9.1.2022 | 09:35
Falleinkunn í orku- og loftslagsmálum
Sú einstæða staða er nú uppi, að forgangsraforkan má heita upp urin í landinu, eins og sést af höfnun Landsvirkjunar á nýjum viðskiptum, og þetta ríkisfyrirtæki, langstærsta orkufyrirtæki landsins, er tekið til við að skerða verulega (75 MW af 100 MW til fiskimjölsverksmiðjanna) þjónustu sína við viðskiptavini með skammtíma samninga um ótryggða raforku.
Það, sem er einstætt núna, er, að á sama tíma eru engar verulegar virkjunarframkvæmdir í gangi hjá Landsvirkjun, og eina orkufyrirtækið, sem eitthvert lífsmark er með, er einkafyrirtækið HS Orka, sem er með nýja orkuöflun á prjónunum (a.m.k. 35 MW).
Veitir Suðurnesjamönnum sannarlega ekki af auknu orkuöryggi, því að eina tenging þeirra við stofnkerfi landsins, 132 kV Suðurnesjalína 1, annar ekki lengur hámarksþörf þeirra. Allt er á sömu bókina lært í orkumálunum. Þar ríkir doði og drungi vegna ráðleysis og jafnvel áhugaleysis stjórnvalda við að kljást við afturhaldsöfl, sem bera fyrir sig umhverfisvernd, þegar þau þvælast fyrir nýjum orkuöflunar- og orkuflutningsframkvæmdum í landinu. Þarna er um lítinn og illvígan hóp sérvitringa með núll-hagvöxt á heilanum að ræða, sem virðist hafa tekið stjórn og þing í gíslingu í krafti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þessi pattstaða veldur nú stórtjóni, sem á eftir að margfaldast á næstu árum, því að raforkuþörfin vex jafnt og þétt (orkuskiptin) og ekki hillir undir virkjun, sem um munar (um 100 MW).
Dæmi um óánægju landsmanna með sjálfskaparvíti orkumála landsins gat að líta í Fréttablaðinu 14. desember 2021 í stuttri klausu undir fyrirsögninni:
"Eyjamenn vilja tryggt rafmagn".
""Það er með öllu ótækt, að upp sé komin sú staða, að keyra þurfi fiskimjölsverksmiðjur á olíu í stað grænnar raforku vegna ónógrar raforkuframleiðslu og/eða lakrar flutningsgetu á rafmagni", segir bæjarráð Vestmannaeyja í bókun vegna skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns í vetur.
Bæjarráðið segir skerðinguna þýða, að fiskimjölsverksmiðjur um allt land þurfi á komandi loðnuvertíð að framleiða rafmagn með olíu í stað grænnar raforku.
"Slíkt er í andstöðu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkustefnu, sem stjórnvöld hafa boðað. Þá er það alvarlegt mál, ef sú staða kemur upp, að ekki verði hægt að afhenda Herjólfi rafmagn til siglinga, sem var mikið framfaraspor í loftslagsmálum", bókar bæjarráðið og skorar á stjórnvöld að tryggja afhendingu raforku um allt land."
Nú er spurningin, hvernig orku-, umhverfis- og loftslagsráðherrann bregst við þessari þörfu brýningu úr Vestmannaeyjum. Á tímum meintrar loftslagsvár og hás verðs á jarðefnaeldsneyti, sem væntanlega mun vara út orkuskiptatímabilið, er einfaldlega uppi sú krafa í þjóðfélaginu, að á hverjum tíma sé nægt tiltækt virkjað afl og orka úr endurnýjanlegum orkulindum landsins, til að ekki þurfi að keyra eldsneytisknúið varaafl í landinu mánuðum saman ár eftir ár, eins og nú gæti verið uppi á teninginum. Til þessa varaafls á aðeins að þurfa að grípa til að brúa bil í stuttan tíma vegna ófyrirséðra atvika. Nú gæti þetta ástand varað á háálagstímabilinu næstu árin, þar til t.d. virkjun í Neðri-Þjórsá verður tekin í gagnið.
Langtíma samningar um ótryggða raforku, t.d. hjá álverunum, hafa enn ekki verið nýttir til skerðinga. Sú hætta vofir yfir, að til þess muni koma í vetur (2022) og jafnvel oftar fram að næstu verulegu virkjun í gagnið. Að hámarki má skerða 700 GWh/ár til stóriðjunnar, og það gæti jafngilt útflutningstapi upp á 160 MUSD/ár eða 21 mrdISK/ár. Þetta gefur til kynna það ógnartjón, sem dráttur á að taka nýja virkjun í gagnið hefur í för með sér, og að það er til mikils að vinna að hafa borð fyrir báru á tímum tiltölulega hraðfara aukningu raforkuþarfarinnar. Það er forkastanleg frammistaða ríkisvaldsins að geta ekki útvegað rafmagn til búnaðar hjá fyrirtækjum, sem sýnt hafa mikinn metnað við fjárfestingar til að greiða fyrir orkuskiptum í landinu.
Þessi afspyrnu lélega frammistaða var gerð að umfjöllunarefni í Staksteinum Morgunblaðsins 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Raforkumál í ólestri, en næg orka".
Þessir Staksteinar hófust þannig:
"Ástandið í raforkumálum landsins er augljóslega orðið grafalvarlegt. Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkrum dögum, að fiskimjölsverksmiðjur, sem hafa rafvæðzt til að nýta innlenda orku, hefðu orðið fyrir skerðingu rafmagns. Síðan hefur það gerzt, að Landsvirkjun sendir frá sér tilkynningu um enn frekari skerðingar og að þær taki þegar gildi. Fyrir þessu eru nefndar þær ástæður, að ekki sé til næg orka auk þess, sem flutningskerfi raforkunnar sé flöskuháls."
Það er orðum aukið hjá Landsvirkjun, að Byggðalínu sé um að kenna, hvernig komið er. Landsvirkjun gæti sent meira en 200 MW alls frá Fljótsdalsvirkjun eftir þessari "hringlínu" til norðurs og suðurs, ef aflgeta Fljótsdalsvirkjunar mundi leyfa það til viðbótar Austurlandsálaginu, en Fljótsdalsvirkjun hefur ekki afl til þess, og þá yrði teflt á tæpasta vað með forða Hálslóns í vor. Þetta er frekar ódýr smjörklípa hjá Landsvirkjun.
Það, sem jók vanda landskerfisins og flýtti fyrir skerðingu, var, að Landsvirkjun missti einn rafala úr rekstri í Búrfelli 1 vegna bilunar og að tafir eru á, að rafali á Nesjavöllum komi aftur í rekstur. Þetta sýnir, hversu tæpt kerfið stendur. Í því er ekki bara orkuskortur, heldur aflskortur, sem er skýrt merki um, að nýja virkjun bráðvantar inn á kerfið. Þangað til hún kemur, verða uppi vandamál á vetrum, sem bitna á einhverjum raforkunotendum með stórtapi fyrir þjóðarbúið. Sú staða, að nú eru 4-5 ár í næstu verulegu virkjun, lýsir mjög slæmri stjórnun orkumála, fávísi eða algeru ábyrgðarleysi, enda fá Staksteinar heldur ekki orða bundizt:
"Að þetta skuli gerast á Íslandi, þar sem nóg er til af virkjanlegu fallvatni og jarðvarma, er með miklum ólíkindum."
Það, sem er óvenjulegt og "með miklum ólíkindum" er, að ekki hillir undir nýja virkjun í rekstur, þegar orkuskortur dynur á hérlendis. Enginn veit, hvar verður virkjað næst, eða hvenær verður hafizt handa. Þessari óreiðu um brýnt hagsmunamál landsins verður að bæta úr á þessu misseri 2022, ef orkuskiptin eiga ekki að lenda í öngþveiti og landið að verða fyrir stórfelldu efnahagstjóni. Ætla draugarnir, sem þessum gjörningum hafa valdið, að taka á sig ábyrgðina ? Nei, þeir flýja ofan í holurnar, þegar óhugnaðurinn af starfsemi þeirra kemur í ljós. Það er ekkert umhverfisvænt við það það að flækjast fyrir nýjum virkjanaframkvæmdum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)