13.9.2021 | 11:29
Blómlegt í álgeiranum
"Eins dauði er annars brauð" ("Eines Tod einem anderen Brot".) sannast einu sinni sem oftar í álgeiranum. Kínverjar hafa valdið álframleiðendum á Vesturlöndum gríðarlegum búsifjum með offramleiðslu, sem leitt hefur til birgðasöfnunar á álmörkuðum heimsins og verðfalls. Nú hafa þeir neyðzt til að taka nýjan pól í hæðina og draga líklega úr framleiðslu sinni um 5 Mt/ár eða 10 % niður í 46 Mt/ár. Ástæðuna má líklega rekja til yfirþyrmandi mengunar í Kína af völdum kolaorkuvera, en einnig er raforkuskortur í Kína af völdum þurrka, en í Kína eru sem kunnugt er mörg og stór vatnsorkuver.
Á Vesturlöndum og víðar er nú verið að endurræsa stöðvaða kerskála, setja öll tiltæk rafgreiningarker í rekstur og hækka kerstrauminn til að hámarka afköst álverksmiðjanna, enda hefur álverð LME hækkað um rúmlega 60 % á einu ári í september 2021 og er nú í um 2900 USD/t og hækkandi. Verðið er nú nægilega hátt til að skila öllum verksmiðjum á Vesturlöndum hagnaði, líka í Evrópu, þar sem koltvíildisgjaldið er hæst í heiminum, um 65 USD/t CO2. Það þýðir, að íslenzki áliðnaðurinn þarf að greiða um 100 MUSD/ár eða tæplega 13 mrdISK/ár í koltvíildisgjöld. Þetta fer inn í ETS-viðskiptakerfi ESB. Hvað verður um þetta fé ? Við þurfum á því að halda hér innanlands í mótvægisaðgerðir á borð við landgræðslu og skógrækt. Íslenzk álver eða kísilver hafa ekki notið fjárhagslegra mótvægisaðgerða af hálfu ríkisins, eins og önnur evrópsk álver, til að styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart álverum í ríkjum, þar sem ekkert slíkt kolefnisgjald er lagt á starfsemina. Þess má geta, að kol eru enn niðurgreidd í sumum ríkjum.
Þann 8. september 2021 birti ViðskiptaMogginn athyglisvert viðtal við nýjan forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, Jesse Gary. Þessi náungi er hress og lætur vel af Íslendingum í þjónustu sinni og kynnum sínum af landi og þjóð. Hann er greinilega opinn fyrir meiri raforkukaupum af Íslendingum til að framleiða enn meira ál en 330 kt/ár, sem brátt verður framleiðslugeta Norðuráls, en hérlendis hefur enginn neitt fram að færa, sem um munar, á framboðshlið raforku. Á ekki að grípa gæsina, á meðan hún gefst, eða á afturhaldinu að lánast að sitja á öllum tækifærunum til frekari nýtingar náttúruauðlindanna, þótt markaðir vilji greiða hærra verð fyrir græna orku til að framleiða "grænt" ál ?:
"Blómaskeið hafið í áliðnaði og eftirspurnin á uppleið".
""Við upphaf faraldursins var dregið verulega úr iðnframleiðslu í heiminum. Allir fóru mjög varlega. Nú höfum við hins vegar horft fram á V-laga niðursveiflu og loks efnahagsbata. Eftirspurnin er á hraðri uppleið, og verðið hefur hækkað á ný", segir Jesse."
Ál fellur vel að þörfum heimsins á tímum orkuskipta, og þess vegna er líklegt, að nýhafið góðæri á álmörkuðum vari lengi, ekki sízt vegna orkuskorts, sem hrjáir heiminn, þar til stórfelld nýting kjarnorku hefst. Frumálvinnslan er orkukræf, en notkun álvara er orkusparandi, og endurvinnsla útheimtir aðeins 5 % af rafgreiningarorkunni. Stöðugt meira er nú endurunnið af notuðu áli, og nemur magnið núna um 20 Mt/ár eða tæplega 24 % af heildarálnotkun (85 Mt/ár).
Jesse er forstjóri tiltölulega lítils álfyrirtækis með starfsemi í Bandaríkjunum (BNA) og á Íslandi. Það hentar Íslendingum að mörgu leyti vel til samstarfs. Hann sagði um Century Aluminium:
"Starfsmennirnir eru rúmlega 2100, og þar af eru rúmlega 600 á Íslandi [29 %]. Því starfa hlutfallslega flestir hjá álverinu á Íslandi [3 álver í BNA], en um 500 starfa hjá hvoru álverinu um sig í Kentucky og um 350 í Suður-Karólína. Við það bætast starfsmenn í höfuðstöðvunum og í rafskautaverksmiðjunni í Hollandi. Starfsmönnum hefur fjölgað að undanförnu, þar með talið á Íslandi, samhliða aukinni framleiðslu."
Það eru mun fleiri launþegar á Íslandi en þessir 600, sem lifa á starfsemi Norðuráls. Nefna má viðskipti við verkfræðistofur, verktaka, sem veita þjónustu verkamanna og iðnaðarmanna og flutningafélög á sjó og landi. Óbein (afleidd) störf eru hjá Landsvirkjun, Landsneti, ON og hinu opinbera. Nokkur sveitarfélög koma þar við sögu, því að vinna er sótt til Norðuráls víða af Vesturlandi og af höfuðborgarsvæðinu.
Hvað segir Jesse um markaðshorfurnar ?:
"En nú hafa Kínverjar greint frá því, að þeir hyggist láta staðar numið við uppbyggingu álvera í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og miða framleiðslugetuna við 46 Mt/á [70 % heimsmarkaðar fyrir hráál]. Til samanburðar hljóðar eftirspurn í heiminum nú upp á 65 Mt/ár. Og ef áform Kínverja ganga eftir, mun í fyrsta sinn í 2 áratugi skapast þörf fyrir að byggja upp framleiðslugetu á Vesturlöndum til að mæta vaxandi eftirspurn."
Einhver mundi segja, að komið væri verulegt eggjahljóð í þennan Íslandsvin, því að Ísland er vissulega eitt af þeim löndum, sem tæknilega og fjárhagslega koma til greina fyrir ný álver í ljósi nýrra markaðsaðstæðna. Það eru þó önnur vatnsorkulönd, sem koma ekki síður til greina, t.d. Kanada, Suður-Ameríka og Noregur. Hérlendis mundi það vafalaust létta slíku verkefni róðurinn, ef eigandinn væri tilbúinn að reisa kolafrítt álver, en slík eru í tilraunarekstri í Kanada og í Frakklandi á vegum vestrænna álfyrirtækja. Eins og jafnan þarf þó pólitískan vilja hérlendis, til að slíkar beinar erlendar fjárfestingar geti orðið að raunveruleika. Engin heildarstefnumörkun er til hérlendis, sem veitir von um, að Ísland muni blanda sér í keppni um slíka fjárfestingu.
"Hvar á Vesturlöndum verður álframleiðslan aukin af þessum sökum ?"
"Það á eftir að koma í ljós. Vonandi, þar sem græn orka er notuð við framleiðsluna. Og framboðið á grænni orku er stöðugt að breytast, enda er hún í vaxandi mæli framleidd á nýjum stöðum með vindorku og sólarorku, sem kemur til viðbótar vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þetta þýðir, að orkuverð er á niðurleið, og það væri því auðveldast að mæta eftirspurninni í Evrópu og Bandaríkjunum með uppbyggingu álvera á þeim mörkuðum."
Í Noregi vex hlutdeild vindorku talsvert.Kannski verður sú uppbygging stöðvuð af nýrri ríkisstjórn Noregs. Þá verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum orkustjóra ACER í Noregi og eftirlitsstofnunar EFTA-ESA.
Norðmenn hafa í sínu landi mörg og stór miðlunarlón og mörg vatnsorkuver. Sum þeirra eru með vélasal sprengdan inn í fjöll með svipuðum hætti og Kárahnjúkavirkjun af öryggisástæðum. Þeir eru þess vegna óvanir jafngríðarlegum inngripum í villta náttúru og vindmyllurnar fela í sér. Andstaðan við vindmyllur magnast af þessum sökum í Noregi. Raforkan frá þeim er aðallega flutt út um sæstrengi. Nú er verið að þróa stórar vindmyllur,> 10 MW, sem eru tjóðraðar fastar við hafsbotninn með stögum og án annarrar botntengingar og geta þannig verið á miklu dýpi.
Álverðstenging raforkuverðs hefur undanfarið lyft raforkuverðinu vel yfir 40 USD/MWh hérlendis, sem mundi líklega duga til að gera alla orkuverskostina í 3. áfanga verndar- og nýtingaráætlunar, bið og nýtingu, arðsama.
"Við hjá Century Aluminium teljum okkur vel búin undir að auka framleiðsluna. Við erum að auka framleiðsluna í álverinu við Mt. Holly í Suður-Karólína og í álverinu í Hawesville í Kentucky.
Afkastagetan í Kína var umfram eftirspurn, en er mögulega að ganga til baka nú, þegar eftirspurnin er mikil og vaxandi. Við sjáum því tækifæri til að auka framleiðsluna og erum því að auka hana í þessum tveimur áður nefndu álverum. Fyrir utan það má auka framleiðsluna í Bandaríkjunum enn frekar, og hér á Íslandi höfum við skoðað leiðir til að auka verðmætasköpunina á Grundartanga."
Norðurál ætlar að umbylta steypuskála sínum í líkingu við það, sem ISAL gerði fyrir áratug, þ.e. að taka upp framleiðslu þrýstimótunarsívalninga, sem eru núna og oft með miklu verðálagi ofan á LME-verðið á mörkuðum, svo að afurðaverðið er nú komið yfir 4000 USD/t. Þetta er sennilega mesta gósentíð í sögu ISAL. Steypuskálaumbyltingin á Grundartanga er mrdISK 15 fjárfesting og útheimtir um 10 % fjölgun starfsmanna, en sáralitla viðbótar orku. Hins vegar áformar Norðurál framleiðsluaukningu upp á 10 kt/ár upp í 330 kt/ár.
Hjá ISAL er öllum kerum haldið gangandi og styttist í hámarksstraum í öllum kerskálum, sem gefur ársframleiðslugetu um 215 kt/ár. Tekjuskattur af fyrirtækinu verður drjúgur í ár, því að hagnaður júlí-ágúst 2021 nam um MUSD 40 eða rúmlega mrdISK 5,0.
"Ég get reyndar vart hugsað mér betri stað til að framleiða ál en Ísland. Hér er framleitt hágæðaál og magn kolefnis, sem fellur til við framleiðsluna, er með því minnsta, sem þekkist. Það er jafnframt gott að starfa á Íslandi.
Þróunin á orkumörkuðum mun hafa áhrif í þessu efni. Það er síðan spurning, hvernig Íslendingar sjá fyrir sér orkumarkað sinn í framtíðinni. Ég segi sem framleiðandi, að Ísland er afar ákjósanlegur staður fyrir álframleiðslu."
Skýrar getur Jesse Gary ekki tjáð sig á þá lund, að hann hefur hug á frekari fjárfestingu og framleiðslu áls á Íslandi. Til að samningar náist þarf hins vegar 2 til. Íslandsmegin er vart að sjá nokkurt lífsmark í þá veru að vilja selja álfélagi enn meiri orku og fá hingað tugmilljarða fjárfestingu. Deyfð og drungi afturhaldsins hefur eitrað út frá sér. Nú vantar baráttumenn til að brjóta hlekki hugarfarsins, eins og á 7. áratug 20. aldar, þegar innflutningshöft voru afnumin og stórfelld iðnvæðing hafin með Búrfellsvirkjun og iðjuverinu í Straumsvík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)