24.9.2021 | 22:53
Tilraunaeldhús pólitískra trúða
Leiðtogar vinstri flokkanna (að Viðreisn meðtalinni) virka eins og jólasveinar komnir til byggða á vitlausum tíma til að útdeila gjöfum á meðal barnanna. Gjafir þessar eru afrakstur aukinna millifærslna á vegum ríkissjóðs frá einum til annars í þjóðfélaginu. Venjulega hefur þetta brambolt lítil áhrif til góðs, en þenur ríkisbáknið út enn meira og dregur úr fjárfestingum og hagvexti. Bramboltið leiðir til miklu minni tekjuauka ríkissjóðs en jólasveinarnir höfðu látið reikna út fyrir sig, ef þeir hafa ekki notað vafasamar aðferðir til að komast að vitlausri niðurstöðu, og þá munu þeir grípa til þeirra gamalkunnu kjánaúrræða að slá lán fyrir bramboltinu. Píratarnir hafa lýst yfir, að það sé allt í lagi, því að þetta sé fjárfesting í fólki til framtíðar !. Vitleysan hefur verið yfirgengileg. Leiksýning trúðanna náði hámarki á RÚV kvöldið fyrir kjördag. Heilbrigð viðhorf til landsmála voru þar í minnihluta.
Afleiðingin af öllu þessu verður aukin innlend verðbólga og ofan á hana mun leggjast innflutt verðbólga, en verðbólga vex nú um allan heim vegna framboðsskorts á vöru og þjónustu af völdum Kófsins. Skortur er á jarðgasi, svo að orkuverð hefur rokið upp úr öllu valdi (40 % hækkun á tveimur vikum í september 2021 og tvöföldun á árinu 2021).
Engum vafa er undirorpið, að Seðlabankinn mun gera gagnráðstafanir til að auka trúverðugleika verðbólguviðmiðsins, 2,5 % á ári, með vaxtahækkun og jafnvel draga úr peningamagni í umferð eftir mætti. Þetta mun fella hlutabréf í verði, reka hagvöxt niður að 0 og valda skuldugum fyrirtækjum og heimilum búsifjum, um leið og húsnæðisverð gæti lækkað. Smjaðrandi leppalúðar og skessur, lofandi gulli og grænum skógi á kostnað máttarstólpa þjóðfélagsins, reynast ekkert annað en síðasta sort af lýðskrumurum, sem allt snýst í höndunum á, af því að vitið er takmarkað og engan veginn fallið til stjórnunar.
Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun verða vaxtagreiðslur A-hluta ríkissjóðs næstu 5 ára, 2022-2026, tæplega mrdISK 400 eða tæplega 80 mrdISK/ár. Með Reykjavíkurmódelið í Stjórnarráði Íslands mun þetta hækka mjög og verða tilfinnanlegur baggi á ríkissjóði og getur leitt til verra lánshæfismats, sem allir vita, hvað þýðir. Óreiðan er aldrei ókeypis.
Þann 20. september 2021 birtist í Morgunblaðinu útdtáttur úr viðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Hann sagði þar m.a. undir fyrirsögninni:
"Hætt við algjörum glundroða":
"Okkar verkefni er að draga fram þá valkosti, sem til staðar eru. Þeir eru mjög skýrir; annaðhvort erum við áfram í ríkisstjórn og höfum áhrif á þinginu og í stjórnarsáttmála og við stjórnarmyndunina, við ríkisstjórnarborðið, hvort sem það eru mál, sem við sjáum fyrir okkur núna, önnur, sem koma upp á tímabilinu, eða þá að það verður stefnubreyting. Það verður stefnubreyting í átt til hærri skatta, meiri ríkisútgjalda og minni stöðugleika. Ég segi fullum fetum, að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum, því [að] viðvörunarmerkin eru þegar komin, t.d. frá Seðlabankanum, um, að menn verði að stilla opinberu fjármálin við stöðuna í hagkerfinu."
Það, sem mun gerast, verður endurtekning frá 2009-2013, þegar forgangsröðun var svo vitlaus, að það var hlaupið eftir öllum verstu kreddunum, en hagsmunir almennings lágu algerlega óbættir hjá garði. Það má nefna umsóknina um aðlögunarviðræður við Evrópusambandið (ESB). Það verður byrjað á að rugla fólk og ESB í ríminu með þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, þótt enginn meirihluti verði fyrir málinu á þingi. Málið verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þátttakan verði mjög lítil. Ef ekki og aðlögun lýkur á kjörtímabilinu, og niðurstöður þjóðar og þings verða öndverðar, þá kemur upp stjórnarskrárkreppa, algerlega að óþörfu.
Þá verður reyndar vafalaust tekið til við að reyna að rústa lýðveldisstjórnarskránni á kjörtímabilinu, því að hún leyfir ekki fullveldisframsal, eins og innganga í ESB mundi fela í sér.
Alls konar gæluverkefni verða sett á flot, sem kosta munu ríkissjóð mikið, en skila engu í auknum tekjum eða framleiðni. Heilbrigðiskerfið mun sökkva enn dýpra í forað einokunar ríkisrekstrar, sem mun magna skortinn á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum í þessum geira, og þjónustan við skjólstæðingana mun nálgast það, sem þekkist í kúbanska heilbrigðiskerfinu, þ.e. hægt verður að kaupa sig fram fyrir endalausar biðraðir. Vitlausasta hugmynd allra tíma, sósíalisminn, mun tröllríða heilbrigðiskerfinu og öllum ríkisrekstrinum.
"Stjórnarandstaðan hefur verið léleg, ég get tekið undir það. Ég verð nú að segja, að við erum annars vegar með heilsuvána, veiruna, og hins vegar efnahagslegar áskoranir. Af hverju gátum við gert þetta, sem við gerðum ? Af hverju var skuldastaðan svona góð ? Það er búið að vinna að því baki brotnu í mörg kjörtímabil. Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á sínum tíma [2013], vorum við föst í höftum, vorum með slitabúin óuppgerð, vorum rétt að skríða í afgang, og við vorum enn þá með marga mjög háa skatta. Við fórum í að láta auðlegðarskattinn renna út, raforkuskattinn renna út, afnema bankaskattinn, afnema vörugjöld á Íslendinga, [sem] borguðu himinhá vörugjöld af alls konar heimilisvörum, húsbúnaði, fötum og skóm. Tókum um 1800 vöruflokka í 0. Við slógum niður tolla, fórum svo í tekjuskattinn, tryggingagjaldið, örvuðum hagkerfið. Snerum við stöðu þjóðarbúsins."
Allir sjá í hendi sér, hversu þensluvekjandi og hagvaxtarhamlandi öll þessi gjöld voru, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði forgöngu um, að Alþingi létti af almenningi. Tiltölulega mest báru þeir þar úr býtum, sem úr minnstu höfðu að spila. Sósíalisminn er reistur á þeim misskilningi, að bezt sé fyrir fátæka, að stjórnmálamenn dragi sem mest frá aflaklónum inn í ríkissjóð (eða sveitarsjóði) til að deila verðmætunum aftur út á meðal þegnanna. Við þetta dregur úr hvötum til að afla fjár, og verðmæti rýrna í meðförum hins opinbera við að halda úti bákninu. Þetta leiðir til minni verðmætasköpunar í samfélaginu, þ.e. minna verður til skiptanna en ella, og allir verða fátækari að efnum. Þess vegna fer bezt á því að halda vinstri krumlunum frá kjötkötlunum. Vinstri menn eru upp fullir af meinlokum um eitthvert réttlætishlutverk sitt í stjórnmálum. Réttlæti þeirra er fólgið í því að ganga í skrokk á öflugum launamönnum, sjálfstæðum atvinnurekendum og hirða af þeim enn meira fé til að útdeila til þeirra, sem eru þeim þóknanlegir. Slíkt er ekki réttlæti. Slíkt er lýðskrum.
Lengst gengur ofbeldið í garð atvinnurekstrar í landinu um þessar mundir gegn sjávarútveginum, svo að jafna má við einelti. Öfundaráróðurinn og afskiptasemin gengur svo langt hjá þessum siðlausu stjórnmálamönnum, að þeir fetta fingur út í fjárfestingar fyrirtækja í sjávarútvegi utan greinarinnar. Hvað varðar stjórnmálamenn um þetta, og hvernig dirfast þeir að fjalla um þetta nánast sem glæpsamlegt athæfi ? Lögmálið er, að þangað leitar fjármagnið, sem það gefur tryggasta og bezta ávöxtun. Hagnaður er einfaldlega minni í sjávarútvegi en almennt í öðrum atvinnurekstri, og það er m.a. vegna hárra sérgjalda, sem lagðir eru á sjávarútveginn. Veiðigjöld nema nú 33 % af hagnaði, og síðan kemur auðvitað almennur tekjuskattur. Þeir stjórnmálamenn, sem fiska í gruggugu vatni með ofsóknum á hendur sjávarútveginum, eru svo herfilega úti að aka um hlutverk sitt í stjórnmálum, að halda mætti, að þeir væru ekki með öllum mjalla.
Hvað sagði Bjarni Benediktsson um stjórnun handhafa réttlætisins (til vinstri) á heilbrigðismálunum ?:
"Það hefur verið vandamál, að við höfum séð of mikla sóun í kerfinu og of lítinn vilja til að treysta grunninn á bak við blandað kerfi. Við höfum verið föst í kreddum í heilbrigðismálum, sem einmitt lúta að rekstrarforminu, og þess vegna er það áherzlumál okkar í þessum kosningum í þessum málum að líta á heilbrigðisþjónustuna út frá þörfum sjúklinganna. Við erum alltaf föst í einhverri umræðu um þarfir kerfisins; að þessi aðili þurfi meira fjármagn. Þetta á ekki að hugsa svona. Sjúkratryggingar gera þjónustusamninga fyrir hönd sjúklinganna. Horfum á þetta út frá þörf þeirra, sem sækja þjónustuna."
Vinstri flokkarnir eru rígfastir í kreddunum, að ríkisstarfsmenn verði að veita þá þjónusta, sem Sjúkratryggingar Íslands eiga að kaupa handa okkur samkvæmt lögum. Eins og vanalega sjá þeir ekki lengra en nef þeirra nær, þ.e. þeir eru fastir í vonlausum og löngu úreltum kreddum og neita að horfast í augun við afleiðingar þessara vanhugsuðu kenninga sinna. Þær eru í þessu tilviki einokun ríkisins á starfsemi heilbrigðisgeirans, sem leiðir óhjákvæmilega til bæði dýrari og lakari þjónustu, lakari kjara fyrir starfsfólkið og áhugaleysi á að ráða sig í vinnu hjá einokunaraðilanum. Það leiðir síðan til s.k. "mönnunarvanda", sem þýðir, að fólk tollir illa á vinnustað og nýútskrifaðir leita annað, t.d. til útlanda á tímum frjáls flutnings vinnuafls og mikillar spurnar eftir heilbrigðisstarfsmönnum hvarvetna í heiminum. Ríkiseinokun í þessum geira er andvana fædd, eins og á öllum öðrum sviðum, enda er sósíalisminn vitlausasta hugmyndafræði, sem maðurinn hefur álpazt til að setja á koppinn. Sjálfstæð lækningafyrirtæki, stór og smá, eiga að standa jafnt að vígi og ríkisrekin fyrirtæki að taka að sér starfsemi (með útboði) á þeim sviðum, þar sem þau geta boðið fram fullnægjandi gæði á samkeppnishæfu verði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)