórna starfsheiðri sínum í okkar litla samfélagi með því að stunda óheiðarleg vinnubrögð af þessu tagi. 

Ráðherrann hefur jafnvel talað um sjálftöku lækna án þess að færa rök fyrir máli sínu og er þar með farin að dreifa gróusögum um upp til hópa heiðvirða stétt manna og kvenna.  Málflutningur hennar er með öllu óboðlegur, og vitleysan er kórónuð, þegar hún jarmar um það, að ósiðlegt sé að græða á sjúklingum.  Téður gróði, þar sem hann er fyrir hendi, er, eins og í öðrum atvinnurekstri, ekkert annað en vextir af fjármunum, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið, og það er hár stofnkostnaður og miklir bundnir fjármunir í læknastofum og læknamiðstöðvum. Þess vegna eru þessi gróðabrigslyrði fyrir neðan allar hellur og varpa ljósi á ruddalegt framferði ráðherrans gegn læknastéttinni, framferði, sem verður sjúklingum sízt til framdráttar.  Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur með það, að einokunartilhneiging heilbrigðisráðherra á þjónustu við sjúklinga vinnur gegn hagsmunum skattgreiðenda.  Af öllum þessum ástæðum hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að leggja þessi mál á stjórnarmyndunarborðið til að fá stefnubreytingu inn í næsta stjórnarsáttmála. Hversu hart hann getur fylgt því eftir, ræðst þó af gengi hans og VG í komandi Alþingiskosningum. 

"Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar stærsta hluta heilbrigðisþjónustunnar er tvöfalt kerfi.  Í nafni jöfnuðar vilja andstæðingar einkarekstrar fremur lengja biðlista en nýta kosti einkaframtaksins. Afleiðingin er hins vegar aukið misrétti.  Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum. Við hin, sem öll erum þó sjúkratryggð, þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og höfum lítið sem ekkert val um hana." 

 Það er alveg dæmigert fyrir sósíalismann, að hann leiðir til skorts m.v. eftirspurn og síðan ójafnréttis og óréttlætis, eins og ÓBK lýsir slóðanum eftir heilbrigðisráðherrann. Þjóðin er auðvitað ekki ýkja hrifin af þessum ósköpum, enda á hún mikið undir.  Í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós, það sem engan undrar, að meirihlutinn vill blandað kerfi, þar sem er  samkeppni og aukið valfrelsi.  Yfirborðssvamlarar og falsfréttadreifarar hafa túlkað niðurstöðuna einokunarsinnum í hag, en það átti einvörðungu við sjúkrahúsrekstur.  Hákólasjúkrahús og héraðssjúkrahús verða fyrirsjáanlega ríkisrekin um langa framtíð. 

Að lokum skrifaði ÓBK:

"Ólíkt ríkisrekstrarsinnum hef ég verið sannfærður um, að verkefni stjórnmálamanna sé ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að virkja það öllum til hagsbóta. Valfrelsi um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag á að vera markmiðið, og með því eykst aðhaldið og stuðlað er að hagkvæmari nýtingu fjármuna.  Um leið viðurkennum við sem samfélag hið augljósa; læknisfræðin og heilbrigðisvísindin öll eru þekkingariðnaður og reist á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Þannig vinnum við gegn því, að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði til með tilheyrandi ójöfnuði."

 

  

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 3. júlí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband