Skref aftur á bak - Járnsíða og vindmylluþyrpingar

Að kvöldi 12. október 2022 var haldinn fundur í glæsilegum sal Tónlistarskóla Akraness undir yfirskriftinni: Vindmyllur - fyrir hverja [og] til hvers ?  Fundarstjóri var Jón Magnússon, hrl., og fórst honum það vel úr hendi, eins og hans var von og vísa. 

Höfundur þessa vefpistils flutti þarna erindið, sem sjá má í viðhengi þessa pistils.  Aðrir frummælendur þessa fundar voru Arnar Þór Jónsson, sem kveikti neista baráttuanda í brjósti fundarmanna í nafni sjálfstæðrar hugsunar og leyfis til gagnrýninnar tjáningar með haldföstum rökum, Kristín Helga Gunnarsdóttir, sem sýndi með fjölmörgum fallegum náttúrumyndum úr sveitum Vesturlands, hversu gróft og yfirþyrmandi inngrip í náttúruna um 200 m háar (spaðar í hæstu stöðu) vindmyllur yrðu í náttúru Íslands.  Ólafur Ísleifsson rifjaði upp umræðuna, sem varð í landinu í aðdraganda innleiðingar Alþingis á s.k. Orkupakka 3-OP3, lagabálki Evrópusambandsins (ESB) um orkumál, sem hann o.fl. telja á meðal lágpunktanna í sögu Alþingis.  

Nú er spurningin sú, hvort, samkvæmt OP3, Íslendingum beri að verða við óskum fyrirtækja af EES-svæðinu um leyfi til uppsetningar vindmylluþyrpinga í landi sínu á forsendum atvinnufrelsis á EES-svæðinu og jafnræðis á milli orkufyrirtækja á Innri markaði EES, enda sé raforkan frá vindmylluþyrpingunum "græn" samkvæmt skilgreiningu ESB. Íslendingum finnst mörgum hverjum lítið til koma þeirrar grænku.

Á þetta kann að reyna fyrir dómstólum, enda mætast í þessu máli stálin stinn. Þetta minnir okkur á, að Íslendingar hafa ekki ætíð talið sér henta að starfa eftir erlendum lagabálkum. Magnús, konungur lagabætir, vildi samræma löggjöf í gjörvöllu norska konungsríkinu, sem var víðfemt og spannaði eyjar úti fyrir Skotlandi, Færeyjar og Ísland, og e.t.v. Dublin og héruðin í kring á Írlandi, en um þetta leyti hafði Skotakonungur líklega náð tökum á fastlandi Skotlands. 

Magnús, konungur, lét leggja lögbók sína, Járnsíðu, fyrir Alþingi 1271, en Íslendingar sáu meinbugi við að umturna lagaumhverfi sínu og laga það að norskum rétti.  Þá fékk konungur lögfróðan Íslending, Jón Einarsson, til að sníða vankantana af Járnsíðu fyrir Íslendinga, og smíðaði hann nýja lögbók upp úr Grágás og Járnsíðu, sem kölluð var Jónsbók og hlaut samþykki Alþingis 1281 og var lögbók landsins, þar til Íslendingar sóru einvaldskonunginum, danska, hollustueið á Kópavogsfundi 1661. Eftir það breyttist Alþingi að mestu í dómstól.

Hvað sem þessu líður, þá ber Íslendingum nútíðarinnar að vega og meta gaumgæfilega kosti og galla vindmyllanna í íslenzkri náttúru og á íslenzka raforkumarkaðinum. Tilraun til þess er gerð í téðu viðhengi með pistli þessum. Hættan er sú, að þessi óskilvirka og ágenga leið til raforkuvinnslu komi óorði á íslenzkan orkuiðnað og jafnvel orkunotkunina, af því að raforkuvinnslan gangi of nærri landinu og gíni hvarvetna yfir landsmönnum og erlendum gestum þeirra. Það yrði afleit staða fyrir landsmenn að sitja uppi með, og ekkert var fjær forgöngumönnum rafvæðingar Íslands en slíkt. Vindmylluforkólfar eru af öðru sauðahúsi.

Raforkunotkun landsmanna er sú mesta í heimi, og er höfundur þessa vefpistils fyrir sína parta stoltur af því, enda er þessi mikla orkunotkun ásamt sjávarútvegi og ferðaútvegi undirstaða íslenzka velferðarþjóðfélagsins.  Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni, að hrópað er úr öllum áttum á meira fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við slíkum óskum er ómögulegt að verða án hagvaxtar í landinu. Stækkun hagkerfisins er nátengd aukinni orkunotkun í samfélaginu.  Því er tómt mál að stöðva allar nývirkjanir í landinu, þótt sú óskilvirkasta og fórnfrekasta sé látin eiga sig.    

Áður var drepið á vindmyllufund á Akranesi.  Akraneskaupstaður er velferðarsamfélag, sem stendur traustum fótum í sjávarútvegi og iðnaði á Grundartanga, þar sem öflug útflutningsfyrirtæki nýta mikla raforku.  Sjávarútvegurinn íslenzki hefur getið sér gott orð fyrir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og gjörnýtingu hráefnisins við framleiðslu á útflutningsvörum. 

Nýting íslenzkra orkulinda hefur verið sjálfbær fram að þessu og hófsemi og aðgátar verið gætt, þar sem kappkostað er að fella mannvirkin sem bezt að landinu. Notkun orkunnar hefur verið með glæsilegum hætti, eins og framsæknir auðlindagarðar og tækniþróuð iðnfyrirtæki, þar sem mest munar um álverin þrjú, bera glögglega vitni um. 

 Hvers vegna jafngilda vindmyllur afturför í þessum efnum ?  Það er vegna þess, að vindmyllur eru afkastalítil framleiðslutæki m.v. allan efniviðinn, sem þarf til að fá fram afleininguna MW.  Við nýtingu vindorkunnar myndast óhjákvæmilega lofthvirflar.  Ef þeir ná til næstu vindmyllu, hraðfellur vinnslugeta hennar, hávaði frá henni eykst og titringur myndast, sem eykur bilanatíðnina umtalsvert.  Þess vegna þurfa vindmylluþyrpingar að flæmast yfir margfalt landsvæði á við hefðbundnar íslenzkar virkjanir m.v. sambærilega orkuvinnslugetu, eins og rakið er hér í viðhenginu.

  Þessi frumstæða aðferð við raforkuvinnslu er einfaldlega fjarri því að geta réttlætt þær miklu landfórnir, sem háar vindmylluþyrpingar fela í sér.  Þjóðhagslegt gildi þeirra er ekkert, af því að aðrir endurnýjanlegir orkukostir í landinu eru miklu hagkvæmari, fjárhagslega. 

Það, sem nú eykur ásókn orkufyrirtækja, innlendra og erlendra, í að leggja "ósnortin" íslenzk víðerni undir ferlíki, sem gjörbreyta mundu ásýnd landsins, er ekki sæstrengur, enda styrkir ESB ekki lengur slíkan til Bretlands, heldur uppboðsmarkaður raforku í skortástandi á Íslandi, þar sem eigendur vindorkuþyrpinga munu verða ráðandi fyrir endanlegt verð á markaðinum samkvæmt jaðarkostnaðarreglu OP3.  Hér er rétt að hafa í huga, að þrátt fyrir eindregin tilmæli í þá veru í OP3 að innleiða slíkan uppboðsmarkað raforku, er það ekki skylda aðildarlandanna. 

Forseti framkvæmdastjórnar ESB hefur nú gefið þetta kerfi upp á bátinn, því að framboðshliðin brást niðri í Evrópu.  Á Íslandi er framboðshliðin háð duttlungum náttúrunnar, og þess vegna er innleiðing þessa kerfis reist á misskilningi um áhrif þess á hagsmuni neytenda.  Að segjast ætla að innleiða þetta uppboðskerfi raforku í nafni hagsmuna almennings er léleg öfugmælavísa í ljósi skortstöðunnar á markaði.

  Þegar í stað á að hætta við afritun úrelts ESB-markaðar hjá dótturfélagi Landsnets og hefja þess í stað þróun á markaðskerfi raforku, sem sérsniðið sé við íslenzkar aðstæður.  Hugmynd að slíkri hönnun er þegar fyrir hendi í riti eftir íslenzkan verkfræðing, sérfræðing í orkumálum.    

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 14. október 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband